Þau skiptu máli: Sögur grunnskólakennara

Sérrit 2023 – Þau skiptu máli: Sögur grunnskólakennara | Birt 31.12. 2023

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2023 – Þau skiptu máli: Sögur grunnskólakennara er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórar: Ingvar Sigurgeirsson og Þuríður Jóna Jóhannsdóttir. Ritstjórnarteymi: Hafdís Guðjónsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Svanborg Rannveig Jónsdóttir. Anna Bjarnadóttir annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands..

Greinarnar

Í sérritinu eru alls 11 greinar – 7 ritstýrðar og 4 ritrýndar. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Yfirlit greina

Inngangur – Hafdís Guðjónsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Svanborg Rannveig Jónsdóttir

Framsækinn kennari sem hlúði að nemendum: Jón Freyr Þórarinsson – Hafdís Guðjónsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir

„Það var bara svo gaman að kenna“: Matthildur Guðmundsdóttir, kennari og kennsluráðgjafi – Jónína Vala Kristinsdóttir og Hafdís Guðjónsdóttir

Starfsævinni að ljúka en eldmóðurinn sem aldrei fyrr: Hlín Helga Pálsdóttir grunnskólakennari – Gunnhildur Óskarsdóttir

„Það var enginn aðgerðalaus í skólastofunni hjá mér“: Ásta Egilsdóttir leik- og grunnskólakennari – Jóhanna Karlsdóttir

Traust og samvinna um skapandi skólastarf í opnu og sveigjanlegu námsumhverfi:
Margrét Einarsdóttir grunnskólakennari –
Torfi Hjartarson

Að móta námsumhverfi í stærðfræði þar sem skapandi hugsun er í fyrirrúmi: Kristjana Skúladóttir stærðfræðikennari – Jónína Vala Kristinsdóttir og Ólöf Björg Steinþórsdóttir

Listkennsla sem fag: Guðrún Erla Geirsdóttir myndmenntakennari – Margrét Elísabet Ólafsdóttir

Frumkvöðull í nýsköpunarmennt: Rósa Gunnarsdóttir grunnskólakennari – Svanborg R. Jónsdóttir

„Skemmtilegasta kennslan er þegar einhver svona ‘aksjón’ er í gangi“: Eyrún Óskarsdóttir grunnskólakennari – Edda Óskarsdóttir

„Kennari þarf áreiðanleg gögn til að geta metið hvort tiltekin hæfni hafi náðst“: Linda Heiðarsdóttir kennari og aðstoðarskólastjóri – Meyvant Þórólfsson

Ritstýrð grein

Hafdís Guðjónsdóttir, Jónína Vala Kristinsdóttir og Svanborg Rannveig Jónsdóttir
Inngangur
Það greinasafn sem hér birtist hefur fengið titilinn Þau skiptu máli – sögur grunnskólakennara. Markmiðið var að gefa út rit um grunnskólakennara sem hafa vakið athygli fyrir störf sín við kennslu í þeim tilgangi að halda á lofti eftirtektarverðu skólastarfi og gefa næstu kynslóðum kennara tækifæri til að kynnast starfi fyrirmyndarkennara. Hugmyndin að bók eða greinasafni varð til og skyldi hver grein fjalla um einn kennara sem segði sögu sína og hvernig hann hefði unnið starf sitt. Við fengum til liðs við okkur samstarfsfólk okkar sem við vissum að hefði unnið með kennurum sem höfðu áhugaverða sögu að segja. Hver rannsakandi valdi kennara til þátttöku og hafði að leiðarljósi við valið að þeir væru eða hefðu verið sjálfstæðir í starfi, ekki látið segja sér fyrir verkum umhugsunarlaust, tekið af skarið varðandi kennslumál, verið frumkvöðlar og óhræddir við að prófa sig áfram í kennslu. Afraksturinn birtist hér í greinasafni þar sem sagt er frá starfi 10 kennara.

Ritstýrð grein

Hafdís Guðjónsdóttir og Jónína Vala Kristinsdóttir
Framsækinn kennari sem hlúði að nemendum: Jón Freyr Þórarinsson

Áhersla á skapandi vinnubrögð nemenda, samvinnu og sjálfstæði þeirra hefur lengi verið ríkur þáttur í skólastarfi á Íslandi þó margir telji að slíkt hafi ekki tíðkast. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf kennara fyrir 60 árum sem lagði áherslu á samvinnu, upplýsingamiðaða kennslu, sjálfstæð vinnubrögð nemenda og uppeldisfræði sem tekur mið af börnum og jafnréttishugsjón. Jón Freyr Þórarinsson var umsjónarkennari höfundanna í fimm ár og hafði mikil áhrif á þá og sýn þeirra á kennslu. Jón Freyr kynnti sér hópvinnubrögð, leitarnám, vinnubókargerð og námstækni og lagði áherslu á samvinnu og samkennd nemenda sinna. Kennsluhættir hans voru framsæknir og sýn hans á skólastarfið og vinnu með nemendum lögðu grunninn að sterkum félagslegum tengslum bekkjarfélaganna.

Ritstýrð grein

Jónína Vala Kristinsdóttir og Hafdís Guðjónsdóttir
„Það var bara svo gaman að kenna“: Matthildur Guðmundsdóttir, kennari og kennsluráðgjafi

Frásagnir af kennsluháttum kennara sem lokið hafa störfum og reynslu þeirra af skólastarfi eru gagnlegar fyrir kennaranema og þá sem starfa að kennaramenntun því þær veita upplýsingar um þróun í starfsháttum kennara. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf grunnskólakennara sem hóf kennsluferil sinn um miðja síðustu öld og lauk starfsferli sínum sem kennsluráðgjafi við aldarlok. Matthildur Guðmundsdóttir var ötul við að kynna sér nýjungar í kennsluháttum og framfarir í skólastarfi og tileinka sér þær í kennslu sinni. Hún átti gott samstarf við námstjóra í Skólarannsóknadeild Menntamálaráðuneytisins og síðar við starfsfólk Kennaraháskóla Íslands. Þegar hún tók við starfi kennsluráðgjafa á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur nýtti hún sér reynslu sína sem kennari og hélt áfram að leita eftir samstarfi við fagfólk á sviði menntamála.

Ritstýrð grein

Gunnhildur Óskarsdóttir
Starfsævinni að ljúka en eldmóðurinn sem aldrei fyrr: Hlín Helga Pálsdóttir grunnskólakennari

Margir yngri barna kennarar hafa verið öflugir í kennslu og leitt breytingar á kennsluháttum. Einn þeirra er Hlín Helga Pálsdóttir sem kenndi bæði við Kennaraháskóla Íslands og Æfingaskólann, síðar Háteigsskóla. Í greininni verður greint frá rannsókn á starfi hennar síðasta árið sem hún starfaði sem kennari. Frásagnarrýni er notuð til að skrá niðurstöður rannsóknarinnar. Greinin er byggð á gögnum sem aflað var með viðtölum við Hlín, vettvangsathugunum og skrifum hennar um eigið nám og starf. Hlín lagði sérstaka áherslu á að þróa vinnubrögð í lestrarkennslu, útikennslu og teymiskennslu og notaði samstund og valsvæði sem leiðir til að koma til móts við fjölbreyttar þarfir nemenda. Náttúrufræðikennsla var henni sérstaklega hugleikin og þar lagði hún áherslu á virkni og þátttöku nemenda í eigin námi.

Ritstýrð grein

Jóhanna Karlsdóttir
„Það var enginn aðgerðalaus í skólastofunni hjá mér“: Ásta Egilsdóttir leik- og grunnskólakennari

Hér er greint frá störfum leik- og grunnskólakennarans Ástu Egilsdóttur, kennara sem vann af fagmennsku og miklum áhuga á að skoða starf sitt og ígrunda það í þeim tilgangi að vera stöðugt að bæta það og þróa. Ásta starfaði lengst af við Grundaskóla á Akranesi. Hún þótti ná vel til nemenda með fjölbreyttum viðfangsefnum sem vöktu áhuga þeirra. Í greininni er fjallað um á hvern hátt kennarinn Ásta styrkti fagmennsku sína. Eigindlegar rannsóknaraðferðir voru notaðar og gagna aflað með viðtölum við Ástu en auk þess var gerð skjalarýni á fjölbreyttum gögnum sem hún hefur skráð um kennslu sína og nám nemenda, svo sem kennsluáætlunum, sögum og ljósmyndum úr skólastarfi. Unnið var úr gögnunum í samráði við Ástu þar sem megináherslur hennar í starfi eru hafðar til hliðsjónar.

Ritrýnd grein

Torfi Hjartarson
Traust og samvinna um skapandi skólastarf í opnu og sveigjanlegu námsumhverfi: Margrét Einarsdóttir grunnskólakennari

Greinin og rannsóknin sem þar er lýst beinast að viðburðaríkum starfsferli og um margt einstæðri reynslu Margrétar Einarsdóttur grunnskólakennara og skólastjóra. Til grundvallar liggja rannsóknarviðtöl við Margréti ásamt fyrri athugunum höfundar á húsakynnum skóla og innleiðingu nýrra kennsluhátta tengdum nýsköpun og tækni í samvinnu við aðra rannsakendur. Rannsóknin varpar ljósi á samspil stjórnunar, kennslu og húsakynna eða annars námsumhverfis á löngum starfsferli við nokkra íslenska grunnskóla. Leitast er við að draga fram hvernig nýstárleg og opin húsakynni og stundum tækni studdu við eða ýttu undir samstarf kennara, teymiskennslu, samvinnu nemenda og verkefnamiðað nám.

Ritrýnd grein

Jónína Vala Kristinsdóttir og Ólöf Björg Steinþórsdóttir
Að móta námsumhverfi í stærðfræði þar sem skapandi hugsun er í fyrirrúmi: Kristjana Skúladóttir stærðfræðikennari

Áhersla á hugsun barna um stærðfræði og hvernig þau takast á við stærðfræðinám sitt hefur fengið aukið vægi í kennaramenntun og námskrá undanfarna áratugi. Tilgangurinn með þessari grein er að gefa innsýn í starf stærðfræðikennara sem hefur haft það að markmiði að gefa nemendum sínum tækifæri til að beita skapandi hugsun við stærðfræðinámið. Kristjana Skúladóttir hefur kennt á yngsta stigi og miðstigi grunnskóla í rúma þrjá áratugi og lagt sig eftir að kynna sér rannsóknir á hugsun barna um stærðfræði og kennsluhætti sem styðja þau við að beita skapandi hugsun. Greint er frá rannsóknarverkefnum sem hún hefur kynnt sér og lýst hvernig hún hefur nýtt sér þekkingu sína á þeim í kennslu sinni og við að styðja aðra kennara til að þróa kennsluhætti sína í stærðfræði.

Ritrýnd grein

Margrét Elísabet Ólafsdóttir
Listkennsla sem fag: Guðrún Erla Geirsdóttir myndmenntakennari

Myndmennt er skyldunámsgrein í grunnskólum og ein þeirra námsgreina sem fellur undir list- og verkgreinar. Myndmenntakennarar eru sérgreinakennarar sem kenna flestum árgöngum grunnskólans frá miðstigi upp á unglingastig. Myndmenntakennsla fer fram í sérútbúinni skólastofu og benda rannsóknir til að myndmenntakennarar eigi yfirleitt í takmörkuðum samskiptum við aðra kennara. Fáar íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á starfi myndmenntakennara innan kennslustofunnar og takmörkuð þekking er til staðar á því hvernig kennsla fer fram, hvaða námsefni er notað í kennslunni og hvernig kennslan samræmist markmiðum aðalnámskrár. Í þessari rannsókn er spurt um kennsluhætti, námsefnisgerð og aðbúnað eins kennara, Guðrúnar Erlu Geirsdóttur sem segir frá þróun kennsluaðferða sinna sem myndmenntakennari við Langholtsskóla í Reykjavík á árunum 1996–2017.

Ritstýrð grein

Svanborg R. Jónsdóttir
Frumkvöðull í nýsköpunarmennt: Rósa Gunnarsdóttir grunnskólakennari

Í þessari grein er sagt frá Rósu Gunnarsdóttur sem hefur sinnt ýmsum hlutverkum í menntamálum og eitt þeirra er hlutverk grunnskólakennarans. Tilgangurinn með greininni er að koma á framfæri áhugaverðum hugmyndum Rósu um nám og kennslu, sér í lagi er snýr að skapandi hugsun og eflandi uppeldis- og kennslufræði. Markmiðið er að segja sögu grunnskólakennarans Rósu Gunnarsdóttur sem hefur látið að sér kveða á ýmsum stigum skólastarfs og menntamála, meðal annars verið frumkvöðull í að kenna nýsköpunarmennt og vinna rannsóknir á því sviði. Leitað er svara við spurningunni: Hvað einkennir hugsjónir og menntahugmyndir Rósu Gunnarsdóttur, hvernig birtast þær í kennslu hennar og hvað hefur haft áhrif á mótun þeirra? Til að draga fram sögu Rósu var byggt á aðferðafræði ævisögulegra lífssöguaðferða og frásagnarrýni. Niðurstöðurnar eru settar fram sem rýnisögur sem lýsa tímabilum og viðfangsefnum í lífi og starfi hennar. Niðurstöðurnar eru kynntar í sex undirköflum sem byggja á þemunum sem birtust

Ritrýnd grein

Edda Óskarsdóttir
„Skemmtilegasta kennslan er þegar einhver svona ‘aksjón’ er í gangi“: Eyrún Óskarsdóttir grunnskólakennari

Sköpun er einn af sex grunnþáttum menntunar hér á landi og hefur þeirri hæfni verið ætlað aukið rými í skólastarfi á undanförnum árum. Tilgangur rannsóknarinnar var að öðlast skilning á hvað einkennir skapandi kennslufræði. Leitað var svara við spurningunni um hvað megi læra um skapandi kennslufræði af grunnskólakennaranum Eyrúnu Óskarsdóttur. Eyrún hefur starfað í ólíkum skólum á ýmsum stöðum á landinu, allt frá fámennum sveitaskóla upp í einn af fjölmennustu skólum höfuðborgarsvæðisins. Sérsvið hennar er myndmennt en hana hefur hún sjaldnast kennt eingöngu heldur hefur hún oftast verið í almennri kennslu og þá aðallega á yngsta stigi eða miðstigi grunnskólans.

Ritstýrð grein

Meyvant Þórólfsson
„Kennari þarf áreiðanleg gögn til að geta metið hvort tiltekin hæfni hafi náðst“: Linda Heiðarsdóttir kennari og aðstoðarskólastjóri
Linda Heiðarsdóttir ólst upp í Laugarneshverfinu í Reykjavík, sótti þar skóla og hóf þar einnig starfsferil sinn, fyrst sem stuðningsfulltrúi, síðan sem grunnskólakennari og loks sem aðstoðarskólastjóri. Ljóst er að skólamenning Laugarneshverfisins hafði djúpstæð áhrif á Lindu, bæði sem barn í skyldunámi og sem verðandi kennara. Þar átti umsjónarkennari hennar fyrstu fjögur skólaárin ríkan þátt. Við upphaf starfsferils Lindu áttu sér stað töluverðar breytingar á skólakerfinu. Ný grunnskólalög tóku gildi og í kjölfarið ný og breytt aðalnámskrá með tilheyrandi grundvallarbreytingum á námsmati. Linda hefur tekið drjúgan þátt í umræðu og vinnu sem fylgt hefur þessum breytingum og starfað þar sem mikilvirkur frumkvöðull.