Málleg samskipti starfsmanna við börn með íslensku sem annað mál og börn með íslensku sem móðurmál
18. 4. 2022
Málþroski ungra barna eflist í samræmi við hversu góða málörvun þau fá. Fyrir leikskólabörn hér á landi sem nota ekki íslensku með fjölskyldu sinni er mikilvægt að nýta skóladaginn vel. Þar gefast hugsanlega einu tækifæri barnanna til að þróa íslenskufærni sína. Í erlendum rannsóknum hafa komið fram jákvæð tengsl á milli orðaforða barna og þess hversu mörg og fjölbreytileg orð leikskólakennarar nota í samtölum við börnin í frjálsum leik. Meginmarkmið rannsóknarinnar voru að bera saman orðræður starfsmanna í samtölum við fimm til sex ára leikskóla börn með íslensku sem móðurmál og annað móðurmál en íslensku. Niðurstöður sýndu að hvert barn með annað móðurmál en íslensku fékk helmingi færri orð á mínútu, helmingi færri segðir og jafnframt mun algengari orð en börnin með íslensku sem móðurmál.
Höfundar: Sigríður Ólafsdóttir og Ástrós Þóra Valsdóttir.