Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31.12.2018
Hrafnhildur Ragnarsdóttir
Orðaforði íslenskra barna frá 4 til 8 ára aldurs: Langtímarannsókn á vaxtarhraða og stöðugleika

Greinin fjallar um orðaforðahluta viðamikillar langtímarannsóknar á þróun máls og læsis meðal íslenskra barna á aldrinum 4 til 8 ára. Einnig var útbúið orðaforðapróf fyrir börn á þessum aldri. Markmið þess hluta rannsóknarinnar sem greinin fjallar um var meðal annars að afla vísbendinga um vaxtarhraða orðaforða íslenskra barna á mörkum leik- og grunnskóla. Niðurstöður sýndu að orðaforði barna vex hratt á þessum aldri en jafnframt birtust vísbendingar um mikinn einstaklingsmun strax við 4 ára aldur.

19.12.2018
Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir
Staðnemar og fjarnemar í grunnskólakennaranámi við Menntavísindasvið: Bakgrunnur, viðhorf og áhugi á að starfa við kennslu

Minnkandi aðsókn í kennaranám og skortur á kennurum veldur almennum áhyggjum og óttast er að fjöldi útskrifaðra grunnskólakennara haldi ekki í við fjöldann sem hættir. Sömuleiðis veldur brottfall úr námi og hæg námsframvinda áhyggjum. Í greininni er sagt frá rannsókn þar sem dregin er upp mynd af bakrunni grunnskólakennaranema við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og kannað hvort munur sé á fjarnemum og staðnemum. Niðurstöðurnar benda til þess að fjarnemar eigi síður háskólamenntaða foreldra en staðnemar og að börn kennara fari frekara í staðnám en fjarnám. Svipað hlutfall stað- og fjarnema vinna með námi en fjarnemar vinna almennt meira.

19.12.2018
Sigríður Ólafsdóttir, Rannveig Björk Þorkelsdóttir og Hanna Ólafsdóttir
Sköpun í stafrænum heimi Sjónarmið myndmenntakennara

Greinin fjallar um notkun snjalltækja í myndmenntakennslu. Bæði voru notkunarmöguleikar tækninnar í myndmennt skoðaðir og tækifæri til sköpunar. Niðurstöður leiddu í ljós að meginhlutverk snjalltækja er að styðja vinnuferli og verkefni nemenda – þau nýttust en koma ekki í staðinn fyrir hefðbundnar aðferðir í myndmennt. Notkun snjalltækja í myndmennt var takmörkuð og viðhorf kennara ólík til tækninotkunar. Niðurstöðurnar gefa til kynna að upplýsingatækni og gagnvirkir miðlar geti eflt skapandi hugsun nemenda og nýst kennurum bæði til að breyta nálgun og styðja hefðubundnar aðferðir.

19.12.2018
Brynja E. Halldórsdóttir and Susan E. Gollifer
A view towards internationalisation at the University of Iceland: Lessons learned from the International Studies in Education Programme.

A special programme at the Univeristy of Iceland aims to provide educational opportunities for a diverse student population in the Icelandic higher educational context. The authors conduct a concept analysis of strategic policies of the University of Iceland and its aims at internationalisation in relation to changing demographics within the student population. They propose a broader definition of internationalisation and argue for increased recognition of the programme´s contribution to the univeristy´s internationalisation policy. The intention is to contribute to the dialogue on what constitutes quality international higher education at local, national and global levels.

19.12.2018
Vanda Sigurgeirsdóttir og Ársæll Már Arnarsson
Viðhorf íslenskra grunnskólanema til eineltis og inngripa í eineltismál út frá reynslu þeirra af einelti.

Greinin segir frá rannsókn þar sem reynsla íslenskra grunnskólanema af einelti var skoðuð, auk viðhorfa þeirra til þátta eins og inngripa kennara og ábyrgðar nemenda. Niðurstöður sýna að hægt er að skipta þátttakendum í þolendur, gerendur, hvoru tveggja og börn sem ekki tengjast einelti með beinum hætti. Viðhorf nemendanna lituðust af reynslu þeirra af einelti. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að vinna þurfi með viðhorf nemenda og auka umræður og fræðslu um eineltisáætlanir og inngrip í eineltismál.

26.9.2018
Kristín Bjarnadóttir
Áhrif Royaumont-málþingsins 1959 á íslenskt námsefni í stærðfræði fyrir börn

Greinin fjallar um Royaumont málþingið, sem var haldið árið 1959 í Frakklandi, um nýja hugsun um skólastærðfræði. Málþingið olli straumhvörfum í hugsun og rannsóknum á skólastærðfræði. Í kjölfarið var tekið upp Norrænt samstarf, nefnd var stofnuð, sérfræðingar voru ráðnir og kennslubókaflokkur nefndur Bundgaard- námsefnið varð til. Í greininni er Bundgaard-námsefnið greint með tilliti til tillagna sem settar voru fram á málþinginu og borið saman við annað námsefni. Niðurstöður sýna að áhrif tillagna frá málþinginu voru mikil en dvínuðu með tímanum þótt einhverjir þættir gengu í endurnýjun lífdaga í íslenskri skólastærðfræði.

14.9.2018
Sigríður Margrét Sigurðardóttir
Stuðningur við skólastjóra í námi og starfi

Í greininni eru kynntar niðurstöður rannsóknar þar sem markmiðið var að varpa ljósi á viðhorf og reynslu skólastjóra leik- og grunnskóla af stuðningi fræðsluyfirvalda sveitarfélaga, meðal annars, bæði við skólastjórana í starfi og til að sækja meistaranám í skólastjórnun. Viðtöl voru tekin við 14 skólastjóra sem höfðu starfað samtals í um 14 sveitarfélögum. Niðurstöður benda til þess að sá stuðningur sem skólastjórar fengu skipti þá miklu máli – hefði áhrif á hvernig þeir upplifðu starfið og hvernig þeim fannst sér ganga að sinna því. Skólastjórarnir töldu að stuðningurinn þyrfti að vera meiri, markvissari og betur lagaður að aðstæðum.

10.9.2018
Svanborg R. Jónsdóttir
Exchanging curriculum ideas for 21st century education

Over the last 20 years the use of methods of innovation and entrepreneurial education have been developing in Iceland, as well as other countries. Australia has developed a curricular area that is similar, in many ways, to parts of innovation education in Iceland. This article presents the author´s research on how teachers in one primary school in Brisbane, Australia, implement elements of innovation education in their students´ school work and how they categorize such education.

27.8.2018
Anna Elísa Hreiðarsdóttir
Ævintýralegt jafnrétti. Starfendarannsókn í leikskóla

Í greininni er fjallað um starfendarannsókn sem var gerð á deild fjögurra ára barna á leikskóla á Akureyri. Skólinn var þátttakandi í þróunarverkefni um jafnrétti og kynjahugmyndir leikskólabarna. Markmið starfendarannsóknar höfundar var að efla kennarana sem fagmenn og auka færni þeirra í að þróa eigin starfshætti. Þátttakendur voru kennararnir og börnin á leikskóladeildinni. Niðurstöður sýndu að kennararnir urðu meðvitaðir um eigin hugmyndir um jafnrétti og jafnrétti sem viðfangsefni og að frumkvæði þeirra skipti miklu máli. Hæfni barnanna til gagnrýnnar umræðu jókst með verkefninu en dalaði fljótt ef henni var ekki haldið við.

27.8.2018
Artem Ingmar Benediktsson, Anna Katarzyna Wozniczka, Kriselle Lou Suson Jónsdóttir og Hanna Ragnarsdóttir
Kennsla og stuðningur í íslenskum háskólum: Reynsla innflytjenda

Greinin byggir á niðurstöðum úr rannsóknarverkefni um væntingar og tækifæri innflytjenda á Íslandi til háskólamenntunar og áskoranir tengdar þessu. Markmiðið var að öðlast skilning á upplifun innflytjenda í háskólanámi á Íslandi. Þátttakendur voru 41 nemandi við þrjá háskóla. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að flestir þátttakendur upplifi að kennsluaðferðir séu nútímalegar en skoðanir þeirra á þeim eru mismunandi. Þátttakendur töldu jafnræði ríkja milli nemenda og kennara hér, sem þeir hafi ekki endilega upplifað í heimalöndum sínum. Flestir voru jákvæðir gagnvart kennslu og stuðningi í háskólunum en glímdu þó við ýmsar áskoranir og vandamál, til dæmis í tengslum við tungumálið, samskipti, upplýsingaskort og dvalarleyfi. Þetta gat haft áhrif á nám þeirra og líðan.

27.8.2018
Maríanna Jónsdóttir Maríudóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Kyngervi kennara í augum foreldra: Mótsagnakenndar kröfur

Í greininni er fjallað um viðhorf foreldra til kyngervis grunnskólakennara. Tekin voru viðtöl við 10 foreldra og voru viðmælendur spurðir um afstöðu sína til kyns og kyngervis kennara, karlmennsku, kvenleika, virðingar, aga og umhyggju með það að sjónarmiði að greina hvernig þessi viðhorf væru kynjuð. Eftir greiningu var augljóst að viðhorf foreldra lituðust af einstaklingshyggju og eðlishyggju. Einnig kom í ljós að skoðanir voru ólíkar og viðhorf oft mótsagnakennd. Höfundar leggja áherslu á að ef fjölga á körlum í grunnskólakennslu eigi það ekki að gerast á forsendum sem byggjast á staðalmyndum kynjanna og hefðbundnum kynhlutverkum. Undirbúa þurfi kennara af öllum kynjum fyrir allar hliðar starfsins.

25.7.2018
María Steingrímsdóttir og Guðmundur Engilbertsson
Mat nýliða á gagnsemi leiðsagnar í starfi kennara

Greinin fjallar um íslenskan hluta norrænnar rannsóknar á nýliðum í grunn- og framhaldskólum. Kannað var hvernig stuðningur, stjórnun og skipulag í skólum hefur áhrif á hvernig nýir kennarar aðlagast starfinu, meta eigin færni og aðstæður í skólum. Niðurstöðurnar byggja á svörum við spurningalista þar sem svarhlutfall var rúmlega 85%. Innsýn er veitt í það hvernig leiðsögn nýliða er háttað á fyrsta starfsári í grunn- og framhaldsskólum. Helstu niðurstöður eru þær að leiðsögn hefur áhrif á starfshætti og líðan nýliða ef hún er veitt af kennara með svipaðan faglegan grunn og nýliðinn og þeir funda reglulega saman á leiðsagnartímanum.

21.6.2018
Þóroddur Bjarnason
Staðsetning háskóla og menntabil í háskólamenntun

Höfundur greinir frá umtalsverðum muni á hlutfalli háskólamenntaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, sem skýrist að hluta til í misjöfnum atvinnumöguleikum á þessum svæðum, þó fleiri þættir spili inn í. Greint er frá því að meirihluti háskólamenntaðra á landinu hafi lokið prófi frá Háskóla Íslands en landsvæði skipti sköpum þegar litið sé til hvaða skóli næstflestir hafi útskrifast frá. Á höfuðborgarsvæðinu eigi Háskólinn í Reykjavík næstflesta brautskráða nemendur en á Norðurlandi sé það Háskólinn á Akureyri. Almennt sé líklegra að fólk útskrifað frá landsbyggðaháskólum sé búsett utan höfuðborgarsvæðisins. Til að draga úr menntabilinu milli Reykjavíkur og annarra landshluta segir höfundur þurfa skýr markmið og ákvarðanatöku.


Ritstýrðar greinar

28.11.2018
Jóhanna Þorvaldsdóttir, Guðmundur Engilbertsson og Hermína Gunnþórsdóttir
Notkun spjaldtölva í námi og kennslu grunnskólanemenda á yngsta stigi með áherslu á læsi

Greinin byggir á eigindlegri rannsókn í tveimur grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Meginmarkmiðið var að öðlast skilning á notkun spjaldtölva í námi og kennslu grunnskólanemenda á yngsta stiginu með hliðsjón af upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi. Þótt niðurstöðum þurfi að taka með einhverjum fyrirvörum benda þær til að spjaldtölvur geti stutt nám og kennslu með ýmsum hætti – til dæmis aukið fjölbreytni í skólastarfi, þjálfað ýmsa færniþætti í námi og veitt aukin tækifæri til að efla upplýsinga-, miðla- og tæknilæsi yngstu nemendanna.

21.6.2018
Atli Vilhelm Harðarson
Hvað á leiðbeinandi að gera fyrir nemanda sem vinnur að doktorsritgerð?

Í greininni segir Atli frá niðurstöðum úr viðtölum við níu kennara Háskóla Íslands um reynslu þeirra af leiðsögn við lokaverkefni framhaldsnemenda. Viðhorf viðmælendanna ríma við orðræðu um leiðsögn doktorsnema víða um heim. Höfundur styðst einnig við eigin reynslu og segir að erfitt geti verið að leiðbeina eftir forskrift því hvert verkefni sé einstakt og í raun eins konar óvissuferð. Nauðsyn sé að finna meðalveg – ekki stýra hugsun nemendans of markvisst en sýna þó heldur ekki afskiptaleysi. Atli tekur saman mikilvæga punkta fyrir leiðbeinanda að vinna eftir og rökstyður að þótt mikilvægt sé að leyfa ákveðna óvissu og jafnvægisleit í ferlinu eigi verkefnið ekki að reka á reiðanum.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design