Hlutverk og menntun þroskaþjálfa

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun.
Sérrit 2015 – Hlutverk og menntun þroskaþjálfa | Birt 31.12.2015.
Menntavísindasvið Háskóla ÍslandsRitstjórn sérrits um hlutverk og menntun þroskaþjálfa.
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2015 – Hlutverk og menntun þroskaþjálfa er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Hafdís Guðjónsdóttir (ritstjóri), Alti Vilhelm Harðarson og Anna Kristín Sigurðardóttir. Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnuar Háskóla Íslands. Robert Berman og Torfi Hjartarson, tveir af þremur ritstjórum Netlu, önnuðust yfirlestur á lokastigi, lokafrágang og birtingu.

Átta greinarGreinar í sérritinu eru átta talsins, þar af sjö ritrýndar. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Ritstýrðar greinar eru rýndar af ritstjórn og einum sérfræðingi.

Ritrýndar greinar

Berglind Bergsveinsdóttir og Vilborg Jóhannsdóttir
Sérþekking og þróun í starfi: Viðhorf reyndra þroskaþjálfa til nýrra áskoranaMeð hliðsjón af örum breytingum og nýjum kröfum í þjónustu við fatlað fólk síðustu ár er mikilvægt að fagstétt þroskaþjálfa sé meðvituð um eigin starfsþróun og þá merkingu sem hún hefur fyrir þá sjálfa sem framsækna fagmenn. Greinin er byggð á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar þar sem meginmarkmiðið var að varpa ljósi á kjarnann í sérþekkingu þroskaþjálfa á breytingatímum, skoða hvaða faglegu tæki þeir eru að nýta í störfum sínum, svo og helstu áskoranir og sóknarfæri hvað starfsþróun varðar. Fjórði áfanginn í starfsþróunarkenningu Rønnestads og Skovholts (2013), fagreynslutímabilið (e. the experienced professional phase), var hafður til hliðsjónar í rannsókninni. Niðurstöður eru byggðar á viðtölum við níu þroskaþjálfa sem starfa á ýmsum vettvangi.

Guðrún V. Stefánsdóttir
Sjálfræði og fólk sem þarf mikinn stuðning í daglegu lífi: „Við höfum alltaf gert þetta svona, það er þeim fyrir bestu“Rannsóknin sem hér segir frá beinist að þáttum sem helst hafa áhrif á sjálfræði fólks með þroskahömlun og þörf fyrir mikinn stuðning í daglegu lífi. Um er að ræða viðkvæman hóp sem lítið hefur verið til umfjöllunar í rannsóknum og því tengjast ýmsar siðferðilegar áskoranir. Byggt var á þátttökuathugunum á heimilum 24 einstaklinga á aldrinum 26–66 ára, auk rýnihópaviðtala við 12 starfsmenn á heimilum fólksins. Starfsfólk reyndist í lykilhlutverki þegar kom að möguleikum þátttakenda til þess að þroska sjálfræði sitt og af niðurstöðum má álykta að bæði þurfi að auka stuðning og breyta skipulagi á heimilum fólksins. Breitt bil virðist vera milli réttar fólksins til sjálfstæðra ákvarðana, sem birtist meðal annars í lögum og mannréttindasáttmálum, og þess veruleika sem við því blasir.

Ingibjörg H. Harðardóttir
„Líður á þennan dýrðardag“: Farsæl öldrun og vangaveltur um hvernig aukin þekking getur haft áhrif og bætt þjónustu við aldraðaMarkmið þessarar greinar er að veita yfirlit yfir rannsóknir sem fjalla um farsæla öldrun (e. successful aging). Kynntar eru skilgreiningar fræðimanna og rýnt í það sem þær eiga sameiginlegt, hvað greinir á milli og hvernig stuðla megi að farsælli öldrun. Auk fræðilegrar umfjöllunar verður litið á ýmiss konar upplýsingar um álit aldraðra, sem aflað hefur verið á síðustu árum, á því hvað felist í farsælli öldrun. Þá verður sjónum beint að þroskaþjálfum sem unnið hafa á stofnunum sem veita öldruðum þjónustu og spurt hvað fagstétt þeirra geti lagt af mörkum til að stuðla að farsælli öldrun skjólstæðinga sinna. Breytt viðhorf setja nú mark sitt á þjónustu við aldraða og líta má á greinina sem innlegg í þá umræðu og þá þróun.

Kristín Björnsdóttir og Lilja Össurardóttir
Hver er lögsaga þroskaþjálfa? Starfsvettvangur, menntun og viðhorf þroskaþjálfaGæslusystraskóli Íslands, forveri Þroskaþjálfaskóla Íslands, var stofnaður fyrir tæpum 60 árum og á þeim tíma hefur nám þroskaþjálfa flust á milli skólastiga og -stofnana. Það fer nú fram á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Á sama tíma hefur orðið mikil og jákvæð breyting á stöðu fatlaðs fólks í íslensku samfélagi og starfsvettvangur þroskaþjálfa breyst. Í rannsókn sem hér segir frá var með spurningalistakönnun leitað upplýsinga um starfsvettvang og menntun þroskaþjálfa. Sjónum var líka beint að viðhorfum þeirra í þessum efnum og laga sem þeir starfa eftir. 441 þroskaþjálfi svaraði könnuninni, mikill meirihluti þeirra konur og hafði um fjórðungur lokið framhaldsnámi. Í greininni er beitt kenningum um lögsögu fagstétta til að varpa ljósi á og skilgreina sérfræðiþekkingu þroskaþjálfa.

Ruth Jörgensdóttir Rauterberg og Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Þátttökurannsókn á tómstundastarfi fyrir 10 til 12 ára börn: Leiðir til að skapa samvinnu- og námsferli í margbreytilegum barnahópiGreinin er byggð á þátttökustarfendarannsókn á þróunarverkefninu Gaman-saman í frístundamiðstöðinni Þorpinu á Akranesi þer sem boðið var upp á öflugt tómstundastarf og leidd saman börn með ólíkan bakgrunn, þar á meðal fötluð og ófötluð börn. Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar á þróun tómstundastarfs fyrir margbreytilegan hóp 10–12 ára barna. Mesti ávinningurinn var þróun leiða til samvinnu en þær voru kynntar með hagnýtu samvinnulíkani fyrir margbreytilega hópa með það fyrir augum að styðja aðra sem vinna með margbreytilegum hópum.

Sigrún Þ. Broddadóttir og Guðrún V. Stefánsdóttir
Að flytja úr foreldrahúsum: Stuðningur við foreldra og ungt fólk með þroskahömlunGreinin byggist á rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við foreldra sjö ungmenna. Auk þess voru tekin viðtöl við unga fólkið og gerðar þátttökuathuganir á heimilum þess. Sex ungmennanna höfðu búið á sambýli en eitt þeirra í íbúðakjarna í um það bil eitt ár. Markmiðið var að varpa ljósi á það með hvaða hætti staðið var að undirbúningi og stuðningi við foreldra og ungt fólk með þroskahömlun við þau tímamót að flytja að heiman, og hvort fólkið hafði val um búsetu, um hvað valið snerist og hvernig aðstæður þess voru eftir flutning. Af rannsókninni má álykta að auka þurfi stuðning við foreldra og unga fólkið við þessi tímamót í lífinu. Auk þess þarf að gera átak í að auka fjölbreytni í búsetumálum fólks með þroskahömlun og upplýsa foreldra og starfsfólk um réttindi fatlaðs fólks, ekki síst til sjálfsákvörðunar.

Vilborg Jóhannsdóttir og Kristín Lilliendahl
Þróun starfa íslenskra þroskaþjálfa í alþjóðlegu ljósiÍ rannsókninni sem hér er greint frá er sjónum beint að fagstétt íslenskra þroskaþjálfa (e. social educators eða social pedagogues) í alþjóðlegu ljósi. Gagnasöfnun er byggð á hálfopnum viðtölum við íslenska þroskaþjálfa og opinni spurningakönnun. Niðurstöður gefa til kynna að störf og starfshlutverk íslenskra þroskaþjálfa falli vel að hæfniviðmiðum alþjóðasamtaka þroskaþjálfa og helstu forsendum þeirra. Ennfremur að fagstéttin sé samstíga milli landa um áherslur í mörgum mikilvægum málum sem varða núverandi stöðu hennar, áskoranir og sóknarfæri. Færa má rök fyrir mikilvægi alþjóðlegs samstarfs fyrir framþróun fagstéttarinnar hér á landi, ekki síst í ljósi þeirra áskorana sem hún stendur frammi fyrir í breyttu starfsumhverfi.

Ritstýrðar greinar

Ástríður Stefánsdóttir
Um heilbrigði og gott lífHér er fjallað um heilbrigði og það hvernig samfélagsgerð og lífsviðhorf geta ýmist styrkt það eða grafið undan því. Ekki er reynt að setja fram skilgreiningu á hugtakinu heilbrigði, heldur fremur brugðið ljósi á mögulegar merkingar þess með því að skoða uppruna þess og tengsl við önnur skyld hugtök, meðal annars við hugmyndina um að vera „heill“, að vera „hluti af heild“ og við „heilagleika“. Í ljósi þessa eru hér raktir þrír meginþræðir; fjallað um hvernig óöryggi og skortur á mannlegum tengslum grafa undan heilbrigði okkar, bent á mikilvægi þess fyrir heilbrigði að við viðurkennum samábyrgð okkar gagnvart samfélaginu sem heild, og hvernig það að við sjáum okkur sem hluta af einhverju stærra og meira leggur grunn að velferð í nútíð og framtíð.