Framhaldsskólinn – menntastefna og félagslegt réttlæti
Sérrit 2024 – Framhaldsskólinn – menntastefna og félagslegt réttlæti | Birt 14.5. 2024
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2024 – Framhaldsskólinn – menntastefna og félagslegt réttlæti er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórar: Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Gerður G. Óskarsdóttir. Gestaritstjóri: Berglind Rós Magnúsdóttir. Anna Bjarnadóttir annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.
Greinarnar
Berglind Rós Magnúsdóttir – Prófessor í menntunarfræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Inngangur Gagnrýnar menntarannsóknir og framhaldsskólinn
Stúdentshúfan, hvíti kollurinn er mikilvægt tákn og viðurkenning fyrir þau sem ljúka framhaldsskóla – lengi eingöngu fyrir þá sem luku námi á bóknámsbrautum en hefur öðlast almennara gildi með möguleikum nemenda af list- og verknámsbrautum til að ljúka stúdentsprófi og kröfunni um framhaldsskóla fyrir alla. Meginefniviður þessa sérrits hverfist um framhaldsskóla og innritunarkerfi þeirra og möguleika ólíkra nemenda innan kerfisins, með sérstakri áherslu á þá sem kerfið skilgreinir sem úrvalsnemendur, nemendur af erlendum uppruna og nemendur með þroskahömlun.
Berglind Rós Magnúsdóttir og Sonja Kosunen.
Útvalin og úrvals: Stofnanaháttur elítuskóla og vegferð stúdentsefna í Reykjavík og Helsinki
Vegferð ungs fólks til fullorðinsára í gegnum framhalds- og háskólakerfið er ferli sem mótar sjálfsmynd þeirra, möguleika og stöðu meðal jafningja. Markmið rannsóknarinnar er að greina stofnanahátt aðgangsstífra bóknámsskóla á Íslandi og í Finnlandi út frá bakgrunni og reynslu nemenda og skoða vegferð þeirra milli framhalds- og háskólastigsins. Fræðileg nálgun er byggð á hugtökum Bourdieu þar sem rýnt er í upplifun nemendanna af ferlinu við að velja og vera valin inn í skólann. Niðurstöðurnar benda til að stofnanaháttur skólanna sé keimlíkur en finnsku nemendurnir þurftu þó að laga sig meira að afar þröngum akademískum viðmiðum. Niðurstöður gefa vísbendingar um að stofnanaháttur framhaldsskólanna skapi, ásamt arfbundnu auðmagni, forsendur fyrir tilteknum smekk og aðgengi að háskólanámi og mærum sem styðji við félagslegt viðhald mismununar.
Kristjana Stella Blöndal, Elsa Eiríksdóttir og Guðrún Ragnarsdóttir.
Stigveldi framhaldsskóla: Frjálst skólaval ýtir undir og endurskapar félagslega lagskiptingui
Íslensk menntastefna leggur áherslu á jafnrétti til náms og inngildingu. Þrátt fyrir það geta framhaldsskólar sett sín eigin inntökuskilyrði og sumir þeirra velja inn nemendur út frá bóklegri frammistöðu við lok grunnskóla. Hefðbundnir bóknámsskólar hafa sterkari samkeppnisstöðu í vali á nemendum en framhaldsskólar sem bjóða bæði upp á bók- og starfsnám (blandaðir skólar). Markmið rannsóknarinnar er að kortleggja hvort og þá hvernig skóla- og námsleiðaval viðheldur félagslegri lagskiptingu og mismunun í íslensku samfélagi í andstöðu við gildandi menntastefnu. Greind voru áhrif skólavals á samsetningu nemendahópa framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins með tilliti til félags- og efnahagslegs bakgrunns nemenda, fyrra námsgengis í bóklegum greinum og væntinga um háskólanám. Niðurstöðurnar sýna skýrt mynstur skóla- og námsleiðavals sem viðheldur félagslegri lagskiptingu.
Anna Björk Sverrisdóttir.
Áskoranir og tækifæri í skipulagi náms nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi í ljósi kenninga um inngildandi menntun og félagslegt réttlæti
Stefna sem byggir á hugmyndafræði um inngildandi menntun eða skóla án aðgreiningar tekur til allra skólastiga en var fyrst lögfest með grunnskólalögum árið 2008. Þrátt fyrir að mannréttindanálgun stefnunnar sé almennt viðurkennd þá hefur reynst erfitt að innleiða hana með árangursríkum hætti, ekki síst á framhaldsskólastiginu þar sem menntun nemenda með þroskahömlun fer enn fram í sérúrræðum innan skólanna. Með tilkomu laga um farsæld barna til 18 ára aldurs og áherslu á snemmtækan stuðning má ætla að gera þurfi róttækar breytingar á kerfinu þar sem nú á að draga úr áherslu á greiningu sem forsendu fyrir stuðningi við nemendur og stuðla að jöfnuði meðal nemenda. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á áskoranir varðandi útfærslu inngildandi menntunar og stuðning við nemendur með þroskahömlun í framhaldsskóla og um leið benda á tækifæri til breytinga. Niðurstöður benda til þess að nemendur með þroskahömlun séu ekki fullgildir þátttakendur í skólasamfélaginu og að stærstu áskoranirnar felist í skilgreiningu á hugtakinu stuðningur með hliðsjón af áherslum inngildandi menntunar sem og skipulagi stuðnings við nemendur með þroskahömlun í formi aðgreindra úrræða.
Eva Dögg Sigurðardóttir.
Brothættir menntunarmöguleikar nemenda af erlendum uppruna við lok grunnskóla: Málamiðlun framtíðarvona
Síðastliðna þrjá áratugi hefur einstaklingum af erlendum uppruna fjölgað hratt á Íslandi og hefur samfélagið þróast frá því að vera fremur einsleitt yfir í að vera fjölþjóðlegt. Slíkum breytingum fylgja áskoranir fyrir íslenskt skólakerfi sem þarf að mæta. Nemendum af erlendum uppruna hefur vegnað verr í skóla og brottfall úr framhaldsskóla er hlutfallslega meira meðal þeirra en nemenda af íslenskum uppruna. Vekur það spurningar um hversu opið íslenskt skólakerfi er í raun, það er hvort börn fái að blómstra í gegnum nám sitt, á eigin forsendum og óháð uppruna. Markmið þessarar rannsóknar er að skilja framtíðarvæntingar unglinga af erlendum uppruna til náms eftir grunnskóla. Tilgangur rannsóknarinnar er að bera kennsl á mögulegar hindranir nemenda með erlendan bakgrunn þegar marka á sér framtíðarstefnu og skilja hvar breytinga er þörf svo hægt sé að mæta þörfum þeirra og veita stuðning. Niðurstöður sýna hvernig framtíðaráform nemenda af erlendum uppruna eru afurð málamiðlana, mótuð m.a. af hugmyndum þeirra um skort á eigin tungumálagetu, bæði í námi og almennt, og hvar á landinu þau búa. Rannsóknin varpar ljósi á hve brothætt framtíðaráform nemenda geta verið, þar sem nemendur meta tækifæri sín eftir því hvernig þau upplifa stöðu sína í íslensku samfélagi.
Magnús Þorkelsson og Gunnlaugur Magnússon.
Að eiga frjálst val um framhaldsskóla: Markaðsvæðing innritunar nýnema í íslenskum framhaldsskólum
Árið 1998 tók Menntamálaráðuneytið ákvörðun um að framhaldsskólanám ætti að verða „einn námsmarkaður“ í landinu öllu. Þar með var vikið frá fyrri stefnu um hverfaskiptingu framhaldsskólanna. Tilgangur breytingarinnar var að gera nýnemum kleift að velja sér hvaða skóla sem væri og var talið að brotthvarf myndi minnka og metnaður bæði í námi og kennslu aukast þegar nemendur yrðu innritaðir á grundvelli einkunna úr grunnskóla. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna afleiðingar upptöku markaðsfyrirkomulags á skólavali fyrir nýnema í framhaldsskólum og voru settar fram þrjár rannsóknarspurningar. Aðferðafræði rannsóknarinnar er greining á tölfræðigögnum frá Innu og innritunargögnum frá Flensborgarskólanum. Niðurstöðurnar sýna að ákveðinn hópur framhaldsskóla hefur sterka stöðu á skólamarkaðnum þar sem þeir hljóta stóran hluta umsókna frá nemendum með háar einkunnir. Það þýðir að sumir skólar eiga þann kost að velja til inntöku nemendur sem styrkir síðan aftur samkeppnisstöðu þeirra. Samtímis sýna gögn Flensborgarskólans að aðrir skólar eru í lakari samkeppnisstöðu og þurfa að taka inn stærri hluta nemenda með lægri einkunnir og flóknari þarfir fyrir stuðning.
Í sérrritinu eru fimm ritrýndar greinar og ritstýrð inngangsgrein. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.
Greinarnar nefnast:
Inngangur: Gagnrýnar menntarannsóknir og framhaldsskólinn, Útvalin og úrvals: Stofnanaháttur elítuskóla og vegferð stúdentsefna í Reykjavík og Helsinki, Stigveldi framhaldsskóla: Frjálst skólaval ýtir undir og endurskapar félagslega lagskiptingu, Áskoranir og tækifæri í skipulagi náms nemenda með þroskahömlun á framhaldsskólastigi í ljósi kenninga um inngildandi menntun og félagslegt réttlæti, Brothættir menntunarmöguleikar nemenda af erlendum uppruna við lok grunnskóla: Málamiðlun framtíðarvona, Að eiga frjálst val um framhaldsskóla? Markaðsvæðing innritunar nýnema í íslenskum framhaldsskólum