Ritrýndar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.
Ritstýrðar greinar eru, auk almenns handritalesturs, lesnar af ritstjórn og einum sérfræðingi á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við yfirlestur sérfræðings.
Ritrýndar greinar
30.12.2005
Eygló Björnsdóttir
Hollur er heimafenginn baggi: Um grenndarkennslu og umhverfistúlkun sem leiðir í umhverfismennt
Í greininni er rætt hvernig nýta má skólanámskrá og samþættingu námsgreina til að gera umhverfismennt og heimabyggðarfræðslu að þungamiðju skólastarfs. Sagt er frá aðferðum grenndarkennslu og umhverfistúlkunar og kynntur grenndarkennslunámsvefurinn Á heimaslóð.
30.12.2005
Kristín Norðdahl
Að leika og læra í náttúrunni: Um gildi náttúrulegs umhverfis í uppeldi og menntun barna
Greinin segir frá rannsóknar- og þróunarverkefni um heimsóknir leikskólabarna í lítinn skógarreit. Byggt er á vettvangsathugunum höfundar, viðtölum og spurningalistum. Niðurstöður sýna að skógarferðirnar virtust hafa jákvæð áhrif á heilbrigði, sjálfsmynd, áhuga, nám, sköpunargleði, hugmyndaflug og samskipti.
15.12.2005
Þorsteinn Helgason
Saga mín og heimsins: Kennsluverkefni á persónulegum einsögunótum
Greinin lýsir þeirri sögukennsluaðferð að láta nemendur glíma við sagnfræðileg viðfangsefni á persónulegum einsögunótum. Höfundur miðlar af reynslu, skoðar aðferðina í sögulegu ljósi, rekur dæmi um einsöguverkefni og reifar hugmyndir um gildi einsögu og nálgunar af þessum toga.
22.11.2005
Kristín Norðdahl og Svala Jónsdóttir
Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í sex leikskólum
Hér er lýst rannsókn í sex leikskólum sem leitað hafa leiða til að nýta upplýsinga- og samskiptatækni á markvissan hátt hver eftir sínum áherslum. Einn einbeitti sér að menntun starfsfólks á þessu sviði, annar að þróun vefsvæðis og aðrir að starfi með börnum. Rannsóknin leiðir í ljós mörg dæmi um ný tækifæri fyrir nemendur og starfsfólk í leik og starfi.
3.6.2005
Sif Einarsdóttir
Lögfræðingur, læknir eða prestur? Flokkun íslenskra starfslýsinga samkvæmt kenningu Hollands um starfsáhuga
Greint er frá rannsókn sem sýnir að kenningu Hollands má beita við flokkun íslenskra starfa á áreiðanlegan og réttmætan hátt. Flokkun þessi er fyrsti vísir að skipulögðum rafrænum upplýsingagrunni um störf sem gagnast getur fólki í leit að námi og störfum sem hæfa áhugasviðum þeirra.
4.3.2005
Kristín Á. Ólafsdóttir
Fræ í grýtta jörð eða framtíðarblómstur: Um þróun og framtíðarhorfur leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum
Viðfangsefni þessarar greinar er þróun leikrænnar tjáningar í íslenskum grunnskólum. Dregin eru saman brot úr 35 ára sögu greinarinnar hér á landi og sett í samhengi við skólaþróun og erlend áhrif. Lagt er mat á stöðu greinarinnar og bent á teikn um bjarta framtíð.
Ritstýrðar greinar
19.12.2005
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Stiklur um nýja námskrá í íslensku: Tillögur vinnuhóps
Í greininni segir frá vinnu og niðurstöðum vinnuhóps sem menntamálaráðherra skipaði í ársbyrjun 2005 til að endurskoða námskrá grunn- og framhaldsskóla í íslensku með tilliti til styttingar náms til stúdentsprófs.
9.12.2005
Ingvar Sigurgeirsson, Anna Kristín Sigurðardóttir, Börkur Hansen, Guðbjörg Aðalbergsdóttir, Hafdís Ingvarsdóttir, Lilja M. Jónsdóttir, Ólafur H. Jóhannsson, Rósa Eggertsdóttir og Rúnar Sigþórsson
Ísjakinn færist ekki úr stað ef aðeins á að færa þann hluta sem sýnilegur er: Um kenningar Michael Fullan
Í greininni segir frá hugmyndum og kenningum Michael Fullan en hann er um þessar mundir með kunnustu sérfræðingum um umbótastarf í skólum. Höfundar voru í hópi íslenskra skólamanna sem haustið 2005 sóttu námskeið Fullan í Svíþjóð.
21.11.2005
Helgi Skúli Kjartansson
Já, takk! Af hverju ég vil, þrátt fyrir allt, þiggja námsefni frá “mjög umdeildum aðilum”
Í greininni er brugðist við umræðu í greinum þeirra Ólafs Páls Jónssonar og Þorsteins Hilmarssonar í Netlu fyrr í haust. Höfund greinir ekki á við Ólaf Pál um samkeppni Landsvirkjunar en telur að fagna beri námsefni sem vel er vandað þó að það komi frá aðila sem telja megi umdeildan.
14.10.2005
Ólafur Páll Jónsson
Það er leikur að læðast
Í greininni er farið yfir rök höfundar og andsvör um samkeppni og námsefnisgerð sem Landsvirkjun hefur boðið grunnskólum. Höfundur hóf umræðu um þetta mál með grein fyrr í haust og bregst hér við svargrein Þorsteins Hilmarssonar upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.
5.10.2005
Sigríður Síta Pétursdóttir
Bær í barnsaugum: Að beina sjónum að menningu barna
Bær í barnsaugum hét samvinnuverkefni tíu leikskóla á Akureyri veturinn 2003 til 2004. Börn könnuðu umhverfi sitt og unnu úr ýmsu því sem þannig aflaðist í anda hugmynda frá Reggio Emilia. Verkefninu fylgdu áhugaverðar sýningar á vegum leikskólanna ásamt skýrslu sem er grundvöllur þessarar greinar.
4.10.2005
Þorsteinn Hilmarsson
Samstarf atvinnulífs og skóla: Grein Ólafs Páls Jónssonar svarað
Hér er brugðist við grein Ólafs Páls Jónssonar um að hafna beri boði Landsvirkjunar til samkeppni. Rætt er um samstarf atvinnulífs og skóla, rökum Ólafs Páls andmælt og þeirri afstöðu lýst að inntak keppninnar eigi að meta eftir gæðum. Bent er á að forseti Íslands hafi jafnan lagt hornstein að virkjunum.
27.9.2005
Ólafur Páll Jónsson
Skólinn, börnin og blýhólkurinn
Hér er fjallað um fyrirhugaða samkeppni og fræðslustarf í grunnskólum á vegum Landsvirkjunar þar sem ætlunin er að hlutskörpustu nemendurnir taki þátt í að leggja hornstein að Kárahnjúkavirkjun. Höfundur leiðir að því gild rök að kennarar, skólastjórar og skólayfirvöld eigi að hafna slíkri keppni fortakslaust.
15.9.2005
Helgi Skúli Kjartansson
Talnalæsi eða gagnrýnin hugsun? Lítið dæmi um stórt viðfangsefni í menntun þjóðar
Hér er rakin saga af villu sem endurspeglar rangan skilning á hlutfallareikningi. Höfundur telur að af henni megi ráða að nokkuð skorti á talnalæsi og gagnrýni á upplýsingar í menntun íslensku þjóðarinnar.
15.9.2005
Auður Torfadóttir
Er námsmat í tungumálum í takt við tímann?
Höfundur fjallar um hefðbundið námsmat og stöðluð próf og lýsir áhrifum þeirra. Greint er frá markvissari matsaðferðum í tungumálum og þá einkum þætti sjálfsmats í Evrópsku tungumálamöppunni. Loks er rætt um mikilvægi ígrundunar í kennaranámi.
27.6.2005
Gretar L. Marinósson
Research on Special Education in Iceland 1970-2002
The article gives an overview of research on special education in Iceland from 1970 to 2002. Documentation on research in this area has been surveyed and classified. The article describes and reflects upon the resulting database and its implications.
16.6.2005
Hafþór Guðjónsson
(Einstaklingsmiðað) NÁM
Í greininni er fjallað með gagnrýnum hætti um hugtakið nám. Höfundur fjallar um hugtakið með hliðsjón af hugmyndum um einstaklingsmiðað nám og varpar ljósi á ýmsar hliðar þess með stuðningi af kenningum Jeromes Bruner.
23.5.2005
Kristín Bjarnadóttir
Áhrif styttingar náms til stúdentsprófs á stærðfræðikennslu
Í greininni ræðir höfundur áhrif styttingar náms til stúdentsprófs á stærðfræðikennslu, sem fyrrum áfangastjóri í framhaldsskóla, frá sjónarmiði faglegs umsjónarmanns aðalnámskráa grunnskóla og framhaldsskóla í stærðfræði á árunum 1996–1999 og með tilliti til stærðfræðimenntunar kennaraefna í Kennaraháskóla Íslands.
12.5.2005
Þórunn Óskarsdóttir
Færni til framtíðar: Um lausnaleitarnám
Í greininni er fjallað um náms- og kennsluaðferðina lausnaleitarnám eða Problem-Based Learning. Höfundur byggir greinina á meistaraprófsverkefni sem fólst í gerð upplýsingaseturs og fræðilegrar samantektar um lausnaleitarnám.
5.5.2005
Guðrún Kristinsdóttir og Rúnar Sigþórsson
Glíman við rannsóknaráætlanir
Í þessari grein er fjallað um ýmsar spurningar og álitaefni sem glíma þarf við þegar gerðar eru rannsóknaráætlanir. Höfundar hafa hvor sína framsögu og skiptast því næst á skoðunum.
14.3.2005
Hreinn Þorkelsson
Hvort viljum við fjölþarfa- eða kennitöluskóla?
Í þessari grein er fjallað um nýjustu áherslur í kennslufræðum í samhengi við þá ríkjandi skólagerð sem við höfum búið við allt frá iðnbyltingu (kennitöluskólann). Leitað er svara við áleitinni spurningu: Hvernig miðar í þróunarstarfi að einstaklingsmiðuðu námi og breyttu hlutverki kennarans í íslenskum grunnskólum?
3.3.2005
Hrund Gautadóttir og Eygló Friðriksdóttir
Heimsóknir Ingunnarskóla til valinna skóla í Minnesota
Hér segir frá fimm skólum sem starfsfólk Ingunnarskóla heimsótti í Minnesota haustið 2004. Skólarnir voru valdir með hliðsjón af skólastefnu Ingunnarskóla en þar er verið að þróa sveigjanlega starfshætti með áherslu á samkennslu, teymisvinnu kennara, virkni og ábyrgð nemenda, heildstæð viðfangsefni, samvinnunám og sköpun auk náinna tengsla við grenndarsamfélagið.
14.2.2005
Helgi Skúli Kjartansson
Er hulduþjóðin horfin? eða Hvaða tungumál tala íslenskir unglingar heima hjá sér?
Í greininni leitar höfundur skýringa á óvæntri sérstöðu Íslands sem kom fram í niðurstöðum PISA-rannsókna frá árunum 2000 og 2003. Fleiri unglingar segjast tala annað mál heima fyrir en talað er í skólanum en þeir unglingar eru sem segjast eiga foreldra fædda erlendis.