Bókmenntir, listir og grunnþættir menntunar

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Sérrit 2018 – Bókmenntir, listir og grunnþættir menntunar | Birt 31.12.2018
Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2018 – Bókmenntir listir og grunnþættir menntunar er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Jón Ásgeir Kalmansson, Eyja M. Brynjarsdóttir og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 11 ritrýndar greinar. Auk almenns prófarkalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Laxdæla saga og siðferðilegt uppeldi í skólum; Ógæfa Bolla Þorleikssonar: Hugleiðing um hvernig Laxdæla saga leggur spurningar fyrir lesanda sinn en svarar þeim ekki; Lína Langsokkur sterkust í öllum heiminum – Astrid Lindgren í heimi skólans; Sérfræðingskápan -nám í hlutverki. Rannsókn á notkun kennsluaðferða leiklistar í skólastarfi með ungum börnum; Grunnþættir menntunar, myndlist og mannkostamenntun; Laxdæla sem fóður fyrir gagnrýna hugsun; Margbrotið hlutverk leiklistarkennarans í kennslu leiklistar í tengslum við innleiðingu á leiklist; Barnabókmenntir, byrjandalæsi og grunnþættir menntunar; Dygðir, siðferði og siðferðisþroski: Að nota Íslendingasögur til mannkostamenntunar; Dygðir í Laxdæla sögu: Efniviður fyrir mannkostamenntun; Siðfræði í bókmenntakennslu

Atli Harðarson, Ólafur Páll Jónsson, Róbert Jack, Sigrún Sif Jóelsdóttir og Þóra Björg Sigurðardóttir
Laxdæla saga og siðferðilegt uppeldi í skólum
Rannsóknin sem hér segir frá er hluti af stærra verkefni um samspil bókmenntakennslu og siðferðilegs uppeldis. Í greininni er leitast við að svara spurningum um siðferðilegan orðaforða unglinga. Spurningunum er svarað með vísunum í skrif um siðfræði og siðferðilegt uppeldi, auk þess sem stuðst er við rannsókn sem gerð var í þremur grunnskólum. Greining á niðurstöðum benti til þess að kennslan hefði bætt skilning nemenda á orðaforða um siðferðilegar dygðir. Bæði kennararnir og nemendur voru jákvæðir í garð verkefnisins.

Atli Harðarson
Ógæfa Bolla Þorleikssonar: Hugleiðing um hvernig Laxdæla saga leggur spurningar fyrir lesanda sinn en svarar þeim ekki
Þegar Laxdæla er notuð sem kennsluefni er oft reynt að einfalda hana þar sem sagan er flókin og í henni fléttast saman margir þræðir. Í greininni er rökstutt að sá þráður sem tengir flesta kaflana sé sagan um ógæfu Bolla Þorleikssonar. Hægt er að túlka söguna á marga mismunandi vegu og hún vekur upp spurningar án þess að svara þeim. Lesandinn þarf því að glíma við gátur og næstum er sem sögumaður kalli eftir umhugsun og umræðu. Laxdæla er því heppilegt kennsluefni, ekki bara sem Íslendingasaga heldur til að kenna nemendum að rökræða og hugsa um siðferðileg efni.

Gunnar E. Finnbogason
Lína langsokkur sterkust í öllum heiminum – Astrid Lindgren í heimi skólans
Meginmarkmið greinarinnar er að benda á leiðir fyrir kennara og aðra uppalendur sem vilja bæta lesskilning barna með því að ræða um það sem lesið er. Með því að m.a. tala við börn, lesa fyrir þau, hlusta þegar þau lesa sjálf og ræða um það sem lesið er, má stuðla að auknum lesskilningi þeirra. Með samtali við fullorðið fólk öðlast börn reynslu sem er forsenda þess að skapa félagsleg tengsl og þróa samkennd og vináttu. Í greininni eru tekin dæmi úr bókun Astridar Lindgren um Línu langsokk. Í sögunum eru margar kringumstæður þar sem tilvistarlegar og siðferðilegar spurningar vakna í samskiptum barna og í samskiptum þeirra við heim hinna fullorðnu.

Hákon Sæberg Björnsson og Ása Helga Ragnarsdóttir
Sérfræðingskápan – nám í hlutverki: Rannsókn á notkun kennsluaðferða leiklistar í skólastarfi með ungum börnum
Í greininni er sagt frá rannsókn á notkun kennsluaðferðarinnar sérfræðingskápunnar í íslensku skólastarfi. Aðferðin er á sviði leiklistar í kennslu og byggist á því að nám fari fram í hlutverki sérfræðinga í tilteknu viðfangsefni innan ímyndunarheims. Tilgangur rannsóknarinnar var meðal annars að skoða hvernig aðferðin nýtist kennara í starfi. Niðurstöður gefa til kynna að notkun á sérfræðingskápunni geti bætt upplifun nemenda af námi og stuðlað að tilfinningalegri hvatningu fyrir nemendur í náminu. Áhugi nemenda virtist aukast sem og afköst þeirra.

Ingimar Ólafsson Waage
Grunnþættir menntunar, myndlist og mannkostamenntun
Mannkostamenntun er reist á samtímakenningum um aristótelíska dygaðsiðfræði þar sem vitsmunaleg ígrundun, geðshræringar og virkur vilji skipta höfuðmáli. Skólar geta eflt svokallað dygðalæsi nemenda. Listir hafa frá örófi alda fylgt manningum og geta hjálpað fólki að skilja aðra og öðlast dýpri skilning á hlutskipti annarra. Þannig geta fjölbreytt listaverk frá ýmsum tímaskeiðum veitt siðferðilega þekkingu og verið vettvangur samræðna og skoðanaskipta um siðferðileg álitamál sem ýmist eiga rætur sínar í samfélaglegum málefnum eða persónulegu innra lífi.

Ólafur Páll Jónsson
Laxdæla sem fóður fyrir gagnrýna hugsun
Fornbókmenntir gefa tilefni til margvíslegra rökræðna um flókin álitamál og henta því ágætlega til að þjálfa nemendur í gagnrýnni hugsun – Laxdæla er gott dæmi. Sagan er margræð og fjallar um málefni sem almennt brenna á ungmennum, eins og til dæmis vináttu, heiðarleika, lygar og blekkingar. Þegar Laxdæla er lesin sem opið tilboð um samræður býr kennarinn, þótt hann sé sérfræðingur, ekki yfir „réttum svörum“ heldur er hann jafningi nemenda í þeim pælingum sem sagan gefur tilefni til. Að taka skáldverk er ein leið út úr einhliða miðlun í kennslu yfir í gagnrýnar samræður þar sem endalausar spurningar geta vaknað.

Rannveig Björk Þorkelsdóttir
Margbrotið hlutverk leiklistarkennarans í kennslu leiklistar í tengslum við innleiðingu á leiklist
Viðfangsefni greinarinnar er að varpa ljósi á og dýpka skilning á leiklistarkennslu í grunnskóla við innleiðingu leiklistar sem fags. Rannsóknin var eigindleg og byggð á etnógrafískri rannsóknarhefð – menning bekkja í tveimur skólum var grandskoðuð. Niðurstöður fela í sér ítarlegar lýsingar og þær kalla á breytingar í faglegri þróun leiklistarkennarans. Enn fremur kallar rannsóknin á endurskilgreiningu leiða til að styðja starfsþróun leiklistarkennarans og breyta kennsluháttum hans, nemendum til góða.

Rannveig Oddsdóttir, Halldóra Haraldsdóttir og Jenný Gunnbjörnsdóttir
Barnabókmenntir í skólastarfi: Byrjendalæsi og grunnþættir menntunar
Í greininni er fjallað um niðurstöður rannsóknar á því hvernig grunnþættir menntunar birtast í vinnu út frá barnabókum í 1. og 2. bekk í skólum sem nota kennsluaðferðina Byrjendalæsi. Í kennsluaðferðinni eru barnabækur notaðar á markvissan hátt í læsiskennslu og sýndu niðurstöður að í Byrjendalæsisvinnunni gáfust einnig tækifæri til að vinna með grunnþætti menntunar út frá efni bókanna. Aðferðin Byrjendalæsi gefur möguleika til umfjöllunar um grunnþættina út frá efni og inntaki bókmenntanna og umgjörð aðferðarinnar er vel til þess fallin að vinna að markmiðum grunnþátta menntunar um lýðræðisleg vinnubrögð, samvinnu og virka þátttöku allra.

Róbert Jack
Dygðir, siðferði og siðferðisþroski: Að nota Íslendingasögur til mannkostamenntunar
Í þessari grein er fjallað um forsendur þess að nota Íslendingasögur til mannkostamenntunar með nemendum á unglingsaldri. Einnig er fjallað um þær aðstæður í bókmenntum þar sem dygðir (eða lestir) birtast. Jafnframt er fjallað um siðferði Íslendingasagna og hvernig fræðileg umræða um það efni getur haft áhrif á mannkostamenntun. Siðferði sem viðgekkst á tímum Íslendingasagna og það siðferði sem er viðtekið nú til dags er borið saman og þroskalíkan Gilligans er notað til þess. Það er líka nýtt við skoðun einkenna þeirrar siðferðilegu hugsunar sem stefna má að í mannkostamenntun með unglingum.

Róbert Jack
Dygðirnar í Laxdæla sögu: Efniviður fyrir mannkostamenntun
Bókmenntakennsla í anda mannkostamenntunar byggist á því að fjalla um dygðirnar í textanum. Í greininni er fjallað ítarlega um greiningu á dygðum í Laxdælu og tveimur aðferðum beitt við þetta. Í báðum tilfellum voru sams konar dæmi tekin saman til að gefa sem besta mynd af notkun orða og tilvist dygða í Laxdælu. Greiningin er rökstuðningur fyrir tilvist dygða í sögunni, getur nýst þeim sem vilja kenna hana út frá dygðum og hún varpar fræðilegu ljósi á þær dygðir sem finna má í Laxdæla sögu.

Þóra Björg Sigurðardóttir
Siðfræði í bókmenntakennslu
Í þessari grein er sjónum beint að reynslu íslenskukennara af því að kenna unglingum í grunnskóla Íslendingasöguna Laxdælu með áherslu á siðferði. Í viðtölum við kennara kom fram að almennt miða þeir að því að unglingarnir njóti bókmenntanna og greina mátti viðhorf í þá veru að bókmenntir eigi að vera mannbætandi og þroskandi og að þær hafi gildi í sjálfu sér. Samkvæmt kennurunum hjálpaði tengingin við siðfræði og dygðir nemendum við að setja sig í spor persónanna. Fram kom að skipuleg umfjöllun um siðferðileg hugtök og orðaforða og samræða um siðferðilegt efni geti, að mati kennaranna sem talað var við, aukið áhuga unglinga á bókmenntum og hjálpað þeim að skilja bókmenntatexta.