Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31.12.2017
Sigríður Ólafsdóttir og Baldur Sigurðsson
Hnignandi frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningshluta PISA frá 2000 til 2015: Leiðir til að snúa þróuninni við

Höfundar greindu niðurstöður íslenskra unglinga í lesskilningshluta PISA-rannsóknarinnar árið 2015 og báru saman við fyrri niðurstöður allt frá árinu 2000. Að þeirra mati nemur lækkun mælanlegs árangurs um hálfu skólaári. Höfundar benda á að rannsóknir sýni að orðaforði sé sá þáttur sem hafi helst áhrif á lesskilning unglinga. Orðaforði og málskilningur þróist frá fæðingu en máluppeldi á heimilum skipti þar verulegu máli. Lestrariðkun sé forsenda framfara í lestri, en munur á orðaforða og lesskilningi barna hafi tilhneigingu til að aukast með aldri. Í greininni eru lagðar fram rökstuddar tillögur um það hvernig skóli og samfélag geti tekið höndum saman um að snúa við neikvæðri þróun lesskilnings meðal íslenskra ungmenna. Horfa verði til máluppeldis, ekki aðeins í skólum, heldur líka á heimilum. Bent er á að vefmiðlar gegni veigamiklu hlutverki í samskiptum, dægradvöl og upplýsingamiðlun til ungmenna, en þar sé efnið að miklu leyti á ensku. Hlutverk skóla sé að gefa öllum nemendum tækifæri til að efla með sér þá hæfni og þekkingu sem nútímasamfélag geri kröfur um. Lestur, sem felist í því að finna, velja, túlka og meta upplýsingar, sem miðlað er á fjölbreytilegan hátt, þarfnist stöðugrar þjálfunar. Höfundar leggja til að framleiðsla og útgáfa íslensks efnis verði efld, jafnt prentaðs og stafræns og efnis á ljósvakamiðlum. Loks nefna höfundar að auka þurfi þekkingu á íslenskum orðum sem liggi til grundvallar námsárangri, og þá sér í lagi lágtíðniorðum. Slíkar upplýsingar sé hægt að nýta sem grunn við þróun námsefnis og mælitækja, og þær geti því leitt til markvissari náms- og kennsluhátta.

31.12.2017
Guðný S. Guðbjörnsdóttir og Steinunn Helga Lárusdóttir
Hvernig er tekið á fræðslu um kynjajafnrétti í skólum? Athugun á viðhorfum, þekkingu og áhuga skólastjóra þriggja skólastiga

Hér er greint frá niðurstöðum spurningakönnunar á viðhorfum stjórnenda þriggja skólastiga til kynjajafnréttis og fræðslu á því sviði. Spurningakönnun var lögð fyrir alla skólastjóra leikskóla (n=78) og grunnskóla (n=43) í Reykjavík og alla skólameistara (n=14) á höfuðborgarsvæðinu í janúar 2016. Svarhlutfall var 68% og meðal þeirra sem svöruðu kom fram sterkur áhugi á kynjajafnréttisfræðslu jafnt fyrir nemendur, kennara og stjórnendur. Rúmlega helmingur svarenda sagðist hallast að því sjónarmiði að munur sé á kynjunum sem námsmönnum. Flestir telja muninn menningarbundinn en minni hópur (12%) telur að um eðlismun sé að ræða. Niðurstöðurnar gefa til kynna að tekið sé á jafnréttismálum með ýmsum hætti í skólunum, bæði meðal nemenda og kennara. Flestir skólastjóranna nefna að algengast sé að fjalla um jafnréttismál í lífsleiknikennslu og samfélagsgreinum en einnig í samverustundum og daglegu samtali við nemendur. Af svörum skólastjóranna reyndist þó erfitt að ráða um það hvert umfang þessara aðgerða væri eða hversu markvissar þær væru enda töldu þeir sjálfir að margt mætti bæta á þessu sviði. Höfundar telja að þótt þekking skólastjóra á kynjafræðilegum grunnhugtökum sé að sumu leyti góð, þá sé ástæða til að óttast að hún sé ekki nægjanleg til að hreyfa við staðalmyndum kynjanna. Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera sé ljóst að skólastjórar á öllum skólastigum reynist áhugasamir um að fá fræðslu um kynjajafnrétti inn í skólana, með áherslu á að breyta hefðbundnum staðalmyndum og vinna gegn kynferðislegri áreitni, m.a. á samfélagsmiðlum.

31.12.2017
Karen Rut Gísladóttir
Læsi sem félagsleg iðja: Dæmi úr íslenskukennslu heyrnarlausra

Höfundur greinarinnar skrifar hér um lestur og lestrartækni er lýtur fyrst og fremst að sköpun merkingar. Að mati höfundar ræðst slík merkingarsköpun bæði af ólíkri reynslu einstaklinga og „ótal aðstæðubundnum þáttum“ eins og það er orðað í núgildandi aðalnámskrá. Höfundur bendir á að þegar við lesum eða skrifum séum við óhjákvæmilega í ákveðnum félagsmenningarlegum aðstæðum sem setji mark sitt á það hvernig við skiljum texta sem við lesum og hvernig við skrifum. Þannig tengist læsi því sem höfundur nefnir félagslegar iðjur einstaklinga. Sem kennari, kennararannsakandi og háskólakennari hefur höfundurinn þróað með sér hugmyndir um læsi sem félagslega iðju sem nýta megi til að skoða og takast á við þann veruleika sem mætir kennurum og nemendum innan veggja skólans. Höfundur lýsir því hvað felst í félagsmenningarlegum hugmyndum um læsi, þar sem áherslan er á læsi sem félagslega iðju. Kynnt eru til sögunnar íslensk heiti yfir þekkt fræðiorð þessu tengd, til dæmis svonefndir læsisatburðir (e. literacy events), sýnileg atvik þar sem lestur og ritun eiga í hlut, og læsisiðjur (e. literacy practices), sem vísa í það sem að baki liggur þegar fólk les og skrifar. Einnig skoðar höfundur tengsl læsis og valds sem birtast með skýrum hætti í sögu heyrnarlausra. Þessi grein er innlegg í að þróa frekar íslenska orðræðu sem snertir félagsmenningarlegar hugmyndir um læsi og tengja hana íslenskum veruleika. Í greininni nýtir höfundur gögn úr doktorsverkefni sínu, starfendarannsókn sem hún vann sem íslenskukennari í kennslu heyrnarlausra.

31.12.2017
Þuríður Jóna Jóhannsdóttir
Skólalíkan sem stuðlar að jafnrétti til náms: Einkenni skólastarfs við Menntaskólann á Tröllaskaga í ljósi kenninga Bernsteins

Í nýrri grein í Netlu er fjallað um skólalíkan Menntaskólans á Tröllaskaga (MTR), sem stofnsettur var árið 2010. Skólinn hefur farið nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu og ánægja starfsfólks með stjórnun og starfsanda hefur vakið athygli. Lítið brottfall hefur verið og framvinda nemenda í námi almennt verið góð. Á síðustu árum hefur aðsókn að fjarnámi við skólann margfaldast og lítið brottfall verið líka í þeim hópi. Markmið rannsóknarinnar var að átta sig á sérkennum skólalíkansins og skólamenningarinnar. Tilgangurinn er að öðlast skilning á því hvað einkennir skólastarf þar sem nemendur ná árangri þannig að aðrir geti dregið lærdóma af. Fjallað er um einkenni Aðalnámskrár framhaldsskóla 2011 og áhrif hennar á skipulag hins nýja skóla. Rannsókn á skólalíkani MTR varpar ljósi á tengsl hugmyndafræðinnar sem stýrir skólastarfinu við skipulag náms og kennslu og hvaða áhrif það hvernig þessum tengslum er háttað hefur á velgengni nemenda. Kenningar Basils Bernstein (1924­–2000), sem skýra hvernig skólakerfi mismuna nemendum eftir þjóðfélagslegum bakgrunni, eru notaðar til að varpa ljósi á hvernig samspil skólamenningar og skipulags náms og kennslu hefur áhrif á velgengni nemenda. Þeim var beitt til að greina orðræðuna um menntun (e. pedagogic discourse) í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011 og þá orðræðu sem einkennir starfshætti í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Byggt er á fjölþættum gögnum sem aflað var með etnógrafískum aðferðum í heimsóknum í skólann á árunum 2013–2017 en skráð gögn sem eru aðgengileg á vef skólans gegna einnig mikilvægu hlutverki. Líkan Morais og Neves um blandaða kennsluhætti (e. mixed pedagogic practice), sem tekur mið af kenningum Bernsteins, er notað til að meta hvernig skólalíkan MTR styður velgengni nemenda óháð félagslegum bakgrunni. Áherslur í aðalnámskrá á hæfni og valdeflingu nemenda og sjálfstæði skóla við setningu þekkingarmarkmiða studdi þróun skólalíkans sem leggur áherslu á frumkvæði nemenda, valfrelsi og góð tengsl við samfélagið. Skýr umgerð um skipulag náms og kennslu og námsmat er síðan til þess fallin að styðja nemendur í að að halda áætlun og ná árangri í náminu.

23.12.2017
Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir og Gyða Margrét Pétursdóttir
Reynsla kvenna af kynferðisofbeldi í nánu sambandi á unglingsárum: Berskjöldun og áhrif á skólagöngu

Niðurstöður nýrrar greinar í Netlu benda til þess að berskjöldun sem felst í ungum aldri, lítilli reynslu af samböndum og skorti á kynfræðslu, geti gert þolendum kynferðisofbeldis í nánum samböndum unglinga erfitt fyrir að koma auga á að um ofbeldi sé að ræða. Kynferðisofbeldi í nánum samböndum unglinga er samfélagslegt vandamál sem lítið hefur verið rannsakað hérlendis. Greinin byggir á reynslu 10 kvenna sem voru beittar kynferðisofbeldi í nánu sambandi sem unglingar og leitast verður við að svara spurningunum: Með hvaða hætti upplifðu viðmælendur berskjöldun í tengslum við kynferðisofbeldi í nánu sambandi sem unglingar og hvaða afleiðingar hafði ofbeldið varðandi skólagöngu þeirra? Berskjöldun kvennanna átti þátt í því að þeim þótti upplifun sín jafnvel eðlilegur hluti þess að vera í nánu sambandi. Niðurstöður rannsóknarinnar benda enn fremur til þess að reynsla af kynferðisofbeldi í nánu sambandi á unglingsaldri geti haft alvarleg áhrif á skólagöngu brotaþola en ofbeldið hafði áhrif á skólagöngu allra kvennanna sem rætt var við og helmingur þeirra hætti alveg námi í kjölfarið.

12.12.2017
Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns
Er samvinna lykill að skólaþróun? Samanburður á bekkjarkennsluskólum og teymiskennsluskólum

Þróunarstarf er meira í teymiskennslu­skólum en bekkjarkennsluskólum og þar gengur betur að innleiða breytingar, að því er niðurstöður rannsóknar sem greint er frá í Netlu benda til. Þá virtust starfshættir í teymiskennsluskólunum lýðræðislegri en í bekkjarkennslu­skólunum; kennarar fyrrnefndu skólanna komu meira að ákvörðunum um starfsþróun og breytingastarf. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort munur væri á samvinnu, samskiptum og skólaþróun í bekkjarkennsluskólum og teymiskennsluskólum á grunnskólastigi. Með bekkjarkennslu er átt við starfshætti þar sem hver kennari er með sinn bekk, námsgrein eða námsgreinar og undirbýr kennslu einn og kennir einn. Í teymiskennsluskólum eru tveir eða fleiri kennarar samábyrgir fyrir bekk eða námshópi að einhverju eða öllu leyti og undirbúa kennslu og kenna saman. Rannsóknin byggðist á gögnum úr spurningakönnunum meðal nemenda og starfsfólks í sex bekkjarkennsluskólum og níu teymiskennsluskólum úr rannsókn á starfsháttum í grunnskólum sem gerð var 2009–2013 (Gerður G. Óskarsdóttir, 2014). Rafrænir spurningalistar voru sendir starfsfólki skólanna í fjórum áföngum skólaárið 2009–2010, en könnun meðal nemenda var gerð í skólunum haustið 2010. Niðurstöður sýndu, eins og vænta mátti, að mun meiri áhersla var lögð á samvinnu í teymiskennslu­skólunum og hún var umfangsmeiri og nánari, en í bekkjarkennslu­skólunum. Fleiri kennarar í teymiskennsluskólunum áttu daglegt samstarf og fleiri unnu saman hlið við hlið; kenndu með öðrum kennara eða kennurum í sama kennslurými. Jafnframt voru fagleg tengsl teymiskennslukennara betri og þeir töldu sig fá betri stuðning skólastjórnenda. Samskipti nemenda í teymiskennslu­skólunum mældust betri en samskipti nemenda í bekkjarkennsluskólunum, og átti það hvort tveggja við um samskipti þeirra innbyrðis og við starfsfólk. Þá gáfu nemendur teymiskennslu­skólanna kennurum sínum betri einkunnir þegar þeir mátu viðhorf þeirra og viðmót í sinn garð, til dæmis hvort kennarar sýndu skoðunum þeirra áhuga, leiðbeindu þeim og hvöttu þá.

29.11.2017
Gísli Björnsson, Harpa Björnsdóttir, Kristín Björnsdóttir og Ragnar Smárason
Skærulist í þágu jafnréttis? Framlag karla með þroskahömlun til jafnréttisstarfa

Mikilvægt er að leita óhefðbundinna leiða til að gera sig gildandi innan fræðasamfélagsins og jafnréttisbaráttunnar og er svokölluð skærulist ein slík leið. Í nýrri grein í Netlu er fjallað um aðgerðir tveggja karla með þroskahömlun í þágu jafnréttis sem fóru fram í miðbæ Reykjavíkur sumarið 2016. Aðgerðirnar voru liður í verkefninu Jafnrétti fyrir alla sem styrkt var af Jafnréttissjóði og Rannsóknasjóði HÍ og hafði það að markmiði að skoða viðhorf karla með þroskahömlun til jafnréttismála og leita leiða til að virkja þá til þátttöku í jafnréttisstarfi. Aðgerðirnar voru í anda skærulistar (e. guerrilla art) sem sköpuð er í leyfisleysi þegar enginn sér til og felur í sér ádeilu á ríkjandi menningu og samfélagsskipan. Tilgangurinn er að vekja almenning til vitundar um samfélagsleg málefni. Í greininni er aðgerðunum lýst og hvernig þátttakendur sköpuðu sér rými í miðbænum þar sem þeir höfðu skilgreiningarvaldið og trufluðu gangandi vegfarendur sem stöldruðu við til að skoða veggspjöld, lásu falin skilaboð eða skrifuðu í ferðadagbækur. Aðgerðirnar voru liður í samvinnurannsókn þar sem karlar með þroskahömlun og ófatlaður háskólakennari unnu náið saman og allir aðilar voru virkir þátttakendur í rannsóknarferlinu. Samvinnurannsóknum er ætlað að vera valdeflandi og gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til að hafa áhrif á það hvernig fjallað er um líf þess og reynslu.

29.11.2017
Michael Dal, Guðbjörg Pálsdóttir og Sigurður Konráðsson
Faggreinakennsla á vettvangi : Sjónarmið og viðhorf kennaranema í meistaranámi í grunnskólakennarafræði

Að mati kennaranema hjálpar teymisvinna í vettvangsnámi þeim að sjá eigin kennslu í nýju ljósi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri grein í Netlu þar sem viðhorf kennaranema og mat þeirra á vettvangsnámi var rannsakað. Í greininni er fjallað almennt um vettvangsnám og hvernig það er skipulagt og framkvæmt í námskeiðinu Faggreinakennsla á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsakað var viðhorf kennaranema í grunnskólakennarafræði og mat þeirra á vettvangsnáminu. Einnig er gerð grein fyrir mismunandi viðhorfum fræðimanna til vettvangsnáms, vægi kennslufræða og faggreina og ekki síst eðli og formi þessa brýna en vandasama hluta kennaranáms. Verkefni og ritgerðir nema í námskeiðinu á árunum 2013–2015 voru greindar og niðurstöður skoðaðar í ljósi hugmynda og markmiða kennara námskeiðsins. Helstu niðurstöður um viðhorf nema eru þær að þeim finnst mjög áhugavert að vinna í teymi í vettvangsnáminu því þannig læri þeir mismunandi kennsluaðferðir og það hjálpi þeim að sjá eigin kennslu í nýju ljósi. Nemum finnst einnig gagnlegt að kynnast mismunandi hugsunarhætti og nálgun í faggreinum. Í námskeiðinu virðast þeir líta á vettvangsnámið sem samstarf sitt og kennara í grunnskóla. Einnig kemur fram að teymisvinna hvetji nema til að samþætta tvö eða fleiri viðfangsefni í kennslu og að þeir ræði um skólastarf og skólamenningu vettvangsskólans. Í umræðum eru niðurstöður ræddar í fræðilegu ljósi og bent á hvað hugsanlega mætti betur fara. Höfundar leggja áherslu á að niðurstöður þessarar rannsóknar á teymisvinnu benda til þess að huga mætti oftar að teymisvinnu þar sem hún á við í vettvangsnámi en hingað til. Enn fremur þarf að auka samstarf Menntavísindasviðs og vettvangsskóla.

29.11.2017
Kristín Þóra Möller og Hermína Gunnþórsdóttir
Frímínútur í tveimur grunnskólum: Fyrirkomulag og sjónarmið starfsfólks sem sinnir gæslu nemenda

Hér er sagt frá rannsókn sem fór fram í tveimur grunnskólum vorið 2014. Þar könnuðu höfundar skipulag frímínútna í skólunum tveimur, samspil frímínútna og skólabrags og hvernig agastefna hvors skóla um sig tengdist þessu skipulagi.
Um var að ræða viðtalsrannsókn þar sem viðmælendur voru fjórir, tveir í hvorum skóla. Einnig fóru fram vettvangsathuganir í í frímínútum við báða skólana og ýmis gögn um skólana greind, meðal annars niðurstöður þeirra í könnunum á vegum Skólapúlsins.
Niðurstöður gefa til kynna að viðmælendur virðast ósáttir við það hversu víðtækar starfslýsingar þeirra eru og að lítil sem engin formleg starfsþjálfun reynist vera í boði. Markviss agastefna virðist nýtast starfsfólki vel sem verkfæri, umfram almennar skólareglur, og allt bendir til þess að flestum nemendum líði vel í frímínútum. Þó gætir úrræðaleysis þegar kemur að agavandamálum í frímínútum skólanna tveggja, að mati viðmælenda. Með skipulegum leikjum og valkvæmum frímínútum væri að þeirra mati hægt að koma í veg fyrir aðgerðaleysi, agavandamál og einelti.

04.11. 2017
Berglind Rós Magnúsdóttir og Helga Hafdís Gísladóttir
„Þá er gott að fá einhvern utanaðkomandi… sem borin er virðing fyrir“: Bjargráð mæðra við skólagöngu einhverfra barna sinna í ljósi stéttakenningar Bourdieu

Niðurstöður rannsóknar á reynslu mæðra af samskiptum við kennara í ljósi ólíkrar stéttarstöðu benda til þess að félagsauður skipti miklu máli. Víkka þarf út skilgreiningar á stéttarhugtakinu að mati höfunda þannig að það nái einnig til félags- og menningarauðs. Markmið rannsóknarinnar var að skoða reynslu mæðra af samskiptum við kennara og annað fagfólk á menntavettvangi í ljósi ólíkrar stéttarstöðu. Meginefniviður rannsóknarinnar er sex hálfopin einstaklingsviðtöl við mæður grunnskólabarna á einhverfurófi og tvö upplýsingaviðtöl við sérfræðinga á vettvangi stjórnsýslu. Kenningarammi Bourdieu var nýttur til að greina hvernig bakgrunnur mæðranna, með áherslu á efnahags-, menningar- og félagsauð, markaði stöðu þeirra, samskipti og væntingar á vettvangi menntunar. Kerfisbundið aðgengi mæðranna að ráðgjöf og stuðningi varð minna, að eigin mati, eftir því sem barnið varð eldra, en þá fór auður þeirra og óformlegt aðgengi að skipta meira máli, og ljóst varð að mæður í millistétt stóðu þá betur að vígi. Félagsauður skipti sköpum og umbreytti stöðu móður í lægri stétt. Félagsauður barst í gegnum sterk fjölskyldutengsl, vinatengsl, tengsl við vinnufélaga og kunningja, og/eða tengsl við aðra foreldra með börn á einhverfurófi. Ólíkur menningarauður birtist í mismiklu a) sjálfsöryggi í samskiptum, b) þekkingu á leikreglum menntavettvangsins og c) virkni í samskiptum við kennara og sérfræðinga. Það er mat höfunda að nauðsynlegt sé að samhæfa betur kerfið milli skólastiga og tryggja að þar sé þekking á stéttamun og tekið sé tillit til hans. Víkka þarf út skilgreiningar á stéttarhugtakinu þannig að það nái einnig til félags- og menningarauðs og beita eigindlegri nálgun til að ná betur að greina ferli, bjargráð og aðgerðir sem ýta undir eða minnka stéttamun og birtingarmyndir hans í íslensku menntakerfi.

26.10. 2017
Áslaug B. Guttormsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir
Fósturbarn eins og kría á steini: Reynsla barna af fóstri og skólagöngu

Í þessari grein er sagt frá rannsókn á aðstæðum svonefndra fósturbarna og skólagöngu þeirra, þ.e. barna sem teljast jafnan ekki geta dvalið hjá foreldrum vegna erfiðra aðstæðna að mati barnaverndaryfirvalda. Til fósturráðstöfunar er gripið þegar talið er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin vegna framferðis foreldra eða vegna hegðunar barnsins. Rannsóknir benda meðal annars til að óstöðugleiki í fóstri geti haft neikvæð áhrif á námsgengi. Markmið þessarar rannsóknar var að athuga reynslu viðmælenda af fósturdvöl og skólagöngu, m.a. hvort þeir teldu að haft hefði verið samráð við þá um ákvarðanir. Um var að ræða viðtalsathugun með þátttöku- og barnmiðuðu sniði, þar sem reynt var að veita viðmælendum talsvert sjálfdæmi um tilhögun viðtala. Rætt var við fjóra unglinga á aldrinum 14 til 16 ára. Sumir höfðu dvalið á víxl í fóstri eða hjá foreldrum. Í niðurstöðum vöktu áföll og tíð skipti um skóla einna mesta athygli og það beindi meðal annars athygli að óstöðugleika af völdum fóstursins. Hvert barn hafði sótt 4–5 skóla. Á þeim tíma þegar rannsóknin var gerð höfðu börnin alls skipt um skóla 26 sinnum og lent í ýmsum vanda, t.d. einelti og óréttmætum ásökunum. Reynsla fósturbarnanna af skólagöngu var með ýmsu móti. Samvinna reyndist vera nokkur milli skóla og barnaverndarnefnda en samráð við börnin lítið og vinnuaðferðir virtust ekki efla þau sem skyldi. Erfitt reyndist að finna börn til að ræða við og strandaði þar mest á milliliðum sem þurfa að leyfa slíkt. Rannsóknin náði til fárra og var markmiðið því ekki að alhæfa um niðurstöður. Í ljósi þeirra má þó álykta að barnaverndarnefndir og skólar þurfi, a.m.k. stundum, að skilgreina betur frumkvæði, tryggja fósturbörnum meira öryggi og treysta betur námsgengi þeirra. Þess er vænst að niðurstöðurnar geti nýst til að efla menntun fósturbarna.

9.10. 2017
Magnús Þór Torfason og Margrét Sigrún Sigurðardóttir
Tengslanet nemenda og brottfall úr háskólanámi

Líkur á brottfalli háskólanema virðast minni eftir því sem tengslanet þeirra er stærra. Þetta eru niðurstöður rannsóknar á tengslaneti háskólanema sem sagt er frá í nýrri grein í Netlu. Brottfall nemenda úr háskólanámi hefur verið rakið bæði til akademískra og félagslegra þátta, svo sem þess hversu vel nemendur falla í hópinn. Í greininni eru tengslanet nemenda í háskólanámi til rannsóknar, sér í lagi hvort fjöldi tengsla í tengslaneti nemenda spái fyrir um námsárangur og brottfall. Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur möguleg áhrif tengslaneta nemenda á brottfall úr námi. Aðferðafræðilega er rannsóknin byggð á megindlegri greiningu gagna sem aflað var annars vegar með tvíþættri könnun og hins vegar úr nemendaupplýsingakerfi. Gögnum um tengslanet nemenda var safnað með spurningalista sem lagður var fyrir með til þess gerðu vefkerfi. Þátttakendur voru nemendur í skyldunámskeiði á fyrsta ári við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og er það í fyrsta skipti sem gögnum í þessu formi hefur verið safnað um háskólanemendur á Íslandi. Tölfræðileg greining gagnanna leiddi í ljós að fjöldi tengsla sem nemendur hafa við aðra nemendur í námskeiðinu hefur forspárgildi varðandi þá einkunn sem nemendur fá – nemendur fengu að jafnaði hærri einkunn eftir því sem tengslanet þeirra var stærra. Líkur á brottfalli voru einnig minni eftir því sem tengslanet nemenda var stærra. Þó er á því sú undantekning að tengsl við aðra nemendur sem hætta í námi spá fyrir um auknar líkur á brottfalli. Niðurstöðurnar varpa ljósi á mikilvæga félagslega þætti sem tengjast brottfalli úr háskólanámi og kunna að nýtast við að skipuleggja uppbyggingu náms þannig að nemendur séu líklegri til að ljúka því.

5.10. 2017
Brynhildur Þórarinsdóttir, Andrea Hjálmarsdóttir og Þór Bjarnason
Yndislestur á uppleið? Breytingar á lestrarvenjum drengja og stúlkna

Lestrarvenjur kynjanna eru bornar saman og skoðaðar í evrópsku samhengi í greininni Yndislestur á uppleið? Breytingar á lestrarvenjum drengja og stúlkna. Meginnniðurstöðurnar eru þær að 10. bekkingum sem hafna bókum fer hlutfallslega fækkandi. Dregið hefur saman með stúlkum og drengjum sem aldrei lesa bækur utan skóla, drengir eru ennþá í meirihluta bóklausra nemenda, en kynjamunurinn hefur minnkað. Umræðan um slakan lesskilning íslenskra unglinga, einkum drengja, hefur verið hávær undanfarin ár í kjölfar PISA prófanna í lesskilningi. PISA prófin sýna að lesskilningi íslenskra 15-16 ára unglinga hefur hrakað verulega frá árinu 2000, drengir eru mun fjölmennari en stúlkur í hópi slökustu nemendanna og athyglin hefur beinst að því hlutfalli drengja sem „les sér ekki til gagns“. Rannsóknir á bóklestri hafa að sama skapi sýnt minnkandi lestraráhuga barna og unglinga, og að drengir lesa að jafnaði minna en stúlkur. Markmiðið með rannsókninni sem lýst er í greininni var að kanna lestraráhuga 15-16 ára nemenda á Íslandi, og bera íslenska unglinga saman við unglinga annars staðar í Evrópu. Gögn eru fengin úr evrópsku ESPAD rannsókninni sem lögð er fyrir 15-16 ára unglinga í álfunni á fjögurra ára fresti. ESPAD 2015 gefur vísbendingar um að botninum sé náð hvað varðar bókleysi íslenskra unglinga. Íslensku drengirnir standa hlutfallslega betur en stúlkurnar í hinum evrópska samanburði, bæði í flokki bóklausra og bókhneigðra. Þessar niðurstöður sýna vel hversu einhliða mynd orðræðan um lestrarvanda drengja gefur af lestri unglinga.

3.10. 2017
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Sjálfbærnimenntun í aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla 2011: Samræmdar hugmyndir eða sundurlausar?

Höfundur þessarar greinar rannsakaði hvernig hugmyndir um sjálfbærni birtust í grunnþáttaköflum aðalnámskrár 2011 fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þótt sjálfbær þróun hafi vissulega verið þekkt hugtak meðal skólafólks og annarra í alllangan tíma var það ekki fyrr en í aðalnámskrá fyrir skólastigin þrjú árið 2011 sem hugtakið hlaut verðuga athygli sem mikilvægur þáttur í opinberri skólastefnu með því að sjálfbærni var gerð að einum af sex svokölluðum grunnþáttum menntunar. Textar námskránna voru lesnir og greindir með tilliti til hugtaksins sjálfbærni. Því næst var útbúinn greiningarlykill með þremur spurningum og ein þeirra með þremur undirspurningum. Sérhlutar námskrár hvers skólastigs, þar með talinn greinahluti aðalnámskrár grunnskóla, voru lesnir með þessar spurningar í huga. Niðurstöður sýna að hugtökin sjálfbær þróun og sjálfbærni koma sjaldan fyrir í sérhlutum námskránna, oftast þó í greinasviðshluta aðalnámskrár grunnskóla. Hugmyndirnar um sjálfbærni virðast vera útfærðar á ólíkan hátt eftir skólastigum en einnig á ólíkan hátt í mismunandi greinum grunnskóla. Oft virðist útfærslan vera fremur tilviljunarkennd og hugmyndirnar sundurlausar miðað við það sem kemur fram í kaflanum um grunnþætti. Markvissustu dæmin virðast vera í náttúrugreinum í grunnskóla þar sem sérstakur flokkur hæfniviðmiða er nefndur eftir lykilhugtakinu geta til aðgerða. Einnig eru hugmyndir um neytendafræðslu í anda grunnþáttanna víða í ólíkum námsgreinum grunnskólans.

3.10. 2017
Gunnar E. Finnbogason, Kristján K. Stefánsson og Annelise Larsen-Kaasgaard
Þróun viðhorfa grunnskólanema til lýðræðis í skólastarfi yfir fimm ára tímabil

Höfundar þessarar greinar beindu sjónum að hugmyndum nemenda í eldri árgöngum skyldunáms um lýðræði og lýðræðisþátttöku þeirra. Eitt meginmarkmið skólastarfs, samkvæmt núgildandi lögum og aðalnámskrá hérlendis, er að búa nemendur undir þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun. Samkvæmt þessu á grunnskólinn að vera sá vettvangur sem veitir nemendum svigrúm og tækifæri til að öðlast reynslu af lýðræðislegu starfi og vera þátttakendur í því. Höfundar könnuðu mögulegar breytingar á viðhorfum nemenda í þessum efnum yfir fimm ára tímabil, 2010 til 2015, þ.e. áður en núgildandi aðalnámskrá tók gildi og eftir að hún tók gildi. Niðurstöður gefa til kynna að viðhorf nemenda til lýðræðis í grunnskólum á Íslandi og lýðræðisþátttaka virðist hafa tekið mjög litlum breytingum á framangreindu tímabili. Engar breytingar var að finna á því sem kallað hefur verið frjálslynd lýðræðissjónarmið, svo sem tjáningarfrelsi og samkeppni í skólastofunni. Aftur á móti mátti greina smávægilega jákvæða breytingu á viðhorfum til þess sem kallað hefur verið samstarfslýðræði, þ.e. til þátttöku og samvinnu. Mikilvægi lýðræðisþátttöku að mati nemendanna virtist dala lítillega yfir þetta fimm ára tímabil. Niðurstöðurnar voru bornar saman við danska rannsókn frá árinu 2001 sem þessi rannsókn tók mið af. Enginn afgerandi munur fannst á viðhorfum dönsku og íslensku ungmennanna. Þó virtust frjálslynd lýðræðissjónarmið vera traustari hjá dönsku ungmennunum.

3.10. 2017
Hafdís Björg Hjálmarsdóttir og Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir
Háskólar, samstarf við fyrirtæki og áhugahvöt nemenda

Höfundar þessarar greinar hafa verið þátttakendur í samstarfsnetinu Nordic-Baltic Network for internationalization of SMEs, sem hefur það markmið að leiða saman þrjá hagsmunaaðila, þ.e. háskólakennara, nemendur og lítil eða meðalstór fyrirtæki, til að vinna að verkefnum er tengjast markaðssetningu. Háskólinn á Akureyri er aðili að umræddu samstarfsneti. Markmið samstarfsins er að þróa og miðla þekkingu um árangursríka alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Samkvæmt lögum um háskóla er það meðal annars hlutverk háskólastofnana að viðhafa tengsl við nærsamfélagið og ekki síst atvinnulífið. Með það fyrir augum lögðu höfundar upp með eftirfarandi rannsóknarspurningar: Hvers konar ávinningur hlýst af samstarfi háskólakennara, nemenda og fyrirtækja? Með hvaða hætti er best fyrir hópana að vinna verkefni þvert á landamæri? Hvað finnst nemendum um að vinna raunveruleg verkefni í samstarfi við fyrirtæki? Verkefnin sneru yfirleitt að markaðsmálum, þ.e.a.s. hvernig fyrirtækin gætu markaðssett sig og vöru sína eða þjónustu á erlendum markaði. Það kom skýrt fram í niðurstöðum hjá nemendum að þeim fyndist verkefnavinnan gefandi og að það gæfi námi þeirra aukið vægi og veitti þeim innblástur að vita að þeir væru að vinna fyrir raunveruleg fyrirtæki og niðurstöður þeirra yrðu mögulega nýttar af þeim í raun og veru. Greinarhöfundar telja þessar niðurstöður benda til þess að gefa eigi raunverulegum verkefnum aukið vægi í námi og að aukin áhersla á raunveruleg verkefni hafi jákvæð áhrif á áhugahvöt nemenda.

2.05. 2017
Gerd Grimsæth and Bjørg Oddrun Hallås
When travelling ideas meet local contexts: Norwegian teachers trying out ‘lesson study’

In the fields of school reform and teacher development, certain ‘globally travelling ideas’ have become significant. This article reports on a study of a small sample of Norwegian teachers trying out the Lesson Study (LS) idea that aimed to explore what happens when globally travelling reform ideas are enacted in local contexts. Specifically, the study considered the groups’ analyses of their jointly planned and videotaped research lessons. The research questions are: What do the teachers talk about when they are asked to collaborate in their analysis of their jointly planned research lesson? What does this reveal about the pre-existing norms of collaboration? The themes the teachers are discussing, are: (I) pupils’ task completion, (II) pupils’ behaviour, (III) teachers’ performance and (IV) the pupils and they themselves as professionals. In this study, it became evident that the participants’ lack of experience in collaboration or in using the LS had an impact on the analysis of their research lessons. The results are viewed in the light of the mediating role that local cultures of schooling and professionalism cast on the enactment of travelling ideas; specifically on the forms of collaboration among teachers.

18.06. 2017
Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Eygló Björnsdóttir
Aukið álag og áreiti: Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarf

Áhrif og afleiðingar efnahagshrunsins 2008 á starfsemi leikskóla eru tilefni rannsóknarinnar sem sagt er frá í greininni, Aukið álag og áreiti: Áhrif efnahagshrunsins á leikskólastarf, eftir þær Önnu Elísu Hreiðarsdóttur og Eygló Björnsdóttur. Rannsóknin fór fram vorið 2014 og hafði það að markmiði að leita svara við því að hvaða marki leikskólastjórar teldu að niðurskurður í kjölfar hrunsins hefði haft áhrif á starfsemi leikskóla, bæði hvað varðar rekstrarlega þætti og þætti sem snúa að faglegu starfi í leikskólanum. Rafrænn spurningalisti var sendur til 106 leikskólastjóra og var svarhlutfall 64%. Spurt var um þær aðstæður sem sköpuðust í leikskólanum eftir hrun, en einnig um mat leikskólastjóra á áhrifum þeirra. Spurningar voru bæði lokaðar og hálfopnar og megináhersla var lögð á að greina eigindleg svör. Niðurstöður sýna að efnahagshrunið hefur haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi leikskóla, ekki hvað síst á starfsmannahald, samráðsfundi kennara og stjórnun. Námskrárgerð og þróunarstarf hefur setið á hakanum og álag á skólastjóra og kennara hefur aukist. Aðrar íslenskar rannsóknir á áhrifum hrunsins á leikskólastarf hafa gefið svipaðar niðurstöður. Það gefur tilefni til að álykta að niðurskurður hafi komið niður á faglegu starfi og að hlúa hafi þurft betur að leikskólum fjárhagslega.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design