Menntakvika 2017

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Sérrit 2017 – Menntakvika 2017 | Birt 31.12.2017
Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2017 – Menntakvika 2017 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Kristín Björnsdóttir (ritstjóri), Helgi Skúli Kjartansson og Berglind Gísladóttir. Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru átta ritrýndar greinar. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Smábörnin með snjalltækin: Aðgangur barnanna og viðhorf foreldra; Matarumhverfi við íþróttaiðkun barna: Rannsóknarverkefni; „Samt höfum við vitað þetta allan tímann“: Orðræðan um börnin á Kópavogshæli; Hvað hindrar kennara í að styðja sjálfræði nemenda í skólastarfi; Milli steins og sleggju: Hugmyndir umsjónarkennara um faglegt sjálfstæði sitt til að tryggja fulla þátttöku allra nemenda í efstu bekkjum grunnskóla; Einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað: Könnun meðal félagsmanna Kennarasambands Íslands; Pólskur og íslenskur orðaforði tvítyngdra leikskólabarna: Málumhverfi heima og í leikskóla; Um siðferðis og skapgerðarmenntun: Á óformlegt nám erindi inn í skóla?

Steingerður Ólafsdóttir
Smábörnin með snjalltækin: Aðgangur barnanna og viðhorf foreldra
Steingerður Ólafsdóttir fjallar um notkun snjalltækja meðal barna í ljósi tækniþróunar. Þessi grein er fyrsta yfirlit úr þessari rannsókn yfir miðlanotkun barna á Íslandi á aldrinum 0-8 ára og viðhorf foreldranna til notkunarinnar. Niðurstöðurnar benda til þess að þegar fimm ára aldri hefur verið náð aukist líkurnar á að börnin eigi sín eigin tækni til miðlanotkunar, sérstaklega spjaldtölvur. Hins vegar deila börn oft snjalltækjum með öðrum í fjölskyldunni. Foreldrar eru oft með börnunum við miðla notkun en samveran minnkar með hækkandi aldri barnanna, þá hafa sumir foreldrar engar reglur um miðlanotkun en mikill meirihluti þeirra telur að foreldrar beri mesta ábyrgð þegar kemur að því að vernda börn við miðlanotkun

Birna Varðardóttir, Elísabet Margeirsdóttir, Steingerður Ólafsdóttir og Anna Sigríður Ólafsdóttir
Matarumhverfi við íþróttaiðkun barna: Rannsóknarverkefni
Grein Birnu Varðardóttur og félaga fjallar um fæðuval 10-18 ára barna í tengslum við íþróttaæfingar þeirra hjá Ungmennafélaginu Aftureldingu í Mosfellsbæ. Leitast var við að varpa ljósi á það hvernig börn og foreldrar upplifa matarumhverfi og fæðuframboð innan íþróttamiðstöðvar félagsins, auk þess að kanna fæðuvenjur barna í tengslum við æfingarnar. Samkvæmt niðurstöðunum einkenndist fæðuval iðkenda, í tengslum við íþróttaiðkun, af hollum eða frekar hollum valkostum. Fáir iðkendur nýttu sér það reglulega að kaupa mat í veitingasölu íþróttahússins í tengslum við æfingar. Um þriðja hvert foreldri og fjórða hvert barn vildu sjá breytingar á matarumhverfi félagsins. Foreldrar litu á mat að heiman, þjálfara og vini sem helstu hvata til að borða hollan mat í tengslum við æfingar. Helstu hvatar að mati barna voru framboð á mat að heiman og nægur tími. Að mati foreldra voru helstu hindranir fyrir því að borða hollan mat tímaskortur, verð, aðstaða og framboð í matsölu félagsins. Orkuríkir en næringarsnauðir valkostir einkenndu framboð á matvöru og drykk í veitingasölu íþróttahússins. Auglýsingar um mat og drykk voru flestar í aðalsal félagsins.

Guðrún V. Stefánsdóttir
„Samt höfum við vitað þetta allan tímann“: Orðræðan um börnin á Kópavogshæli
Guðrún V. Stefánsdóttir skrifar grein um orðræðugreiningu í fjölmiðlum í kjölfar útgáfu skýrslu um könnun á vistun barna á Kópavogshæli á árunum 1952-1993, sem kom út árið 2016. Í kjölfar útgáfu skýrslunnar varð mikil umræða á frétta- og vefmiðlum. Í orðræðugreiningunni þróuðust þrír meginorðaflokkar: Í fyrsta lagi lærdóms- og baráttuorðræða sem var fyrirferðarmest í gögnunum. Lærdóms- og baráttuorðræðan var í anda félagslegs mannréttindaskilnings á fötlun þar sem litið var svo á að ofbeldið og vanrækslan gagnvart börnunum á Kópavogs¬hæli væri mannréttindabrot sem stjórnvöldum bæri að bæta fyrir. Í öðru lagi kom fram eins konar varnar- eða réttlætingar¬orðræða fyrrverandi starfsfólks um það að hafa lítið getað spornað gegn því ofbeldi sem börnin á Kópavogshæli urðu fyrir. Í þriðja lagi kom fram gagnrýnin orðræða fatlaðra aðgerðasinna en hún skar sig mest úr orðræðunni um Kópavogshælið. Þar voru fjölmiðlar harðlega gagnrýndir fyrir að hafa ekki leitað eftir áliti fatlaðs fólks á skýrslunni og því ofbeldi sem börnin urðu fyrir.

Ingibjörg Kaldalóns
Hvað hindrar kennara í að styðja sjálfræði nemenda í skólastarfi?
Ingibjörg Kaldalóns fjallar í þessari grein um sjónarhorn kennara og sýn þeirra á það hvaða þættir í eigin starfi og starfsumhverfi hindri stuðning við sjálfræði nemenda á mið- og unglingastigi. Varpað er ljósi á ýmsa ytri þætti sem kennarar telja að hindri þá í því að styðja sjálfræði nemenda; svo sem kerfislegar kröfur, takmarkaðar bjargir og ósveigjanlegt skipulag. Innri hindranir, eða hugmyndalegar hindr¬anir, vógu þó þyngra og voru þær greindar eftir hugmyndum Bernsteins um uppeldislega orðræðu. Greining kennsluorðræðunnar sýndi að við þurfum að efla nýja þekkingu með kennurum um formgerð sem skapar aðstæður til að efla sjálfræði nemenda. Stýringarorð¬ræðan um fræðslu sem meginmarkmið náms heldur aftur af breytingum og hindrar stuðn¬ing við sjálfræði.

Guðbjörg Ólafsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir
Milli steins og sleggju: Hugmyndir umsjónarkennara um faglegt sjálfstæði sitt til að tryggja fulla þátttöku allra nemenda í efstu bekkjum grunnskóla
Greinin fjallar um reynslu kennara á unglingastigi af starfi í anda stefnu um skóla án aðgreiningar. Tekin voru eigindleg viðtöl við sex umsjónarkennara í jafnmörgum skólum í fjórum bæjarfélögum. Niðurstöður leiddu í ljós að kennarar upplifðu miklar skorður í starfi sínu hvað varðaði formgerð, menntastrauma og faglegan stuðning. Þeim þótti einnig faglegt sjálfstæði hafa rýrnað og björgum fækkað á seinni árum, auk þess að lítið svigrúm gæfist fyrir vangaveltur um siðferðilegt hlutverk og inntak skólans. Kennurunum var tíðrætt um mikilvægi þess að vera með í ráðum í hvers kyns stefnumótun í kennslu.

Hjördís Sigursteinsdóttir
Einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað: Könnun meðal félagsmanna Kennarasambands Íslands
Afleiðingar eineltis, áreitni og ofbeldis á vinnustað eru alvarlegar, bæði fyrir þolanda og vinnustað. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hversu algengt þetta væri meðal félagsmanna aðildarfélaga KÍ. Um 4500 félagsmenn svöruðu rafrænum spurningalista. Niðurstöðurnar sýna að mörg eineltis-, áreitnis- og ofbeldismálanna höfðu ekki verið tilkynnt en alvarlegast var í hversu mörgum tilvikum ekkert var aðhafst þrátt fyrir að þau væru það. Algengast var að stjórnendur og vinnufélagar væru nefndir sem gerendur í eineltismálum og vinnufélagar í málum er vörðuðu kynferðislega og kynbundna áreitni. Nemendur voru nær alltaf nefndir sem gerendur líkamlegs ofbeldis. Álykta má að einelti, áreitni og ofbeldi sé alvarlegt vandamál á vinnustöðum félagsmanna KÍ og að ástæða sé til að stjórnendur sambandsins leitist við að uppræta einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað.

Aneta Figlarska, Rannveig Oddsdóttir, Samúel Lefever og Hrafnhildur Ragnarsdóttir
Pólskur og íslenskur orðaforði tívityngdra leikskólabarna: Málumhverfi heima og í leikskóla
Farsæl máltaka tvítyngdra barna er meðal annars háð því ílagi sem þau fá í hvoru tungumáli fyrir sig. Rannsóknir á orðaforða tvítyngdra barna á Íslandi sýna mun minni íslenskan orðaforða en eintyngdra jafnaldra þeirra. Rannsakendur könnuðu pólskan og íslenskan orðaforða tvítyngdra barna og skoðuðu hvernig málumhverfi þeirra, heima og í leikskóla, styður máltöku beggja málanna. Þátttakendur voru hópur 4-6 ára barna sem eiga pólska foreldra en hafa alist upp á Íslandi. Niðurstöður sýndu að pólskur orðaforði flestra barnanna var innan viðmiðunarmarka fyrir eintyngd pólsk börn, en íslenskur orðaforði þeirra var mun lakari en eintyngdra íslenskra barna á sama aldri. Foreldrar barnanna hlúðu vel að máltöku pólskunnar en megináherslan á íslenskuna var á leikskólunum, þar sem málörvun fór fram í gegnum daglegt starf. Deildarstjórarnir töldu ekki nóg gert og að flest börnin þyrftu frekari íslenska málörvun.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir
Um siðferðis- og skapgerðarmenntun. Á óformlegt nám erindi inn í skóla?
Þessi grein varpar ljósi á siðferðis- og skapgerðarmenntun innan skóla og stöðu slíkrar menntunar á Íslandi. Þó að fræðimenn hafi varpað ljósi á mikilvægi þess að efla siðferðilega dómgreind nemenda bendir margt til þess að sá þáttur skólastarfs verði almennt útundan. Einn þáttur í viðleitni til eflingar þessa er innleiðin á lífsleikni sem námsgrein í grunn- og framhaldsskóla. Kennarar eru auk þess mikilvægar fyrirmyndir í að leggja grunn að virðingu og umhyggju í skólastarfi. Í greininni eru færð rök fyrir því að til að skapa skilyrði fyrir siðferðis- og skapgerðarmenntun innan grunnskóla sé nauðsynlegt að beita hugmyndafræði óformlegs náms, ekki síður og ef til vill fremur en aðgerðum formlegs náms.