Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritstýrðar greinar

31.12.2020
Helgi Skúli Kjartansson
Dagleg einkunnagjöf í íslenskum skólum

Greinin fylgir eftir rannsókn Lofts Guttormssonar á svonefndum „daglegum einkunnagjöfum“ í íslenskum barnaskólum áratugina í kringum 1900. Lauslegur samanburður sýnir að framkvæmdin var svipuð í dönskum skólum og íslenskum. Aðferðin fólst í að gefa nemanda talnaeinkunn fyrir frammistöðu sína í hverri kennslustund og hélst í hendur við „yfirheyrsluaðferð“ í kennslu. Í Lærða skólanum var aðferðinni beitt þótt hún væri umdeild. Hún var afnumin árið 1904 og fjaraði út í barnaskólum um svipað leyti.

31.12.2020
Jóna Guðrún Jónsdóttir og Rannveig Björk Þorkelsdóttir
Tíminn sem ég man eftir: Ávinningur nemenda af þátttöku í Skrekk, hæfileikakeppni grunnskóla Reykjavíkurborgar

Greinin byggir á rannsókn með það markmið að skoða skólabrag og -menningu Skrekks, stuðla að aukinni þekkingu á listkennslu og skoða hvaða áhrif þátttaka í verkefni eins og Skrekk hefur á líðan og sjálfsmynd ungmenna. Niðurstöður leiddu í ljós að þetta hafði jákvæð áhrif á ungmennin, sérstaklega þegar þau fengu tækifæri til að vinna út frá eigin reynslu í námi og lýðræðislegum gildum. Einnig sýndu niðurstöður fram á að þátttaka í Skrekk hafði jákvæð áhrif á skólasamfélagið – efldi það og styrkti félagsleg tengsl nemenda. Listirnar urðu, út frá þátttöku í Skrekk, þáttur í reynslunámi nemenda.

Ritrýndar greinar

31.12.2020
Amalía Björnsdóttir og Þuríður Jóna Jóhannsdóttir
Nýliðun leikskólakennara, fjöldi brautskráðra og bakgrunnur leikskólakennaranema

Tilgangur rannsóknarinnar var að meta þörf fyrir nýliðun í stétt leikskólakennara, að skoða framvindu stúdenta í leikskólakennaranámi við Háskóla Íslands, auk þess að draga upp mynd af bakrunni þeirra og aðstæðum. Niðurstöður sýndu að meirihluti stúdenta eru óhefðbundnir – yfir 25 ára þegar þeir hefja nám, í sambúð og með börn á framfæri. Langflestir stunduðu fjarnám og unnu samhliða á leikskóla. Niðurstöður benda til þess að það taki þessa óhefðbundnu stúdenta í leikskólakennaranámi lengri tíma að klára nám og að aðstæður stúdentanna skýri langan námstíma.

23.10.2020
Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir
„Að geta átt góð samskipti við aðra – ég held að það sé mikilvægast“ Gildamenntun í leikskóla

Rannsóknin byggir á gögnum úr starfendarannsókn sem unnin var í samstarfi við sjö leikskólakennara. Markmiðið var að kanna viðhorf þeirra til gilda og gildamenntunar, og skoða hvernig þeir miðla gildum til leikskólabarna. Niðurstöður sýna að leikskólakennararnir völdu að leggja áherslu á umhyggju, virðingu og aga. Þessi þrjú gildi þóttu styðja við félagsfærni barnanna. Kennararnir töldu sitt hlutverk í gildamenntun einkum felast í að vera góðar fyrirmyndir auk þess að nota hugtök sem börnin skildu. Gildamenntunin sem var frekar dulin í upphafi rannsóknarinnar en varð skýrari eftir því sem á leið.

23.10.2020
Patricia Segura Valdes and Jórunn Elídóttir
“I would invite her to play with me” Fostering respect, care and participation in a preschool: An action research project

This article reports an action research project on how democratic values implemented in teaching promote the awareness and sensitivity of social values. The research aimed to awaken children´s awareness of democratic values and to observe effective ways of teaching them. The findings showed, among other things, that children´s awareness of democratic values grew with the use of value-based literature. The study provides important insights into organized preschool activities in children´s daily lives.

23.10.2020
Hermína Gunnþórsdóttir, Kheirie El Hariri og Markus Meckl
Sýrlenskir nemendur í íslenskum grunnskólum: Upplifun nemenda, foreldra og kennara

Greinin segir frá eigindlegri rannsókn á hópi sýrlenskra kvótaflóttamanna sem tekið var á móti árið 2016. Upplifun hluta hópsins af grunnskólanámi er könnuð. Niðurstöður benda til þess að menningarleg gildi hafi haft áhrif á menntunarferlið sem varð til þess að samskipti heimilis og skóla urðu ómarkviss. Það leiddi meðal annars til þess að foreldrar báru ekki fullt traust til íslenskra skóla barna sinna. Kennara virtist skorta viðeigandi stuðning og þjálfun til að takast á við aðstæður þessa nemendahóps. Nemendur sögðust þó, þrátt fyrir þetta, vera ánægðir með skólann sinn og samskipti við kennara.

9.10.2020
Sandra Rebekka Önnudóttir Arnarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Jórunn Elídóttir
Rafrænar ferilbækur sem leið að aukinni námsvitund. Starfendarannsókn í sjónlistum

Í greininni er sagt frá starfendarannsókn um þróun rafrænna ferilbóka í sjónlistum á unglingastigi, sem fór fram skólaárið 2017-2018. Tilgangurinn var að efla nám með því að skapa sameiginlega sýn og samábyrgð nemenda og kennara auk þess að stuðla að aukinni einstaklingsmiðun. Niðurstöður benda til þess að rafrænar ferilbækur hafi haft margþættan ávinning, bæði fyrir nemendur og rannsakandann sjálfan. Einnig sýndu ferilbækur sig vera vettvang til ígrundunar þegar markvissum námsstuðningi var beitt og leið til að veita kennara yfirsýn á nám og framför nemenda.

9.10.2020
Jóhanna Einarsdóttir
Viðhorf foreldra og opinber leikskólastefna

Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á mat foreldra á gæðum leikskólastarfs í samhengi við menningarbundin viðhorf sem birtast í opinberri stefnu leikskóla. Sambærileg rannsókn var gerð tíu árum áður og niðurstöður beggja voru bornar saman. Viðhorf foreldranna til gæða leikskólastarfs var í samræmi við opinbera stefnu leikskóla hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Fyrst og fremst lögðu foreldrar áherslu á að börn lærðu samskipti og félagslega hæfni í leikskólanum.

2.9.2020
Rannveig Björk Þorkelsdóttir og Sólveig Þórðardóttir
Söngleikur sem félagslegur vettvangur

Markmiðið með rannsókninni var að skoða félagslegan ávinning söngleikjaþátttöku, mikilvægi söngleikjaformsins sem óhefðbundins náms og að skoða áhrif söngleikjaþátttöku á félagskvíða hjá nemendum með frammistöðukvíða. Niðurstöður sýna að óhefðbundið nám í söngleikjauppfærslu er mikilvægur vettvangur til að efla félagsfærni nemenda. Söngleikur getur gagnast nemendum í að kynnast og losa um hömlur – margir nemendanna upplifðu aukið öryggi í félagslegum samskiptum í gegnum söngleikjaferlið. Rannsóknin varpar ljósi á nauðsyn þess að efla óhefðubundið nám og listgreinar.

13.7.2020
Sigrún Alda Sigfúsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir, Þorlákur Karlsson og Íris Ösp Bergþórsdóttir
Orðaforðakennsla með sögulestri fyrir börn með málþroskaröskun

Tilgangur rannsóknarinnar var að bera saman áhrif beinnar og óbeinnar orðaforðakennslu hjá börnum með málþroskaröskun. Niðustöður leiddu í ljós að góður árangur náðist við beina orðaforðakennslu. Orðaforði barnanna jókst hins vegar minna við óbeina kennslu. Mikilvægt er að lesa fyrir leikskólabörn og skapa aðstæður þar sem ný orð eru kennd á markvissan hátt. Sérstaklega er nauðsynlegt að huga vel að börnum með slaka málfærni og útskýra orð jafnóðum við lestur. Niðustöðurnar gefa vísbendingu um að til að auka orðaforða barna við sögulestur þurfi að útskýra ný orð sérstaklega.

19.6.2020
Hrönn Pálmadóttir
Viðhorf leikskólakennara og leiðbeinenda til upphafs leikskólagöngu barna

Greinin byggir á rannsókn sem varpar ljósi á reynslu leikskólakennara og leiðbeinenda í einum leikskóla í Reykjavík af samstarfi við foreldra- og barnahóp með fjölbreyttan bakgrunn. Upphaf leikskólagöngu nýrra barna á leikskólanum var skoðuð. Niðurstöður sýndu að hlutverk leikskólakennara var annars vegar að koma á og viðhalda tilfinningalegum tengslum við foreldra og börn, og hins vegar yfirsýn, samstarf innan deilda og miðlun þekkingar til samstarfsfólks. Fram komu vísbendingar um að foreldrar af erlendum uppruna ættu frekar í erfiðleikum með þátttöku og að börn af erlendum uppruna upplifðu í mörgum tilvikum erfiðari aðlögun en börn íslenskra foreldra.

26.3.2020
Helga Sigríður Þórsdóttir og Anna Kristín Sigurðardóttir
Samvirkni og samvinna í þróunar- og umbótastarfi

Markmið rannsóknarninnar sem hér er fjallað er að öðlast skilning og þekkingu á því hvernig samvirkni í stefnumótun í skólamálum birtist í þremur sveitarfélögum á Íslandi með því að varpa ljósi á samskiptaform og vinnubrögð sem gætu stuðlað að eflingu og varanleika umbótastarfs. Niðurstöður benda til þess að meiri líkur séu á samvirkni þar sem meðal annars er unnið eftir hugmyndafræði um faglegt lærdómssamfélag. Þar sem miðstýring er meiri spyrna kennarar frekar við fótum og upplifa skólastefnu sem kröfur um breytingar sem jafnvel samræmis ekki hugmyndum þeirra um fagmennsku.

20.3.2020
Sólveig Björg Pálsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
„Kannski alltaf svona á bak við eyrað“:Kynjajafnréttismenntun í leikskólum

Greinin fjallar um hvernig staðið er að kynjajafnréttismenntun elstu barna í leikskólum. Greint er frá helstu niðurstöðum í þremur efnisflokkum, sem eru: Samfélagið og leikskólinn, kyngervi og leikefni og undirbúningur og aðstaða leikskólakennara. Sjá mátti kynjað samfélag endurspeglast í leikskólastarfinu. Leikskólakennararnir höfðu sterka sýn á að leikefni og leikjaval festi börnin ekki í staðalímyndum. Kynjajafnréttismenntun þótti oft vera „kannski alltaf svona á bak við eyrað“. Rannsakendur álykta að kynjajafnréttismenntunin hafi verið fremur ómarkviss þótt áhuginn væri til staðar. Höfundar telja mikilvægt að efla stofnanalega ábyrgð á kynjajafnréttismenntun og að til þess þurfi leikskólarnir rækilegan stuðning.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design