Mat á námi og vellíðan barna í leikskóla

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun | Birt 6.11. 2019
Sérrit 2020 – Mat á námi og vellíðan barna í leikskóla

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2020 – Mat á námi og vellíðan barna í leikskóla er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri: Anna Magnea Hreinsdóttir. Katrín Johnson annaðist verkefnissstjórn fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru sex greinar alls – einni er ritstýrt og fimm eru ritrýndar. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Mat á námi og vellíðan barna: Lærdómur af samstarfsrannsókn í fimm leikskólum, „Það var eitthvað meira þarna“: Mat á námi með áherslu á vellíðan barna, Þróun námssöguskráninga – þátttaka foreldra og barna, „Þetta þarf að virka hratt og örugglega“: Áskoranir við að þróa aðferðir sem meta nám og vellíðan barna í leikskóla, Rafrænar námssöguskráningar í leikskóla og „Gagnlegast að sjá þessa hluti sem maður sér ekki venjulega“: Mat á námi og vellíðan leikskólabarna af erlendum uppruna.

Ritstýrð grein
Kristín Karlsdóttir, Sara Margrét Ólafsdóttir og Margrét S. Björnsdóttir
Mat á námi og vellíðan barna: Lærdómur af samstarfsrannsókn í fimm leikskólum

Þessi grein er yfirlitsgrein sérritsins sem fjallar um samstarfsrannsókn sem unnin var í samstarfi RannUng og fimm leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið var að þróa leiðir til að meta nám og vellíðan barna í þátttökuleikskólunum. Tilgangurinn var að leikskólakennarar og leiðbeinendur í leikskólum þróuðu matsaðferðir sem endurspegluðu viðhorf til náms. Niðurstöður leiddu í ljós misræmi í viðhorfum þátttakenda. Þróun skráninga sem nýta mátti í mati á námi og vellíðan barna komst vel á veg í nokkrum leikskólanna. Tveir leikskólanna nýttu stafræna tækni meira en aðrir. Skráningarnar voru gjarnan nýttar til breytinga en reyndust sjaldan nýttar til ígrundunar með börnunum, sem er mikilvægur þáttur námssöguskráninga.

Ritrýndar greinar
Daníel Steingrímsson og Kristín Karlsdóttir
,,Það var eitthvað meira þarna“: Mat á námi með áherslu á vellíðan barna

Rannsóknin sem greinir fjallar um var gerð með sex starfsmönnum eins leikskóla á Íslandi. Markmiðið var að starfsfólk ígrundaði eigin starfshætti og þróaði aðferðir við mat á námi og vellíðan barna. Niðurstöður benda til þess að mat á námi og vellíðan barna hafi í upphafi vetrar fyrst og fremst farið fram í samræðum starfsfólks. Hugmyndir þess breyttust yfir veturinn og starfsfólk fór að fylgjast betur með líðan barnanna í staðinn fyrir hegðun þeirra. Staða og geta barnanna var ígrunduð út frá námssögum. Fagvitund leikskólakennaranna skerptist í ferlinu og leiðbeinendur töldu sig hafa lært af þátttöku í rannsókninni. Samstarfsrannsóknin jók fagvitund og námssöguskráningar veittu nýja innsýn í heim barnanna.

Jelena Kuzminova, Bryndís Garðarsdóttir og Margrét S. Björnsdóttir
Þróun námssöguskráninga – þátttaka foreldra og barna

Mat á námi barna er mikilvægt fyrir leikskólastarfsfólk, foreldra og börn til að auka þekkingu og skilning á þroska, námi og líðan. Rannsóknin var gerð á einum leikskóla á höfðuborgarsvæðinu. Markmiðið var að styðja þátttakendur í að þróa aðferðir til að meta nám og vellíðan barna í leikskóla. Hér var valið að þróa og bæta vinnu með námssögur sem matsaðferð. Niðurstöður sýna að þátttakendur þróuðu og efldu færni sína í skráningu námssagna. Þátttakendur töldu námssögur góðar til að draga fram styrkleika barnanna en töldu þó þurfa annars konar skráningu til að ná utan um og fylgjast með þroskaþáttum barna.

Linda Rós Jóhannsdóttir og Sara Margrét Ólafsdóttir
„Þetta þarf að virka hratt og örugglega“: Áskoranir við að þróa aðferðir sem meta nám og vellíðan barna í leikskóla

Greinin fjallar um ferli starfendarannsóknar á einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Markmiðið var að þróa aðferðir sem meta nám og vellíðan barna í leikskólanum. Niðurstöður leiddu í ljós að þátttakendur töldu að félags- og samskiptafærni ættu að vera helstu áherslurnar í námi leikskólabarna. Áskoranir við skráningar voru töluverðar og þær oft álitnar óljósar hvað skipulag varðaði og enn eitt verkefnið í amstri dagsins. Fáar skráningar voru gerðar í rannsóknarferlinu en áhrif þátttökunnar á starfsfólk var frekar í formi hugarfars- og viðhorfsbreytinga gagnvart börnunum. Niðurstöður benda til þess að þörf sé á viðhorfsbreytingu gagnvart aðferðum til að meta nám og vellíðan barna.

Bergþóra F. Einarsdóttir og Margrét S. Björnsdóttir
Rafrænar námssöguskráningar í leikskóla

Í greininni er fjallað um samstarfsrannsókn sem fór fram í einum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur í umræddum leikskóla völdu þá leið að þróa mat á námi og vellíðan barna með rafænum námssöguskráningum. Forritið Book Creator varð fyrir valinu. Niðurstöður benda til þess að þátttakendur í leikskólanum hafi öðlast aukna færni í rafrænum námssöguskráningum. Nokkrar hindranir urðu á veginum, eins og tæknilegir örðugleikar og tímaskortur. Áhuga var lýst á rafrænum námssögum til að nota í foreldraviðtölum. Innleiðing rafrænna námssöguskráninga átti sér því aðeins stað að fremur afmörkuðu leyti.

Agnes Gústafsdóttir og Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir
„Gagnlegast að sjá þessa hluti sem maður sér ekki venjulega“: Mat á námi og vellíðan leikskólabarna af erlendum uppruna

Þessi grein fjallar um starfendarannsókn sem gerð var á einni deild í leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Þátttakendur völdu að nýta námssöguskránngar og ákváðu að skoða sérstaklega nám og vellíðan barna af erlendum uppruna. Áhersla rannsóknarinnar var á að fylgjast með og skrá breytingarferlið sem átti sér stað. Niðurstöður benda til þess að námssöguskráningar geti nýst vel til þess að meta nám og velllíðan barna í leikskólum þar sem er fjölbreyttur barnahópur. Í ferlinu urðu breytingar á því hvað starfsfólkinu fannst mikilvægast að meta í starfinu undir lokin sáu það frekar mikilvægi þess að leggja áherslu á að meta þætti sem tengjast vellíðan barna. Þátttaka í rannsókninni virtist hafa meiri áhrif á leiðbeinendur en háskólamenntað starfsfólk.