14.4.2015
Birna Sigurjónsdóttir
Kennsluhættir í grunnskólum Reykjavíkur: Niðurstöður ytra mats
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur gert heildarmat (ytra mat) í grunnskólum borgarinnar allt frá árinu 2007. Nær allir grunnskólar borgarinnar hafa verið heimsóttir og kennslustundir verið metnar út frá viðmiðum um gæði. Einnig hefur verið merkt við hvaða kennsluhættir einkenndu stundirnar. Frá byrjun árs 2009 hafa 1.066 kennslustundir verið metnar og greindar, þar af hafa 75% verið metnar góðar eða frábærar, rúmlega 22% viðunandi og tæplega 3% óviðunandi. Greining á kennsluháttum í þessum rúmlega þúsund stundum sýnir að langalgengast er að nemendur vinni að verkefnum undir beinni stjórn kennara og hlusti á fyrirlestur eða innlögn hans. Kennarinn er þannig í aðalhlutverki sem fræðari og stýrir námi nemenda að því marki að sömu lausnir komi fram hjá öllum nemendum.