Um læsi
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Sérrit 2016 – Um læsi | Birt 07.09.2016
Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Ritstjórn sérrits um læsi
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2016 – Um læsi er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Þórunn Blöndal (ritstjóri), Svanhildur Kr. Sverrisdóttir og Ólafur Páll Jónsson. Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnuar Háskóla Íslands.
Greinarnar
Í sérritinu eru sex ritrýndar greinar. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Ritstýrðar greinar eru rýndar af ritstjórn og einum sérfræðingi.
Ritrýndar greinar
Rannveig Auður Jóhannsdóttir lektor
Byrjendur í lestri: Lestrarfærni tvö fyrstu árin í grunnskóla
Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna lestrarfærni hjá tuttugu nemendum í einum bekk tvö fyrstu árin í grunnskóla í Reykjavík. Rannsókninni er ætlað að auka þekkingu á færni byrjenda í lestri í 1. og 2. bekk í íslenskum skólum. Lestur er einstaklingsbundin færni sem mótast hjá flestum börnum í byrjun grunnskóla og eflist hjá flestum í lestrarnámi á fyrstu árunum. Lestrarfærni nemenda var könnuð með prófum sem grunnskólar nota, skimunarprófi í læsi og hraðaprófum í raddlestri. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lestrarfærni barnanna er mismunandi. Einnig sýna þær að helmingur nemenda í bekknum gat lesið upp að vissu marki í byrjun grunnskóla. Þá kemur fram að færni í lestri eykst hjá öllum nemendum í bekknum tvö fyrstu skólaárin miðað við stöðu þeirra þegar þeir byrjuðu í grunnskólanum og jafnframt eykst lestrargeta jafnt og þétt hjá flestum nemendum.
Rannveig Oddsdóttir, Hrafnhildur Ragnarsdóttir, Freyja Birgisdóttir og Steinunn Gestsdóttir
Hvað ræður mishröðum framförum í textaritun barna?: Langtímarannsókn á ritun frásagna og upplýsingatexta í 2.–4. bekk
Í fyrstu bekkjum grunnskóla eru börn að ná tökum á táknkerfi ritmálsins og byrja að spreyta sig á því að setja saman ritaða texta. Framfarir í textaritun eru háðar mörgum samverkandi þáttum, svo sem færni í umskráningu, tökum á tungumálinu og sjálfstjórn, auk þess sem sú kennsla sem börn fá hefur mikið að segja. Framvindan getur því verið ólík og mishröð hjá einstaklingum. Markmið rannsóknarinnar sem hér er kynnt var að skoða einstaklingsmun á framförum í textaritun íslenskra barna í 2.–4. bekk, athuga hvort framfarir barnanna væru samstiga í tveimur ólíkum textategundum, frásögnum og upplýsingatextum, og kanna hvort sjá mætti tengsl á milli framfara barnanna og stöðu þeirra í umskráningu, orðaforða og sjálfstjórn. Ritunarverkefni voru lögð fyrir 45 börn með árs millibili í 2., 3. og 4. bekk og mælingar á sjálfstjórn, umskráningu og orðaforða nýttar til að kanna áhrif þessara þátta á framfarir í rituninni.
Sigríður Ólafsdóttir, Freyja Birgisdóttir, Hrafnhildur, Ragnarsdóttir og Sigurgrímur Skúlason
Orðaforði og lesskilningur hjá börnum með íslensku sem annað mál: Áhrif aldurs við komuna til Íslands.
Rannsóknin er hluti doktorsrannsóknar fyrsta höfundar (Sigríður Ólafsdóttir, 2015) sem hafði þann megintilgang að bera saman hversu hratt orðaforði eykst og lesskilningur eflist hjá börnum sem hafa íslensku sem annað tungumál (ísl2) og hjá jafnöldrum sem eiga íslensku að móðurmáli (ísl1) frá fjórða bekk til áttunda bekkjar grunnskólans. Einnig voru skoðuð áhrif orðaforða í fjórða bekk á hraða framfara barnanna í lesskilningi yfir rannsóknartímann. Þá var rannsókninni ætlað að kanna áhrif aldurs við flutning til Íslands á hraða þróunar hjá börnunum í þessum mikilvægu færniþáttum. Tveir aldurshópar ísl2-barna sem komu á mismunandi aldri til landsins voru prófaðir þrisvar. Sá yngri var prófaður í fjórða, fimmta og sjötta bekk og sá eldri í sjötta, sjöunda og áttunda bekk. Orðaforða- og lesskilningspróf voru lögð fyrir í öll skiptin.
Freyja Birgisdóttir
Orðaforði og lestrarfærni: Tengsl við gengi nemenda í lesskilningshluta PISA
Frammistöðu íslenskra nemenda í PISA-könnuninni hefur hrakað jafnt og þétt undanfarinn áratug, ekki síst í lesskilningi. Þótt ýmsar ástæður fyrir því hafi verið nefndar hafa fáar rannsóknir verið gerðar þar sem skoðað er sérstaklega hvað gæti valdið slöku gengi íslenskra nemenda í lesskilningshluta PISA. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna möguleg svör við þeirri spurningu. Próf sem meta orðaforða, færni í lestri, sjálfstjórn í námi, ánægju af lestri, lestrartíðni og námsaðferðir í lesskilningi voru lögð fyrir lagskipt úrtak 280 nemenda af landinu öllu og frammistaða þeirra tengd einkunn á lesskilningshluta PISA-prófsins. Megin-niðurstöður voru þær að orðaforði og sjálfvirkni í lestri veitti einna sterkustu forspána um það hvort nemendur lentu yfir eða undir tveimur lægstu hæfniþrepunum í lesskilningi, jafnvel eftir að tekið hafði verið tillit til þekktra áhrifabreyta eins og ánægju af lestri, lestrartíðni og námsaðferða í lesskilningi.
Anna-Lind Pétursdóttir og Kristín Ólafsdóttir
Samvinna um læsi í leikskóla: Áhrif K-PALS á hljóðkerfisvitund, hljóðaþekkingu, hljóðafimi og umskráningarfærni leikskólabarna.
Í þessari rannsókn voru athuguð áhrif K-PALS (e. Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) á hljóðkerfisvitund, stafaþekkingu, stafafimi, hljóðaþekkingu, hljóðafimi og umskráningarfærni 5–6 ára barna. Þátttakendur í rannsókninni voru 57 börn úr elsta árgangi fjögurra leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Tilraunahópur (20 stúlkur og 10 drengir) tók þátt í K-PALS tvisvar til fjórum sinnum í viku, alls 30–45 æfingum sem vörðu um 30 mínútur hver. Samanburðarhópur (15 stúlkur og 12 drengir) fékk annars konar kennslu í undirstöðuþáttum lesturs, meðal annars með æfingum í litlum hópum til að efla hljóðkerfisvitund, stafa- og hljóðaþekkingu. Hljóðkerfisvitund, stafaþekking, stafafimi, hljóðaþekking, hljóðafimi, umskráning orða og orðleysa voru mæld að hausti og að vori hjá báðum hópunum. Tölfræðiúrvinnsla með ANCOVA-samvikagreiningu (þar sem stjórnað var fyrir stöðu barnanna að hausti) sýndi að tilraunahópurinn mældist marktækt hærri að vori en samanburðarhópurinn á öllum breytum öðrum en stafafimi þar sem enginn munur reyndist á hópunum.
Amalía Björnsdóttir, Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir.
Tengsl niðurstaðna á HLJÓM-2 við gengi á samræmdum prófum: Hverjir bæta stöðu sína og hverjir dragast aftur úr?
Í þessari grein eru kynntar niðurstöður úr langtímarannsókn þar sem mælingar á málþroska 5 ára barna í leikskóla með HLJÓM-2 eru tengdar við árangur á samræmdum prófum í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla. Einnig eru niðurstöður bornar saman við svör sömu þátttakenda við spurningalista um gengi í grunnskóla sem lagður var fyrir þá þegar þeir voru 18–19 ára. Í rannsókninni var þátttakendum skipt í þrjá færnihópa eftir niðurstöðum á HLJÓM-2 og í sambærilega hópa eftir niðurstöðum á samræmdum prófum í grunnskóla. Í hópi 1 eru þau 25% sem fengu lægstu stigatöluna, í hópi 2 næstu 25% og í hópi 3 þau 50% sem voru með stigatölu í meðallagi eða þar yfir. Kannað var hversu hátt hlutfall nemenda hafði bætt stöðu sína, það er færst á milli hópa, í samanburði við jafnaldra frá því að þeir tóku HLJÓM-2 og þar til þeir tóku samræmd próf. Einnig voru könnuð áhrif þess á námsárangur að nemendur hafi fengið sérkennslu eða talið sig hafa þurft á sérkennslu að halda en ekki fengið slíka kennslu.