Framtíð og tilgangur menntunar: Sérrit til heiðurs Jóni Torfa Jónassyni, prófessors emeritus

Sérrit 2022 – Framtíð og tilgangur menntunar: Sérrit til heiðurs Jóni Torfa Jónassyni, prófessors emeritus | Birt 12.11. 2022

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2022 – Framtíð og tilgangur menntunar: Sérrit til heiðurs Jóni Torfa Jónassyni, prófessors emeritus er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritsjórar: Amalía Björnsdóttir, Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, Auður Magndís Auðardóttir, Jón Ingvar Kjaran og Eyja Margrét Jóhönnu Bynjarsdóttir. Katrín Valdís Hjartardóttir annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 24 greinar alls – 4 ritstýrðar og 20 ritrýndar. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Greinarnar nefnast: Þróun leikskóla á Íslandi: Samtal við skrif Jóns Torfa Jónassonar, Framsækið skólastarf – vegvísar til framtíðar, Áherslur á mannréttindi í skólastarfi: Innsýn í aðferðir Réttindaskólans, Stafræn hæfni: Sjálfsmatsverkfærið SELFIE í skólaþróun, Stutt nám handa stelpunum – um hömlur á menntasókn íslenskra stúlkna á 20.öld, Sálfræði í skólastarfi, Alþjóðlegur bakgrunnur, skólasókn og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum 2001-2021, Skuldbinding nemenda og tengsl við kennara í framhaldsskóla, Áskoranir starfsmenntunar: Aðgengi starfsmenntanema að háskólanámi, Togstreita og andstæð sjónarmið: Sýn kennara og skólastjórnenda á þróun og framtíðarmöguleika framhaldsskólans, Háskóli fyrir alla, Framsýni og menntakerfi: Mótun menntastefnu með framtíð að leiðarljósi, Tilgangur og framtíð menntunar í ljósi stefnumörkunar OECD og UNESCO til 2030, Lýðræðishlutverk háskóla og áskoranir samtímans, Responding to obstacles to educational change: Can online professional learning communities of educators help alleviate inertia?, Þættir sem hafa áhrif á möguleika grunnskólakennara til að styðja við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda, Gildi meistaraprófsverkefna fyrir fagmennsku uppeldisstétta: Reynsla útskrifaðra meistaranema, „Þetta getur opnað dyr“ Reynsla háskólakennara sem rannsakenda eigin kennslu, Listin að spyrja, Hugtakið samvirkni í heimspeki Deweys, Ljóð, sögur og lifandi hugsun, Að varðveita heiminn: Hannah Arendt og menntakrísan, „Sem allra mest af þokkafullum ilmi“ – Ljóðið Íþaka eftir Konstantinos P. Kavafis lesið sem hugleiðing um menntamál, Bíbí í Berlín uppfrædd og fermd

Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Inngangur. Spáð í framtíð menntunar með Jóni Torfa

Líkt og önnur vísindi þá eru rannsóknir á sviði menntunar leiddar af eldhugum og hugsjónafólki sem brenna fyrir því að skilja hvaða öfl stjórna hvernig við þroskumst, lærum og menntumst. Einn þeirra sem hefur lagt sitt lóð ríkulega á vogarskálar er Jón Torfi Jónasson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands. Í þessu heiðursriti birtast, alls 24 fræðigreinar eftir 38 fræðimenn af sviði menntavísinda, kennslufræði, heimspeki, sagnfræði, félagsfræði, náms- og starfsráðgjafar, fötlunarfræði og sálfræði. Þau fjölbreyttu og ólíku sjónarhorn sem birtast í greinunum endurspegla hve djúpar rætur fræðimannsins og rannsakandans Jóns Torfa eru. Höfundar hvetja okkur á ýmsa vegu til samtals og ígrundunar um framtíð menntunar og ábyrgð okkar á henni. Í inngangi fjallar Kolbrún Þ. Pálsdóttir um háskólamanninn og rannsakandann Jón Torfa, kynnir helstu viðfangsefnin sem hann hefur fengist við og endurspeglast í ritinu, og færir honum þakkir fyrir dýrmætt framlag til menntavísinda og ákaflega farsælt samstarf.

Jóhanna Einarsdóttir og Anna Magnea Hreinsdóttir
Þróun leikskóla á Íslandi: Samtal við skrif Jóns Torfa Jónassonar
Árið 2006 gaf dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor út bókina Frá gæslu til skóla: Um þróun leikskóla á Íslandi. Þar greindi hann þróun leikskólastigsins frá mörgum ólíkum sjónarhornum. Í ritinu er farið yfir sögu leikskólans á Íslandi, formleg umgjörð hans og starfshættir skoðuð sem og menntun leikskólakennara. Í þessari grein verður litið til baka og nokkur þeirra álitaefna sem Jón Torfi veltir upp skoðuð nú 16 árum síðar. Notuð var skjalagreining og farið yfir opinber gögn um leikskólann á liðnum 16 árum. Meginniðurstaða greinarinnar er að sú þróun sem orðið hefur varðandi ytri umgjörð og innra starf íslenska leikskólans sé um margt til fyrirmyndar. Hins vegar virðast vera teikn á lofti um ósamræmi milli opinberrar stefnu og starfshátta sem benda til þess að huga þurfi betur að innleiðingu og eftirfylgni stefnumótunar.

Ingvar Sigurgeirsson
Framsækið skólastarf – vegvísar til framtíðar

Í þessari grein er leitast við að velja og lýsa nokkrum dæmum um nám og kennslu í anda framsækinnar kennslufræði (e. progressive education) í íslenskum grunnskólum. Dæmin eru sótt í vettvangsathuganir höfundar sem fylgst hefur vel með kennslu í vel á annað hundrað skólum undanfarna hálfa öld. Skoðun höfundar er að framsækin kennslufræði eigi enn brýnt erindi við kennara og nemendur. Færð eru rök að því að mikill skyldleiki sé með áherslum hennar og þeim hugmyndum sem nú eru uppi í námskrám og alþjóðlegri stefnumörkun um kennsluhætti sem mikilvægt er talið að þróa til að undirbúa nemendur sem best fyrir líf og starf í samfélagi 21. aldar.

Ragný Þóra Guðjohnsen og SigrúnAðalbjarnardóttir
Áherslur á mannréttindi í skólastarfi: Innsýn í aðferðir Réttindaskólans

Áhersla á mannréttindi hefur á síðustu áratugum komið sterkar fram í menntastefnum vestrænna ríkja og er Ísland þar á meðal. Máttur menntunar er mikill, sér í lagi þegar tryggja þarf mannréttindi og mannúð í síbreytilegum heimi. Tilgangur greinarinnar er að rekja í sögulegu ljósi hvernig réttindi barna og ungmenna þróast í íslenskri menntalöggjöf og kynna niðurstöður úr fyrstu tilviksrannsókn hér á landi á Réttindaskólaverkefni UNICEF. Í hnotskurn má segja að Réttindaskólaverkefnið sé að mati viðmælenda gott veganesti fyrir nemendur í samtíð og framtíð og það hafi stuðlað að framförum í skólastarfi með bættum skólabrag, samskiptum og aukinni samábyrgð.

Svava Pétursdóttir, Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir og Sólveig Jakobsdóttir
Stafræn hæfni: Gagnsemi sjálfsmatsverkfæra og leiðarlykla í skólaþróun

Sjálfsmatsverkfærið SELFIE (Self-reflection on Effective Learning by Fostering the use of Innovative Educational Technologies) er byggt á ramma DigCompEdu og er ætlað að leggja mat á stafræna hæfni í skólum. Hægt er að nota vefkerfi SELFIE til að leggja kannanir í skólum meðal stjórnenda, kennara og nemenda til að meta stöðu varðandi stjórnun, tæknilega innviði, starfsþróun, stafræna hæfni og nýtingu stafrænnar tækni í námi og kennslu. Í greininni er sagt frá samstarfs- og þróunarverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands um stafræna hæfni í skólastarfi. Markmið verkefnisins er að hvetja til umræðu um hvað felst í stafrænni hæfni og styðja við leiðbeinandi mat sem stuðlað getur að frekari þróun og breytingum.

Helgi Skúli Kjartansson
Stutt nám handa stelpunum. Um hömlur á menntasókn íslenskra stúlkna á 20. öld

Skólaganga íslenskra ungmenna, umfram skyldufræðslu, hefur kynslóðum saman verið að lengjast. Breyting fór hægt af stað og hægar hjá stúlkum en piltum svo að fyrir hundrað árum voru þær aðeins brot af nemendafjölda, bæði í langskólanámi og styttra námi, almennu jafnt sem starfstengdu. Þá hefst það ferli sem greinin fjallar um og leiddi til núverandi stöðu: Að stúlkur eða konur ná betri árangri í námi en piltar eða karlar og halda lengur áfram í skóla, og er munurinn mestur í almennu bóknámi. Í greininni er leitast við að skýra þessa þróun. Annars vegar út frá hugmyndum hvers tíma um hlutverk kvenna í samfélagi og á vinnumarkaði og hins vegar út frá undirliggjandi áhuga stúlkna ekki síður en pilta á bóklegri menntun.

Sigurður J. Grétarsson og Einar Guðmundsson
Sálfræði í skólastarfi

Greinin er framlag til umræðu og skólasálfræði á Íslandi – meðal kennara og skólafólks, sálfræðinga og helst milli allra þessara hópa. Tvenns konar skólasálfræði er kynnt til sögunnar; fyrst fræðin sem æskilegt er að kennarar kunni deili á og síðan fagið sem „skólasálfræðingar“ stunda og standa fyrir. Skýrð eru grundvallaratriði sem lúta að hagnýtingu sálfræðinnar og kynnt málefni sem skipta máli fyrir sameiginlegan skilning kennara og sálfræðinga á hlutverki sálfræðinnar í skólastarfi. Næst er vikið að sálfræði í námi og starfi kennara – og loks er fjallað um þróun í starfi skólasálfræðinga á Íslandi og æskilega stefnu í þeim efnum – með sérstöku tilliti til skóla án aðgreiningar

Ólöf Garðarsdóttir, Eyrún María Rúnarsdóttir og Guðjón Hauksson
Alþjóðlegur bakgrunnur, skólasókn og brotthvarf úr íslenskum framhaldsskólum 2001-2021

Jón Torfi Jónasson hefur á ferli sínum dregið fram hið lít öfundsverða hlutskipti íslenskra framhaldskólanema sem birtist í miklu brotthvarfi þeirra frá námi. Í þessari rannsókn er sjónum beint að framhaldsskólasókn, þar sem kannaðar eru líkur á því að nemendur hefji nám að loknum grunnskóla og er þeim svo fylgt til 22 ára aldurs. Markmiðið er að bera saman framhaldsskólasókn fjögurra árganga (1985-88) sem luku grunnskóla við upphaf 21. aldar og fjögurra árganga (1995-98) sem luku grunnskóla tíu árum síðar. Könnuð er framhaldsskólasókn eftir uppruna nemenda, þ.e. hvort þeir hafa innlendan eða alþjóðlegan bakgrunn.

Kristjana Stella Blöndal og Elva Björk Ágústsdóttir
Skuldbinding nemenda og tengsl við kennara í framhaldsskóla

Miklu skiptir fyrir farsæla skólagöngu að nemendur taki virkan þátt í skólanum, tengist skólasamfélaginu og finnist námið merkingarbært. Rannsóknir sýna að stór hópur framhaldsskólanemenda virðist afhuga námi og samsama sig ekki skólanum. Lítil skuldbinding á þessu aldursskeiði hefur verið rakin til þess að framhaldsskólaumhverfið komi ekki nægilega til móts við þarfir nemenda á þessu þroskaskeiði en rannsóknir skortir. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á samskipti nemenda og kennara í framhaldsskóla og hvernig reynsla nemenda mótar skuldbindingu þeirra til náms og skóla. Byggt er á eigindlegri viðtalsrannsókn sem náði til 15 nemenda í sex mismunandi framhaldsskólum. Skýrt kom fram hversu miklu máli tengsl við kennara skiptu fyrir skuldbindingu viðmælenda og lýstu þeir hvernig góð tengsl við kennara höfðu jákvæð áhrif á nám þeirra, virkni, vellíðan og gleði í skólanum.

Elsa Eiríksdóttir
Áskoranir starfsmenntunar: Aðgengi starfsmenntanema að háskólanámi

Ein af helstu áskorunum starfsmenntunar á framhaldsskólastigi er hvernig hægt er að breyta þeirri ímynd að starfsmenntun sé blindgata í menntakerfinu. Þessi áskorun er oft rædd út frá eflingu starfsmenntunar og er yfirleitt átt við hvernig hægt er að fá fleiri ungmenni til að velja starfsmenntun. Sérstaklega hefur verið lögð áhersla á að veita starfsmenntanemendum tækifæri til áframhaldandi náms í háskóla. Markmið greinarinnar er að skoða hvernig aðgengi starfsmenntanema að háskólastiginu hefur þróast síðustu tvo áratugi. Niðurstöður draga fram að hlutdeild starfsnámsnema í háskólanámi hefur verið lítil þrátt fyrir stækkun háskólastigsins og ekki er ljóst hvort það stafi af kerfislægum hindrunum, skorti á tækifærum eða áhugaleysi gagnvart því námi sem hefur verið í boði.

Guðrún Ragnarsdóttir og Súsanna Margrét Gestsdóttir
Togstreita og andstæð sjónarmið: Sýn kennara og skólastjórnenda á þróun framtíðarmöguleika frmhaldsskólans

Ekki fer á milli mála að COVID-19 faraldurinn hafði mikil áhrif á skólastarf víðsvegar um heiminn. Á Íslandi fór starfsemi framhaldsskóla að mestu fram með fjarfundabúnaði í heilt ár og starfsfólk og nemendur sinntu verkefnum sínum að heiman. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á sýn kennara og stjórnenda þriggja framhaldsskóla á þróun framhaldsskólans og framtíðarmöguleika með hliðsjón af þeirri reynslu sem kreppuástand heimsfaraldurs hefur veitt til þessa. Niðurstöður greinarinnar eru mikilvægt innleg í áframhaldandi umræðu um þróun framhaldsskólans. Þær sýna reynslu kennara og skólastjórnenda sem staddir voru í óvæntu breytingaferli og hugmyndir þeirra um þróun og framtíðarmöguleika skólastigsins.

Kristín Björnsdóttir, Ólafur Páll Jónsson og Guðrún V. Stefánsdóttir
Háskóli fyrir alla

Undanfarna hálfa öld eða svo hafa fatlaðir nemendur öðlast aukinn rétt til náms samhliða viðurkenningu á að þeir eru ekki einungis hluti af samfélaginu heldur einnig þátttakendur í því. Árið 2007 bauð Kennaraháskóli Íslands í fyrsta sinn upp á starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun. Um var að ræða svar við kröfu fólks með þroskahömlun um aukin tækifæri til náms. Tilgangur diplómunámsins var að veita fólki með þroskahömlun möguleika til fullgildrar samfélagsþátttöku. Háskólanám fyrir fólk með þroskahömlun ögrar hugmyndum um háskólanám en gagnrýnisraddir hafa haldið því fram að með því að bjóða nemendum með þroskahömlun inn í skólann sé dregið úr gæðum hans. Í þessari grein er þessi gagnrýni skoðuð nánar.

Tryggvi Thayer
Framsýni og menntakerfi: Mótun menntastefnu með framtíð að leiðarljósi

Í greininni er fjallað um áhrif framtíðafræða og framsýnisáætlana á menntakerfi og mótun menntastefnu til lengri tíma. Sagt er frá rannsókn þar sem kannað var hvaða langtímaáhrif þátttaka fulltrúa aðila, sem koma að mótun menntastefnu í framsýnisáætlunum um framtíð menntunar, hefði á aðra í þeirra daglega starfsumhverfi. Rannsóknin náði til tveggja framsýnisáætlana: Ísland 2020 áætlunarinnar og eftirfylgnisaðgerð um framtíð menntunar sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð fyrir árið 2013. Niðurstöðurnar sýna mikilvægi þess að framsýnisáætlanir séu vandlega undirbúnar með tilliti til vals á þátttakendum, miðlun upplýsinga um markmið áætlana og fræðslu um tilgang og aðferðir framtíðafræða.

Valgerður S. Bjarnadóttir
Tilgangur og framtíð menntunar í ljósi stefnumörkunar OECD og UNESCO til 2030

Í umræðu um skóla og menntun, þar sem gjarnan er tekist á um tæknileg atriði sem snúa að kerfi og skipulagi, skortir iðulega umræðu um raunverulegan tilgang menntunar í samhengi við heiminn og framtíðina. Þetta er ekki síst vandamál nú á dögum þegar staðið er frammi fyrir alvarlegum ógnum gagnvart samfélagi og náttúru. Í greininni er birt greining á stefnumótunarskjölum frá OECD og UNESCO. Niðurstöðurnar endurspegla ólíka grundvallarsýn stofnananna tveggja, þar sem samfélagslegur tilgangur menntunar, meðal annars til að hlúa að sameiginlegri framtíð náttúru og samfélags á jörðinni, er nokkuð skýr hjá UNESCO. OECD- stefnan aftur á móti endurspeglar mun meiri togstreitu milli samfélagslegs og efnahagslegs hlutverks menntunar.

Vilhjálmur Árnason
Lýðræðishlutverk háskóla og áskoranir samtímans

Í greininni er leitað svara við spurningunni hvernig háskólar geti best þjónað lýðræði í samtímanum sem einkennist af upplýsingaóreiðu, ófrjálslyndum hugmyndum og viðskiptavæðingu á flestum sviðum. Reifaðar eru þrenns konar ólíkar röksemdir um tengsl lýðræðis og háskóla; rök í anda frjálslyndis, þátttökulýðræðis og rökræðulýðræðis. Ræddar eru lykilhugmyndir í hverjum þessara röksemda og spurt um þýðingu þeirra fyrir lýðræðishlutverk háskóla. Því er haldið fram að allar feli þær í sér mikilvæg atriði, en að rökræðulýðræðisrökin hafi mest vægi andspænis þeim þáttum sem standa lýðræðislegu hlutverki háskóla fyrir þrifum.

Pascale Mompoint-Gaillard
Responding to obstacles to educational change: Can online professional learning communities of educators help alleviate inertia?

The complexity and uncertainty that our societies face today invites us to rethink our notions of learning, schooling, and the broader question of the purpose of educations. This paper discusses Jónasson´s article „Educational change, inertia and potential futures: Why is it difficult to change the content of education?“ In which he argues that these disruptions demand changes in education, namely in its aims, and in its content. The results show how the OPLC, by opening a space for educators to critically reflect on their practice with peers and facilitators, presents a model that may start addressing the two selected inertial constraints cited by Jónasson.

Sigrún Harðardóttir, Ingibjörg Karlsdóttir og Alex Björn Stefánsson
Þættir sem hafa áhrif á möguleika grunnskólakennara til að styðja við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda

Kennarar þurfa að hafa velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku. Því er það hverju samfélagi mikilvægt að kennurum sé gert kleift að laga kennslu að fjölbreytilegum þörfum nemenda. Í þessari grein er sagt frá niðurstöðum spurningalistakönnunar sem send var kennurum á grunnskólastigi (N=478) námsveturinn 2018-2019 með það að markmiði að kanna viðhorf þeirra og reynslu af stuðningi við börn með námserfiðleika og fjölþættan vanda í grunnskólum. Þá er átt við börn sem hafa verið greind með ADHD, einhverfu, almenna og sértæka námserfiðleika, tilfinningalega og félagslega erfiðleika og Tourettesheilkenni. Niðurstöður sýna að um helmingur kennara taldi að sér gengi vel að laga námið að þörfum nemenda. Helstu ástæður voru mikil starfsreynsla, góður stuðningur frá samstarfsfólki og hæfilegur fjöldi nemenda í bekk.

Hafdís Guðjónsdóttir, Svanborg R. Jónsdóttir, Karen Rut Gísladóttir, Edda Óskarsdóttir og Anna Katarzyna Wozniczka
Gildi meistaraprófsverkefna fyrir fagmennsku uppeldisstétta: Reynsla útskrifaðra meistaranema

Kennaramenntun á Íslandi er fimm ára sérmenntun á háskólastigi; þrjú ár í grunnnámi og tvö á meistarastigi. Frá hausti 2020 hefur Menntavísindasvið boðið upp á meistaranám til kennsluréttinda án þess að gera lokaverkefni, svokallað MT-nám. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á gildi þess að vinna MEd-/MA- verkefni í meistaranámi á Menntavísindasviði. Niðurstöður benda til þess að flestir þátttakendur hafi talið sig hafa mikið gagn af að hafa unnið rannsóknartengt lokaverkefni. Í gegnum rannsóknarferlið upplifðu þeir valdeflingu og töldu sig eiga auðveldara með að taka afstöðu, útskýra vinnubrögð sín og fylgja þeim eftir.

Anna Ólafsdóttir og Guðrún Geirsdóttir
Þetta getur opnað dyr: Reynsla háskólakennara sem rannsakenda eigin kennslu

Í greininni verður fjallað um rannsókn sem höfundar unnu meðal háskólakennara sem stunduðu diplómunám í háskólakennslufræðum á vegum Menntavísindasviðs og Kennslumiðstöðvar HÍ á árunum 2014-2016. Markmið diplómunámsins er meðal annars að efla kennslufræðilegar rannsóknir og fræðilega nálgun í háskólakennslu og byggir námið á hugmyndum um fræðimennsku náms og kennslu. Helstu niðurstöður voru þær að þótt þátttakendur væru öll reyndir rannsakendur á sínum fræðasviðum fylgdu því þekkingarfræðilegar, aðferðafræðilegar og siðferðilegar áskoranir að fóta sig innan menntunarfræðanna.

Jón Ásgeir Kalmansson
Listin að spyrja

Dr. Jón Torfi Jónasson hefur bent á að menntaumræða hafi á síðustu áratugum ekki fjallað um það sem hún ætti að fjalla um, sem séu grundvallarspurningar um eðli menntunar, hlutverk skóla, og tengsl menntunar og skóla. Hún hafi fremur beinst að tæknilegum og fjárhagslegum þáttum skólastarfs. Í þessari grein verður brugðist við ákalli Jóns Torfa um eflda umræðu um eðli menntunar með því að beina athygli að því sem hann telur að hafi skort í menntaumræðum upp á síðkastið, spurningum um grundvallarþætti menntunar og skóla.

Hafþór Guðjónsson
Hugtakið samvirkni í heimspeki Deweys

Grein þessi beinir athyglinni að hugtakinu transaction í heimspeki Deweys. Hugtakið, sem höfundur kýs að kalla samvirkni, virðist undirliggjandi í heimspeki Deweys nánast frá upphafi en hann tekur það ekki til skipulegrar athugunar fyrr en undir lok ævi sinnar í bókinni Knowing and the Known. Í viðleitni til að skilja þetta hugtak rýnir höfundur í Knowing and the Known en styðst líka við nýlegar bækur eftir Dewey sérfræðinga. Heimspeki Deweys má skoða sem svar hans við tvíhyggju Descartes sem skiptir heiminum í tvær „deildir“; mannshugann annars vegar og heiminn þar fyrir utan hins vegar. Með samvirknihugtakið að vopni rýfur Dewey þessa deildaskiptingu með þeim afleiðingum að maðurinn hættir að vera áhorfandi, en verður í staðinn hluti af og virkur þátttakandi í þeim eina heimi sem er.

Ólafur Páll Jónsson
Ljóð, sögur og lifandi hugsun

Jón Torfi Jónasson hefur velt fyrir sér hvernig á því standi að sem kennsluaðferð virðist samræða ævinlega lenda úti á jaðrinum í skólastarfi þrátt fyrir að í aldanna rás hafi hver umbótahugmyndin rekið aðra þar sem samræður eða rökræður hafa einmitt verið í brennidepli. Í þessari grein færir höfundur rök fyrir því að ein ástæða fyrir jaðarsetningu samræðna sé að námsefni sé gjarnan svo dautt og leiðinlegt að það geti alls ekki vakið upp samræður og haldið þeim á lífi. Kennslubækur eru gjarnan skrifaðar með það í huga að miðla til nemenda staðreyndum eða þekkingu. Andspænis þessum vanda má læra ýmislegt af ljóðum og sögum; þau hjálpa okkur að tengjast heiminum, skynja hann og skilja.

Eva Harðardóttir
Að varðveita heiminn: Hannah Arendt og menntakrísan

Í þessari grein spreytir höfundur sig á spurningu sem Jón Torfi Jónasson hefur lagt sérstaka áherslu á í starfi sínu og framlagi til menntaumræðu og rannsókna. Spurningin snýr að hlutverki menntunar og skólastarfs í síbreytilegum heimi. Til þess styðst höfundur að mestu við greinina „The Crisis in Education“ sem fjallar um stöðu menntamála í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar en greinina skrifaði pólitíski hugsuðurinn Hannah Arendt árið 1954. Með því að leita í smiðju Arendt tekur höfundur alvarlega það sem Jón Torfi sagði nýlega (og hefur rætt áður) að á sama tíma og mikilvægt er að hugsa hlutina alveg upp á nýtt er líka gott að rifja upp gamlar og góðar hugmyndir (Jón Torfi Jónasson, 2020).

Atli Harðarson
„Sem allra mest af þokkafullum ilmi“ Ljóðið Íþaka eftir Konstantinos P. Kavafis lesið sem hugleiðing um menntamál

Þau 154 ljóð sem Konstantinos P. Kavafis sendi frá sér um ævina mynda heild. Þau gefa hvert öðru merkingu. Hugsanir sem eru orðaðar stuttlega í einu ljóði eru skýrðar nánar í öðrum. Stór hluti þessara hugsana varðar kosti fólks á að menntast – hvort við getum öðlast visku eða hvort veröldin hafi okkur ævinlega að fíflum. Í greininni er eitt af þekktustu verkum Kavafis, ljóðið „Íþaka“ skoðað í ljósi annara ljóða hans og skýrt hvernig skáldið líkir menntun við ævilangt ferðalag þar sem reynslan á leiðinni skiptir meira máli en áfangastaðurinn. Í framhaldi af skoðun á ljóðinu og tengslum þess við verk og líf skáldsins er spurt um menntunina sem þar er lýst og hvaða máli hún skipti fyrir okkur.

Guðrún V. Stefánsdóttir, Sólveig Ólafsdóttir og Sigurður Gylfi Magnússon
Bíbí í Berlín uppfrædd og fermd

Bíbí hét fullu nafni Bjargey Kristjánsdóttir (1927-1999) og var kennd við kotbæ foreldra sinna, Berlín, sem var rétt utan við Hofsós. Hún þótti bráðgert barn en veiktist á fyrsta ári og var í kjölfarið stimplum sem „fáviti“ af fjölskyldu sinni og sveitungum. Sjálfsævisaga Bíbíar ber vott um góða greind og innsæi í líf sitt og aðstæður og kemur að flestum tímabilum í lífshlaupi hennar. Markmið greinarinnar er tvíþætt annars vegar að varpa ljósi á barnæsku Bíbíar, uppfræðslu hennar og fermingu. Hins vegar er rýnt í margþættar opinberar heimildir sem til eru um barnæsku Bíbíar með það að markmiði að afhjúpa söguleg viðhorf sem enn setja mark sitt á skólagöngu og tilveru fatlaðs fólks.