Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

17. 5. 2022

Sigríður Ólafsdóttir, Jóhanna Thelma Einarsdóttir og Jóhanna Runólfsdóttir.

Viðhorf leikskólastarfsmanna til málörvunar barna sem hafa íslensku sem annað mál

Niðurstöður íslenskra rannsókna benda til að leikskólabörn með annað heimamál en íslensku, ísl2 börn, nái almennt ekki góðum tökum á íslensku þrátt fyrir langan dvalartíma í leikskólum Því er mikilvægt að kanna hvert viðhorf leikskólastarfsmanna er til þess hlutverks þeirra að gefa ísl2 börnum tækifæri til að læra íslensku með fjölbreytilegum leiðum. Markmið rannsóknarinnar var að kanna þekkingu, reynslu og faglegt sjálfstraust leikskólastarfsmanna til málörvunar ísl2 barna. Niðurstöður sýndu að ófaglært starfsfólk taldi sig verja meiri tíma með ísl2 börnum en leikskólakennarar. Þátttakendur töldu öll að samræður, söngur og lestur væru mikilvægir þættir málörvunar, ásamt vinnu með orðaforða.

5. 5. 2022

Björg Kristín Ragnarsdóttir, Ingibjörg V. Kaldalóns og Amalía Björnsdóttir.

PERMA-spurningalistinn fyrir vinnustaði: Velfarnaður grunnskólakennara

Í þessari grein er sjónum beint að velfarnaði grunnskólakennara. Markmið rannsóknarinnar var tvíþætt, annars vegar að þýða og staðfæra mælitæki sem ætlað er að meta velfarnað á vinnustöðum og hins vegar að prófa það meðal starfandi grunnskólakennara og afla upplýsinga um velfarnað þeirra. Mælitækið byggist á PERMA- velfarnaðarkenningu Seligman sem beinir sjónum að kenningum og rannsóknum sem leita svara við hvað gefur lífinu gildi. Fylgni þáttanna og heildarkvarðans við mælingu á hamingju og almenna starfsánægju var sterkari við mælingar á starfsánægju en hamingju. Þetta bendir til þess að mælitækið gefi réttmætar niðurstöður og mæli frekar velfarnað í starfi en velfarnað almennt.

20. 4. 2022

Ásta Jóhannsdóttir og Ingólfur V. Gíslason.

Mörk í nánu rými: #MeToo í sviðslistum og íþróttum

Fátt hefur valdið jafnmiklu umróti í samfélaginu síðustu ár og reynslusögur kvenna af kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi sem birtar voru undir merkjum #MeToo. Á Íslandi hófst umræðan fyrir alvöru í nóvember 2017 þegar fyrstu sögur hópa kvenna birtust opinberlega. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kortleggja kröfur og viðbrögð við þeim til að reyna að meta árangur þessarar samfélagslegu hreyfingar. Meginniðurstöður voru þær að formlegar breytingar urðu hvað íþróttahreyfinguna varðar en síður í sviðslistunum. Viðmælendur voru þó sammála um að breytingar hefðu orðið á hegðun og framkomu hjá báðum hópum.

18. 4. 2022

Sigríður Ólafsdóttir og Ástrós Þóra Valsdóttir.

Málleg samskipti starfsmanna við börn með íslensku sem annað mál og börn með íslensku sem móðurmál

Málþroski ungra barna eflist í samræmi við hversu góða málörvun þau fá. Fyrir leikskólabörn hér á landi sem nota ekki íslensku með fjölskyldu sinni er mikilvægt að nýta skóladaginn vel. Þar gefast hugsanlega einu tækifæri barnanna til að þróa íslenskufærni sína. Í erlendum rannsóknum hafa komið fram jákvæð tengsl á milli orðaforða barna og þess hversu mörg og fjölbreytileg orð leikskólakennarar nota í samtölum við börnin í frjálsum leik. Meginmarkmið rannsóknarinnar voru að bera saman orðræður starfsmanna í samtölum við fimm til sex ára leikskóla börn með íslensku sem móðurmál og annað móðurmál en íslensku. Niðurstöður sýndu að hvert barn með annað móðurmál en íslensku fékk helmingi færri orð á mínútu, helmingi færri segðir og jafnframt mun algengari orð en börnin með íslensku sem móðurmál.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design