Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

29.12. 2016
Björk Ólafsdóttir
Tilurð og þróun ytra mats á Íslandi frá 1991 til 2016

Markmiðið með þessari grein er að auka skilning á því hvernig ytra mat á grunnskólastarfi er tilkomið á Íslandi og hver þróun þess hefur verið frá því að það kom inn í opinbera menntastefnu árið 1991. Til að skýra tilurð og þróun matsins var einkum stuðst við dagskrárkenningar, rannsóknir á þróun stýringar innan stjórnsýslunnar og kenningar um innleiðingu og stjórnun breytinga. Við greiningu á tilvikinu var stuðst við fyrirliggjandi gögn og viðtöl sem tekin voru við ellefu viðmælendur sumarið og haustið 2015. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að upphaf hugmynda og mótun stefnu um ytra mat á skólastarfi megi rekja til umbótaaðgerða í opinberri stjórnsýslu sem áttu sér stað víða um heim frá níunda áratug síðustu aldar undir heitinu New Public Management, sem á íslensku fékk heitið nýskipan í ríkisrekstri. Hluti af nýskipaninni var valddreifing og flutningur á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga sem leiddi til aukinnar áherslu á mat og eftirlit. Ytra mat, í þeim skilningi sem lagt er upp með í þessari tilviksgreiningu, náði þó ekki fótfestu á Íslandi á þessum tíma þrátt fyrir áform þar um í opinberri menntastefnu. Þess í stað var áhersla lögð á innleiðingu innra mats í grunnskólum og var þróað form ytra eftirlits sem átti að kanna innleiðingu innra matsins. Það var ekki fyrr en í byrjun annars áratugar tuttugustu og fyrstu aldar sem farið var af stað með ytra mat á grunnskólum í þeim tilgangi að stuðla að skólaumbótum. Árið 2008 var í grunnskólalögum lögfest mats- og eftirlitsskylda bæði mennta- og menningarmálaráðuneytis og sveitarfélaga. Opinn lagarammi og óljós verkaskipting ráðuneytis og sveitarfélaga gagnvart ytra mati leiddi til samstarfsverkefnis þessara tveggja stjórnsýslustiga um ytra mat á grunnskólum. Farið var af stað með þróunarverkefni sem lýkur í árslok 2016.

29.12. 2016
Guðný S. Guðbjörnsdóttir og Þórdís Þórðardóttir
Kynjajafnrétti og kennaramenntun: Ákall kennaranema um aukna fræðslu

Í þessari grein er sagt frá rannsókn á þekkingu, áhuga og viðhorfum kennaranema á jafnréttismálum með áherslu á kynjajafnrétti. Niðurstöður benda til þess að fáir þeirra hafi kynnst kynjafræði áður en þeir hófu kennaranámið og mikill meirihluti þeirra er ósammála því að fræðsla um kynjajafnrétti hafi verið hluti af þeirra kennaranámi. Þótt þekking nemanna á hugtökunum jafnrétti, karlmennsku, kynbundnum staðalmyndum og femínisma mælist mikil segist aðeins helmingur þeirra þekkja hugtakið kyngervi (e. gender) vel og um 15‒20% hugtakið kynjakerfi (e. gender system). Kennaranemarnir hafa mikinn áhuga á að breyta staðalmyndum kynjanna en margir hafa takmarkaða þekkingu á nauðsynlegum hugtökum og hefðbundin eðlishyggjuviðhorf sem þykja afturhaldssöm eru algeng. Hins vegar kemur í ljós að 87% kennaranemanna telja að auka þurfi fræðslu um kynjajafnrétti í náminu og yfir 70% þeirra hafa mikinn áhuga á að taka sérstakt námskeið um kynjajafnrétti. Nemarnir hafa mestan áhuga á að læra meira um kynbundið ofbeldi eða einelti, kynbundnar staðalmyndir, kyn og margbreytileika, samskiptamiðla og stöðu kynjanna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru skýrt ákall um breytingar. Hér eru lagðar fram tillögur um áherslur og leiðir í þeim efnum og vonast er til að þær verði Menntavísindasviði hvatning til að efla kynjajafnréttisfræðslu í kennaranáminu.

29.12. 2016
Þorsteinn Helgason
Verkfæri þjóðminninga: Tyrkjaránið í skólabókunum (seinni hluti)

Í þessum skrifum sem skipt er í tvo hluta er kannað hvernig fjallað hefur verið um Tyrkjaránið í sögukennslubókum frá 1880 til þessa dags. Hér er þráðurinn tekinn upp um 1960. Fram kemur að þjóðhverf framsetning frásagnarinnar af Tyrkjaráninu mótaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar en atburðurinn var svo sérkennilegur að erfitt var að steypa hann fullkomlega í fast mót. Þegar leið á öldina tók að brydda á fleiri sjónarmiðum með aukinni alþjóðasýn. Tyrkjaránsins er ekki getið í námsgögnum sem fylgdu róttækri samþættingu sögu og fleiri greina í grunnskólanum undir heitinu samfélagsfræði og birtist í námskrá árið 1977. Það hefði þó verið mjög í anda hennar að taka þennan fjölþætta og alþjóðlega atburð fyrir og útfærslan hefði líklega orðið frumleg. Í stað þess kom hefðbundnari framsetning þar sem staða ránsins í sameiginlegri minningu þjóðarinnar – frægð atburðarins – ryður því braut inn í námsgögnin, óháð samhengi þess við annað efni bókanna. Öðru máli gegnir um Aldir bændasamfélagsins sem var ætluð fyrir framhaldsskóla og fjallaði um formgerðir hagsögu og félagssögu. Þar átti Tyrkjaránið ekki heima en fann sér þó leið bakdyramegin með því að höfundur nemendaverkefna setti það inn sem viðfangsefni. Í aðalnámskrá fyrir grunn- og framhaldsskóla sem kom út 1999 var gert ráð fyrir að Tyrkjaránið væri tekið til umfjöllunar og námsbókahöfundar hentu það á lofti. Samhengið varðaði varnarmál, stríð og frið, siglingar um heimshöfin, sjórán og samkeppni stórvelda. Einnig komu einstaklingar við sögu, ekki einungis Guðríður Símonardóttir heldur einnig trúskiptingurinn Anna Jasparsdóttir. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að Tyrkjaránið eigi traustan sess í sameiginlegri minningu Íslendinga svo að námsefnishöfundur eru tilbúnir að leggja lykkju á leið sína til að hafa það með þó að samhengi textans útheimti það ekki að öðru leyti. Umfjöllunin hefur verið breytileg, efnisatriði og helstu persónur mismunandi, samhengið af ólíku tagi og túlkanirnar sömuleiðis. Bæði hefur aukist að sjá atburðina í alþjóðlegu ljósi og að fjalla af innlifun um einstakar persónur.

29.12. 2016
Silja Bára Ómarsdóttir
„Þetta gefur okkur vettvang utan skólans“: Facebook sem verkfæri í háskólanámi

Þessi grein lýsir tilraunaverkefni í stjórnmálafræði, þar sem óformlegir hópar voru stofnaðir á Facebook, samhliða námskeiðum. Gengið er út frá hugmyndum um að háskólanemar í dag séu innfæddir netverjar og markmiðið var að efla sjálfsmynd þeirra og starfssamfélag, með hliðsjón af kenningum um aðstæðubundið nám og starfssamfélög. Rannsóknin er byggð á vettvangsglósum höfundar og viðtölum við nemendur sem voru í námskeiðunum sem greind voru með aðferðum orðræðugreiningar. Niðurstöður sýna að starfssamfélag efldist í gegnum hinn rafræna vettvang og jók um leið sjálfstraust nemenda í skólastofunni. Því fylgdu aukin þægindi og minna álag að fylgjast með umræðum á Facebook en á formlegum kennslumiðlum og nemendur töldu sig eiga í betri samskiptum við bæði kennara og samnemendur. Nemendur töldu þó að umræður á Facebook væru lítil viðbót við formlegt nám en þeim mun gagnlegri til að tengja viðfangsefnið við daglegt líf. Vísbendingar eru um að breytinga sé þörf á umræðukerfum formlegri kennsluvefja, eigi þeir að nýtast. Frekari rannsókna er enn fremur þörf til að skoða hvort samfélagsmiðlar bæti nám umfram það að styrkja starfssamfélag nemenda.

29.12. 2016
Gunnlaugur Sigurðsson
Lýðræði í frjálsum leik barna

Í þessari grein er fjallað um fræðilegan grunn að þróunarverkefni sem unnið var að í leikskólanum Krakkaborg. Markmið verkefnisins var að efla sjálfsprottinn, öðru nafni frjálsan leik barnanna sem markvissa náms- og kennsluaðferð til lýðræðis, í skilningi Aðalnámskrár leikskóla, 2011. Þróunarverkefnið var unnið í tveim áföngum. Í þeim fyrri var markmiðið að greinarhöfundur, skólastjóri og aðstoðarskólastjóri ásamt nokkrum starfsmönnum öðrum legðu fræðilegan grunn að þróunarverkefninu. Það er efni þessarar greinar. Í þeim seinni byggðu starfsmenn á þeim grunni við athuganir sínar og tilraunir til að þróa frjálsan leik barnanna til þess vettvangs og leiðar í menntun barnanna til lýðræðis sem Aðalnámskrá leikskóla 2011 kveður á um. Það verður efni í aðra grein. Í fyrri áfanganum reyndum við að ná markmiði okkar með því að glöggva okkur á lýðræðisákvæðum námskrárinnar, skilningi okkar sjálfra á lýðræði, hvað við teldum að lýðræði þýddi, hvernig þær hugmyndir hefðu mótast og hvernig þær féllu að því markmiði að framfylgja í frjálsum leik barnanna lýðræðisákvæði Aðalnámskrár leikskóla, 2011. Við fylgdum því eftir með því að skoða og endurskoða niðurstöður okkar og álitamál í ljósi þess sem hugsuðir um lýðræði hafa um það skrifað, sérstaklega þeir sem hafa gert lýðræði í skólastarfi að viðfangsefni sínu. Meginniðurstaða okkar var sú að í frjálsum leik barna yrði lýðræði ekki kennt sem regluverk heldur skapaði hann börnum einstakt tækifæri til að öðlast sérstæða ef ekki einstæða reynslu af þeim sammannlegu gildum sem auðga einstaklingsbundna og félagslega tilveru manna; það sem John Dewey boðaði sem sjálft fyrirheit lýðræðisins.

16.11. 2016
Anna Þóra Baldursdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir
Reynsla skólastjóra af meistaranámi í stjórnun skólastofnana
Í þessari grein er sagt frá rannsókn á viðhorfi og reynslu skólastjóra sem brautskráðst hafa úr meistaranámi í skólastjórnun við kennaradeild Háskólans á Akureyri og þeim áhrifum sem þeir telja að námið hafi haft á þá og störf þeirra á vettvangi. Gögnum var safnað með hálfstöðluðum viðtölum við 14 skólastjóra í leik- og grunnskólum. Niðurstöður benda til þess að meistaranámið hafi haft mikið gildi fyrir viðmælendur og eflt þá sem skólastjóra. Viðmælendur sögðu að námið hefði aukið faglegt sjálfstraust þeirra, fræðilega þekkingu, ígrundun og virkni í starfi. Þeir töldu að námið hefði leitt til breytinga á stjórnunarháttum og eflt leiðtogafærni þeirra. Þeir töldu sig einnig leggja meiri áherslu á kennslufræðilega forystu og að nýta mannauð skólans betur en áður. Jafnframt hefði námið styrkt þá við að byggja upp sýn og stefnu og vinna að þróun og breytingum. Þeir töldu sig færari í að leita sér bjarga og finna verkfæri sem gagnast þeim í starfi. Þó kallaði nokkur hópur eftir hagnýtari viðfangsefnum, sérstaklega þeim sem tengdust rekstri og mannauðsstjórnun. Niðurstöður sýndu jafnframt að það sem einum fannst hagnýtt taldi annar síður hagnýtt og virtist það að einhverju leyti fara eftir fyrri reynslu, áhuga og viðfangsefnum í námi og starfi. Þessar niðurstöður ríma í meginatriðum við niðurstöður erlendra rannsókna sem gefur tilefni til að ætla að framhaldsnám fyrir skólastjórnendur sé mikilvægt veganesti fyrir skólastjóra.

16.11. 2016
Börkur Hansen og Steinunn Helga Lárusdóttir
Störf deildarstjóra í grunnskólum – verkefni og áherslur
Í kjölfar tilfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga breyttu skólar smám saman stjórnskipulagi sínu og komu á dreifðri forystu með því að fjölga millistjórnendum. Flestir fengu þeir starfsheitið deildarstjórar. Hér segir frá niðurstöðum rannsóknar meðal deildarstjóra í 17 íslenskum grunnskólum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að draga upp mynd af störfum deildarstjóra með því að kortleggja helstu viðfangsefni og kanna sýn þeirra á hlutverk sitt. Gagna var aflað með viðtölum við 17 deildarstjóra. Niðurstöðurnar sýna að störf þeirra eru erilsöm og fjölbreytt. Fram kemur að þeir vildu hafa meiri tíma til að sinna faglegum hluta starfa sinna. Þeir virðast ekki veita mikla forystu á sviði náms og kennslu. Þessum niðurstöðum ber saman við niðurstöður fyrri rannsókna. Höfundar benda á mikilvægi þess að skólastjórar sem eru ábyrgir fyrir því að dreifðri forystu sé komið á í skólum hafi skýra sýn á markmiðið með slíku skipulagi.

16.11.2016
Ingvar Sigurgeirsson og Amalía Björnsdóttir
Heimanám í íslenskum grunnskólum: Umfang og viðhorf nemenda, foreldra og kennara til þess
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf nemenda, foreldra og kennara grunnskóla til heimanáms og hvort þættir eins og kyn og námsgeta hefðu áhrif á þessi viðhorf. Auk þess var umfang heimanáms kannað, svo og áhugi nemenda á því. Byggt var á gögnum sem safnað var í tengslum við stærri rannsókn á starfsháttum í 20 grunnskólum. Í ljós kom að 47% nemenda í 7.‒10. bekk þótti heimanám hæfilegt, en 62% foreldra voru þeirrar skoðunar. Algengast var að nemendur á unglingastigi lærðu heima 20‒39 mínútur á dag. Nemendur sem lýstu sér sem slökum námsmönnum og foreldrar barna með námsörðugleika, sérstaklega þeirra sem að sögn foreldra fá ekki nægilega aðstoð í skólanum, lýstu heimanáminu sem krefjandi og jafnvel sem hálfgerðri áþján. Þessi hópur notar einnig meiri tíma í heimanámið. Mikill meirihluti starfsmanna skólanna taldi heimanámið mikilvægt og átti það sérstaklega við um kennara á yngsta stigi. Mikill munur var þó á viðhorfum eftir skólum. Foreldrar töldu flestir að skólinn gerði hæfilegar kröfur til sín um aðstoð við heimanám, með þeirri undantekningu að foreldrar barna með námsörðugleika töldu skólann gera of miklar kröfur. Nemendur vildu gjarnan að foreldrar aðstoðuðu þá við heimanám, en höfðu almennt fremur neikvæð viðhorf til þess.

16.11.2016
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir
Veikindafjarvistir, læknisheimsóknir og vinnutengd líðan í kjölfar bankahruns: Samanburður á starfsfólki skóla og öðru starfsfólki sveitarfélaga
Tilgangur greinarinnar er að varpa ljósi á veikindi, veikindafjarvistir og læknisheimsóknir starfsfólks grunnskóla/tónlistarskóla og leikskóla í samanburði við annað starfsfólk sveitarfélaga í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Spurt er: „Breyttist fjöldi veikindadaga og læknisheimsókna vegna vinnutengdra þátta meðal starfsfólks skólanna og annars starfsfólks sveitarfélaga á Íslandi í kjölfar bankahrunsins 2008?“ Eru tengsl á milli uppsagna á vinnustöðum starfsfólksins, aldurs, kyns, hjúskaparstöðu eða tegundar vinnustaðar annars vegar og líðanar, veikindafjarvista og læknisheimsókna hins vegar? Einnig er skoðað hvort líðan, veikindafjarvistir og læknisheimsóknir séu algengari meðal starfsfólks skólanna en annars starfsfólks sveitarfélaganna. Greinin byggir á langtíma panelgögnum 20 sveitarfélaga og 2971 starfsmanns frá árunum 2010, 2011 og 2013. Svarhlutfallið var 64,5%–84,4%. Niðurstöðurnar sýna að læknisheimsóknir, veikindafjarvistir og það að mæta veikur til vinnu jókst tveimur, þremur og fimm árum eftir bankahrunið haustið 2008. Aukningin var mest á vinnustöðum þar sem uppsagnir starfsfólks höfðu átt sér stað. Konur og yngra fólk virtist veikara en karlar og eldri aldurshópar. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar felur einkum í sér aukna þekkingu á líðan starfsfólks skólanna í kjölfar efnahagskreppa. Aukið álag og óöryggi vegna annarra þátta, svo sem endurskipulagningar starfsmannamála, aðhaldsaðgerða og uppsagna getur reyndar alið af sér sambærilegt ástand, óháð kreppum. Mikilvægt er að skólastjórnendur, þeir sem sinna starfsmannaheilsuvernd og rannsakendur hafi þetta hugfast.

16.11. 2016
Jón Ingvar Kjaran
„Faggi, tappi, lessa, feit eða heit“: Orðtíðni framhaldsskólanema um staðalmyndir kynhneigðar og kyngervis
Hér er fjallað um viðhorf framhaldsskólanema til staðalmynda á borð við útlit, kyngervi og kynhneigð. Til að skyggnast inn í hugmyndaheim þeirra var lögð megindleg myndakönnun fyrir 238 þátttakendur í tveimur framhaldsskólum. Myndakönnunin var þess eðlis að sjö myndir voru valdar með það fyrir augum að þær væru á einhvern hátt staðalmynd(ir) fyrir tiltekna eiginleika, á borð við kynhneigð, útlit, karlmennsku eða kvenleika. Nemendur áttu að merkja við uppgefin orð sem þeim fannst eiga við um hverja mynd. Marktækur munur var á orðavali nemenda um myndirnar eftir kyni. Ennfremur mátti draga þá ályktun að mörg einkenni gagnkynhneigðarhyggju hafi komið fram í viðhorfum og svörum nemenda. Piltar notuðu neikvæðari orð um sumar myndirnar og virtust þeir frekar en stúlkurnar hafa tileinkað sér ríkjandi orðræðu um kvenleika og karlmennsku. Bæði kynin voru þó undir áhrifum ríkjandi orðræðu um útlit, staðalmyndir og kynhneigð sem bendir til þess að kynjakerfið hafi enn áhrif á menningu framhaldsskólanna og viðhorf nemenda.

19.09.2016
Atli Harðarson
Lýðræði og menntun: Hugleiðing um aldargamla bók
Bókin Lýðræði og menntun (Democracy and education) er höfuðrit Johns Dewey (1859–1952) um heimspeki menntunar. Hún kom fyrst út árið 1916 og á því aldarafmæli. Í þessari grein er gerð tilraun til að skilja þetta verk og setja í hugmyndasögulegt samhengi. Í þau hundrað ár sem liðin eru frá útkomu Lýðræðis og menntunar hafa hugmyndir Deweys lifað í draumum fólks um betri skóla. Menntastefna hans hefur þó haft lítil áhrif í raun. Þetta skýrist að nokkru leyti af því að heimspekihefðirnar sem hann tók í arf og gerði að sínum fóru halloka þegar leið á tuttugustu öldina. Önnur skýring sem ekki skiptir síður máli er að þeir sem réðu ferðinni í skólamálum sættu sig ekki óvissuna og þau mannlegu takmörk sem Dewey benti á að væru óhjákvæmilega hlutskipti okkar. Stefna hans stangaðist á við tæknihyggju sem átti vaxandi fylgi að fagna. Hugsjón hans um skóla vinnugleðinnar mátti því víkja fyrir sjónarmiðum þeirra sem vildu öryggi, skipulag, miðstýringu og fyrirframákveðin markmið.

19.09.2016
Sigrún Harðardóttir og Guðrún Kristinsdóttir
Námserfiðleikar og velgengni í námi: Um mikilvægi stuðnings
Hér er greint frá niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem ætlað var að varpa ljósi á hvað nemendur með námserfiðleika telja að hafi haft áhrif á námsárangur þeirra. Byggt er á vistfræðikenningu Bronfenbrenners um gagnvirk áhrif foreldra, skóla og samfélags á þroska og aðlögun barna, og á öðrum rannsóknum sem sýna hvað hefur áhrif á líðan nemenda með námserfiðleika og námsframvindu þeirra. Tekin voru viðtöl við tíu ungmenni sem áttu við námserfiðleika að stríða alla skólagönguna en náðu þrátt fyrir það að ljúka námi í framhaldsskóla. Sjónarmið nemenda sjálfra eru nú í auknum mæli talin mikilvæg og viðtalsrannsóknir undanfarinna ára sýna að mörg börn og ungmenni tjá sig vel um eigin reynslu. Í viðtölunum komu fram þrjú meginatriði: a) Erfiðleikar við að fá námsvandann viðurkenndan, b) tilhneiging til að aðgreina nemendur og flokka, og c) hvatning og stuðningur foreldra og skóla sem stuðlaði að seiglu og velgengni í námi. Seigla sem nemendur komu sér upp með stuðningi í nærumhverfinu virtist ráða mestu um aukna trú ungmennanna á eigin getu.

19.09.2016
Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir
Sumarlokun leikskóla: Áhrif á faglegt starf og starfsaðstæður
Í þessari grein er fjallað um sumarlokun leikskóla og hvernig ákvarðanir rekstraraðila tengdar þeim geta haft áhrif á faglegt starf í skólunum og starfsaðstæður kennara og barna. Rekstrarlegir þættir þrýsta á um fulla nýtingu leikskóla allan ársins hring og það skapar sérstakar aðstæður sem ekki eru fordæmi fyrir á öðru skólastigi. Spurningakönnun var lögð fyrir 110 leikskólastjóra þar sem markmiðið var að kanna áhrif sumarlokunar á starf og starfsaðstæður í leikskólum. Helstu niðurstöður eru að það skiptir máli fyrir starfið í leikskólunum hvort þeir loka að sumrinu eður ei, hve lengi þeir loka og á hvaða tímabili. Í niðurstöðum gætir ákveðinna þversagna. Skólastjórar hafa orð á margvíslegum áhrifum ytri ákvarðana en telja þær ekki hafa mikil áhrif á faglegt starf. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að mikilvægt sé að skoða betur áhrif sumarlokunar á faglegt starf skólanna og starfsaðstæður kennara og barna.

19.09.2016
Erla Sif Markúsdóttir og Lilja M. Jónsdóttir
„Þegar maður finnur að krökkunum líður vel og eru kátir í skólanum, þá er takmarkinu náð.“ Um hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara
Þessi rannsókn fjallar um hlutverk, ábyrgð og skyldur umsjónarkennara í grunnskólum á Íslandi. Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn og var megintilgangurinn að kynnast viðhorfum þeirra til starfs síns. Kannaðar voru hugmyndir sex umsjónarkennara um hlutverk sitt, ábyrgð og skyldur og hvað þeim þótti erfitt og ánægjulegt í starfi. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að umhyggjuþátturinn skipti þessa kennara mestu máli, ásamt því að skapa andrúmsloft í skólastofunni þar sem nemendum líður vel. Þeir telja gott foreldrasamstarf mjög mikilvægt, sem og að halda vel utan um allt nám nemenda. Þá leggja þeir áherslu á að reyna að koma til móts við mismunandi áhuga og getu nemenda sinna. Erfiðast þykir þeim að þurfa að takast á við ýmis barnaverndarmál, s.s. vegna vanrækslu og erfiðra heimilisaðstæðna nemenda. Af niðurstöðum má sjá að á síðustu árum hefur starf umsjónarkennara breyst umtalsvert og segjast þeir hafa almennt fleiri hlutverkum að gegna en áður tíðkaðist. Telja þeir ríka þörf á að endurskoða starf umsjónarkennarans, m.a. að minnka þurfi kennsluskyldu þeirra svo þeir geti betur sinnt þessu mikilvæga hlutverki.

Ritstýrðar greinar

19.09.2016
Sara M. Ólafsdóttir og Svanborg R. Jónsdóttir
Nýsköpunarmennt í leikskólastarfi: Hugmyndir barna um hönnun leikskólalóðar
Markmiðið með því verkefni sem hér er sagt frá var að nýta aðferðir nýsköpunarmenntar til þess að laða fram hugmyndir leikskólabarna um endurskipulagningu og hönnun leikskólalóðar. Þátttakendur voru 4–5 ára börn í leikskóla sem staðsettur er á landsbyggðinni. Börnin notuðu fjölbreyttar aðferðir til þess að þróa hugmyndir sínar og gera þær sýnilegar og fengu stuðning við að koma þeim á framfæri til hönnunaraðila. Þau tóku ljósmyndir, teiknuðu myndir og umræða þeirra um myndirnar voru skráðar. Einnig sóttu þau fund skipulags- og byggingafulltrúa og kynntu hugmyndir sínar og hann sá til þess að þær væru notaðar við endurhönnun lóðarinnar. Börnin sýndu að þau voru fær um að koma með nytsamlegar hugmyndir og voru ánægð með þær og stolt af þeim. Þau fundu því fyrir áhrifamætti og valdefldust við þátttökuna. Þegar lagðar voru saman hugmyndir barnanna, starfsfólks leikskólans og hönnunaraðila var niðurstaðan að þeirra mati vel heppnuð leikskólalóð þar sem börn og starfsfólk una sér vel í leik og starfi. Þetta verkefni er dæmi um hvernig hægt er að vinna með aðferðir nýsköpunarmenntar í leikskóla til þess að koma hugmyndum barna á framfæri, ýta undir sköpunarfærni þeirra og efla trú þeirra á að þau geti haft áhrif á umhverfi sitt.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design