Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31.12.2012
Halldóra Haraldsdóttir
Er samfella í læsiskennslu barna á mótum leik- og grunnskóla?

Yfirfærsla (e. transition) á milli fyrstu skólastiga og samfella í námi (e. continuity) hefur fengið töluverða umfjöllun í fræðaheiminum. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að skoða hvort hugað sé að samfellu í námi barna á mótum skólastiga, einkum hvað varðar læsi. Skoðað var á hvern hátt unnið er með læsi í leikskóla, hvernig upplýsingar flytjast á milli skólastiganna og hvernig þær eru notaðar í grunnskólanum. Tekin voru rýniviðtöl við kennara elstu deilda þriggja leikskóla og yngsta bekkjar tveggja grunnskóla og rýnt í ýmis rituð gögn skólanna. Meginniðurstöður eru þær að skólastofnanirnar hafa skipulegt samstarf á mótum skólastiga. Samstarfið beinist einkum að því að draga úr spennu og kvíða og felst í því að kynna börnum aðstæður og umhverfi grunnskólans. Minna virðist hugað að samræmingu kennsluhátta.

31.12.2012
Kristín Bjarnadóttir
Björn Gunnlaugsson og Tölvísi: Stærðfræði og einlæg trú í menntun 19. aldar

Ferill nítjándualdarstærðfræðingsins Björns Gunnlaugssonar (1788–1876) er einstakur. Hann naut aldrei skólavistar á Íslandi en náði óvenjulegum tökum á stærðfræði, að mestu með sjálfsnámi, áður en hann settist í Kaupmannahafnarháskóla, 29 ára að aldri. Þar vann hann til tvennra gullverðlauna fyrir stærðfræðiþrautir. Hann kenndi stærðfræði við Bessastaðaskóla og Lærða skólann í Reykjavík um fjörutíu ára skeið og landmælingar hans voru grunnur að Íslandskortum í hálfa öld. Bók hans um stærðfræði, Tölvísi, var gefin út er hann var orðinn 77 ára að aldri. Tölvísi,sem er meginviðfangsefni greinarinnar, bregður ljósi á hversu mikils Björn mat stærðfræðina og á heimspekilega og trúarlega afstöðu hans til stærðfræðilegra hugtaka og lögmála.

31.12.2012
Hafþór Guðjónsson
Kennaramenntun og skólastarf í ljósi ólíkra viðhorfa til náms

Í grein þessari er fjallað um kennaramenntun og skólastarf í ljósi þriggja ólíkra viðhorfa til náms sem höfundur kallar viðtökuviðhorfið, hugsmíðahyggju og aðstæðuviðhorfið. Viðtökuviðhorfið, segir höfundur, hefur verið ríkjandi viðhorf til náms um langan aldur og mótað starfshætti kennara bæði í skólum almennt og í kennaraskólum en jafnframt haldið okkur föngnum í þeirri þröngu sýn að það að læra merki að taka við því sem aðrir hafa hugsað. Bæði hugsmíðahyggju og aðstæðuviðhorfið má skoða sem andóf gegn viðtökuviðhorfinu og með því að leggja þau saman verður til kraftmikil sýn á nám sem ætti að geta auðveldað okkur að þróa nýja og betri starfshætti bæði í kennaraskólum og skólum almennt.

31.12.2012
Anni G. Haugen
Samstarf í þágu barna: Samvinna grunnskóla og barnaverndar

Í samfélagi nútímans er farsæl skólaganga og menntun oftar en ekki lykillinn að velgengni í lífinu. Því er öllum börnum mikilvægt að fá góðan stuðning og hvatningu í námi og þjálfun í félagslegri færni í skólanum. Barnaverndarnefndir á Íslandi sinna á ári hverju miklum fjölda barna á grunnskólaaldri, oftast með því að aðstoða barnið heima, en í þeim tilvikum sem barn er talið vera í hættu á heimili sínu eða í þörf fyrir umfangsmeiri aðstoð er hægt að vista það á fóstur- eða meðferðarheimili. Því má ætla að samstarf skóla og barnaverndar þurfi að vera náið og markvisst en ýmsar vísbendingar eru þó um að það megi bæta. Í greininni er fjallað um samstarf skóla og barnaverndar og stöðu barna í skóla og dregnir fram þættir sem þörf er á að bæta frekar til að slíkt samstarf geti þróast og dafnað til hagsbóta fyrir barnið. Greinin er byggð á íslenskum og erlendum rannsóknum og fræðigreinum um efnið.

2.12.2012
Guðbjörg Pálsdóttir og Guðný Helga Gunnarsdóttir
Námssamfélag í kennaranámi: Rannsóknarkennslustund

Greinin segir frá rannsókn á rannsóknarkennslustund (e. lesson study) sem leið til að byggja upp námssamfélag í kennaramenntun. Í rannsóknarkennslustund felst að hópur kennara og kennaranema skipuleggur saman, rannsakar og ígrundar kennslustund með ákveðin markmið í huga. Rannsakað var hvernig námssamfélag myndaðist meðal stærðfræðikennaranema vormisserin 2009 og 2010 þegar þeir prófuðu að nota þessa aðferð með kennurum sínum. Niðurstöður sýndu að rannsóknarkennslustund getur stutt við myndun námssamfélags þar sem kennaranemar þróa færni sína í faglegri umræðu og auka um leið samstarfshæfni sína, en hvort tveggja er talið mikilvægt í kennaramenntun og kennarastarfi.

2.12.2012
Gyða Jóhannsdóttir
Þróun menntunar fyrir norræna grunnskólakennara: Liggur leiðin í háskóla?

Greinin segir frá samanburðarrannsókn á þróun í menntun norrænna grunnskólakennara og kannar hvort og á hvern hátt þróun á Íslandi er sambærileg þróuninni á öðrum Norðurlöndum. Leitast er við að greina hvort og á hvern hátt þróunin endurspeglar bóknámsrek, hvort sú tilhneiging sé á Norðurlöndum að færa kennaramenntun í háskóla eða í stofnanir sem smám saman leitast við að haga starfsemi sinni á líkan hátt og gert er í háskólum. Sérstaklega er kannað hvernig bóknámsrek er tilkomið og hvernig það tengist menntapólitískum aðstæðum og uppbyggingu æðri menntunar í hverju landi. Þróunin endurspeglar mismikið bóknámsrek í löndunum fimm.

6.11.2012
Anna Jeeves
“Being able to speak English is one thing, knowing how to write it is another”: Young Icelanders’ perceptions of writing in English

The paper reports a qualitative study on perceived relevance of secondary school English studies in Iceland. Interviews with secondary school and university students as well as young people in employment give insight into perceptions of studying English at secondary school. The paper focuses on what value writing in English at school has for students and what changes to classroom material and activities could benefit them. Findings suggest a need for advanced language accuracy and fluency in employment. Participants enjoy writing in English, but mention a lack of autonomy and self-assessment skills.

6.11.2012
Eygló Björnsdóttir
„Ég er svo óvanur svona fjarnemastússi“: Aukinn sveigjanleiki náms við Háskólann á Akureyri

Á vormisseri 2011 var gerð tilraun í Háskólanum á Akureyri með því að kenna þrjú námskeið með mesta mögulegum sveigjanleika í stað þess að líta á námið annað hvort sem fjarnám eða staðnám. Í greininni er kynnt rannsókn meðal nemenda í einu þessara námskeiða að námskeiði loknu. Markmiðið var að kanna reynslu nemenda af því að stunda háskólanám með þessum hætti. Nemendurnir voru ánægðir með tilhögun námskeiðsins, skipulag og innihald. Þeim fannst námskeiðið krefjandi en áhugavert og töldu sig margt hafa lært.

16.10.2012
Katrín Björg Ríkarðsdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Er hægt að bjóða kynjakerfinu birginn? Reynsla átta kvenna af smíðum og tölvunarfræði

Í greininni er fjallað um birtingarmyndir kynjakerfisins í reynslu kvenna af námi og störfum í húsasmíði og tölvunarfræði. Tekin voru viðtöl við átta konur sem allar höfðu lokið námi í sinni starfsgrein á síðastliðnum sex árum þar á undan. Húsasmiðirnir höfðu stundað nám í þremur framhaldsskólum og tölvunarfræðingarnir í þremur innlendum háskólum. Í greininni er leitast við að svara því hvort kynjakerfið í formi útilokunar, aðgreiningar og undirskipunar kvenna komi fram í reynslu þessara viðmælenda, hvaða teikn séu skýrust og hvort kynjakerfið leiti nýrra leiða til að halda jafnvægi þegar tilraunir eru gerðar til að vinna í trássi við það. Í ljós kom að ýmsir þættir í reynslu kvennanna endurspegla kynjakerfið en verða ekki ljósir nema grannt sé hlustað.

28.9.2012
Gunnlaugur Sigurðsson
Óboðinn gestur í orðræðu um börn

Í sjálfsprottinni umræðu í kennslustund á Menntavísindasviði Háskóla Íslands þar sem Óli prik kemur óvænt til skjalanna eru tvö lykilhugtök í boði, uppeldi og menntun. Annað þeirra verður tilfallandi fyrir valinu og umræðan fer fram á merkingarsviði þess en tekur óvænta stefnu vegna þriðja hugtaks sem sprettur, að því er virðist, óumhugsað upp innan þessa merkingarsviðs og reynist hafa afgerandi áhrif á framvindu umræðunnar. Í ljósi kenninga Platons, Rousseau, Alice Miller og Peter Winch reynir höfundur að draga fram ástæður þess að þetta hugtak fær svo ráðandi hlutverk. Greiningin leiðir í ljós samband hugmynda okkar og orða um börn og samband hugmynda okkar, gjörða okkar og félagslegra tengsla við börn.

9.9.2012
Guðmundur Sæmundsson
Svo sæt og brosmild …: Umfjöllun í blöðum og tímaritum um íslenskar afreksíþróttakonur á alþjóðavettvangi

Orðræða íslenskra fjölmiðla um íþróttakonur býr yfir eigin einkennum, mjög í anda þeirrar umfjöllunar sem ríkir um konur almennt í íslensku samfélagi en að mörgu leyti ólík þeim einkennum sem fram koma um íþróttakarla. Þetta er niðurstaða rannsóknar á orðræðu íslenskra fjölmiðla yfir 60 ára tímabil um íslenskar afreksíþróttakonur sem náð hafa árangri á alþjóðavettvangi. Íþróttir eru vígi karlmennskunnar og hafa verið um langan aldur á Íslandi. Í rannsókninni var beitt þemabundinni og sögulegri orðræðugreiningu og skoðuð stef á borð við kvenlegt útlit, t.d. andlitsfegurð, fallegan líkamsvöxt, kvenlega hárgreiðslu og klæðnað, einnig samviskusemi, dugnað, tilfinningar, metnað, ákveðni og þrjósku, umhyggju og samvinnu.

9.9.2012
Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir og Jóhanna Einarsdóttir
„Við getum kennt þeim svo margt í gegnum leik“: Hlutverk þriggja leikskólakennara í leik barna

Hér segir frá rannsókn þar sem fylgst var með störfum þriggja leikskólakennara í þremur leikskólum og rætt við þá um starf þeirra. Markmiðið var að öðlast innsýn í hvernig leikskólakennarar styðja við leik barna og að skoða hugmyndir þeirra um hlutverk sitt og stuðning við börnin í leik. Gögnum var safnað með þátttökuathugunum og viðtölum og fór gagnasöfnun fram í 6 mánuði. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að leikskólakennararnir höfðu allir svipaðar hugmyndir um hlutverk sitt í leik barna. Þeir vour þó ekki allir einu máli um hvort leyfa ætti börnum að leika sér einum í lokuðu rými þar sem enginn fullorðinn er viðstaddur né hvort eðlilegt væri að leikskólakennarinn sinnti öðrum verkefnum á meðan börnin léku sér. Fastar venjur og menning í skólastarfinu virtust ráða miklu um framkvæmd og niðurstöður benda til ákveðinnar togstreitu um skipulag leikskólastarfsins hvað snertir áherslu á stuðning við leik.

30.6.2012
Gunnar J. Gunnarsson
Trúarbragðafræðsla í samfélagi margbreytileikans

Í greininni er fjallað um trúarbragðafræðslu á tímum trúarlegs margbreytileika og fjölhyggju, meðal annars með hliðsjón af ályktunum og álitsgerðum Evrópuráðsins og Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu en í þeim er áréttað mikilvægi vandaðrar trúarbragðafræðslu til að auka skilning ungs fólks á hlutverki trúarbragða í fjölmenningarsamfélögum nútímans og dregið fram hvernig góð þekking á trúarbrögðum og lífsviðhorfum getur stuðlað að virðingu fyrir trúfrelsi og eflt skilning á félagslegum margbreytileika. Litið er til trúarbragðakennslu í Bretlandi, einkum aðferðum sem taka mið af óhjákvæmilegum áhrifum margbreytileikans á nemendur og sett fram sjónarmið um nálgun og áherslur í trúarbragðafræðslu hér á landi á tímum margbreytileiki og fjölhyggju í trúarefnum.

27.6.2012
Lilja M. Jónsdóttir
„Það er náttúrulega ekki hægt að kenna manni allt“: Viðhorf byrjenda í grunnskólakennslu til kennaranáms síns

Hér er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum fimm ungra grunnskólakennara til kennaranáms síns. Þetta er langtímarannsókn þar sem rætt var við kennara um reynslu þeirra fyrstu fimm árin í starfi frá brautskráningu. Rannsóknin byggist á rannsóknaraðferð sem höfundur kallar narratífu og veit hann ekki til þess að sú aðferð hafi áður verið notuð í menntarannsóknum hér á landi. Kennaranámið þótti að mestu leyti góður undirbúningur undir kennarastarfið og í langflestum tilvikum hefði það nýst vel. Kennararnir höfðu samt mjög ákveðnar skoðanir á því hvað þyrfti að bæta í kennaranáminu. Lögðu þeir mesta áherslu á lengingu námsins, aukið vettvangsnám, meiri hagnýta kennslufræði, aukna fræðslu um námsefni grunnskólans, aga og bekkjarstjórnun, hvernig best verður komið til móts við nemendur með sérþarfir og foreldrasamstarf.

30.4.2012
Kristín Bjarnadóttir
Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla: Námskrá og áherslur

Greinin segir frá rannsókn á námskrá við fimm framhaldsskóla þar sem kannað var inntakt hægferðaráfangans Stærðfræði 102. Í ljós kom ósamkvæmni milli skóla. Í fjórum skólum af fimm var kennd meiri algebra en gert er ráð fyrir í námskrá. Lítil sem engin áhersla virtist á samvinnuverkefni og ritgerðir sem þó gætu hentað breiðum hópi nemenda af mörgum námsbrautum. Greinin er framhald greinar frá árinu 2011, Stærðfræði 102 í fjölbrautaskóla: Vandi og ávinningur.

15.4.2012
Þuríður Jóhannsdóttir
Að læra að verða kennari í starfi á vettvangi

Hér segir frá því hvernig kennarnemar lærðu að starfa sem kennarar þegar þeir unnu sem leiðbeinendur í skólum jafnframt því að stunda kennaranám í fjarnámi sem skipulagt var með reglubundnum staðlotum. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á aðstæður kennaranema sem starfa á vettvangi og var byggt á menningarsögulegri starfsemiskenningu sem hefur reynst vera gagnlegt verkfæri til að greina samspil einstaklingsbundinna og samfélagslegra þátta í þróun og námi. Á grundvelli greiningarinnar voru þróaðar tilgátur um atriði sem mestu máli skipta í því ferli að læra til starfa sem kennari.

8.3.2012
Hanna Ragnarsdóttir
Kennarar í fjölmenningarsamfélagi: Aðgengi fjölbreyttra nemendahópa að kennaranámi á Íslandi

Greinin fjallar um kennara í fjölmenningarsamfélagi og aðgengi fjölbreyttra nemendahópa að kennaranámi á Íslandi. Dregið er fram mikilvægi þess að kennaramenntun á Íslandi sé aðgengileg fjölbreyttum nemendahópum og að búið sé í haginn fyrir þá með réttum áherslum. Sagt er frá þremur rannsóknum meðal erlendra nemenda í kennaranámi og menntunarfræði á Íslandi. Einnig er vísað í erlendar rannsóknir og skýrslur á tímum hnattvæðingar og félagslegs fjölbreytileika.

9.1.2012
Ragnhildur Bjarnadóttir
Stefnumótun í kennaranámi: Áhersla á rannsóknir – Áhersla á vettvang

Höfundur ræðir mótun stefnu í kennaranámi í Kennaraháskóla Íslands, síðar á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, frá árinu 2004 til 2011. Markmiðið var að auka gæði námsins, m.a. með því að efla tengsl við rannsóknir og vettvang. Niðurstaða höfundar er að vel hafi miðað í þessum efnum; sátt virðist hafa náðst um að öll námskeið tengist rannsóknum og fyrstu skrefin verið tekin í að útfæra markmið þar sem samvinna og samábyrgð háskólans og almennra skóla um kennaramenntun er í brennidepli.


Ritstýrðar greinar

30.10.2012
Edda Kjartansdóttir
Um nauðsyn þess að veita spakviturri hænu og nöldrandi spurningarmerki sess í fræðilegri ritgerð

Greinin er skrifuð frá sjónarhjóli nemanda sem fær köfnunartilfinningu þegar rammar fræðaheimsins þrengja að. Höfundur fjallar um glímu sína við þá ramma í háskólanámi með hliðsjón af hugmyndum Laurel Richardson. Richardson telur að túlkun á rannsóknargögnum megi birta með ýmsu móti og upp úr gögnum greinarhöfundar spratt saga af spakviturri hænu og nöldrandi spurningarmerki. Þetta tvíeyki fór í ferðalag í fylgd stúlkunnar Birtu til að reyna að varpa ljósi á hvernig fargið, sem Birtu finnst að hvíli á kennurum, er sett saman. Greinin er byggð á erindi í Ritveri á Menntavísindasviði Háskóla Íslands 8. nóvember 2010 og M.Ed.-ritgerð höfundar.

10.9.2012
Magnús Þorkelsson
Er hægt að bera saman íslenska framhaldsskóla í einum lista? Nokkur orð um röðunarkerfi Frjálsrar verslunar

Röðun skóla (e. ranking) er vel þekkt víða um heim. Á Íslandi var henni beitt vorið 2011 af blaðinu Frjálsri verslun (FV) og aftur 2012. Greinin fjallar um röðun sem aðferð og lítur á alþjóðlega umræðu um
efnið. Hún lýsir þáttum sem varða íslenska skólakerfið og röðun skóla. Að því búnu rekur hún inntak og aðferðir íslensku kannananna 2011 og 2012 og leiðir að þeirri niðurstöðu að þær standist ekki samanburð við röðun í öðrum löndum. Aðferðafræðin sé of einföld, gögn ekki gagnleg og ekki gefi haldbæra niðurstöðu að raða skólum í eina töflu. Kallað er eftir því að stjórnvöld og skólar búi til gott kerfi.

10.9.2012
Guðmundur Ævar Oddsson
Þekkingarsamfélög eða skyndimenntunarstaðir?

Greinin varar við varhugaverðri þróun í íslensku háskólasamfélagi, því sem höfundur nefnir McDonalds-væðingu háskólanáms. Höfundur leggur út frá eigin reynslu og kenningu bandaríska félagsfræðingsins George Ritzer. Mat höfundar er að íslenskir háskólar þróist í þá átt að verða skyndimenntunarstaðir. Undirrótin er ásamt fleiru ofuráhersla á hagræðingu og vöruvæðingu háskólamenntunar. Lausn höfundar felst í því að auka kröfur til nemenda og kennara og hætta að reka háskóla eins og framleiðslufyrirtæki. Pistillinn var skrifaður í tilefni af 25 ára afmæli Háskólans á Akureyri.

27.6.2012
Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir og Sigrún Harðardóttir
„Þá bara hætti ég, ég hef ekkert aðra leið“: Fjölgreinabraut í Menntaskólanum á Egilsstöðum

Hér birtist önnur greinin úr röð greina frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Í greinaröðinni taka höfundar saman og lýsa úrræðum og þjónustu við nemendur með sérþarfir; sérstaklega nemendur með ADHD, sértæka námserfiðleika auk sálfélags-legra vandkvæða. Í þessari grein er fjallað um tilraun höfunda með fjölgreinabraut skólaárið 2007–2008. Fjallað er um aðdraganda að stofnun brautarinnar, nemendahópinn á brautinni og námið sem þar var boðið upp á. Einnig er lýst fjölþættu mati á árangri af tilraunaverkefninu. Í lok greinarinnar eru hugleiðingar höfunda um þróun á úrræðum fyrir nemendur eins og þá sem brautina sóttu.

21.5.2012
Bryndís Valgarðsdóttir, Reynir Hjartarson og Ingvar Sigurgeirsson
Að taka flugið: Þróunarstarf í Hlíðarskóla á Akureyri

Um tuttugu nemendur stunda nám í Hlíðarskóla á Akureyri en hann er hugsaður er sem skammtímaúrræði fyrir þá nemendur sem af einhverjum ástæðum aðlagast ekki starfinu í heimaskóla sínum. Kennsluhættir í skólanum hafa til skamms tíma að mestu verið hefðbundnir en áhersla lögð á mikla nánd og einstaklingsmiðun. Á síðasta ári var ákveðið að ráðast í umfangsmiklar breytingar á kennsluháttum sem ásamt fleiru miða að því að efla þátttöku nemenda með fjölbreyttum viðfangsefnum sem tengjast áhugasviðum þeirra. Afar góð reynsla hefur fengist af þessari tilhögun og viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna til hennar mjög jákvæð.

30.4.2012
Henry Alexander Henrysson og Elsa Haraldsdóttir
Heimspekikennsla á Íslandi: Væntingar, vonir og veruleiki

Í greininni er leitast við að skýra stöðu heimspekikennslu og gagnrýnnar hugsunar í íslenska skólakerfinu. Hugmyndir Íslendinga um stöðu heimspekinnar eru ræddar með hliðsjón af könnun sem gerð var á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Spurt er hverjar séu raunhæfar vonir og væntingar um eflingu gagnrýnnar hugsunar og heimspeki í íslenskum skólum.

9.1.2012
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Grunnþættir menntunar í aðalnámskrá og fagmennska kennara: Hugleiðing til heiðurs Ólafi J. Proppé

Í greininni ræði höfundur hvaða áhrif má ætla að hugmyndir um svokallaða grunnþætti menntunar í nýrri aðalnámskrá hafi á hlutverk kennara og fagmennsku þeirra. Lagt er út frá grein sem Ólafur J. Proppé skrifaði árið 1992 um fagmennsku kennara og skólastarf. Niðurstaðan er m.a. sú að mestu skipti að kennarar taki frumkvæði að breytingum sem stuðli að því að nemendur verði virkir þátttakendur.

9.1.2012
Jóhanna Einarsdóttir
Leikskólakennaramenntun í mótun

Höfundur fjallar um leikskólakennaramenntun á Íslandi, einkum þróun síðustu ára frá því að námið fluttist á háskólastig. Þróun námsins er skoðuð í ljósi breytinga sem orðið hafa á leikskólakennaramenntun á Norðurlöndum. Mat höfundar er að Íslendingar hafi að ýmsu leyti verið í forystu á Norðurlöndum hvað varðar skipulag og tilhögun leikskólamála.

9.1.2012
Jón Torfi Jónasson
Hugleiðingar um kennaramenntun

Höfundur fjallar um álitamál og ólík sjónarhorn í menntun og starfsþróun kennara; inntak, markmið og umgjörð. Hann leggur m.a. til að rædd verði og mótuð stefna um menntun kennara frá mun víðari sjónarhóli en oft er gert. Líta verði á allan starfsferil kennara og allt litróf menntunar og skólastarfs. Horfa þurfi fram á veg af miklu meiri áræðni en hingað til hefur verið raunin. Þá þurfi þeir sem mennta kennara að vera fyrirmyndir um starfshætti og þróun skólastarfs bæði í eigin ranni og í samstarfi við kennara í menntastofnunum landsins.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design