Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.
Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.
Ritrýndar greinar
16.12. 2024
Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Helga Eden Gísladóttir, Þórhildur Guðjónsdóttir og Linda Bára Lýðsdóttir
Tíðni kulnunareinkenna og skýringar á kulnun starfsfólks í háskólum á Íslandi
Erlendar rannsóknir sýna að háskólakennarar upplifa mikið álag í starfi og að tíðni kulnunareinkenna meðal þeirra er há, ekki síður en hjá kennurum annarra skólastiga. Hér á landi hafa kulnunareinkenni meðal háskólakennara ekki verið rannsökuð áður, en í starfsumhverfiskönnun Háskóla Íslands segjast 80% akademískra starfsmanna upplifa mikið vinnuálag. Kulnunareinkenni, svo sem örmögnun, hugræn og tilfinningaleg skerðing, og skyn-, hjartsláttar-, og meltingartruflanir, eru afleiðing langvarandi vinnuálags og ofvirkni streitukerfa líkamans. Í þessari rannsókn var tíðni kulnunareinkenna metin með netkönnun meðal félagsfólks í Félagi háskólakennara og Félagi prófessora við ríkisháskóla, N = 624.
Niðurstöður sýna að 36% svarenda eru í mikilli eða mjög mikilli hættu á kulnunarröskun, en að tíðni og alvarleiki einkenna fari eftir stöðu innan háskólanna.
16.12. 2024
Rósa Aðalsteinsdóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen og Lóa Guðrún Gísladóttir
Í þessari eigindlegu rannsókn voru tekin viðtöl við fjórar mæður og fjóra feður sem hafa reynslu af uppeldi eigin barna og starfi með börnum. Markmiðið var að kanna sýn þeirra á megináskoranir í uppeldi samtímans og leiðir til að efla markvisst seiglu og farsæld barna. Í niðurstöðum kom fram að ein helsta áskorun foreldra samtímans fælist í að halda of mörgum boltum á lofti samtímis, sem drægi úr samveru og dýpri samræðum þar sem hlúð væri að félags- og tilfinningalæsi barna. Þá einkenndist nútímauppeldi af litlum mörkum og að foreldrar forðuðust að leiðbeina um þroskaða hegðun og farsælar lausnir, meðal annars í samskiptum. Mikil samfélagsmiðlanotkun barna og fullorðinna væri jafnframt til þess fallin að draga úr félagslegum samskiptum innan heimilisins og minnka tengsl barna og virkni utan skjásins.
9.12. 2024
Charlotte E. Wolff, Renata Emilsson Peskova, Samúel Lefever, Susan E. Gollifer
Shifting trends in communicative English language teaching in Icelandic compulsory schools
6.12. 2024
Aðalheiður Anna Erlingsdóttir, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson og Valgerður S. Bjarnadóttir
Kynjað starfsumhverfi kvenkyns nýliða í grunnskólakennslu
Rannsóknin er um hvernig nýlega brautskráðum kvenkyns kennurum í grunnskólum vegnaði í starfinu fyrstu árin, að hvaða leyti starfsumhverfi þeirra var kynjað og kvenvætt, og hvað reyndist styðjandi og hvað krefjandi. Greinin er byggð á viðtölum við fjóra kvenkyns nýliða sem rætt var við þrisvar til fjórum sinnum, á eins til tveggja ára tímabili. Viðmælendum fannst munur á væntingum og kröfum til stuðningsfulltrúa innan skólanna eftir kyni. Minni kröfur væru gerðar til karlkyns stuðningsfulltrúa og þá virtust þeir bera minni ábyrgð. Í stöku tilvikum fannst þeim sama viðhorf eiga við um karlkyns kennara. Þeir styðjandi og krefjandi þættir sem voru mest áberandi voru víðtækt teymissamstarf kennaranna og samstarf við stuðningsfulltrúa.
15.11. 2024
Anna Magnea Hreinsdóttir
Sameiginlegir leikheimar barna og leikskólakennara
13.11. 2024
Laufey Elísabet Löve
Réttur fatlaðs fólks til samráðs: Þróun námsefnis í þroskaþjálfafræði
Rannsóknin sem hér er gerð grein fyrir snýr að rétti fatlaðs fólks til samráðs um málefni sem varða hagsmuni þess samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (Stjórnarráð Íslands, e.d.). Í ljósi áherslu nefndar samningsins, sem hefur eftirlit með innleiðingu hans, á mikilvægi þess að túlka réttinn til samráðs vítt var ákveðið að beina sjónum að þróun námsefnis í námskeiði á fyrsta ári í BA-námi í þroskaþjálfafræðum við Háskóla Íslands. Þroskaþjálfar sem starfsstétt vinna að því að raungera rétt fatlaðs fólks til fullrar samfélagsþátttöku og því er ljóst að fatlað fólk á mikilla hagsmuna að gæta í menntun þroskaþjálfa. Miklu skiptir því að hlustað sé eftir reynslu þess og mati á eigin hagsmunum og þörfum við þróun námsefnis. Við gerð rannsóknarinnar var sérstaklega horft til samráðs við fólk með þroskahömlun sem oft reiðir sig mikið á þjónustu þroskaþjálfa og rannsóknir hafa jafnframt sýnt að hafi oft takmarkaða möguleika til að koma sjónarhorni sínu og reynslu á framfæri við ákvörðunartöku og stefnumótun. Niðurstöður gáfu til kynna mikilvægi samráðs við þróun námsefnis og gildi þekkingar og reynslu fatlaðs fólks við mat á hvaða þætti mikilvægt er að leggja áherslu á í námi þroskaþjálfa.
30.10. 2024
Eyrún María Rúnarsdóttir
Á samfélagsmiðlum eru byggðar brýr: Netvinátta unglinga í félagslega viðkvæmri stöðu
Tengsl finnast á milli mikillar skjá- og samfélagsmiðlanotkunar unglinga og aukinna kvíða- og þunglyndiseinkenna. Jafnframt sýna rannsóknir að samfélagsmiðlar skapa unglingum tækifæri til að stofna til samskipta, til sjálfsmyndarþróunar og auka tilfinningu þeirra fyrir að tilheyra. Samkvæmt tilgátu um félagslega uppbót gætu ungmenni með slök tengsl við jafnaldra í raunheimi bætt sér þau upp með tengslum á netinu. Markmið rannsóknarinnar er að kanna líðan unglinga eftir fjölda vina í raunheimi og netheimi. Til rannsóknar eru tengsl vinafjölda unglinga og líðanar eftir því hvort uppruni unglinga er íslenskur eða ekki og eftir einkennum félagskvíða. Niðurstöður sýndu marktæka en veika fylgni sálrænnar líðanar og fjölda vina á netinu; því fleiri netvini sem ungmenni áttu þeim mun verr leið þeim.
23.10. 2024
Anna Magnea Hreinsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir
Félags- og tilfinningahæfni: Lykill að farsæld barna. Um þróunarverkefni í fimm leikskólum
Félags- og tilfinningahæfni er mikilvægur þáttur í menntun leikskólabarna og undirstaða frekara náms og þátttöku í lýðræðissamfélagi. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvernig starfsfólk leikskóla þróaði leiðir til að styðja við félags- og tilfinningalegt nám barna í leik og daglegu starfi og hlúa að vináttu þeirra og samskiptum. Tilgangurinn var að varpa ljósi á hvernig hægt sé að styðja við félags- og tilfinningahæfni barna í leik og daglegu starfi í leikskólum. Þróunarverkefni fór fram í fimm leikskólum í einu sveitarfélagi. Niðurstöður sýna að stjórnendur leikskólanna töldu mikilvægt að styðja við félags- og tilfinninganám barna í gegnum leik og daglegt starf, vera til staðar í leiknum, fylgjast með honum og styðja við samskipti barnanna í leiknum. Þrátt fyrir þessi viðhorf og þekkingu leikskólastjórnendanna reyndist erfitt að koma þessu í framkvæmd.
4.10. 2024
Auður Pálsdóttir, Sigríður Ólafsdóttir og Örn Þór Karlsson
Málnotkun fjöltyngdra nemenda og tengsl við mat þeirra á eigin íslenskufærni
Markmið rannsóknarinnar voru að afla upplýsinga um hvernig fjöltyngdir nemendur í 6.–10. bekk Fellaskóla nota íslensku, ensku og móðurmál, hvernig þau meta færni sína í tungumálunum og hvort tengsl séu á milli málnotkunar og mats þeirra á íslenskufærni sinni. Hvatinn að rannsókninni var að afla upplýsinga svo skipuleggja megi markvissari kennslu og stuðning við fjöltyngda nemendur skólans til eflingar læsisfærni þeirra í íslensku. Helstu niðurstöður eru að íslenska var megintungumálið sem notað var í kennslustundum, en nemendur notuðu bæði íslensku og ensku í frímínútum og aðallega ensku við lestur á netinu.
12.8. 2024
Guðmundur Engilbertsson og Fjóla Björk Karlsdóttir
Skipulag og eftirfylgni stuðnings við lestur á yngsta stigi grunnskóla séð með augum læsisfræðinga
Skipulag og eftirfylgni stuðnings við lestur á yngsta stigi grunnskóla séð með augum læsisfræðinga. Í greininni er fjallað um niðurstöður viðtala við starfandi læsisfræðinga þar sem reynt var að fá innsýn í skipulag við lestrarnám nemenda sem þurfa á auknum stuðningi að halda í skólum sem búa að góðri fagþekkingu í lestrarfræðum. Hugað var sérstaklega að stefnumörkun og aðgerðaáætlunum er varða kennslu, hvernig mati væri háttað, hvers kyns matstæki væru notuð og hvernig stuðningi við nemendur og eftirfylgni í tengslum við hann væri hagað. Helstu niðurstöður voru þær að reglulega er skimað á fyrstu árum í grunnskóla en ítarleg greining á lestrarvanda á sér ekki stað fyrr en í þriðja bekk.
22.7. 2024
Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Hrönn Pálmadóttir
Starfsfólk leikskóla þróar eigin starfshætti með ungum börnum
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna reynslu leikskólakennara og leiðbeinenda af þátttöku í starfendarannsókn þar sem tilgangurinn var að ýta undir starfsþróun og fagmennsku í leikskólastarfi með ungum börnum. Í rannsókninni er litið á starfsþróun sem formlega og óformlega menntun sem dýpkar og bætir hæfni og þekkingu kennara. Niðurstöðurnar sýna að starfsfólki fannst rannsóknarferlið bæði lærdómsríkt og valdeflandi. Þessi rannsókn bætir við þekkingu á hvernig starfendarannsóknir geta verið áhrifarík nálgun fyrir starfsþróun kennara og leiðbeinenda. Jafnframt varpar hún ljósi á mikilvægi þess að leikskólakennarar og aðrir sem starfa með börnum fái tækifæri og tíma til ígrundunar svo bæta megi starfshætti og menntun ungra barna.
4.6. 2024
Anna Ólafsdóttir og Sólveig Zophoníasdóttir
„Ég hreinlega get ekki beðið eftir að hefjast handa“: Áhugahvöt og virkni nemenda í háskólanámi
Greinin segir frá rannsókn höfunda á þremur námskeiðum áherslusviðsins Upplýsingatækni í námi og kennslu sem kennt er á meistarastigi í Háskólanum á Akureyri. Markmið þess hluta rannsóknarinnar sem greinin beinir athyglinni að var að varpa ljósi á upplifun nemenda af námskeiðum þar sem lögð var áhersla á virka þátttöku nemenda í mótun námskrár og hvort og þá hvernig sú upplifun rímaði við lykilþætti MUSIC-líkansins, en rannsóknir hafa sýnt að þessir lykilþættir efli áhugahvöt og virkni nemenda, séu þeir til staðar. Gagna var aflað um upplifun þátttakenda af námskeiðunum og MUSIC-líkanið nýtt sem greiningarrammi við úrvinnslu gagna. Niðurstöður rannsóknarinnar eru að nemendur upplifðu valdeflingu, gagnsemi, góðan árangur, áhuga og umhyggju í námskeiðunum, þ.e.a.s. þá lykilþætti sem MUSIC-líkanið samanstendur af.
3.6. 2024
Brynja Þorgeirsdóttir
Markmið þessarar rannsóknar var að leiða í ljós helstu ástæður mikils brotthvarfs meðal BA nemenda í Íslensku sem öðru máli, í þeim tilgangi að leita leiða til að sporna gegn því. Aðeins um 16% nemendanna útskrifast með BA gráðu í samanburði við 53% grunnnema í Háskóla Íslands sem heild. Rannsóknir á liðnum áratugum hafa aukið skilning á því hvernig ýmsar félagslegar, menningarlegar, efnahagslegar og stofnanalægar breytur, í samspili við einstaklingsbundna þætti, hafa áhrif á ákvörðun nemenda um að hætta námi fyrir útskrift. Meginrannsóknarspurningin í þessari rannsókn var hvernig nemendur skýra eigið brotthvarf, ásamt því hvert markmið þeirra væri með náminu og hvað einkennir samsetningu hópsins. Niðurstöður sýna að nemendahópurinn er afar ólíkur öðrum grunnnemum í íslenskum háskólum hvað varðar fjölbreyttan uppruna, atvinnuþátttöku og aldur. Mikill meirihluti, eða 82%, ætlar sér að útskrifast af námsbrautinni en mætir ýmsum hindrunum. Niðurstöðurnar gefa til kynna mikilvæg tækifæri til úrbóta.
3.6. 2024
Artëm Ingmar Benediktsson
Menningarmiðaðar kennsluaðferðir: Reynsla íslenskra kennaranema
Aukinn fjölbreytileiki í íslenskum grunnskólum skapar mörg tækifæri fyrir kennara til þess að nýta menningu, reynslu og tungumál nemenda í kennslu. Menningarmiðaðar kennsluaðferðir, sem byggja á kenningum um fjölmenningarlega menntun, bjóða upp á hagnýtan ramma til að skapa fjölbreytt og valdeflandi námsumhverfi fyrir öll börn. Markmið þessarar greinar er að kanna viðhorf íslenskra kennaranema til menningarmiðaðra kennsluaðferða og rannsaka reynslu þeirra af vinnu með grunnskólabörnum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Auk þess verða vangaveltur þeirra um stöðu fjölmenningarlegrar menntunar innan kennaranámsins skoðaðar.
31.5. 2024
Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Hafdís Guðjónsdóttir
Draumaskólinn: Lýðræðisleg og inngildandi samvinnurými barna og fullorðinna í grunnskóla
Virk þátttaka barna í samfélagi er ein leið til farsældar þeirra og því er það helsta verkefni menntakerfisins að tryggja öllum börnum hlutdeild í samfélagi jafnaldra. Greinin fjallar um þróun árangursríkra og sjálfbærra leiða fyrir samvinnu barna og fullorðinna í inngildandi skólastarfi. Draumaskólaverkefnið var unnið á miðstigi grunnskóla sem hluti af þróunarverkefni um þátttöku og valdeflingu barna í samstarfi skólans, frístundamiðstöðvar og rannsakenda Háskóla Íslands. Þátttakendur voru börn og starfsfólk í fimmta og sjötta bekk. Samofin Draumaskólaverkefninu var starfendarannsókn sem náði yfir fimm samvinnulotur, sem fólu í sér skapandi hugmyndavinnu, samtal, áætlanagerð, framkvæmd hugmynda, ígrundun og þekkingarsköpun. Frásögn Draumaskólaverkefnisins getur orðið öðrum hvatning til að finna leiðir sem opna fyrir lýðræðisleg vinnubrögð í skóla.
27.5. 2024
Ragný Þóra Guðjohnsen, Eygló Rúnarsdóttir og Lóa Guðrún Gísladóttir
Aukin sókn eftir háskólamenntun og fjölbreytt sýn á hlutverk hennar hefur aukið kall eftir rannsóknum á gæðum háskólanáms og til hvers þau vísi. Þrátt fyrir ýmis gæðaviðmið, þá er gæðahugtakið marglaga og sýn hagaðila á gæði gjarnan ólík. Í rannsókninni var leitað eftir sýn stjórnenda, kennara og nemenda innan íslensks háskóla til þess hvað felist í gæðum náms og kennslu og hvaða leiðir styðji við gæði. Tekin voru einstaklingsviðtöl við fjóra stjórnendur og rýnihópaviðtöl við níu kennara og 15 nemendur. Í niðurstöðum kom fram að viðmælendur voru sammála um nokkrar lykilstoðir gæða í háskólanámi og farsælar leiðir til að styðja þær.
27.5. 2024
Sara M. Ólafsdóttir, Anna Magnea Hreinsdóttir, Margrét S. Björnsdóttir og Kristín Karlsdóttir
Undirbúningstími í leikskólum: Hagur barna
Rannsóknin byggir á fræðikenningum um aðkomu barna að leikskólastarfi, þátttöku þeirra og réttindum til að hafa áhrif á daglegt starf. Slíkt krefst virks samráðs við börn og þekkingu og skilning á hvernig best sé að nálgast sjónarmið þeirra. Ein leið til þess að meta gæði leikskólastarfs er að rýna í líðan barna og þátttöku í leik og daglegu starfi þar sem skráningar geta nýst til að skipuleggja nám þeirra. Undirbúningstímar leikskólakennara eru liður í að halda uppi gæðum leikskólastarfs. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hver hagur barna er af undirbúningstíma leikskólakennara og hvaða tækifæri börn hafa til þátttöku. Tilgangurinn var að koma auga á rými fyrir börn til að hafa aukin áhrif á mótun leikskólastarfs. Helstu niðurstöður sýna að lengri tími leikskólakennara til undirbúnings leiddi til þess að þeir voru minna með börnum á deildinni sem gat komið niður á gæðum leikskólastarfsins.
13.4. 2024
Sara Bjarney Ólafsdóttir, Bergljót Gyða Guðmundsdóttir og Margrét Sigmarsdóttir
Kennarar og starfsfólk skóla þurfa að ná til fjölbreytts hóps barna og styðja við nám, hegðun og líðan hvers og eins. Mikilvægt er að samskipti kennara og nemenda séu farsæl og þar skiptir bekkjarstjórnun miklu máli. Árangursrík bekkjarstjórnun eykur gæði kennslu og námsástundun og stuðlar auk þess að bættri líðan kennara og nemenda. Ef hún er ómarkviss getur það hins vegar valdið álagi og streitu, bæði fyrir nemendur og kennara. Þessi rannsókn fjallar um mat starfandi grunnskólakennara á námskeiði í gagnreyndum bekkjarstjórnunaraðferðum fyrir starfsfólk skóla, sem meðal annars voru sóttar í smiðju PMTO-foreldrafærni og SMT-skólafærni. Áhersla var lögð á að kanna sýn kennaranna á aðferðir sem þeir lærðu á námskeiðinu og nýttu svo á vettvangi með nemendum sínum, svo sem gagnsemi þeirra og hvort og hvaða aðferðir þeir sæju fyrir sér að nota áfram. Þátttakendur, alls ellefu talsins, voru starfandi grunnskólakennarar sem luku námskeiðinu og mátu afrakstur þess. Samhljómur var um að það sem þátttakendur lærðu á námskeiðinu hefði borið árangur og að þeir myndu halda áfram að nýta aðferðirnar á vettvangi. Þá töldu þátttakendur þjálfun sem þessa nauðsynlega fyrir kennara, sérstaklega nýliða í stéttinni. Niðurstöður samræmast fyrri íslenskum rannsóknum á þessu sviði og benda til þess að þörf sé fyrir og áhugi á þjálfun í bekkjarstjórnun meðal kennara og starfsfólks skóla hérlendis.
20.2. 2024
Anna Magnea Hreinsdóttir, Pála Pálsdóttir og Sigrún Grétarsdóttir.
Leikur og þátttaka barna í leikskólastarfi: Stuðningur deildarstjóra og annars starfsfólks
Í þessari grein er sagt frá rannsókn á tveggja ára þróunarverkefni sem fjórir leikskólar í Reykjavík tóku þátt í. Markmiðið með rannsókninni var að greina starfsaðferðir og stuðning starfsfólks við leik sem helstu námsleið barna og við virka þátttöku þeirra í daglegu starfi leikskóla. Verkefnið var liður í innleiðingu á Menntastefnu Reykjavíkurborgar sem studdi við það með styrk úr þróunarsjóði skóla- og frístundasviðs. Rannsakandi við Háskóla Íslands lagði verkefninu lið með fræðslu og ráðgjöf ásamt að safna gögnum og greina þau. Hittust deildarstjórar leikskólanna reglulega til að ræða og kynna sér ýmsar leiðir til að styðja við leik barna og auka þátttöku þeirra í starfi leikskólanna. Rannsóknin byggir á eigindlegri nálgun. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að þátttakendur fóru fjölbreyttar leiðir að því að styðja við leik barna og nám. Starfsfólk var oft með börnunum í leik og margvíslegar aðstæður voru nýttar til að styðja við börnin í að leysa verkefni sjálf í stað þess að taka fram fyrir hendurnar á þeim. Þá sýna niðurstöðurnar mörg dæmi um þátttöku barna í daglegu starfi leikskólanna.
This paper maps shifts in English language teaching in compulsory schools since curricular changes in 2007 and again in 2011/2013. The primary purpose of the current study is to examine the status of English language teaching from the perspective of active teachers. The secondary aim is to inform the development of teacher education programmes at the University of Iceland and improve English teacher preparation for those entering or working in the compulsory education system. The results show that traditional, textbook-based teaching methods are still prevalent, although oral communication skills receive increased emphasis.