Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

30.12.2011
Kristín Bjarnadóttir
Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla: Vandi og ávinningur

Greinin segir frá hægferðaráfanganum Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla. Í ljós kom að mun meiri áhersla var lögð á algebru en aðalnámskrá sagði fyrir um en lítil sem engin á samvinnuverkefni eða ritgerðir.

30.12.2011
Jóhanna Einarsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir
„Við hugsum kannski meira um námið sem leikurinn felur í sér“: Starfendarannsókn um tengsl leiks og læsis í leikskóla

Hér er greint frá starfendarannsókn sem fram fór í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Byggt var á samvinnu við tvo kennara. Meðal annars var fylgst með því hvernig hugmyndir um tengsl leiks og náms þróuðust hjá kennurunum meðan á rannsókninni stóð.

20.12.2011
Jóhanna Einarsdóttir, Ingibjörg Símonardóttir og Amalía Björnsdóttir
Langtímarannsókn á forspárgildi athugana á málþroska: Frá leikskólaaldri til fullorðinsára

Greinin fjallar um rannsókn á því hvort málþroskamælingar við fimm ára aldur spái fyrir um námsgengi í samræmdum prófum í grunnskóla. Niðurstöður sýna að góð málþekking og hljóðkerfisvitund eru meðal þátta sem virðast stuðla að farsælu námi í grunnskóla.

15.12.2011
Þorsteinn Helgason
Kjölfesta eða dragbítur? Gagnrýnin hugsun og kennslubækur í sögu

Greinin snýst um gagnrýna hugsun og námsefni í sögu. Gera má nemendur læsa á námsgögnin og gera þá um leið sem sjálfstæðasta gagnvart námsefninu. Gefin eru raunhæf dæmi um aðferðir til þess að semja kennslubækur sem hvetja til gagnrýni og kennsluaðferðir til að efla þetta hlutverk.

15.12.2011
Hafþór Guðjónsson
Að verða læs á náttúrufræðitexta

Í greininni leitast höfundur við að vekja til umhugsunar um náttúrufræðimenntun í íslenskum skólum í ljósi áherslu á læsi og grunnþætti í nýrri námskrá. Okkur sé tamt að hugsa um náttúrufræðikennslu sem miðlun upplýsinga. Úr því þurfi að draga og leggja aukna áherslu á skilning.

29.9.2011
Guðrún V. Stefánsdóttir og Vilborg Jóhannsdóttir
Starfstengt diplómunám fyrir fólk með þroskahömlun

Greinin fjallar um starfstengt diplómunám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands fyrir fólk með þroskahömlun. Niðurstaða þeirra er m.a. að nemendur og aðstandendur hafi verið ánægðir með námið og að það hafi aukið þátttakendum sjálfstæði, sjálfsvirðingu og sjálfsöryggi.

15.9.2011
Ásta Jóhannsdóttir og Kristín Anna Hjálmarsdóttir
Skaðleg karlmennska? Greining á bókinni Mannasiðir Gillz

Greinin geymir greiningu höfunda á bókinni Mannasiðir Gillz. Niðurstaða þeirra er m.a. að sú karlmennskuhugmynd sem þar kom fram virðist líkleg til að stuðla að skaðlegri karlmennsku og vinna gegn þróun í jafnréttisátt.

15.9.2011
Gerður Bjarnadóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir
Kynjakerfið og viðhorf framhaldsskólanema

Greinin fjallar um viðhorf framhaldsskólanema til þess að brjóta upp hefðbundin kynjamynstur. Byggt er á spurningalista sem lagður var fyrir 111 nemendur á fyrsta ári í framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Svör kynjanna reyndust marktækt ólík.
Ritstýrðar greinar

22.12.2011
Ásgerður Guðnadóttir
Samskipti og lýðræði í leik: Þróunarverkefni í leikskólanum Fífuborg um hlutverk starfsmanna í frjálsum leik

Greinin segir frá þróunarverkefni í leikskólanum Fífuborg. Markmið verkefnisins var að auka þekkingu og skilning á hlutverki og framlagi starfsmanna meðan á leik barnanna stendur og greina hversu mikil áhrif börnin sjálf hafa á leikinn.

22.12.2011
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir
Leikur og læsi í leikskólum

Greinin fjallar um lestrarkennslu í leikskólum en hún hefur færst nokkuð í vöxt hér á landi. Greinarhöfundur bendir á að skýra þarf betur aðferðir og mikilvæg hugtök á sviði náms og kennslu í tengslum við lestrarnám leikskólabarna.

15.12.2011
Sigrún Harðardóttir og Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir
Einstaklingsmiðað nám í framhaldsskóla: Sérstakur stuðningur við nemendur á almennri braut

Greinin lýsir þróunarstarfi við Menntaskólann á Egilsstöðum um úrræði og þjónustu við nemendur með sérstakar þarfir á almennri braut. Í þessari fyrstu grein af fleirum um þetta þróunarstarf við skólann segir frá því hvernig leitað hefur verið leiða í átt að einstaklingsmiðuðu námi.

10.6.2011
Kolbrún Þ. Pálsdóttir og Valgerður Freyja Ágústsdóttir
Gæði eða geymsla? Um frístundaheimili og skóladagvistun fyrir 6–9 ára börn á Íslandi

Greinin er um stöðu frístundaheimila á Íslandi. Mismunandi kröfur eru gerðar til starfseminnar og víða hamla aðbúnaður og starfskjör eðlilegri fagþróun. Skoðun höfunda er að sveitarfélög og ríki ættu að sameinast um að setja starfinu markmið og viðmið um rekstur og fagmennsku.

1.6.2011
Kristín Sætran
Er hægt að spara í framhaldsskólanum með heimspeki?

Í greininni færir höfundur rök fyrir því að heimspeki sé vænleg leið til að sporna gegn námsleiða sem er einn helsti orsakavaldur brottfalls úr framhaldsskóla. Höfundur kallar eftir frumkvæði kennara í þessum efnum.

30.3.2011
Berglind Axelsdóttir, Hrafnhildur Hallvarðsdóttir og Sólrún Guðjónsdóttir
Samþætting námsgreina hefur fleiri kosti en galla: Sagt frá þróunarverkefni í Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Greinin segir frá þróunarverkefni í Fjölbrautaskóla Snæfellinga þar sem byggt var á samþættingu námsgreina og alþjóðlegu samstarfi. Helsta niðurstaða höfunda er að nám með þessum hætti hafi mun fleiri kosti en ókosti.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design