Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

16.12.2019
Börkur Hansen og Steinunn Helga Lárusdóttir
Forysta sem samstarfsverkefni: Áhersla skólastjóra á valddreifingu og samstarf

Í greininni er athygli beint að þeim afbrigðum samstarfsforystu sem fengið hafa mikið rými í fræðilegri umræðu á 21. öldinni. Gögnum var safnað með spurningakönnun sem send var á alla skólastjóra með 69% svarhlutfall. Í niðurstöðum er dregin upp mynd af aðstæðum í skólunum. Greint er frá því hversu miklum tíma skólastjórar telja sig verja til samstarfs við starfsfólk og því hversu mikla áherslu þeir leggja á þátttöku millistjórnenda og kennara í ákvörðunum og virkja þá til forystu um þróun kennsluhátta. Bent er á mikilvægi þess að skólastjórar horfi gagnrýnið á hvert markmiðið með virkjun millistjórnenda og kennara er.

16.12.2019
Berglind Gísladóttir, Auður Pálsdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir og Birna Svanbjörnsdóttir
Mat á stöðu faglegs lærdómssamfélags í grunnskóla: Þróun mælitækis

Markmið þessarar rannsóknar er tvíþætt. Annars vegar að draga fram þá þætti sem einkenna lærdómssamfélag í íslenskum grunnskólum og hins vegar að þróa mælitæki sem gefur upplýsingar um stöðu lærdómssamfélags innan hvers skóla. Niðurstöður leiddu í ljós sex vel afmarkaða þætti sem er að mestu leyti í samræmi við fyrri rannsóknir á einkennum lærdómssamfélags í skólum. Næstu skref eru að staðfesta listann með hliðsjón af þátttöku fleiri skóla og eigindlegum viðtölum um sýn þátttakenda á hvort niðurstöður þeirra skóla rími við upplifun þeirra og reynslu af starfinu í skólanum.

16.12.2019
Sigurbjörg Róbertsdóttir, Börkur Hansen og Amalía Björnsdóttir
Stuðningur við skólastjóra í grunnskólum: staða og væntingar

Starfsumhverfi skólastjóra hefur breyst mjög mikið á undanförnum árum, orðið flóknara og viðameira. Með breyttu starfsumhverfi og auknu álagi er stuðningur við skólastjóra í starfi þýðingarmikill. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf skólastjóra í grunnskólum til stuðnings við þá í starfi og þörf þeirra á stuðningi. Meginniðurstaða rannsóknarinnar var að skólastjórar voru óánægðir með þann stuðning sem var í boði við upphaf ferils þeirra. Þeir voru sammála um mikilvægi stuðnings í starfi og flestir töldu að það væru fyrst og fremst fræðsluyfirvöld sem ættu að veita þeim hann. Helst þótti þurfa stuðning við úrlausn starfsmannamála og við stefnumótun.

16.12.2019
Hildur Dröfn Guðmundsdóttir og Rannveig Björk Þorkelsdóttir
Taktu til við að tvista: Námsleikir í skólastarfi

Meginmarkmið þessarar rannsóknar er að fjalla um námsleiki, þ.e. kennslufræðilega leiki og frjálsan leik barna með fræðilegu yfirliti. Einnig er fjallað um þróun og tilgang námsspilsins Taktu til við að tvista. Niðkurstöðurnar benda til þess að þegar kennslufræðilegir leikir eru notaðir til þjálfunar og endurtekningar á ákveðnum námsþáttum má auðvelda nemendum að öðlast ákveðna færni í námsþættinum. Því má leiða líkum að því að nám eigi sér stað í gegnum leik og nemendur geti aukið við þekkingu sína og færni með þessari kennsluaðferð.

09.12.2019
Sólveig Sigurðardóttir og Annadís G. Rúdólfsdóttir
„Þessi týpíska óörugga stelpa“: Greining á sögum ungra kvenna um holdafar og stefnumót

Markmið rannsóknarinnar var að greina hugmyndir ungra kvenna um vægi holdarfars í tengslum við stefnumót. 72 sögur voru þemagreindar. Fram komu fjögur meginþemu – hræðsla við að líkaminn valdi vonbrigðum, að sjálfstraust og líðan tengdust ánægju með útlitið, að eftirlit og vinna með líkamann var stöðugt ferli og fjórða og síðasta þemað var andóf gegn útlitskröfum sem fólst helst í því að taka líkamann í sátt. Rannsóknin gefur innsýn í flókin tengsl ungra kvenna við menningarbundnar hugmyndir um líkamann og það hversu mikillar vinnu við líkamann kvenleikinn krefst.

11.11.2019
Sif Einarsdóttir, Regína Bergdís Erlingsdóttir, Amalía Björnsdóttir og Ásta Snorradóttir
Kulnun kennara og starfsaðstæður: Þróun og samanburður við aðra opinbera sérfræðinga

Greinin segir frá rannsókn þar sem sami spurningalisti var lagður fyrir grunnskólakennara og í rannsóknum sem gerðar voru á árunum 1999 og 2005. Maslach Burnout Inventory (MBI-ES) spurningalistinn var lagður fyrir 515 grunnskólakennara í Reykjavík, auk spurningalista sem meta annars vegar örmögnunarröskun og hins vegars starfsaðstæður. Niðurstöður sýna að kulnun hefur aukist meðal grunnskólakennara og að álag á þeim er mikið, sem getur átt sér margvíslegar ástæður.

11.11.2019
Þóra Másdóttir
Hljóðþróun íslenskra barna á aldrinum tveggja til átta ára

Markmið rannsóknarinnar sem greinin fjallar um var að skoða hljóðþróun á breiðu aldursbili og kanna á hvaða aldri börn tileinka sér samhljóð og samhljóðaklasa. Helstu niðurstöður voru þær að stígandi er í málhljóðatileinkun barna en þó gætir rjáfuráhrifa fyrir fjögurra ára aldurinn. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna glögglega hvernig greina má milli barna með dæmigerða hljóðþróun og jafnaldra sem þurfa á talþjálfun að halda. Jafnframt leggja þær grunn að frekari athugunum á tengslum málhljóðamyndunar og lestrartengdra þátta eins og að tengja málhljóð við bókstaf.

04.11.2019
Elva Eir Þórólfsdóttir, Guðmundur Engilbertsson og Þorlákur Axel Jónsson
Snemmtæk íhlutun í lestrarnámi í 1. bekk

Greinin segir frá rannsókn á áhrifum snemmtækrar íhlutunar í lestrarnámi, sem fólst í því að skima fyrir mögulegum lestrarerfiðleikum hjá börnum í 1. bekk í einum grunnskóla og veita þeim viðeigandi íhlutun í hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu og málþroska. Framfarir barnanna í íhlutunarhópnum voru bornar saman við framfarir þeirra barna sem ekki voru talin þurfa sérstaka íhlutun. Niðurstöður benda til þess að áhrif snemmtækrar íhlutunar séu jákvæð á heildina litið og bilið milli hópsins sem þurfti íhlutun og samanburðarhópsins jókst ekki, eins og almennt er talið að sé tilhneigingin að gerist með tímanum.

06.07.2019
Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, Þórður Kristinsson og Þorgerður J. Einarsdóttir
Kynlífsmenning framhaldsskólanema frá sjónarhorni ungra karla

Í greininni er fjallað um upplifun ungra karla af þeirri kynlífsmenningu sem tíðkast í framhaldsskólum nú á dögum. Niðurstöður benda til þess að félagsþrýstingur hafi töluverð áhrif á kynlífsmenningu ungra karla. Þrýstingur er á þeim að vera ávallt reiðubúnir að stunda kynlíf og helst að deila þeirri reynslu með kunningjum. Klám hefur áhrif á hugmyndir um hvers er vænst af þeim í kynlífi og margir telja að strákum leyfist meira í kynferðilegum efnum en stelpum. Þótt stór hluti stráka taki þátt í ríkjandi kynlífsmenningu reynist hún mörgum þeirra erfið og kvíðavaldandi.

01.07.2019
Aðalbjörg Eva Aðalsteinsdóttir og Jón Ingvar Kjaran
Heterósexísk orðanotkun íslenskra framhaldsskólanema

Fjallað er um rannsókn á heterósexískri orðanotkun íslenskra framhaldsskólanemenda. Markmiðið var að skoða íslenskar birtingarmyndir slíkrar orðanotkunar. Algengi orðanotkuninnar var misjafnt og hærra hlutfall þátttakenda taldi að þeir væru líklegri til að nota heterósexískt orðalag utan skólans. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að íslenskir framhaldsskólanemendur noti heretrósexískt orðalag í mismiklum mæli en margir upplifi óþægindi af að heyra það. Ef hægt er að draga úr slíku orðalagi gæti það haft jákvæð áhrif á nemendur í námi og í framtíðinni.

13.06.2019
Anna Magnea Hreinsdóttir og Hanna Ragnarsdóttir
Að tilheyra, taka þátt og læra í leikskóla margbreytileikans. Evrópuverkefni um menntun ungra barna án aðgreiningar

Vísbendingar eru uppi um að á Íslandi hafi ekki tekist að þróa áherslur í skólastarfi sem henta margreytilegum barnahópi. Í verkefninu sem lýst er í greininni er miðað að því að koma auga á, greina og stuðla að gæðamenntun ungra barna án aðgreiningar. Byggt er á hugtakinu skóli margbreytileikans. Niðurstöður gefa vísbendingar um hvernig þróa má farsælt leikskólastarf. Afrakstur verkefnisins er annars vegar líkan sem þróað var um vistkerfi leikskóla margbreytileikans og hins vegar leiðbeiningar með spurningum um námsumhverfi leikskóla margbreytileikans. Niðurstöður geta nýst stefnumótendum, rannsakendum og starfsfólki leikskóla til að auka gæði leikskólastarfs fyrir öll börn.

11.06.2019
Ágústa Björnsdóttir og Jón Ingvar Kjaran
„GÆSin mín og GÆSin þín, Egils malt og appelsín“

Árið 2013 stofnuðu fimm nemendur með þroskahömlun kaffihúsið GÆS, í starfsnámi sínu í diplómanámi við Háskóla Íslands. Rannsóknin sem hér er fjallað um leitaðist við að draga fram og greina orðræðuna sem skapaðist í samfélaginu um kaffihúsið GÆS. Einnig var leitast við að sjá með hvaða hætti orðræðan mótaði reynslu stofnfélaganna fimm. Niðurstöður benda til þess að orðræðan hafi einkennst af jákvæðni í garð hópsins og var kaffihúsinu sýndur mikill áhuga og velvild. Orðræðan litaðist þó einnig af staðalmyndum um fólk með þroskahömlun. Álykta má að GÆS hafi átti þátt í að opna umræðu og breyta viðhorfum fólks.

11.06.2019
Freyja Hreinsdóttir og Friðrik Diego
Stærðfræðikunnátta nema við upphaf kennaranáms. Samanburður áranna 1992 og 2014

Haustið 2014 var gerð könnun á stærðfræðikunnáttu nýnema við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Spurningalisti, sem áður hafði verið notaður árið 1992, var lagður fyrir. Greinin segir frá og ber saman helstu niðurstöður frá báðum árum. Stærðfræðikunnátta kennaranema þótti ekki nægilega góð árið 1992 og var enn verri árið 2014. Fæstir nýnemar í kennaranámi bæta við sig miklu námi í stærðfræði og því er ljóst að flestir grunnskólakennarar eiga lítið formlegt stærðfræðinám að baki annað en úr grunn- og framhaldsskóla. Í greininni eru settar fram hugleiðingar og viðbrögð við niðurstöðunum.

03.06.2019
Birna María B. Svanbjörnsdóttir
Teymisvinna og forysta: Birtingarmynd fimm árum eftir að innleiðingarferli faglegs lærdómssamfélags lauk

Á árunum 2009-2012 var gerð starfendarannsókn í nýjum grunnskóla í þéttbýli. Þar var rannsakað hvaða þýðingu forysta stjórnenda hafði fyrir þróun starfshátta í nýjum skóla og hvað studdi hana. Niðurstöður sýndu að teymisvinna var einkennandi fyrir skólastarfið og að kennarar í teymum tóku forystu á ýmsan hátt með stjórnendum. Fimm árum seinna var gerð eftirfylgnirannsókn. Nemendum skólans hafði fjölgað og miklar breytingar orðið í starfsmannahópnum. Teymisvinna var þó enn við lýði og innri umgjörð skólans studdi við samkennslu árganga, samstarf og leiðsögn. Í greininni er greint frá helstu niðurstöðum eftirfylgnirannsóknarinnar og þær skoðaðar í samhengi við fyrri niðurstöður.

11.04.2019
Marta Eydal, Jóhanna T. Einarsdóttir, Þorlákur Karlsson og Þóra Sæunn Úlfsdóttir
Börn sem eru sein til máls: Áhrif þjálfunar á orðaforða barns á þriðja ári

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða áhrif þjálfunar á orðaforða barns á þriðja ári sem er seint til máls. Þjálfun þátttakandans var byggð á fyrirlögn fyrirfram ákveðinna markorða og fór fram 14 sinnum. Niðurstöður leiddu í ljós að almennur orðaforði barnsins jókst yfir þjálfunartímabilið, umfram það sem vænta mátti vegna almenns þroska. Aukningin sem varð á orðaforða barnsins hélst mánuði eftir að íhlutun lauk. Mikilvægt er að bera kennsl á seinkun í málþroska eins snemma og kostur er og veita viðeigandi örvun eða íhlutun. Rannsóknin bendir til þess að slík þjálfun geti haft góð áhrif.

27.03.2019
Andri Rafn Ottesen og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Eftirsóttasti minnihlutahópurinn? Fyrstu mánuðir fjögurra karla í grunnskólakennslu

Tilefni greinarinnar er umræða um mögulegan kennaraskort í grunnskólum og einkum staða og fækkun kennslukarla í grunnskólum. Sagt er frá rannsókn þar sem rætt var við fjóra nýbrautskráða karla og þeim fylgt eftir fyrstu mánuðina í starfi. Viðmælendum fannst þeir fóta sig vel í starfi og voru ánægðir með leiðsögnina sem þeir fengu, þótt hún hefði ekki verið jafn formleg og mælt er með í fræðum og rannsóknum um leiðsögn. Mikilvægi markvissrar leiðsagnar fyrir nýliða í starfi er ekki kynbundið atriði heldur verður að leggja áherslu á að allir nýir kennarar fái góða leiðsögn á fyrstu skrefum sínum í nýju starfi – kynjaskipt leiðsögn væri einungis hluti af heildstæðu og vönduðu kerfi nýliðaþjálfunar.

Ritstýrðar greinar

11.06.2019
Gert Biesta og Carl Anders Säfström
Menntaávarpið

Markmið þessa ávarps er að tala um menntun án þess að beita „hentistefnu“ eða „hugsjónamennsku“. Markmiðið felur í sér umhyggju fyrir því sem gerir uppeldisfræði að sérstöku fræðasviði og hvað það er sem gerir menntun uppeldisfræðilega. Meðal annars veltum við fyrir okkur spurningum um hverjir möguleikar uppeldisfræðinnar séu innan menntastofnana okkar. Ávarpinu sjálfu fylgja viðaukar okkar þar sem varpað er ljósi á tilurð ávarpsins ásamt tengslum þess við mismunandi hugmyndafræði og kenningar. Efnisorð: Ávarp, menntun, árás, svar, uppreisn, frelsi.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design