Almennt um tímaritið

Í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun eru birtar fræðilegar ritrýndar greinar á íslensku og ensku en einnig ritstýrðar frásagnir af þróunarstarfi, umræðugreinar, hugleiðingar, pistlar, viðtöl, ritfregnir og ritdómar um uppeldis- og menntamál. Þegar við á er leitast við að nýta kosti vefsins sem miðils og höfundar hafa í nokkrum tilvikum birt efni með hljóðdæmum og lifandi myndum. Sérrit hafa ýmist verið þemabundin eða tengd ráðstefnum um menntavísindi og birt ritrýnt efni og greinar af fræðilegum toga.

Mest efni í tímaritinu er á íslensku en ritrýndum greinum fylgja útdrættir á ensku og hvatt er til birtingar greina á ensku og alþjóðlegum grunni. Birting greina á öðrum tungumálum getur komið til álita. Öllum innan lands og utan er heimilt að senda efni í ritið og allt efni tengt uppeldi og menntun er tekið til athugunar hjá ritstjórn hvort sem byggt er á rannsóknum og fræðastarfi eða innsýn og reynslu.

Ritnefnd skipa akademískir starfsmenn á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og eru ráðgefandi fyrir ritstjóra tímaritsins. Sérrit Netlu og ráðstefnurit hafa að jafnaði lotið sérstakri ritstjórn á vegum Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands í samráði og samvinnu við ritstjórn Netlu.

Ekki er um fastan útgáfutíma að ræða í Netlu – Veftímariti um uppeldi og menntun heldur birtist efni um leið og það er tilbúið. Hægt er að skrá sig á póstlista og fá öðru hverju sendar tilkynningar um nýtt efni. Þeir sem hafa áhuga á að koma efni á framfæri í ritinu geta snúið sér til ritstjóra. Athugið að ekki er tekið við innsendum greinum í desember. Ritstjórnir ráðstefnurita og sérrita Netlu kalla sérstaklega eftir efni í þau.

Allar greinar allt frá stofnun ritsins 2002 ásamt ráðstefnu- og sérritum frá 2009 má finna á vefsetri Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun á slóðinni https://netla.hi.is. Allar ábendingar um útgáfuna eru vel þegnar.