Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.

Ritrýndar greinar

31.12.2015
Jóhanna T. Einarsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir
Málsýni leikskólabarna: Aldursbundin viðmið
Tilgangur rannsóknarinnar var að finna aldursbundin viðmið fyrir máltjáningu íslenskra leikskólabarna út frá sjálfsprottnu tali eins og það birtist í málsýnum. Skoðaðir voru eftirtaldir þættir: Meðallengd segða (MLS), heildarfjöldi orða (HFO), fjöldi mismunandi orða (FMO) og hlutfallslegur fjöldi villna auk kynbundins munar á þessum mæliþáttum. Þátttakendur voru 221 íslensk leikskólabörn 2,6–6,6 ára, eintyngd og ekki með greind þroskafrávik. Tekið var hentugleikaúrtak og níu leikskólar valdir. Hugbúnaðurinn Málgreinir var notaður við úrvinnslu gagna. Helstu niðurstöður voru þær að MLS lengdist og HFO og FMO hækkaði með auknum aldri. Málfræðivillur voru hlutfallslega sjaldgæfar í máli barnanna og fækkaði þeim marktækt með auknum aldri. Mikil dreifing var innan barnahópsins og einstaklingsmunur á því í hversu löngum setningum börnin töluðu og hvað þau notuðu fjölbreytt orð. Ekki var marktækur munur eftir kynjum á þessum mæliþáttum. Niðurstöðurnar hafa gildi fyrir alla þá sem vinna með og rannsaka málþroska íslenskra barna. Þær eru mikilvægar við greiningu á málþroskafrávikum, athugun á greiningu barna sem tala íslensku sem annað mál og mælingum á framförum í meðferð og skipulagningu íhlutunar. Málsýni af sjálfsprottnu tali eru mikilvæg viðbót við athuganir og rannsóknir á málþroska samhliða stöðluðum prófum.

31.12.2015
Hróbjartur Árnason and Halla Valgeirsdóttir
Why do people with little formal education not participate in lifelong learning activities? The views of adult educators
The fact that adults chose to spend otherwise free time on participating in adult education courses used to fascinate researchers. But when lifelong learning was discovered to be a driving force for the economy, participation in learning activities became an adult’s obligation, and thus, those who stay away have become interesting. This paper adds a new point of view to the picture by adding the perspective of adult educators – people who have regular interactions with both non-participants and participants, and thus gives a different vantage point than prior research has given. The authors present the results of a qualitative study based on small focus group interviews with a total of 22 adult educators from eight lifelong learning centres in Iceland. According to their findings a large portion of non-participants with lower levels of formal eduation, express a longstanding desire to further their education but many stay away because of insecurity, distrust in their learning abilities and negative earlier experience of school. The results indicate that a substantial number of non-participants in Iceland stay away from organized learning because of prior bad experiences and a lack of self-esteem. These findings should encourage lifelong learning organizations to design and present their offerings in ways that take this insecurity into account.

31.12.2015
Kristín Karlsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir
Námssögur: Tæki til að meta áhuga, virkni og líðan barna í leikskóla
Greinin fjallar um starfendarannsókn sem fór fram samhliða þróunarverkefni í átta leikskólum í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Deildarstjórar leikskólanna, 23 talsins, tóku þátt í rannsókninni ásamt höfundum þessarar greinar; lektor við Háskóla Íslands og leikskólafulltrúa Garðabæjar. Markmiðið var að þróa skráningu á námssögum og fylgjast með því hvernig deildarstjórarnir öðluðust færni í að skrá námssögur um hvert barn og framfarir þess en einnig hvernig þeim gengi að meta nám barnanna í samvinnu við foreldra og börnin sjálf. Þróun starfsaðferða við mat á námi barna var rædd og metin á mánaðarlegum fundum. Gagna var aflað með skráningu fundargerða, mati þátttakenda, ljósmyndum, myndböndum og námssögum sem þátttakendur ræddu og ígrunduðu á fundunum. Niðurstöður benda til þess að deildarstjórarnir hafi aukið færni sína í að skrá námssögur. Með þátttöku í verkefninu hafi þeir öðlast betri skilning á námi barna og innsýn í hugarheim þeirra. Áform voru uppi innan leikskólanna um að halda vinnunni áfram.

31.12.2015
Hrafnhildur Ragnarsdóttir
Málþroski leikskólabarna: Þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings milli fjögra og fimm ára aldurs
Markmið rannsóknar sem hér er kynnt var að kanna a) framfarir og einstaklingsmun meðal íslenskra barna í þremur málþroskaþáttum, orðaforða, málfræði og hlustunarskilningi á lokaári þeirra í leikskóla; b) hvort mælingar á orðaforða, málfræði og hlustunarskilningi tengdust innbyrðis og við bakgrunnsbreytur á borð við menntun og stöðu foreldra, heimilishagi og læsismenningu á heimili, leikskóladvöl og fleira; og c) hvort ‒ og þá hvaða ‒ þættir málþroska við fjögra ára aldur spá fyrir um árangur barna ári síðar. Þátttakendur voru 111 fjögra ára börn úr átta leikskólum í Reykjavík. Niðurstöður staðfesta að meðal íslenskra barna eru síðustu árin í leikskóla mikið gróskutímabil fyrir málþroskaþætti sem gegna lykilhlutverki í alhliða þroska og leggja grunn að læsi og námsárangri síðar. Þær leiða í ljós að munur á málþroska jafngamalla íslenskra barna er þá þegar orðinn verulegur og að sá munur tengist að hluta ýmsum áhættuþáttum í aðstæðum barnanna og fjölskyldna þeirra. Niðurstöður undirstrika þannig hversu mikilvægt er að fylgjast grannt með málþroska og þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings barna á leikskólaárunum, ekki síst þeirra sem slakast standa og tryggja að þau fái fjölþætta og vandaða málörvun.

31.12.2015
Jóhanna Kr. Arnberg Gísladóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Amalía Björnsdóttir
„Voruð þið að tala um mig?“: Um nemendavernd í grunnskólum
Markmiðið með rannsókninni sem hér er greint frá er að kanna starfsemi nemendaverndarráða í grunnskólum og hlutdeild nemenda í ákvörðunartöku í eigin málum í ráðunum. Ráðin eru þverfagleg teymi sem eiga að starfa í grunnskólum landsins og þeim er ætlað að stuðla að velferð nemenda. Starfsemi þeirra hefur lítt verið rannsökuð og ekki hafa legið fyrir upplýsingar um þátttöku barna í meðferð mála sem tekin eru fyrir þar. Rafrænn spurningalisti var sendur til skólastjóra allra grunnskóla á Íslandi skólaárið 2013–2014. Alls bárust svör frá 84 skólum og var svarhlutfall 50% á landsvísu. Niðurstöður benda til þess að nemendaverndarráð starfi í flestum grunnskólum og töldu þátttakendur þau almennt starfa með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Mál sem rata inn á borð nemendaverndarráða eiga það flest sameiginlegt að fjalla um málefni einstakra nemenda en hlutdeild nemenda í afgreiðslu mála sem þá snerta er takmörkuð. Meirihluta foreldra er tilkynnt að um mál barns þeirra sé fjallað í ráðunum en hlutfallslega fáum börnum er gert viðvart um það. Niðurstöður benda til að tryggja þurfi betur hlutdeild nemenda í ákvörðunum um eigin málefni í nemendaverndarráðunum.

29.12.2015
Anna-Lind Pétursdóttir og Kristín Helga Guðjónsdóttir
Pör að læra saman í leikskóla: Reynsla starfsfólks af K-PALS
K-PALS (e. Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) er kennslunálgun sem felur í sér samvinnunám og aðferðir til að efla hljóðkerfisvitund, hljóðaþekkingu og umskráningarfærni barna. Börnin vinna í pörum eftir kynningu kennara á verkefnum. Markmið með þessari rannsókn var að fá innsýn í reynslu starfsmanna í leikskóla af K-PALS, hvernig þeim hefði gengið að nota aðferðirnar, áhrif aðferðanna á börnin, helstu kosti og galla að mati starfsmanna og hvort þeim þætti bein kennsla af þessu tagi eiga heima í íslensku leikskólaumhverfi. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við þrettán starfsmenn fimm leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Almennt var reynsla viðmælenda jákvæð þótt sumir hefðu verið neikvæðir í byrjun og innleiðing aðferðanna hafi stundum reynt á. Rætt var um jákvæð áhrif á undirstöðu lestrarfærni, samvinnu og samskipti barnanna, greinilegar framfarir hjá börnunum og ánægju þeirra með K-PALS. Fram komu hugmyndir um nýjar útfærslur á innleiddum aðferðum en á heildina litið töldu viðmælendur nálgunina henta vel sem viðbót við læsisumhverfi í íslenskum leikskólum.

29.12.2015
Steinunn Helga Lárusdóttir, Anna Kristín Sigurðardóttir, Arna H. Jónsdóttir, Börkur Hansen og Guðný Guðbjörnsdóttir
Efnahagshrunið og skólastarf í Reykjavík
Í þessari rannsókn voru könnuð áhrif efnahagshrunsins á Íslandi árið 2008 á skóla í Reykjavík. Gagnaöflun fór fram á árunum 2013 og 2014 með viðtölum við einstaklinga og í rýnihópum. Niðurstöður benda til þess að tekist hafi að vernda kjarnann í skólastarfinu fyrir niðurskurði en þó í meira mæli í grunnskólum en í leik- og framhaldsskólum. Samt hafði niðurskurður margvísleg áhrif á skólastarfið. Stjórnunarstöðum fækkaði umtalsvert, einkum millistjórnendum, forfallakennsla var unnin af skólastjórnendum, annað starfsfólk var ráðið í hlutastörf og framlög til tómstundastarfs og náms- og starfsráðgjafar skert. Yfirvinna starfsfólks var ekki leyfð, minna fé var veitt til samstarfs, bekkir urðu fjölmennari og dregið úr fjárveitingum til kaupa á efniviði og námsgögnum og til viðhalds tækja og húsa. Loks voru skólar á leik- og grunnskólastigi sameinaðir. Fram kom að sú aðgerð hefði aukið mjög á þá erfiðleika sem af niðurskurðinum hlaust.

22.11.2015
Ruth Margrét Friðriksdóttir og Bragi Guðmundsson
„Átthagarnir eru hverjum manni miðstöð heimsins“: Hugmyndir íslenskra skólamanna á síðasta hluta nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu um grenndaraðferð í skólastarfi
Hvaða hugmyndir höfðu íslenskir skólamenn um grenndaraðferð og grenndarkennslu á áratugunum í kringum aldamótin 1900? Hvernig birtust þessar hugmyndir og að hvaða marki í tímaritum á þeim tíma? Hverjar eru rætur hugmynda íslenskra skólamanna um nýtingu nánasta umhverfis til náms? Til að fá svör við þessum spurningum var farið yfir skóla- eða menntatímarit og fáein rit önnur og skoðað efni tengt grenndaraðferð eða grenndarkennslu. Í ljós kemur að íslenskir skólamenn höfðu margar og býsna fjölbreyttar hugmyndir um ágæti þess að nýta grenndina við kennslu og rökstuddu kosti þess gjarnan með vísun í uppeldisfræðileg sjónarmið. Í skrifum nokkurra þeirra má jafnframt greina sterka þjóðerniskennd, tengsl við vaxandi félagshreyfingar og áherslu á ættjarðarást. Helstu námsgreinar sem höfundar tengja við grenndaraðferð eða grenndarkennslu eru saga, náttúrufræði, landafræði og átthagafræði.

21.11.2015
Guðrún Kristinsdóttir og Hervör Alma Árnadóttir
Hliðvörður – hvert er hlutverk þitt? Þátttaka barna í rannsóknum
Markmiðið með greininni er að varpa ljósi á reynslu rannsakenda af því að fá formleg leyfi og aðgengi að börnum til að rannsaka hagi þeirra og ræða við þau um málefni sem þau varða. Tilgangurinn er að efla umræðu um málið og vekja athygli á því hver réttur barnanna er í því sambandi. Rannsakendum ber að afla formlegra leyfa stofnana, forsjáraðila og barna við undirbúning rannsókna þar sem börn eru þátttakendur. Í slíkum rannsóknum þurfa rannsakendur oftar en ekki aðstoð við aðgengi að börnum frá stofnunum, fagfólki og forsjáraðilum, svokölluðum hliðvörðum (e. gatekeepers). Greinin er byggð á rýnihópaviðtölum og var rætt við starfandi fræðimenn við Háskóla Íslands. Allir höfðu þeir lagt stund á rannsóknir með börnum þar sem þau voru beinir þátttakendur og höfðu talsverða reynslu af samskiptum við hliðverði.

31.8.2015
Þórdís Þórðardóttir
Virðingarsess leikskólabarna: Þekking á barnaefni, kynjun og lagskipting í tveimur leikskólum
Markmið rannsóknar þeirrar sem hér er greint frá er að varpa ljósi á hvernig mismunandi þekking leikskólabarna á barnaefni getur tengst kyni, uppruna og félagslegri stöðu þeirra í leikskóla. Spurt var: Þekking á hvers konar barnaefni er líklegust til að skapa fjögurra til fimm ára börnum virðingarsess í leikskóla? Athugað var hvernig þekking fjórtán barna á því aldursbili í tveimur leikskólum í Reykjavík á barnabókum, mynddiskum, sjónvarpsefni og tölvuleikjum birtist í frjálsum leik og skapandi starfi. Virðingarsessinn var notaður sem mælitæki á félagslega stöðu barnanna og mældur út frá viðbrögðum jafningjahópsins við tilvísunum í barnaefni eftir því hvernig jafningjahópurinn staðfesti tilvísanir í barnaefnið, hafnaði þeim eða hundsaði þær.


Ritstýrðar greinar

31.12.2015
Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Hugleiðingar um heildstæða menntastefnu
Hér er hvatt til þess að litið sé heildstætt á menntun og mótuð menntastefna sem horfi einnig til þess mikilvæga starfs sem unnið er á sviði tómstunda- og félagsmála. Kveikjan að þessari grein var lestur höfundar á bókinni Leading educational change: Global issues, challenges and lessons on whole-system reform. Þar er fjallað um mikilvæg álitamál er lúta að þróun menntakerfa, svo sem alþjóðlegan samanburð, miðlun og hagnýtingu þekkingar, fagmennsku, gæði og mat á skólastarfi og þróun lærdómssamfélaga. Höfundur tengir efni bókarinnar umfjöllun íslenskra fræðimanna um opinbera menntastefnu. Ný stefna, með það markmið að efla samfélags- og einstaklingsgildi menntunar, var kynnt árið 2011 en enn heyrast gagnrýniraddir um tæknihyggju og nýfrjálshyggju í menntastefnu. Hinir sex grunnþættir menntunar―sjálfbærni, læsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi, sköpun, og heilsa og velferð―virðast hafa hvatt til ígrundunar og þróunar skólastarfs en heildstæðar rannsóknir á innleiðingu opinberrar menntastefnu skortir á Íslandi. Framkvæmd hennar er flókið ferli og krefst þátttöku margra aðila.

31.12.2015
Sigrún Aðalbjarnardóttir
Ákall og áskoranir: Vegsemd og virðing í skólastarfi
Í þessari grein er athyglinni beint að kennurum í samtíð og framtíð og faglegu hlutverki þeirra. Þrennt er dregið fram hvað það snertir. Í fyrsta lagi mikilvægi þess að rækta borgaravitund ungs fólks á öllum skólastigum frá leikskóla til háskóla. Þátttaka fólks í ákvörðunum um samfélagsmál er ein meginstoða lýðræðis og því mikilvægt á hverjum tíma að ala upp kynslóð sem hefur áhuga á og færni til að láta sig mál samfélagsins varða. Í öðru lagi er því lýst hve áríðandi er að styðja við starfsþroska kennara og skólaþróun á öllum skólastigum með því að hvetja til ígrundunar á starfinu og skapa námssamfélag. Með því styrkist menntunarsýn kennara og skólastjórnenda; markmið og gildi verða skýrari og starfshættir markvissari við að efla þroska og velferð nemenda. Og í þriðja lagi er rætt hve brýnt er að efla sjálfsvirðingu kennara og efla virðingu samfélagsins fyrir þeim sem fagstétt. Áherslurnar vefast saman og fela í sér ýmis tækifæri og áskoranir í uppeldi og menntun. Kallað er eftir samvinnu og samábyrgð stjórnvalda, kennaramenntunarstofnana, skóla og rannsakenda við að treysta kennaranám og skólaþróun og um leið virðingu fyrir kennurum sem fagstétt.

17.11.2015
Heimir Pálsson
Hugsað um Litlu Skáldu: Kennslubækur og kennsla á miðöldum
Miðaldahandritin AM 748 I b 4to og AM 757 a 4to hafa að geyma hluta Skáldskaparmála úr Snorra-Eddu auk annars efnis um skáldskaparlist. Í þessum handritum er meðal annars um að ræða sjálfstæða gerð kenningatals úr Skáldskaparmálum og hefur þetta efni stundum verið nefnt Litla Skálda. Hér er bent á að líklegast sé þarna á ferðinni sjálfstætt námsefni handa verðandi skáldum og byggi textinn líklega á heimildum sem þess vegna gætu verið kennsluefni frá tólftu öld. Um er að ræða vísnalaust kenningatal, sem líklega hefur átt að lærast eins og það kom fyrir. Greinarhöfundur hefur að markmiði að leggja kennurum upp í hendur efni til að kynna nemendum forna kennslubók og vekja þannig umræður um kennsluhætti. Margir þeir orðaleikir og þær myndir sem á kreiki eru í fornum kenningum eru vænleg til að vekja áhuga nemenda, sem sjálfir hafa nautn af margs konar málþrautum.

31.8.2015
Ólafur Páll Jónsson
Heimspekin sýnir okkur heiminn: Minning um Pál Skúlason (1945-2015)
Páll Skúlason skrifaði fjölmargar greinar um menntun, gagnrýna hugsun, eðli háskóla og mikilvægi menntunar og lýðræðislegs skólastarfs fyrir farsælt samfélag, en greinin Menntun og stjórnmál frá árinu 1987 varð einmitt kveikja að skrifum Ólafs Páls Jónssonar, sem hér minnist Páls, um heimspeki menntunar. Það vekur athygli að þegar Páll ræðir erfiðustu mál samtímans á sviði stjórnmála og siðfræði þá snýr hann ævinlega að menntamálum. Því má segja um Pál, líkt og um John Dewey, að heimspeki hans sé ávallt öðrum þræði menntaheimspeki. Það einkenndi auk þess Pál sem heimspeking að hann vildi ekki einungis skilja tengsl manns og heims heldur vildi hann rækta þessi tengsl. Menntun, samkvæmt skilningi Páls, felst einmitt í ræktun þessara tengsla.

14.4.2015
Ívar Rafn Jónsson og Birgir Jónsson
„… rosa mikilvægt, því þið eruð að gefa ykkur tíma í að tala við okkur“: Vörðuvika – Tilraun til leiðsagnarmats
Í þessari grein segja höfundar frá aðferð sem þeir þróuðu til að bæta leiðsagnarmat í áföngum sem þeir kenna við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ (FMOS). Verkefnið snýst um að auka samtal á milli nemenda og kennara með aðferð sem höfundar kalla vörðuvikur. Í vörðuvikum bjóða kennarar upp á viðtöl þar sem nemandi og kennari fá tækifæri til að tala saman um stöðu nemandans í náminu og móta hugmyndir um næstu skref. Til að meta árangurinn af þessu tilraunastarfi og fá hugmyndir um framhaldið tóku höfundar rýniviðtal við hóp nemenda. Höfundar velta fyrir sér gildi einkunna og spyrja í ljósi af reynslu sinni og jákvæðum viðbrögðum nemenda við vörðuvikum hvort kennarar gefi sér nægan tíma og svigrúm til að tala við nemendur sína um nám þeirra.

14.4.2015
Birna Sigurjónsdóttir
Kennsluhættir í grunnskólum Reykjavíkur: Niðurstöður ytra mats
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur gert heildarmat (ytra mat) í grunnskólum borgarinnar allt frá árinu 2007. Nær allir grunnskólar borgarinnar hafa verið heimsóttir og kennslustundir verið metnar út frá viðmiðum um gæði. Einnig hefur verið merkt við hvaða kennsluhættir einkenndu stundirnar. Frá byrjun árs 2009 hafa 1.066 kennslustundir verið metnar og greindar, þar af hafa 75% verið metnar góðar eða frábærar, rúmlega 22% viðunandi og tæplega 3% óviðunandi. Greining á kennsluháttum í þessum rúmlega þúsund stundum sýnir að langalgengast er að nemendur vinni að verkefnum undir beinni stjórn kennara og hlusti á fyrirlestur eða innlögn hans. Kennarinn er þannig í aðalhlutverki sem fræðari og stýrir námi nemenda að því marki að sömu lausnir komi fram hjá öllum nemendum.

© Copyright 2021 - Netla | Háskóli Íslands | 105 Reykjavík | Kt: 600169-2039 | Vefhönnun: Bongo Design