Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.
Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.
15.3. 2023
Ásta Dís Óladóttir og Eydís Anna Theodórsdóttir
25.2. 2023
Elín Helga Björnsdóttir, Eyrún María Rúnarsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem snertir börn. Fræðimenn telja að sá réttur barna sem eigi hvað mest undir högg að sækja varði lýðræðisákvæði hans. Meðal annars er algengt að ákvarðanir sem tengjast málefnum barna séu teknar án samráðs við þau.
Fyrir árið 2030 eiga öll sveitarfélög hér á landi að hafa hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og er ein leið til þess að nýta hugmyndafræði svonefnds réttindaskóla. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu og þekkingu barna á lýðræðislegri þátttöku og ávinning af fræðslu í skólum um Barnasáttmálann. Helstu niðurstöður sýna að þátttakendur virðast kunna skil á innihaldi þeirra réttinda sem Barnasáttmálinn veitir og er skilningur þeirra almennt góður. Álykta má að fræðsla sé forsenda þess að innleiðing Barnasáttmálans njóti velgengni og er von höfunda að rannsóknin stuðli að jákvæðara viðhorfi til skoðana og þátttöku barna.
16.2. 2023
Rakel Ýr Isaksen, Ingileif Ástvaldsdóttir og Kristján Ketill Stefánsson
Skuldbinding leikskólakennara til vinnustaðar: Starfsandi í lykilhlutverki
Lög um eitt leyfisbréf leik-, grunn- og framhaldsskólakennara tóku gildi þann 1. janúar 2020. Eftir gildistöku laganna flutti fjöldi leikskólakennara sig um set og hóf störf á grunnskólastigi. Markmið rannsóknarinnar var að bæta stöðu þekkingar og koma auga á vísbendingar um hvernig megi varðveita hæfni og sérþekkingu starfandi leikskólakennara.
Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til að hvataþættirnir starfsandi, jákvæðar áskoranir í starfi og ræktun mannauðs væru í lykilhlutverki hvað varðar skuldbindingu leikskólakennara til vinnustaðarins. Niðurstöðurnar gáfu jafnframt til kynna að viðvarandi vinnuálag spilaði mikilvægt hlutverk í ótímabæru brotthvarfi leikskólakennara úr starfi.
Erlendar rannsóknir sýna að mikill ávinningur geti verið fyrir nemendur að fara í starfsþjálfun á því sviði sem þeir eru að mennta sig til. Nemendur öðlist meiri færni og séu líklegri en aðrir til þess að fá starf að námi loknu. Fáar rannsóknir liggja fyrir um ávinning og áskoranir starfsþjálfunar á Íslandi en Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands hóf undirbúning að starfsþjálfun árið 2018 og hófst starfsþjálfun fyrir nemendur í grunnnámi og meistaranámi árið 2020. Markmið rannsóknarinnar var að skoða ávinning af starfsþjálfun og þær áskoranir sem nemendur og stjórnendur standa frammi fyrir meðan á starfsþjálfun stendur. Niðurstöður viðtala við 16 aðila leiddu í ljós að bæði nemendur og stjórnendur töldu mikinn ávinning af starfsþjálfun og töldu að hún veitti nemendum dýrmæta reynslu sem nýta megi í atvinnulífinu að námi loknu.