Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31.12. 2022

Jakob Frímann Þorsteinsson, Hervör Alma Árnadóttir, Karen Rut Gísladóttir og Ólafur Páll Jónsson

Undir berum himni. Ígrundun og áskoranir háskólanema

Innan menntakerfa hefur sjónum verið beint að mikilvægi þess að skapa umhverfi og aðstæður til að auka hæfni nemenda til að takast á við óvissu og krefjandi áskoranir samtímans – hvort sem það er á sviði umhverfismála, heimsfaralduras eða annarra þátta. Alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að útilíf og útimenntun undir leiðsögn geti verið gagnleg og öflug leið til að vinna með slíka hæfni.
Tilgangur þessarar greinar er að benda á mikilvægi námsumhverfis og skapandi leiða til þess að mæta samtímakröfum við menntun háskólanemenda. Markmiðið er að varpa ljósi á hlutverk ígrundunar við að draga fram möguleika til náms og þroska sem felast í að dvelja úti í náttúrunni. Greinin byggir á gögnum frá 58 nemendum sem tóku þátt í námskeiðinu Ferðalög og útilíf við Háskóla Íslands. Niðurstöður benda til að náttúran sé sterkur meðleiðbeinandi þegar unnið er með nemendum við að styrkja persónulegan og faglegan vöxt.

31.12. 2022

Guðbjörg Pálsdóttir, Ingibjörg Kaldalóns og Bryndís Jóna Jónsdóttir

Upplifun grunnskólakennara af eigin velfarnaði út frá PERMA

31. 12. 2022

Sue E. Gollifer

Inertial constraints to educational change: The case of human rights education in Iceland

Despite national education policy that presents human rights as a core curriculum concern, education systems seem to resist the introduction of new content areas. This is not only worrying but unethical, given the human and ecological crises that characterise the world our students inhabit. This paper responds to Jón Torfi Jónasson’s belief that education will remain the same unless there is an understanding of, and even respect for, the inertial constraints that prevent change from taking place.

31. 12. 2022

Heiður Ósk Þorgeirsdóttir og Jórunn Elídóttir

„Það var spes að koma aftur í skólann, erfitt…“: Reynsla einstaklinga af grunnskólagöngu eftir foreldramissi

Þegar barn eða unglingur missir foreldri sitt breytist öll tilvera þess og margs konar áskoranir koma upp sem barnið eða unglingurinn þarf að takast á við. Hlutverk skóla er mikilvægt í þessu samhengi og þarf skólinn og starfsfólk hans að geta brugðist rétt við þegar nemendur verða fyrir því áfalli að missa foreldri. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á reynslu einstaklinga af grunnskólanum eftir missi foreldris. Niðurstöður sýna að reynsla einstaklinganna úr skólanum var erfið; mikil reiði kom í kjölfar missisins og námsáhugi flestra viðmælenda minnkaði umtalsvert. Út frá niðurstöðum má álykta að stuðningur við nemendur sem orðið hafa fyrir missi foreldris þyrfti að vera markvissari, skipulagðari og ekki síst persónulegri, auk þess sem skilningur á sorgarviðbrögðum og sorgarferlinu mætti vera meiri.

31. 12. 2022

Svava Pétursdóttir, Svala Jónsdóttir, Torfi Hjartarson, Svanborg R. Jónsdóttir og Skúlína Hlíf Kjartansdóttir

Sköpunarsmiðjur í þremur grunnskólum: Þróunarverkefni á góðri siglingu

31. 12. 2022

Leifur S. Garðarsson, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir og Margrét Sigmarsdóttir

Af innleiðingu SMT-skólafærni í einu sveitarfélagi: Áskoranir en vel unnið verk

Mikilvægt er að skólar búi yfir árangursríkum og skipulögðum aðferðum til þess að mæta þörfum allra nemenda og móta jákvætt andrúmsloft í skólasamfélaginu. Starfsfólk þarf meðal annars að hafa yfir að ráða áhrifaríkum leiðum til að efla jákvæða hegðun nemenda og koma í veg fyrir óæskilega hegðun. SMT-skólafærni er dæmi um slíka heildræna og þrepaskipta aðferð en hún hefur verið notuð hérlendis í yfir 20 ár. Markmið þessarar rannsóknar var að skoða stöðu innleiðingar SMT-skólafærni í einu sveitarfélagi og hvernig henni er viðhaldið 20 árum síðar. Niðurstöður sýndu að grunnskólarnir hafa haldið vel utan um SMT-skólafærni í kjölfar innleiðingar, að mati þátttakenda. Mikil þekking hafi skapast innan skólanna og almennt er litið á SMT-skólafærni sem ákjósanlegan kost til þess að mæta þörfum allra nemenda. Niðurstöður eru hins vegar einnig ákall á aðstoð því skólastjórnendur töldu að stuðningi við aðferð, viðhaldi og framtíðarsýn SMT-skólafærni væri ábótavant í sveitarfélaginu.

31. 12. 2022

Anna Magnea Hreinsdóttir og Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir

Fyrirkomulag og upplifun nemenda af matssamtali í raunfærnimati í leikskólakennarafræði við Háskóla Íslands

31. 10. 2022

Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Amalía Björnsdóttir

Háskólanemar í grunnnámi við Menntavísindasvið HÍ. Fjarnám, lykill að háskólanámi fyrir stúdenta
með fjölbreyttan bakgrunn

31. 10. 2022

Guðrún Ragnarsdóttir, Súsanna Margrét Gestsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Elsa Eiríksdóttir

Starfsumhverfi framhaldsskólakennara á fyrsta ári COVID-19 heimsfaraldurs

27. 9. 2022

Ásta Möller Sívertsen, Svanborg R. Jónsdóttir og Hafdís Guðjónsdóttir

Þróun eigin fagmennsku í skapandi starfi: Starfendarannsókn í leikskóla

Sköpun er mikilvæg þroska barna og er jafnframt einn grunnþáttur menntunar á Íslandi. Leikskólar sem horfa til starfsaðferða Reggio Emilia leggja áherslu á börn sem getumikla og skapandi einstaklinga. Hér er sagt frá starfendarannsókn leikskólakennara sem rýndi í eigin starfshætti með áherslu á aukið vægi skapandi starfs á einni deild í leikskóla. Niðurstöðurnar voru flokkaðar í eftirfarandi flokka: Tækifærin í umhverfinu, kaflaskil og faglegt sjálfstraust. Meginþættir hvers kafla eru kynntir með dæmum úr rannsóknardagbók. Niðurstöður rannsóknarinnar varpa ljósi á mikilvægi þess að leikskólakennari beiti virkri hlustun í starfi og að gagnkvæm virðing ríki milli kennara og barna.

24. 8. 2022

Anna Magnea Hreinsdóttir, Kristín Karlsdóttir, Margrét S. Björnsdóttir og Sara Margrét Ólafsdóttir

Áhrif undirbúningstíma á fagmennsku leikskólakennara og gæði leikskólastarfs

Tími sem ætlaður er leikskólakennurum til undirbúnings starfsins var lengdur töluvert frá því sem áður var í kjarasamningum árið 2020. Í þessari grein er sagt frá rannsókn sem gerð var í átta leikskólum á Íslandi með það að markmiði að varpa ljósi á skipulag og framkvæmd undirbúningstíma leikskólakennara. Niðurstöður sýndu að almenn ánægja var með aukningu á tíma til að undirbúa starfið. Mikill munur reyndist vera á þeim heildartíma sem leikskólar hafa til undirbúnings starfsins eftir því hve margir leikskólakennarar voru starfandi í leikskólanum. Skiptar skoðanir voru meðal viðmælenda um á hvaða forsendum úthluta ætti undirbúningstíma til leikskóla. Sú aðferð sem notuð er til úthlutunar undirbúningstíma hefur falið í sér ójöfnuð, sem með fleiri tímum hefur aukist enn frekar.

16. 8. 2022

Hrönn Pálmadóttir

„Mér líður eins og ég tilheyri, veit að hún lærir tungumálið fljótt.“ Foreldrar með fjölbreyttan bakgrunn og fullgildi við upphaf leikskólagöngu

Greinin er byggð á rannsókn þar sem leitast var við að skilja hvaða merkingu foreldrar með fjölbreyttan bakgrunn leggja í reynslu sína af samskiptum og þátttöku við upphaf leikskólagöngu barna sinna. Í rannsókninni var stuðst við hugtakið fullgildi sem er þýðing á enska hugtakinu belonging.  Tekin voru viðtöl við foreldra sex barna undir tveggja ára aldri með erlendan og/eða íslenskan bakgrunn. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að upphaf leikskólagöngu fól í sér miklar breytingar á lífi fjölskyldnanna. Val á leikskóla, þátttökuaðlögun og skipulag leikskólastarfsins sköpuðu mikilvægan grunn fyrir væntingar foreldranna af samskiptum og þátttöku í samfélagi leikskólans í framhaldinu.

7. 7. 2022

Hjördís Hafsteinsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Iris Edda Nowenstein

Íslenskukunnátta tvítyngdra barna: Tengsl staðlaðra málþroskaprófa og málsýna

Niðurstöður fyrri rannsókna benda til að fjöltyngd börn á Íslandi séu lengur að tileinka sér íslensku sem annað mál en börn í stærri málsamfélögum. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt, annars vegar að meta íslenskukunnáttu tvítyngdra leikskólabarna með ítarlegum mælingum á málfærni og bera saman við meðalfærni eintyngdra jafnaldra. Hins vegar að bera saman niðurstöður af mælingum með málþroskaprófum við mælingar á sjálfsprottnu tali með málsýnum. Helstu niðurstöður voru að tvítyngdu börnin sýndu marktækt slakari færni í íslensku í samanburði við meðalgetu eintyngdra jafnaldra á öllum athugunum sem voru gerðar. Niðurstöðurnar eru mjög alvarlegar og kalla á breytt viðhorf í málörvun tvítyngdra leikskólabarna.

22. 6. 2022

Anna Magnea Hreinsdóttir

„Ég held að þetta hafi gefið okkur hugrekki til að láta í okkur heyra“ Um frumkvæði nokkurra ungmenna að breytingum á námskrá og menntun í grunnskóla

Lögð er áhersla á að börn og ungmenni láti til sín taka og hafi áhrif á samfélag sitt. Í þessari grein er fjallað um niðurstöður rannsóknar á frumkvæði nokkurra ungmenna að stofnun félagsins Menntakerfið okkar og þær tillögur að breytingum á námskrá sem félagið hefur staðið fyrir. Helstu niðurstöður sýna að börn og ungmenni geta átt frumkvæði að breytingum með tillögum og aðgerðum og verið öðrum góð fyrirmynd í samfélagslegri virkni. Frumkvæði stjórnar félagsins Menntakerfið okkar var víða vel tekið, en viðbrögðin voru þó ekki á einn veg og mætti frumkvæðið einnig neikvæðni jafningja á samfélagsmiðlum og hjá kennurum.

22. 5. 2022

Ragný Þóra Guðjohnsen, Eygló Rúnarsdóttir, Védís Grönvold og Lóa Guðrún Gísladóttir.

Tækifæri eða tálsýn?: Kennslukannanir og annað mat á gæðum náms og kennslu

Gæðakerfi háskóla víðs vegar um heiminn hafa að leiðarljósi að tryggja gæði menntunar og að prófgráður standist alþjóðleg viðmið. Slík viðmið eru grunnur gæðamenningar þar sem starfsfólk háskóla og nemendur rýna starf skólans og vinna að umbótum á hverjum tíma. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna með viðtölum við stjórnendur, kennara og nemendur í íslenskum háskóla, hvernig mat er lagt á gæði náms og kennslu við skólann, hvaða sýn þeir hafa á matið og hvernig unnið er með niðurstöður þess. Allir þátttakendur voru sammála um að öflugt samtal og samstarf nemenda, kennara og stjórnenda væri lykilaðferð við að meta gæði náms og grunnur að áframhaldandi þróun þess.

22. 5. 2022

Marta Kristín Sverrisdóttir.

„Ég reyni að taka tillit til aðstæðna þeirra, vera sveigjanleg“ Um gæði fjarnáms og fjarnámið í Menntaskólanum á Egilsstöðum

Á síðustu árum hefur um helmingur framhaldsskóla á Íslandi boðið upp á fjarnám í ýmsum myndum, þar á meðal Menntaskólinn á Egilsstöðum. Fjarnámið þar hefur vaxið jafnt og þétt og hafa nemendur lýst yfir ánægju sinni meðal annars með spannakerfið, skipulag og samskipti við kennara. Erfitt hefur reynst að meta gæði fjarnáms á heimsvísu en þó hafa verið þróaðir ýmsir staðlar og má finna algeng þemu varðandi hæfni og hugarfar sem æskilegt er að kennara búi yfir til að ná árangri í kennslu á netinu. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á hvað stuðlar að auknum gæðum fjarnáms og farið er sérstaklega yfir samskipti, námsumhverfi og skipulag ásamt tæknilegum undirbúningi kennara. Greinin varpar ljósi á mikilvægi þess að kennarar öðlist þá hæfni og þekkingu sem kennsla í fjarnámi krefst.

17. 5. 2022

Sigríður Ólafsdóttir, Jóhanna Thelma Einarsdóttir og Jóhanna Runólfsdóttir.

Viðhorf leikskólastarfsmanna til málörvunar barna sem hafa íslensku sem annað mál

Niðurstöður íslenskra rannsókna benda til að leikskólabörn með annað heimamál en íslensku, ísl2 börn, nái almennt ekki góðum tökum á íslensku þrátt fyrir langan dvalartíma í leikskólum Því er mikilvægt að kanna hvert viðhorf leikskólastarfsmanna er til þess hlutverks þeirra að gefa ísl2 börnum tækifæri til að læra íslensku með fjölbreytilegum leiðum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þekkingu, reynslu og faglegt sjálfstraust leikskólastarfsmanna til málörvunar ísl2 barna. Niðurstöður sýndu að ófaglært starfsfólk taldi sig verja meiri tíma með ísl2 börnum en leikskólakennarar. Þátttakendur töldu öll að samræður, söngur og lestur væru mikilvægir þættir málörvunar, ásamt vinnu með orðaforða.

5. 5. 2022

Björg Kristín Ragnarsdóttir, Ingibjörg V. Kaldalóns og Amalía Björnsdóttir.

PERMA-spurningalistinn fyrir vinnustaði: Velfarnaður grunnskólakennara

Í þessari grein er sjónum beint að velfarnaði grunnskólakennara. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt, annars vegar að þýða og staðfæra mælitæki sem ætlað er að meta velfarnað á vinnustöðum og hins vegar að prófa það meðal starfandi grunnskólakennara og afla upplýsinga um velfarnað þeirra. Mælitækið byggist á PERMA- velfarnaðarkenningu Seligman sem beinir sjónum að kenningum og rannsóknum sem leita svara við hvað gefur lífinu gildi. Fylgni þáttanna og heildarkvarðans við mælingu á hamingju og almenna starfsánægju var sterkari við mælingar á starfsánægju en hamingju. Þetta bendir til þess að mælitækið gefi réttmætar niðurstöður og mæli frekar velfarnað í starfi en velfarnað almennt.

20. 4. 2022

Ásta Jóhannsdóttir og Ingólfur V. Gíslason.

Mörk í nánu rými: #MeToo í sviðslistum og íþróttum

Fátt hefur valdið jafnmiklu umróti í samfélaginu síðustu ár og reynslusögur kvenna af kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem birtar voru undir merkjum #MeToo. Á Íslandi hófst umræðan fyrir alvöru í nóvember 2017 þegar fyrstu sögur hópa kvenna birtust opinberlega. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kortleggja kröfur og viðbrögð við þeim til að reyna að meta árangur þessarar samfélagslegu hreyfingar. Meginniðurstöður voru þær að formlegar breytingar urðu hvað íþróttahreyfinguna varðar en síður í sviðslistunum. Viðmælendur voru þó sammála um að breytingar hefðu orðið á hegðun og framkomu hjá báðum hópum.

18. 4. 2022

Sigríður Ólafsdóttir og Ástrós Þóra Valsdóttir.

Málleg samskipti starfsmanna við börn með íslensku sem annað mál og börn með íslensku sem móðurmál

Málþroski ungra barna eflist í samræmi við hversu góða málörvun þau fá. Fyrir leikskólabörn hér á landi sem nota ekki íslensku með fjölskyldu sinni er mikilvægt að nýta skóladaginn vel. Þar gefast hugsanlega einu tækifæri barnanna til að þróa íslenskufærni sína. Í erlendum rannsóknum hafa komið fram jákvæð tengsl á milli orðaforða barna og þess hversu mörg og fjölbreytileg orð leikskólakennarar nota í samtölum við börnin í frjálsum leik. Meginmarkmið rannsóknarinnar voru að bera saman orðræður starfsmanna í samtölum við fimm til sex ára leikskóla börn með íslensku sem móðurmál og annað móðurmál en íslensku. Niðurstöður sýndu að hvert barn með annað móðurmál en íslensku fékk helmingi færri orð á mínútu, helmingi færri segðir og jafnframt mun algengari orð en börnin með íslensku sem móðurmál.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design