Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.
Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.
Ritrýndar greinar
16.8. 2023
Reynsla stjórnenda og gæðastjóra í framhaldsskólum af notkun gæðastjórnunarkerfa
Á síðustu 30 árum hafa ýmis stjórnvaldsákvæði verið sett sem kalla á skipulögð vinnubrögð í framhaldsskólum. Bæði er um að ræða ákvæði sem eiga sérstaklega við um skólastarf, svo sem um mat á skólastarfi, og ákvæði sem almennt eiga við um opinberar stofnanir, eins og um meðferð mála, skjalavörslu og jafnlaunavottun. Gæðastjórnun er safn aðferða sem sem nýttar hafa verið við stjórnun og geta reynst gagnlegar við að skapa umgjörð til að uppfylla ofangreind ákvæði og stuðla að aukum gæðum skólastarfs. Markmið þessarar rannsóknar er að draga fram reynslu og lærdóm stjórnenda og gæðastjóra fjögurra framhaldsskóla af notkun og innleiðingarferli gæðastjórnunarkerfa. Tekin voru alls átta viðtöl við stjórnendur og gæðastjóra. Viðmælendur sögðu mikinn ávinning vera af notkun gæðastjórnunarkerfa, verklag væri skýrt og leiðbeinandi, samræmi væri í úrlausnum mála og þekking varðveittist innan skólanna. Þeir töldu einnig að verklagið stuðlaði að umbótum, skólaþróun og eflingu faglegra vinnubragða.
5.7. 2023
Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Jórunn Elídóttir
Með börnin heima í samkomubanni: Viðtöl við foreldra. Reynsla og upplifun foreldra leikskólabarna
Í mars 2020 voru gefnar út reglur á Íslandi þar sem settar voru skorður á samkomur, starfsemi í framhalds- og háskólum færðist á netið, rekstur leik- og grunnskóla var takmarkaður og stjórnvöld hvöttu foreldra til að hafa börnin heima ef þess var kostur. Rannsóknin sem hér er kynnt beinist að velferð ungra barna á tímum COVID-19 þegar flestu var skellt í lás í þjóðfélaginu og skólahald breyttist hjá börnum. Þátttakendur í rannsókninni voru tólf fjölskyldur leikskólabarna. Niðurstöður sýna að faraldurinn hafði víðtæk og mikil áhrif á fjölskyldurnar. Fjölskyldulífið breyttist en foreldrar voru sammála um að rútína og skipulag hafi skipt miklu máli sem og að hafa nóg að gera fyrir börnin.
19.5. 2023
Auður Pálsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir
Viðfangsefni þessarar rannsóknar er íslenskur námsorðaforði sem byggist á lagskiptingu orðaforða tungumálsins. Markmiðið var að móta lista yfir íslenskan námsorðaforða, orða í lagi 2 (LÍNO-2). Slíkur listi er mikilvægur því hann gefur upplýsingar um hvaða íslensk orð börn á mismunandi aldri þurfa að þekkja til að geta skilið, rætt og skrifað um það sem þau læra hverju sinni. Hér var því rannsakaður orðaforði tungumálsins en ekki orðaforði einstaklinga. Þessi rannsókn er hluti af stærra rannsóknarverkefni þar sem íslenskur námsorðaforði er meginviðfangsefnið. Sett var saman ný málheild (Málheild fyrir íslenskan námsorðaforða, MÍNO) með völdum samtímatextum Íslensku Risamálheildarinnar (RMH) og Markaðrar íslenskrar málheildar (MÍM). Hinn nýi listi yfir íslenskan námsorðaforða (LÍNO-2) telur 2.295 orð sem tilheyra lagi 2. Þessi listi mun nýtast kennurum og nemendum hér á landi við að efla orðaforða nemenda, lesskilning og tjáningarfærni auk þess að vera framlag til áframhaldandi kennslu og rannsókna.
17.5. 2023
Kristín Dýrfjörð og Guðrún Alda Harðardóttir
„Barnstýrðir matmálstímar „…nú má maður setjast bara einhvers staðar.“
Matmálstímar í flestum leikskólum hafa að mestu verið óbreyttir í allmarga áratugi. Haustið 2012 ákvað leikskólinn Aðalþing að fara af stað með nýja nálgun við matmálstíma barna eldri en þriggja ára, með það að markmiði að valdefla börn. Hún fólst í barnstýrðum matmálstímum í sérstakri Matstofu. Annar greinarhöfunda leiddi innleiðingu verkefnisins og skráði það reglulega frá 2012–2020, aðallega með myndbandsskráningum og eru þau gögn grundvöllur þessarar rannsóknar. Bakgrunnur rannsóknarinnar byggir á hugmynd um rammaskilyrði sem og kenningum um veruhátt og valdeflingu. Niðurstöður sýndu að börn voru lausnamiðuð og getumikil, þau réðu við aðstæður og umræður á eigin forsendum. Fram kom að hið nýja form stuðlaði að valdeflingu barna, sameiginlegur veruháttur varð til, sem meðal annars kom fram í matarsmekk, húmor og umræðum.
3.5. 2023
Árdís Flóra Leifsdóttir, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir og Annadís Greta Rúdólfsdóttirir
Í þessari rannsókn var sjónum beint að reynslu stuðningsfulltrúa af því að styðja við grunnskólabörn sem sýna hegðun sem skólasamfélaginu þykir krefjandi og líðan þeirra í starfi. Niðurstöður sýndu að þátttakendur teldu að ástæða hegðunarerfiðleika væri vanlíðan barna, þeir lögðu sig fram um að eiga gott samband við nemendur en skortur á viðeigandi fræðslu var áberandi og olli óöryggi. Stuðningur frá samstarfsfólki skipti máli fyrir líðan og úthald stuðningsfulltrúa en var oft af skornum skammti. Nauðsynlegt er að efla fræðslu og þjálfun fyrir allt starfsfólk og einkum fyrir stuðningsfulltrúa ef halda á áfram að fela þeim meginábyrgð á stuðningi við börn með miklar stuðningsþarfir.
25.4. 2023
Rannveig Oddsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rannveig Sigurðardóttir
Samræðufélagar: Aðferð sem styður við íslenskunám fjöltyngdra nemenda
Fjöltyngdum nemendum af erlendum uppruna hefur fjölgað mikið í íslenskum grunnskólum á undanförnum árum. Margt bendir til þess að efla þurfi kennslu þessara nemenda til að þeir nái nægilega góðum tökum á íslensku. Í þessari grein er sagt frá íhlutunarrannsókn með kennsluaðferð sem byggist á samræðum. Aðferðin á uppruna sinn í Bretlandi og kallast þar Talking Partners en hefur fengið heitið Samræðufélagar í íslenskri þýðingu. Niðurstöðurnar gefa von um að þessi kennsluaðferð sé árangursrík og kennsluefnið Samræðufélagar geti nýst vel í íslenskum skólum.
24.4. 2023
Anna Magnea Hreinsdóttir og Arna Hólmfríður Jónsdóttir
Lýðræðisleg forysta í leikskólum
Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á lýðræðislega forystu í leikskólum í þeim tilgangi að greina hvað hvetur og hindrar leikskólastjóra í að beita lýðræðislegum stjórnunarháttum. Tekin voru viðtöl við átta leikskólastjóra víðs vegar um landið. Niðurstöður leiða í ljós að öllum viðmælendum fannst mikilvægt að beita lýðræðislegri og þátttökumiðaðri forystu í leikskólunum. Fræðilegt gildi rannsóknarinnar felst í aukinni þekkingu á lýðræðislegri forystu og tengslum hennar meðal annars við aukna þátttöku starfsfólks, foreldra og barna í leikskólastarfi og félagslegt réttlæti.
20.4. 2023
Berglind Gísladóttir, Amalía Björnsdóttir, Birna Svanbjörnsdóttir og Guðmundur Engilbertsson
Tengsl fræða og starfs í kennaramenntun: Sjónarhorn nema
Kennaramenntun hefur víða verið gagnrýnd fyrir skort á samhengi innan námsins og skort á tengslum milli námskeiða í kennaranámi og starfa kennara á vettvangi. Alþjóðlegar rannsóknir á kennaramenntun benda til þess að lykilatriði í árangursríkum undirbúningi fyrir kennarastarfið séu tækifæri til að læra og æfa aðferðir sem byggja á og tengjast raunverulegu starfi kennara í kennslustofu. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða sýn nema á samhengi í grunnskólakennaranámi og tækifæri sem þeir fá til að tengja saman fræði og starf. Niðurstöður gefa vísbendingar um að námið undirbúi kennaranema nokkuð heildstætt undir kennslu að námi loknu en gefa einnig til kynna að rými sé til úrbóta þegar kemur að tengslum fræða og starfs.
15.3. 2023
Ásta Dís Óladóttir og Eydís Anna Theodórsdóttir
Erlendar rannsóknir sýna að mikill ávinningur geti verið fyrir nemendur að fara í starfsþjálfun á því sviði sem þeir eru að mennta sig til. Nemendur öðlist meiri færni og séu líklegri en aðrir til þess að fá starf að námi loknu. Fáar rannsóknir liggja fyrir um ávinning og áskoranir starfsþjálfunar á Íslandi en Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hóf undirbúning að starfsþjálfun árið 2018 og hófst starfsþjálfun fyrir nemendur í grunnnámi og meistaranámi árið 2020. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ávinning af starfsþjálfun og þær áskoranir sem nemendur og stjórnendur standa frammi fyrir meðan á starfsþjálfun stendur. Niðurstöður viðtala við 16 aðila leiddu í ljós að bæði nemendur og stjórnendur töldu mikinn ávinning af starfsþjálfun og töldu að hún veitti nemendum dýrmæta reynslu sem nýta megi í atvinnulífinu að námi loknu.
25.2. 2023
Elín Helga Björnsdóttir, Eyrún María Rúnarsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem snertir börn. Fræðimenn telja að sá réttur barna sem eigi hvað mest undir högg að sækja varði lýðræðisákvæði hans. Meðal annars er algengt að ákvarðanir sem tengjast málefnum barna séu teknar án samráðs við þau.
Fyrir árið 2030 eiga öll sveitarfélög hér á landi að hafa hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og er ein leið til þess að nýta hugmyndafræði svonefnds réttindaskóla. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu og þekkingu barna á lýðræðislegri þátttöku og ávinning af fræðslu í skólum um Barnasáttmálann. Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur virðast kunna skil á innihaldi þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir og er skilningur þeirra almennt góður. Álykta má að fræðsla sé forsenda þess að innleiðing Barnasáttmálans njóti velgengni og er von höfunda að rannsóknin stuðli að jákvæðara viðhorfi til skoðana og þátttöku barna.
16.2. 2023
Rakel Ýr Isaksen, Ingileif Ástvaldsdóttir og Kristján Ketill Stefánsson
Skuldbinding leikskólakennara til vinnustaðar: Starfsandi í lykilhlutverki
Lög um eitt leyfisbréf leik-, grunn- og framhaldsskólakennara tóku gildi þann 1. janúar 2020. Eftir gildistöku laganna flutti fjöldi leikskólakennara sig um set og hóf störf á grunnskólastigi. Markmið rannsóknarinnar var að bæta stöðu þekkingar og koma auga á vísbendingar um hvernig megi varðveita hæfni og sérþekkingu starfandi leikskólakennara.
Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til að hvataþættirnir starfsandi, jákvæðar áskoranir í starfi og ræktun mannauðs væru í lykilhlutverki hvað varðar skuldbindingu leikskólakennara til vinnustaðarins. Niðurstöðurnar gáfu jafnframt til kynna að viðvarandi vinnuálag spilaði mikilvægt hlutverk í ótímabæru brotthvarfi leikskólakennara úr starfi.
Anna Jóna Kristjánsdóttir og Börkur Hansen