Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31. 12. 2021

Soffía H. Weisshappel, Ingibjörg V. Kaldalóns og Ingvar Sigurgeirsson

„Að kveikja neistann skiptir sköpum“ Viðhorf foreldra til starfshátta í grunnskóla sem leitast við að stuðla að nemendasjálfræði

Viðfangsefni greinarinnar er að varpa ljósi á viðhorf foreldra til starfshátta í grunnskóla sem hefur áhugadrifið nám að yfirlýstu markmiði. Niðurstöður sýndu að foreldrar voru almennt ánægðir með starfshætti skólans. Einkum áherslu á mannrækt sem hefur skilað sér í persónulegum vexti nemenda, þrautseigju, ábyrgð og almennri gleði. Foreldrar töluðu sérstakleg um að nemendur væru minntir á að eigið hugarfar og eljusemi skipti sköpum varðandi árangur og upplifðu um leið að raddir nemenda skiptu máli. Áherslur skólans á tækniþróun þóttu þó nokkuð krefjandi bæði fyrir nemendur og  foreldra sem flækti eftirfylgni með náminu.

31. 12. 2021

Pála Margrét Gunnarsdóttir, Ingibjörg V. Kaldalóns og Hrund Þórarins Ingudóttir

„Ég held ég hafi bara ekki vitað hvað hamingja var áður en þau fæddust“: Upplifun feðra af hamingju

Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að öðlast aukinn skilning á hvernig feður upplifa hamingju við að eignast og eiga börn. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að feðurnir upplifðu hamingjuna á annan hátt eftir að þeir eignuðust börn. Þeir upplifðu meira af jákvæðum tilfinningum; djúpstæðri ást, gleði og þakklæti. Feðurnir lýstu auknum lífstilgangi eftir að þeir eignuðust börnin og fanst hamingjan merkingarbærri og innihaldsríkari. Þeir töldu lífið samt meira krefjandi en áður. Rannsóknin er mikilvægt framlag til rannsókna um hamingju innan jákvæðrar sjálfræði sem og rannsókna á upplifun feðra af hlutverki sínu.

31. 12. 2021

Sólveig Jakobsdóttir, Salvör Gissurardóttir, Skúlína Kjartansdóttir, Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson

Netkennsla og stafræn tækni í grunnskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sýn kennara

Á vormánuðum 2020 urðu miklar takmarkanir á grunnskólastarfi hér á landi vegna COVID-19 og Háskóli Íslands stóð að könnun til að meta áhrif þessa – hér er fjallað um þann hluta sem sneri að notkun á stafrænni tækni. Markmiðið var að greina áhrif faraldursins á netnotkun og beitingu stafrænnar tækni í starfi grunnskóla. Í ljós kom að meirihluti svarenda taldi skólana vel búna stafrænum verkfærum og starfslið vel undirbúið fyrir breytinguna. Niðurstöður sýna að miklar breytingar hafa orðið á kennsluháttum og nýtingu stafrænnar tækni meðan á faraldrinum hefur staðið, auk þess sem þær bentu til þess að efla þurfi greiningu á stöðu stafrænnar tækni í grunnskólum.

31. 12. 2021

Logi Pálsson og Jóhanna Thelma Einarsdóttir

Mat á málþroska barna sem greind eru með einhverfu: Tengsl staðlaðra prófa og málsýna

Mat á málþroska gegnir mikilvægu hlutverki í greiningu og meðferð barna með röskun á einhverfurófi. Í rannsókninni, sem sagt er frá í þessari grein, var málþroski 10 einhverfra barna athugaður. Niðurstöður sýndu fylgni milli málþroskatölu og prófþátta við mælieiningar úr sjálfsprottnu tali. Villugreining úr málsýnum gefur til kynna a einhverf börn geri villur af svipaðri gerð og dæmigerðir jafnaldrar en töluvert meira af þeim. Málfræðivillur í málsýnum eru mikilvæg viðbót við upplýsingar sem fást með stöðluðum prófum en frekari rannsókna er þörf.

22. 12. 2021

Kristín Björnsdóttir og Eiríksína Eyja Ásgrímsdóttir

„Þá má ekki missa kúlið“ Tilfinningar og tilfinningavinna grunnskólakennara

Í greininni eru skoðaðar tilfinningar og tilfinningavinna kennara og bent á hvaða þættir stjórna þeim. Niðurstöður eru settar í samhengi við kenningar um tilfinningahagkerfi og tilfinningavinnu. Niðurstöðurnar benda til þess að tilfinningar kennara sveiflist í samræmi við álagspunkta skólaársins. Kennarar þurfa að hafa stjórn á tilfinningum sínum í samskiptum við stjórnendur, nemendur og foreldra og þurfa oft að sætta ólík sjónarmið. Mikilvægt er að skoða tilfinningar og tilfinningavinnu í skólastarfi svo mögulegt sé að skapa betra vinnuumhverfi öllu skólastarfi í hag.

17. 12. 2021

Karen Rut Gísladóttir

Að þróa eigin kennslu í ljósi félagsmenningarlegra hugmynda um læsi: Starfstengd sjálfsrýni heyrandi íslenskukennara í kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli

Í greininni er greint frá þriggja ára starfstengdri sjálfsrýni höfundar á eigin starfsháttum sem íslenskukennari nemenda með táknmál að móðurmáli. Tilgangurinn var að skoða eigin kennslu út frá félagsmenningarlegum hugmyndum um læsi og að skoða hvernig eigin viðhorf, aðstæður og kennsluhættir ýmist sköpuðu eða takmörkuðu tækifæri nemenda til að nýta eigin mál- og menningarauðlindir í íslenskunámi. Niðurstöður gefa til kynna að til að byggja kennslu á auðlindum nemenda hafi höfundur þurft að greina mótsagnakenndar hugmyndir um læsi í eigin hugsunum sem og innan skólaumhverfisins. Á þeim grunni gat höfundur endurhugsað eigin starfshætti með það fyrir augum að skapa nemendum rými þar sem þeir gætu nýtt mál- og menningarauðlindir sínar í námi.

9. 12. 2021

Anna Magnea Hreinsdóttir og Kristín Dýrfjörð

Upplifun barna af leikskóladvöl „Stundum er maður lengi í leikskólanum, en ekki alltaf“

Klukkan mótar skipulag á leikskólum en upplifun barna á tíma er ekki sú sama og fullorðinna. Markmið rannsóknarinnar sem sagt er frá í greininni var að leita eftir upplifun barna á dvalartíma sínum í leikskóla og varpa ljósi á hvaða þættir hafa áhrif þar á í þeim tilgangi að koma betur til móts við sjónarmið þeirra. Niðurstöður sýna að börnin þekkja ekki annað en að dvelja á leikskóla megnið af vökutíma sínum. Fram kom að vinátta barna er þeim mikilvæg og að þau fáist fjölbreytt viðfangsefni í leikskólanum sem þau fá að stýra sjálf. Gefa þarf tímaskyni barna gaum við skipulag leikskóla.

3. 11. 2021

Bragi Guðmundsson

Um barnafræðslu í Strandasýslu og Húnavatnssýslu 1887–1905

Í greininni er kynnt rannsókn sem byggir á skýrslum sveitakennara í Stranda- og Húnavatnssýslu frá árunum 1887-1905. Niðurstaða er meðal annars að hlutfall barna sem fengu fræðslu fór smám saman hækkandi þótt sýslurnar væru undir landsmeðaltali. Heimiliskennsla var ríkjandi en kennslustaðir voru á bilinu 70-78. Lítið er vitað um kennsluaðferðir. Námstími var yfirleitt skammur og áhersla á að kenna ófermdum börnum skyldunámsgreinar. Eldri nemendur lásu fleira. Byggðirnar við Húnaflóa stóðu höllum fæti í þróun uppfræðslu og skólamála miðað við það sem gerðist annars staðar.

10. 9.  2021

Bergljót Gyða Guðmundsdóttir, Erla Karlsdóttir og Margrét Sigmarsdóttir

Þekking og aðferðir grunnskólakennara á Íslandi í stuðningi við nemendur með ADHD

Markmið þessarar rannsóknar var að skoða grunnskólakennara sem kenndu nemendum með ADHD – að meta hvaðan þekking þeirra um röskunina kæmi, hversu vel undirbúnir þeir teldu sig vera fyrir kennslu þessa nemendahóps, áherslur þeirra og aðferðir við stuðning við nemendur. Marktæk tengsl komu fram milli svara þátttakenda og starfsaldurs þeirra. Meðal annars kom í ljós að fleiri kennarar með styttri starfsaldur sögðust sækja þekkingu á ADHD til náms síns en kennarar sem starfað höfðu lengur. Niðurstöður bentu jafnframt til þess að kennarar gætu haft gagn af starfsþróun á þessu sviði.

27. 8. 2021

Svanborg R. Jónsdóttir, Skúlína H. Kjartansdóttir, Svala Jónsdóttir, Svava Pétursdóttir og Torfi Hjartarson
Sköpunar- og tæknismiðjur í þremur grunnskólum: Framkvæmd og kennslufræði fyrstu skrefin

Þessi rannsókn segir frá fyrsta ári af þremur í þróunarverkefni þriggja grunnskóla í Reykjavík um sköpunar- og tæknismiðjur (e. makerspaces). Hún á að auka skilning á því hvað þarf til að nýsköpun og hönnun í anda sköpunarsmiðja skjóti rótum í starfi grunnskóla. Viðhorf og stuðningur skólastjórnenda, starf verkefnisstjóra, viðhorf, reynsla og færni kennara, skilningur á verkefninu og mikilvægi þess, skipulag stundaskrár, samtal og samstaða eru þættir sem virðast skipta máli í innleiðingunni, auk sérstöðu einstakra skóla og hefðar fyrir þemanámi þvert á greinasvið, teymiskennslu og skapandi starf.

2.7. 2021

Hermína Huld Hilmarsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Margir ungir karlmenn vita ekki að það er hægt að vera karlkyns sjúkraliði“ Áskoranir og tækifæri í starfi karlkyns sjúkraliða

Umfjöllunarefni greinarinnar er karlkyns sjúkraliðar og störf þeirra á vettvangi þar sem langflest starfsfólk er kvenkyns. Tekin voru átta viðtöl við karlkyns sjúkraliða. Reynsla viðmælenda var að karlar gætu sinnt nærgætinni umönnun og þeir væru jafn færir um að sýna fagmennsku og alúð í starfi og konurnar. Niðurstöður gefa til kynna að í nánast öllum þáttum er lutu að starfinu var hægt að sjá einhvers konar afleiðingar eðlishyggju í samfélaginu um að starfið væri kvennastarf. Viðmælendurnir virtust þó ekki taka fordóma sem þeir mættu nærri sér.

24. 6. 2021
Edda Óskarsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir, Birna M. Svanbjörnsdóttir og Rúnar Sigþórsson
Framkvæmd stefnu um menntun fyrir alla á Íslandi: Viðhorf skólafólks og tillögur um aðgerðir

Menntun fyrir alla er ein af grunnstoðum stefnu íslensks skólakerfis, en í úttekt Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar kom fram að skólasamfélagið hefði hvorki skýra mynd af hugtakinu né fullnægjandi skilning á því hvað skólastarf á þeim grundvelli fæli í sér. Markmið greinarinnar er tvíþætt. Í fyrsta lagi að draga saman niðurstöður funda sem haldnir voru um allt land með það fyrir augum að skapa umræðu um stefnuna. Í öðru lagi er markmið greinarinnar að leggja fram tillögur greinarhöfunda um aðgerðir til að efla menntun fyrir alla í íslenskum skólum.

22. 6. 2021
Lilja M. Jónsdóttir, Guðbjörg Pálsdóttir og Edda Kristín Hauksdóttir
„Mér finnst námskeiðið klárlega hafa stutt mig [í kennslunni]“ Tengsl fræða og starfs á vettvangi

Skólaárið 2019-2020 var í fyrsta sinn í boði að taka heilsársvettvangsnám sem launað starfsnám í grunnskólakennaranámi við Menntavísindasvið HÍ. Í rannsókninni sem hér er fjallað um var skoðað hvernig inntak námskeiðs, sem felur í sér starf á vettvangi, nýtist og styður nemana í kennarastarfinu og hvort nemarnir almennt teldu sig vel undirbúna fyrir kennarastarfið. Niðurstöður benda til almennrar ánægju með námskeiðið. Nemarnir telja viðfangsefni þess styðja þá í starfi og að umræðutímar í smærri hópum um námsþætti og eigin kennslu séu gagnlegir. Regluleg markviss ígrundun um kennsluna þótti efla nema í starfsþróun og mótun eigin starfskenningar.

4. 6. 2021
Helga Rut Guðmundsdóttir og Freyja Gunnlaugsdóttir
Hin óttablandna virðing: Um kennsluhætti og viðteknar hefðir í tónlistarnámi

Í greininni er fjallað um viðtekna kennsluhætti í tónlistarnámi. Horft er til kennsluhátta og samskipta í tónlistarmenntun á efri stigum, skoðað hvaða markmið liggja til grundvallar tónlistarnámi og áhrif valdaójafnvægis á tónlistarnemendur, auk mögulegra afleiðinga þess fyrir atvinnutónlistarfólk. Þetta er yfirlitsgrein þar sem rýnt er í ólíkar rannsóknir. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á ríkjandi starfshætti og fyrirkomulag tónlistarkennslu sem lítil umræða hefur verið um og hefur hingað til lítið verið gagnrýnt.

21. 4. 2021
Svanborg R. Jónsdóttir og Hafdís Guðjónsdóttir
Hvernig verður „ríkisbangsinn flippaður“? List- og verkgreinakennarar á þremur skólastigum segja rýnisögur úr starfendarannsóknum sínum

Mikilvægi skapandi hugsunar kemur fram í ákalli samtímans eftir nýsköpun. Hér er sagt frá starfendarannsókn átta list- og verkgreinakennara í samstarfi við háskólakennara sem stýrði rannsókninni. Niðurstöður sýndu að sú menning sem kennarar leituðust við að móta einkenndist meðal annars af því að kenna grunnvinnubrögð í bland við frelsi og sköpun, góðar kveikjur, tilraunir og skapandi samtöl. Með þátttöku í rannsókninni sýndu kennarar hvernig er hægt að vinna hefðbundin verkefni á skapandi hátt um leið og þess er gætt að kröfur aðalnámskrár séu uppfylltar.

13. 04.2021
Anna Guðrún Edvardsdóttir
Staðbundin áhrif og hlutverk þekkingarsetra í nýsköpun og atvinnuþróun byggða

Þróun og uppbygging þekkingarsetra á landsbyggðinni hófst fyrir alvöru upp úr aldamótunum. Greinin segir frá rannsókn þar sem skoðuð voru þrjú þekkingarsetur með það markmið að kanna hvort staða þeirra og hlutverk gagnvart íbúum nærsamfélagsins hefði breyst frá stofnun þeirra. Niðurstaðan er sú að þriggja þátta líkan hefur einkennt starfsemi þekkingarsetranna og að samfélagslegar áherslur hafi aukist á sama tíma og vægi nýsköpunar minnkaði. Þrátt fyrir að meirihluti þeirra sem ljúka háskólanámi séu konur virðist atvinnuuppbygging snúast um að skapa störf sem virðast henta betur körlum.

8. 4. 2021
Jóhanna Einarsdóttir og Eyrún María Rúnarsdóttir
Gildismat og sýn starfsfólks leikskóla á fullgildi í fjölbreyttum barnahópi

Markmið rannsóknarinnar sem greinin fjallar um var að varpa ljósi á sýn og gildismat starfsfólks leikskóla á fullgildi í leikskólastarfi og valdastöðu barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakrunn í jafningjahópi. Einnig var skoðað hvort sýn starfsfólks var ólík eftir menntun þess og starfsreynslu. Niðurstöður sýndu að starfsfólkið stefndi almennt að því að öll börnin væru fullgildir þátttakendur í barnahópnum, að þau væru viðurkennd „eins og þau eru“ og það kaus að hafa foreldra með í ráðum um starfið. Starfsfólk varð helst vart við að tungumál gæti leitt til útilokunar sumra barna. Vilji var til að stuðla að fullri þátttöku þessa hóps með auknum skilningi og umræðu um fjölbreytileika ásamt áherslu á vinatengsl.

19. 3. 2021
Ingvar Sigurgeirsson
„Það er alltaf þessi faglega samræða.“ Innleiðing teymiskennslu í tólf grunnskólum

Í greininni er sagt frá niðurstöðum rannsóknar á innleiðingu teymiskennslu í tólf grunnskólum á Íslandi. Teymiskennslan er hér skilgreind sem kennsla þar sem tveir eða fleiri kennarar eru samábyrgir fyrir árgangi, hópi eða námsgrein. Viðmælendur töldu helsta kost teymiskennslu vera möguleika á verkaskiptingu og hún var oft talin leiða til aukinnar fjölbreytni og aukins þors til að prófa mismunandi útfærslur. Mat viðmælenda var að forsenda árangurs væri gagnkvæmt traust, virðing, stöðug samræða, ígrundun, lausnaleit og stuðningur. Niðurstöðurnar eru í samræmi við erlendar rannsóknir sem gerðar hafa verið á teymiskennslu undanfarna áratugi.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design