Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31.12.2013
Guðmundur Sæmundsson og Sigurður Konráðsson
Hvílík snilld! Íslenskt íþróttamálfar í fjölmiðlum og einkenni þess

Í greininni segir frá rannsókn á málfari í umfjöllun um íþróttir í fjölmiðlum. Notuð er orðræðu- og textagreining og leitað fanga í fræðigreinum eins og stílfræði, málsálarfræðum og félagsmálfræði. Unnið var úr efni úr prentmiðlum og útvarpi (hljóðvarpi og sjónvarpi) frá árinu 2008, auk viðbótargagna úr vefmiðlum frá árinu 2012. Þrír flokkar einkenna fundust, auk fyndni sem líta má á sem eins konar yfireinkenni. Fyrsti flokkurinn er ýkt orðafar, sem greinist í ýkjur og afdráttarleysi, hástigsnotkun og hástigsmerkingu, og tvöfaldar eða viðbættar ýkjur. Annar flokkurinn er nýjungar í máli, sem skiptist í nýyrði, ný orðatiltæki, nýmerkingar og nýjungar í málfræði. Þriðji flokkurinn fjallar um skáldmál, þar á meðal stuðla, rím og orðaleiki, auk vísana í bókmenntir; aðrar íþróttir; átök – meðal annars hermennsku, afbrot og aftökur; samskipti; umferð og tæki; og loks náttúru.

31.12.2013
Birna Arnbjörnsdóttir and Patricia Prinz
An English Academic Writing Course for Secondary Schools: A Pilot Study

Recently, the Department of English at the University of Iceland developed a series of special writing courses designed to enhance students’ English academic proficiency. One of the courses was deemed appropriate for secondary school. This article describes the adaptation and implementation of one of the university courses at the secondary level. The article outlines the art and architecture of the course, that focuses on awareness of different genres, demonstrations and scaffolded practice prior to production of academic text. The article presents some qualitative outcomes from a pilot iteration of the project. The findings suggest that students find writing less interesting than other activities such as watching movies, but that they recognize the future value of instruction aimed at enhancing their academic English proficiency.

31.12.2013
Jórunn Elídóttir
„… ég er fædd í Kína en á heima á Íslandi og ég er ættleidd og ég er stolt af því …“: Tvímenningarlegur heimur ættleiddra barna

Talið er mikilvægt fyrir börn sem ættleidd eru til Íslands erlendis frá haldi nokkrum tengslum við upprunalandið, að tengslin efli skilning barnanna á ættleiðingarferlinu og stuðli að þroska jákvæðrar sjálfsmyndar. Í greininni er fjallað um tvímenningarlega félagsmótun ættleiddra barna og rýnt í fræðin til að skýra og skilgreina hvað átt er við þegar fjallað er um þessi málefni. Kynnt er rannsókn þar sem rafræn spurningakönnun var send til tíu telpna sem allar voru ættleiddar frá Kína. Þær voru meðal annars spurðar um uppruna sinn og tengsl við upprunalandið. Með rannsókninni var leitast við að skilja hvað telpurnar telja mikilvægt við þau tengsl og uppruna sinn og greina hvað þeim finnst um að vera ættleiddar frá Kína.

31.12.2013
Anna Lilja Sævarsdóttir, Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Hermína Gunnþórsdóttir
Foreldrasamstarf og fjölmenning: Samskipti deildarstjóra í leikskóla við erlenda foreldra sem ekki tala íslensku

Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 er lögð rík áhersla á foreldrasamstarf og jafnrétti. Deildarstjórar í leikskólum bera höfuðábyrgð á samvinnu sinnar deildar við foreldra og áhugavert þótti að greina reynslu þeirra af því samstarfi með tilliti til fjölmenningar og menningarlegs margbreytileika. Í greininni er fjallað um hluta af niðurstöðum rannsóknar á reynslu deildarstjóra í leikskólum af samskiptum við erlenda foreldra sem ekki tala íslensku. Markmið rannsakenda var að fá sem raunsannasta mynd af reynslu deildarstjóranna af þessari hlið í fjölmenningar í skólum og þeim björgum sem þeir nýttu sér í starfi. Gagna var aflað með megindlegum rannsóknaraðferðum, rafrænum spurningalista var beint til deildarstjóra í 91 leikskóla vítt og breitt um landið. Svörin varpa ljósi á tvo mikilvæga þætti í starfi leikskóla, fjölmenningu og samstarf við foreldra.

31.12.2013
Helgi Skúli Kjartansson
Skóli gegn skólakerfi: Um baráttu Menntaskólans á Akureyri gegn nýmælum fræðslulaganna 1946

Greinin fjallar um tilurð og sögu miðskóladeildar Menntaskólans á Akureyri (1948–1964). Um hana hefur áður verið ritað frá sjónarmiði stofnanasögu og persónusögu stjórnenda, bæði Menntaskólans og Gagnfræðaskóla Akureyrar. Hér er þess freistað að líta á atburði úr meiri fjarlægð, túlka hagsmuni skólanna tveggja og nemenda þeirra í tengslum við þróun gagnfræðastigsins og nýtt skólakerfi samkvæmt fræðslulögum frá 1946. Jafnframt gefst í greininni tilefni til að tengja söguefnið atriðum sem enn eru til umræðu í menntamálum: hvort sé betra samræmt skólakerfi eða ólíkir valkostir, hvort sjálfræði einstakra skóla hæfi betur einkaskólum en opinberum skólum, hvort gott sé að stytta röskum nemendum leið um skólakerfið og hvort gott sé að eftirsóttir skólar geti valið úr nemendum.

29.12.2013
Allyson Macdonald
An emerging research ethos 1998–2004: A case study from a merger in teacher education in Iceland

The aim of this case study is to identify factors that influenced the research culture and the emerging research ethos in the Iceland University of Education (i. Kennaraháskóli Íslands) formed in 1998 when four organizations merged. The study analyses published documents, summaries of research activity and other information, collected between 1998–2004, to describe internal assimilation and external adaptation. Attempts were made to strengthen the research infrastructure in the institution as staff members grappled with the need to engage in discovery, the scholarly activity defined by Boyer (1990) to be most like research. There was some conflict between the tendency of staff to work on integration and application, and the external pressure to further develop discovery as a scholarly activity, while the ethos of research activity was one of cautious optimisim about the value of research and growing self-confidence in carrying it out.

27.12.2013
Amalía Björnsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir
Langtímarannsókn á forspárgildi málþroskaathugana við 5–6 ára aldur um síðari líðan og reynslu

Tilgangur rannsóknarinnar sem hér segir frá var að kanna hvort málþroskamælingar við fimm ára aldur spái fyrir um ýmsa félagslega og sálræna þætti síðar á lífsleiðinni. Árin 1997 og 1998 var athugaður málþroski 267 leikskólabarna. Þessi börn eru nú orðin fullorðin, 18 og 19 ára, og voru beðin að svara rafrænum spurningalista um þætti á borð við reynslu þeirra af grunnskólagöngu, hvort þau hafi verið greind með þætti sem hamla námi og hvort þau hafi stundað nám að loknum grunnskóla. Niðurstöður sýndu marktæk tengsl milli árangurs á HLJÓM-2-prófinu og margra þessara þátta. Höfundar telja að með betri samvinnu og samskiptum um viðbrögð við niðurstöðum á HLJÓM-2 milli leikskóla og grunnskóla mætti koma betur til móts við þarfir nemenda í áhættu og draga úr eða koma í veg fyrir neikvæða reynslu þeirra í grunnskóla.

27.12.2013
Guðrún Björg Ragnarsdóttir og Anna-Lind Pétursdóttir
„Uss, ég er að vinna!“: Áhrif einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika

Í greininni segir frá rannsókn á áhrifum einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu á námsástundun grunnskólanemenda með hegðunarerfiðleika. Þátttakendur voru fjórir drengir á aldrinum sjö til átta ára sem höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í fimm til sjö ár þrátt fyrir ýmis úrræði. Þrír þátttakenda voru greindir með ADHD, tveir með mótþróaþrjóskuröskun, einn með ódæmigerða einhverfu og einn með almenna kvíðaröskun og Tourette-heilkenni. Virknimat fólst í viðtölum og beinum athugunum til að finna út hvað hefði áhrif á hegðunarerfiðleika þátttakendanna. Kennarar fylgdu áætlununum eftir undir handleiðslu sérkennara og sérfræðings í atferlisíhlutun. Niðurstöður eru í samræmi við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að auka sjálfstæða námsástundun nemenda og viðhalda bættri færni með því að draga smám saman úr umfangi íhlutunar.

17.12.2013
Eygló Björnsdóttir, María Steingrímsdóttir og Sigríður Margrét Sigurðardóttir
Innleiðing á Byrjendalæsi – Viðhorf og reynsla kennara

Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt er að greina reynslu kennara af innleiðingu á læsisaðferðinni Byrjendalæsi samkvæmt starfsþróunarlíkani, kanna viðhorf kennaranna í því sambandi og skoða hvaða áhrif þátttaka hefur haft á starfsþroska þeirra. Ráðgjafar um aðferðina við Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri (MSHA) söfnuðu matsgögnum um mat kennara á aðferðinni og líkaninu. Í rannsókninni er byggt á gögnum frá 2009 til 2012, bæði einstaklingsmati og hópmati. Niðurstöður benda til ánægju með aðferðina og starfsþróunarlíkanið sem henni fylgir. Kennarar telja vel haldið utan um innleiðinguna af hálfu MSHA og að það auðveldi þeim að tileinka sér aðferðina. Hins vegar koma einnig fram vísbendingar um óöryggi í hópi kennaranna. Þeir kalla eftir meiri stuðningi við framkvæmd aðferðarinnar í starfi með nemendum.

6.12.2013
Þuríður Jóhannsdóttir [Thurídur Jóhannsdóttir]
‘What we wanted to do was to change the situation’: Distance teacher education as stimulation for school development in Iceland

The article describes the origin of a distance programme for teachers first offered at the Iceland University of Education in 1993 in response to a lack of qualified teachers in rural Iceland. Student teachers were teaching in their home districts while enrolled in the programme, which was organized as a combination of campus-based sessions and home study, communicating with university lecturers via the Internet. The purpose of the article is to enhance understanding of the inception of the programme and shed light on the way in which student teachers’ participation in the distance programme enabled them to stimulate school development.

4.12.2013
Anna Magnea Hreinsdóttir
„Hversu lýðræðisleg á ég að vera?“ Þróunarstarf um lýðræði og mannréttindi í leikskólanum Árbæ

Í greininni er fjallað um þróunarstarf og starfendarannsókn við leikskólann Árbæ. Tilgangur með þróunarverkefninu var að efla lýðræðisleg vinnubrögð í leikskólanum og stuðla að fræðslu og umræðum meðal starfsfólks um lýðræðislegan skólabrag og hvað í honum fælist, lýðræðisleg viðhorf og starfshætti. Einnig var með verkefninu ætlunin að leita eftir hugmyndum frá starfsmannahópnum um starfshætti sem styrkt gætu lýðræðislegan skólabrag í leikskólanum, reyna þær hugmyndir einn vetur í daglegu starfi og meta verkefnið að því loknu. Loks átti að semja námskrá í lýðræði fyrir leikskólann og láta reyna á hana í starfi. Niðurstöður eftir einn vetur benda til þess að starfendarannsóknin og þróunarstarfið hafi haft áhrif á starfsaðferðir og viðhorf starfsfólks við skólann.

3.12.2013
Anh-Dao Tran og Hanna Ragnarsdóttir
Framtíð í nýju landi: Þróunarverkefni með innflytjendum í framhaldsskólum

Framtíð í nýju landi (FÍNL) var tilraunaverkefni um stuðning við víetnömsk ungmenni á Íslandi. Almennt má segja að víetnömsk ungmenni hafi komið sér áfram í íslensku samfélagi. Ungmennin sem þátt tóku í rannsókninni höfðu flest gert tilraunir til að snúa aftur í skóla til að læra íslensku eða einhverja iðngrein en hætt aftur, aðallega vegna slakrar íslenskukunnáttu, skorts á heppilegum íslenskunámskeiðum, skorts á innri hvatningu og sjálfsvirðingu og erfiðra fjölskylduaðstæðna. Þau fengu aðstoð við heimanám, stuðning frá mentorum og annan skipulagðan stuðning og ráðgjöf. Með verkefninu var stutt við þátttakendur og stuðlað að umbótum til að liðsinna ungu fólki af erlendum uppruna. Þróað var líkan til nota hvar sem henta þykir í heiminum til að lýsa því hvernig þeir, sem mest áhrif hafa á framgang ungra innflytjenda og annarra ungmenna, sem eiga undir högg að sækja, geta unnið saman til að auðvelda skólagöngu þeirra og aðlögun.

2.12.2013
Jóhanna Einarsdóttir, Arna H. Jónsdóttir og Bryndís Garðarsdóttir
Sjónarmið leikskólakennara og leiðbeinenda: Áherslur og verkaskipting í leikskólastarfi

Rannsóknin sem hér segir frá var unnin í samvinnu við tvo norska háskóla. Gögnum fyrir íslenskan hluta rannsóknarinnar var safnað með spurningakönnun sem send var í alla leikskóla hér á landi veturinn 2011–2012. Niðurstöður leiða í ljós að óljós verkaskipting virðist vera milli leikskólakennara og leiðbeinenda í íslenskum leikskólum hvað snertir dagleg störf. Báðir hópar segjast sinna daglegri umönnun barnanna og taka þátt í leik þeirra og hreyfingu. Báðir hópar segjast leggja mikla áherslu á virka þátttöku, tjáningu, félagsfærni, leik og uppeldi barnanna. Hins vegar sögðust fleiri leikskólakennarar en leiðbeinendur leggja áherslu á nám og afmarkaða þætti tengda námssviðum leikskólans. Leikskólakennararnir virtust líka bera meiri ábyrgð á samskiptum við foreldra og umönnun og menntun barna með sérþarfir.

3.10.2013
Árný Helga Reynisdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Fleiri vindar blása: Viðhorf reyndra framhaldsskólakennara til breytinga í skólastarfi 1986–2012

Höfundar þessarar greinar tóku viðtöl við tólf reynda kennara í fjórum framhaldsskólum til að varpa ljósi á reynslu þeirra af breytingum í starfi sínu frá útgáfu fyrstu samræmdu námskrárinnar fyrir framhaldsskóla árið 1986. Niðurstöður benda til þess að hlutverk kennaranna hafi breyst töluvert og viðhorf nemendanna líka, þeim finnst ekki lengur „merkilegt“ að vera í framhaldsskóla, þeir gera kröfur um athygli sem einstaklingar og eru síður pólitískt meðvitaðir. Aðalnámskráin frá 1999 var flestum viðmælendum minnisstæð og ný aðalnámskrá frá 2011 fékk fremur jákvæða dóma, þótt ýmislegt hafi þótt óljóst um hvernig ætti að útfæra suma þætti hennar í skólastarfinu.

3.10.2013
Sigrún Erla Ólafsdóttir og Sigrún Aðalbjarnardóttir
„Til þess að aðrir virði mann verður maður að virða sig sjálfur“: Sýn grunnskólakennara á virðingu í starfi

Hér segir frá rannsókn þar sem rýnt var í sjálfsvirðingu kennara og reynslu þeirra af virðingu annarra fyrir kennarastarfinu. Jafnframt var markmiðið að leita eftir því hvernig þeir telja vænlegt að efla sjálfsvirðingu kennara og virðingu í samfélaginu fyrir kennarastarfinu. Viðtöl voru tekin við sex grunnskólakennara á höfuðborgarsvæðinu, þrjár konur og þrjá karla. Rannsóknin leiðir í ljós að kennararnir telja sjálfsvirðingu kennara og virðingu annarra á störfum þeirra þýðingarmikla í mörgu tilliti. Af niðurstöðum má líka greina ýmsar leiðir til að efla sjálfsvirðingu kennara og jákvæð viðhorf til kennarastarfsins.

3.10.2013
Helga Rut Guðmundsdóttir
Tónlistarþroski ungbarna og tónlistaruppeldi: Yfirlitsgrein

Í greininni er lýst þekkingu á tónlistarhæfni ungbarna og farið yfir áhugaverða möguleika sem felast í tónlistariðkun og tónlistaruppeldi á fyrstu árum barnsins. Farið er yfir helstu niðurstöður rannsókna á tónskyni ungbarna á fyrsta ári og fyrstu tilburðum þeirra til tónlistarlegrar hegðunar. Því er lýst hvernig almennt tónlistaruppeldi og skipulögð tónlistariðkun með ungbörnum getur tekið mið af þekkingu á næmi ungbarna fyrir tónlist. Af skipulögðum rannsóknum á ungbörnum má draga þann lærdóm ekki megi vanmeta tónlistar- og vitsmunalega hæfni ungbarna. Á eðlislægri tónlistarhneigð ungra barna má byggja ýmsa viðleitni sem stuðlar að þroska og góðri líðan.

20.9.2013
Kristín Bjarnadóttir
Stærðfræðimenntun á tuttugustu öld: Áhrif Ólafs Daníelssonar

Ólafur Dan Daníelsson (1877–1957) lauk Mag.Scient.-prófi í stærðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla árið 1904, gaf út Reikningsbók árið 1906 og lauk við doktorsritgerð á sviði rúmfræði árið 1909, fyrstur Íslendinga. Meðal kennara hans var Julius Petersen, kunnur kennslubókahöfundur. Ólafur réðst að Kennaraskóla Íslands við stofnun hans 1908 og mótaði síðar stærðfræðideild við Menntaskólann í Reykjavík. Ólafur samdi fjórar kennslubækur í stærðfræði og varð öðrum fyrirmynd. Kennsla hans og kennslubækur, sér í lagi í reikningi og algebru, mótuðu stærðfræðimenntun á Íslandi fram á miðjan áttunda áratug tuttugustu aldar. Afstaða Ólafs var strangfræðileg, hann taldi taldi stærðfræði fullkomnasta vísindagreina og vildi skýra hana frá rótum.

19.9.2013
Gísli Þorsteinsson og Brynjar Ólafsson
Viðhorf kennara til ákvarðanatöku nemenda í hönnun og smíði

Greinin fjallar um rannsókn á viðhorfum grunnskólakennara til ákvarðanatöku nemenda í hönnun og smíði. Einkum var horft til nemenda á aldrinum 12 til 14 ára og könnuð tækifæri sem kennarar í greininni veita þeim til að taka eigin ákvarðanir. Fjallað var um námskrá grunnskóla í námsgreininni, viðhorf kennaranna til kennarahlutverksins og hvaða möguleika þeir töldu sig hafa til þess að ýta undir og þroska færni nemenda að þessu leyti. Af niðurstöðum má álykta að námskráin bjóði upp á mörg tækifæri til þess að taka ákvarðanir um hönnun og smíði verkefna en geri kröfur sem erfitt getur reynst að mæta í skólastarfi.

20.8.2013
Henry Alexander Henrysson
Skoðanir, siðferði, samfélag: Enn um gagnrýna hugsun

Skortur á gagnrýninni hugsun hefur verið mikið í umræðunni í íslensku samfélagi undanfarin ár. Sú umræða hefur meðal annars náð inn í nýja aðalnámskrá. Skilningur á þessu hugtaki virðist þó ekki hafa aukist í jöfnu hlutfalli við aukna umræðu. Jákvæðri og skapandi hugsun er jafnvel teflt fram sem nauðsynlegu mótvægi við gagnrýna hugsun. Í þessari grein er leitast við að lýsa mismunandi túlkunum á hugtakinu með því að svara þeirri spurningu hvort gagnrýnin hugsun sé ekki einmitt jákvæð, skapandi og uppbyggileg.


Ritstýrðar greinar

17.9.2013
Ingvar Sigurgeirsson, María Guðmundsdóttir og Bylgja Dögg Sigurbjörnsdóttir
Leikur að möguleikum: Umbótastarf í Grunnskólanum á Bakkafirði

Í örsmáu sjávarþorpi á Norðausturlandi hafa kennarar gengið lengra en almennt gerist í þá átt að leyfa grunnskólanemendum að taka ábyrgð á eigin námi. Í íslensku og stærðfræði vinna elstu nemendur skólans eftir einstaklingsbundnum áætlunum sem þeir eiga sjálfir þátt í að móta. Í samfélagsgreinum og náttúrufræði fást þeir við fjölbreytt og sjálfstæð viðfangsefni, ýmist einir eða fleiri saman. Nemendur ráða miklu um viðfangsefni sín og efnistök og áhugi þeirra hefur farið fram úr björtustu vonum. Í greininni er sagt frá aðdraganda þessara kennsluhátta og gefin dæmi um verkefni sem nemendur hafa valið að fást við.

10.9.2013
Sigrún Daníelsdóttir
Áhugi og nýting á námsefninu Vinir Zippýs í grunnskólum á Íslandi

Vinir Zippýs er lífsleikninámsefni fyrir 5–7 ára börn sem miðar að því að efla bjargráð ungra barna og hæfni þeirra til að takast á við erfiðleika í lífinu. Embætti landlæknis stóð fyrir nafnlausri netkönnun á meðal starfsfólks grunnskóla til að kanna núverandi stöðu og nýtingu á námsefninu hér á landi. Niðurstöður sýna að góð reynsla er komin á kennslu námsefnisins Vinir Zippýs í grunnskólum landsins og þeir sem hafa reynslu af kennslu þess greina frá mikilvægum ávinningi fyrir börn. Vert er að hvetja kennara í leikskólum og yngsta stigi grunnskóla til þess að kynna sér þetta námsefni.

6.9.2013
Hildigunnur Bjarnadóttir og Margrét Sverrisdóttir
Samvinna kennara: Samvinnunámsteymi í Öldutúnsskóla skólaárin 2010–2012

Greinin fjallar um hóp grunnskólakennara sem þróaði starf sitt með samvinnunámi í kennslu. Hópurinn varð til í tengslum við meistaraprófsritgerðir höfunda sem þeir skrifuðu veturinn 2010–2011. Um er að ræða tvær sjálfstæðar starfendarannsóknir sem tengdust á þann hátt að rannsakendur tóku báðar þátt í þróunarvinnu í samvinnu við aðra kennara um að auka hlut samvinnunáms í skólastarfinu. Því er lýst hvernig hópi kennara gengur að tileinka sér hugmyndafræði og aðferðir samvinnunáms og miðla reynslu sinni innan hópsins.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design