Menntakvika 2020

Sérrit 2020 – Menntakvika 2020 | Birt 31.12. 2020

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2020 – Menntakvika 2020 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri: Þuríður Jóna Jóhannsdóttir. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 7 ritrýndar greinar alls. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Greinarnar nefnast: Skólasókn og samstarf við foreldra leikskólabarna með fjölbreyttan bakgrunn á tímum COVID-19, Sýn barna á kórónuveiruna og áhrif hennar á þátttöku þeirra í daglegu starfi í leikskóla, Kófið og leikskólinn: „Þetta var mögnuð „tilraun“ til að sjá gæðastarf verða til við skrítnar aðstæður“, „Covid bjargaði mér“: Störf kennara í fyrstu bylgju heimsfaraldurs, Tengslin við heimilin trosnuðu merkilega lítið í fyrstu bylgju COVID-19: Frá sjónarhorni stjórnenda og grunnskólakennara, Reynsla og upplifun þroskaþjálfa í grunnskóla af áhrifum Covid-19 faraldursins á þjónustu við nemendur, Frásagnir barna á tímum COVID-19, Reynsla stjórnenda félagsmiðstöðva og frístundaheimila á tímum samkomubanns vorið 2020 vegna COVID-19, Fjarkennsla í faraldri: Nám og kennsla í framhaldsskólum á tímum samkomubanns vegna COVID-19, Fjarkennsla og stafræn tækni í framhaldsskólum á tímum farsóttar vorið 2020: Sjónarhóll kennara og stjórnenda, Surfing a Steep Learning Curve: Academics’ experience of changing teaching and assessment due to COVID-19, Skipulagið er komið út í bílskúr: Fjölskyldulíf, heimanám og COVID-19 og “This is the first time as a foreigner that I have had such a strong connection to the state”: Parents’ voices on Icelandic school staying open in the time of COVID-19.

Bragi Guðmundsson
Um sveitakennara í Strandasýslu og Húnavatnssýslu 1887–1905

Þessi grein byggir á gögnum um sveitakennara í tveimur sýslufélögum við Húnaflóa, frá því áður en skólaskyldu var komið á – áherslan var á að skoða einstaklinga sem önnuðust kennslu á árunum 1887-1905. Helstu niðurstöður eru að sveitakennarar í Strandasýslu voru mun færri en í Húnavatnssýslu. Kynjahlutfall er skoðað og greint. Sjö af hverjum tíu sveitakennurum í Húnavatnssýslu höfðu hlotið einhverja formlega menntun – flestir skólagengnu piltanna höfðu sótt sitt nám í gagnfræða- eða búnaðarskóla en stúlkurnar í kvennaskóla. Flestir kennararnir entust illa í starfinu.

Helle Kristensen og Kristín Björnsdóttir
Milliliður, stuðningsaðili eða hlutlaus fylgdarmaður: Hlutverk aðstoðarfólks í námi fólks með þroskahömlun sem þarf mikinn stuðning

Þörf er á að skilgreina hlutverk aðstoðarfólks betur í námi fatlaðs fólks. Tilgangur greinarinnar er að lýsa rannsókn sem hafði það markmið að fá innsýn í hvernig aðstoðarfólk sér fyrir sér hlutverk sitt. Í niðurstöðunum kom fram hvernig viðmælendur mótuðu hlutverk sitt og greind voru þrjú ólík hlutverk – milliliðurinn, stuðningsaðilinn og hinn hlutlausi fylgdarmaður. Niðurstöður rannsóknarinnar benda meðal annars til þess að innleiðing nálgunar um virkan stuðning í búsetuþjónustu geti stutt við hlutverk aðstoðarfólks í námi fatlaðs fólks og stuðlað að því að það geti nýtt sér nám til jafns við aðra.

Ólöf Björk Sigurðardóttir og Sigríður Sigurjónsdóttir
Viðhorf íslenskra barna til íslensku og ensku: Hvað segja þau um íslensku- og enskukennslu
í grunnskólum?

Í greininni er fjallað um viðhorf íslenskra barna til móðurmálsins og alþjóðamálsins ensku. Skoðað er sérstaklega hvað þau segja um íslensku og enskukennslu á yngri stigum grunnskólans. Niðurstöður benda til þess að viðhorf 3-12 ára barna til beggja mála séu almennt jákvæð og mikið stafrænt ílag virðist ekki hafa neikvæð áhrif á viðhorf til móðurmálsins. Þessar niðurstöður eru í samræmi við niðurstöður annarra nýlegra rannsókna á viðhorfum barna til íslensku- og enskukennslu í grunnskólum. Þær kalla á endurskoðun á kennslu í báðum málum, þar sem kennslan þarf að vera einstaklingsmiðaðri og taka mið af breyttri stöðu móðurmálsins og ensku í stafrænu nútímasamfélagi.

Bryndís Sóley Gunnarsdóttir, Sólveig María Árnadóttir, Bragi Guðmundsson og Ólafur Páll Jónsson
Menntun til sjálfbærni – staða Íslands

Viðfangsefni greinarinnar er hluti af samnorrænu verkefni sem hefur það markmið að kanna hvernig Norðurlöndum hefur tekist að innleiða Heimsmarkmið 4.7 um menntun til sjálfbærrar þróunar. Rannsóknin sýnir fram á að í lögum um grunnskóla er lítið fjallað um hugtökin sjálfbærni, mannréttindi, kynjajafnrétti, menningarleg fjölbreytni og alheimsvitund, sem eru grundvallarhugtök í Heimsmarkmiði 4.7, þótt að í Aðalnámskrá grunnskóla séu sett fram metnaðarfull markmið í tengslum við þetta. Í þátttökuskólunum virtist talsverð áhersla lögð á Heimsmarkmiðið – nemendur lærðu bæði um hugtökin í verki og í gegnum skipulögð verkefni.

Kristín Valsdóttir
Ígrundaðir starfshættir í kennaranámi listamanna

Þessi grein varpar ljósi á þátt markvissrar ígrundunar í listkennaranámi og hugsanleg áhrif hennar á þróun sjálfsmyndar listamanna sem listkennara. Rannsóknin byggir á doktorsverkefni höfundar þar sem markmiðið var að varpa ljósi á þær áskoranir sem mæta listkennaranemum á nýjum vettvangi – vettvangi menntunarfræða. Niðurstöðurnar gefa til kynna að ólíkar aðferðir til ígrundunar, ásamt þeirra áherslu í náminu að horfa til fyrri þekkingar og reynslu, hjálpi nemendum að setja nýja þekkingu í persónulegt samhengi og móta þannig eigin ígrundaða starfshætti sem kennarar. Meðal annars er fjallað um námsmenningu og ljósi varpað á mikilvægi hennar sem mótandi afls.

Ingibjörg V. Kaldalóns
„Ég er alltaf glaðari og ég er miklu sjálfstæðari en ég var“: Starfshættir í grunnskóla sem styður sjálfræði nemenda

Viðfangsefni þessarar greinar er að varpa ljósi á starfshætti í grunnskóla sem hefur sjálfsákvörðunarkenningar að faglegu leiðarljósi. Markmið með rannsókninni var að kanna hvort og hvernig áherslur og starfshættir í einum grunnskóla styðja sjálfræði nemenda og að kanna upplifun og reynslu þeirra af þeim. Niðurstöður sýndu að víða mátti sjá stuðning við sjálfræði nemenda í skólastarfinu og að reynsla nemenda af skólastarfinu var góð. Þeir töldu að skólavistin efldi sjálfstæði þeirra, fannst gaman í skólanum og fundu tilgang með námi sínu við skólann.

Guðfinna Guðmundsdóttir og Elsa Eiríksdóttir
Sveinspróf í iðnmenntakerfinu: Tímaskekkja eða réttmætt mat á hæfni?

Í rannsókninni sem hér er fjallað um eru sveinspróf skoðuð, bæði út frá stöðu þeirra sem samfélagsleg viðurkenning á hæfni fagmanns og sem lokamat á námi í iðngrein. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á viðhorf þeirra sem starfa innan starfsmenntakerfisins til sveinsprófa. Niðurstöður benda til þess að viðmælendur telji innihaldsréttmæti sveinsprófa ábótavant og oft meti þau ekki það sem kennt er í náminu í heild. Flestir viðmælenda voru sammála um að sveinspróf væri ekki í takt við kröfur fagsins. Niðurstöður sýna mikilvægi þess að hagsmunaaðilar vinni saman til að tryggja réttmæti prófanna – sveinspróf þurfi að tryggja að fullnuma iðnaðarmaður hafi öðlast þekkingu til að starfa sjálfstætt.