Framhaldskólinn í brennidepli

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli | Birt 31.12.201
Menntavísindasvið Háskóla Íslands

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2018 – Framhaldskólinn í brennidepli er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Þuríður Jóna Jóhannsdóttir og Hjördís Þorgeirsdóttir. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 11 ritrýndar greinar og 2 ritstýrðar. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Kennsluhættir speglaðir í ljósi sjálfræðis: Virðing, ábyrgð og traust; Building brigdges and constructing walls: Subjects hierarchies as reflected in teachers‘ perspectives towards student influence; Kvika menntabreytinga: Viðbrögð framhaldsskólans við ytri kröfum um breytingar; Frumkvæði nemenda: Innlit í kennslustundir níu framhaldsskóla; Þversagnir og kerfisvillur: Kortlagning á ólíkri stöðu bóknáms og starfsnáms á framhaldsskólastigi; Sköpun skiptir sköpum: Viðhorf tungumálakennara til skapandi kennsluhátta; Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum; Samvinna framhaldsskólanemenda: Liður í lærdómi til lýðræðis; Margbreytileiki brotthvarfsnemenda; Ólíkur félagslegur og menntapólitískur veruleiki íslenskra framhaldsskóla. Þróun náms til stúdentsprófs af sjónarhóli framhaldsskólakennara og stjórnenda í 20 ár; „Bara ekki mínar týpur!“ Sjálfsmyndasköpun og framhaldsskólaval

Ritstýrðar greinar

Gerður G. Óskarsdóttir og rannsóknarhópur um starfshætti í framhaldsskólum
Starfshættir í framhaldsskólum: Aðdragandi og framkvæmd rannsóknar 2012-2018
Greinin fjallar um rannsókn sem var samstarfsverkefni rúmlega 20 kennara og nemenda við Menntavísinda- og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands og fór fram á árunum 2012-2018. Meginmarkmiðið var að varpa ljósi á starfshætti í framhaldsskólum og það sem mótar þá. Gagna var aflað í níu framhaldsskólum víða um land. Fyrir liggja vettvangslýsingar á 130 kennslustundum og talað var við samtals 100 manns. Í þessu sérriti eru alls birtar 10 greinar sem byggja á þessum gögnum. Hinar þrjár greinar ritsins eru eftir þátttakendur í rannsóknarhópnum en byggja á öðrum gögnum. Hópurinn væntir þess að niðurstöður nýtist við mótun og skipulag þróunarstarfs í framhaldsskólum.

Anna Kristín Sigurðardóttir og Sigrún Harpa Magnúsdóttir
Nemendamiðað námsumhverfi: Hugmyndir framhaldsskólanemenda um kjöraðstæður til náms
Í greininni er leitast við að varpa ljósi á hugmyndir framhaldsskólanemenda um kjöraðstæður til náms. Áhrif nemenda á eigið námsumhverfi tengjast hugmyndum um nemendamiðað nám og er meðal annars ætlað að efla skuldbindingu nemenda gagnvart skólastarfinu. Niðurstöður úr hópviðtölum, ljósmyndum og fleira, voru bornar saman við aðstæður eins og þær birtust rannsakendum í skólastofunni. Nemendur fannst best að hafa ákveðið svigrúm í náminu og kusu síður námsumhverfi sem var í föstum skorðum eins og var algengast í þátttökuskólunum. Von höfunda er að niðurstöður megi hafa til hliðsjónar til að bæta námsumhverfi nemenda.

Ritrýndar greinar

Hafdís Ingvarsdóttir
Kennsluhættir speglaðir í ljósi sjálfræðis: Virðing, ábyrgð og traust
Fræðimenn hafa löngum bent á að skólastarf byggir á lýðræði og félagslegu réttlæti en þetta hefur þó reynst hægara sagt en gert. Í þessari grein eru kennsluhættir skoðaðir í ljósi kenninga um sjálfræði í starfsháttum í námi og kennslu. Markmiðið var að kanna hvort og hvernig kennarar stuðluðu að sjálfræði með starfsháttum sínum. Niðurstaðan gefur ákveðna vísbendingu um að þrátt fyrir frjálslynda námskrá og mikið formlegt frelsi sem skólarnir hafa til að móta starfshætti hafi kennsluhættir í anda sjálfræðis almennt ekki náð að festa rætur.

Valgerður S. Bjarnadóttir
Building bridges and constructing walls: Subject hierarchies as reflected in teachers’ perspectives towards student influence
This study aims to explore how teachers from various academic subjects and programmes describe their pedagogic practice. It draws on interviews with 16 upper secondary school teachers in Iceland, representing different schools and subjects. The study shows constructions of subject hierarchies in the schools and the findings mirror stereotypical notions of students´ capacity, with students enrolled in programmes other then the natural sciences being preceived by the teachers as lacking the ability to succeed in mathematics.

Guðrún Ragnarsdóttir
Kvika menntabreytinga: Viðbrögð framhaldsskólans við ytri kröfum um breytingar
Markmið greinarinnar er að fjalla um kviku menntabreytinga í íslenskum framhaldsskólum og sýn skólastjórnenda og kennara í níu framhaldsskólum á breytingar í kjölfar framhaldsskólalaga frá 2008 og aðalnámskrá frá 2011. Greinin byggir á viðtölum við skólastjórnendur og kennara úr framhaldsskólum víðsvegar um landið. Sýn og viðhorf stjórnenda og kennara innan sama skóla fór oft ekki saman og meiri tregða til breytinga kom fram í viðhorfum kennara en í viðhorfum stjórnenda. Niðurstöður undirstrika mikilvægi þess að skilja ólík öfl að verki til að yfirstíga hindranir og auðvelda breytingar.

Gerður G. Óskarsdóttir
Frumkvæði nemenda: Innlit í kennslustundir níu framhaldsskóla
Frumkvæði og sköpun nemenda eru áhersluþættir í íslenskum lögum og sömu áherslur má sjá í fjölþjóðlegri stefnumörkun í menntamálum. Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á tækifæri framhaldsskólanemenda til frumkvæðis við úrlausn viðfangsefna sem kennari leggur fyrir í kennslustundum. Byggt er á 130 vettvangslýsingum úr níu framhaldsskólum og viðtölum við 17 nemendahópa. Frumkvæði í námi var nemendum almennt ekki ofarlega í huga. Niðurstöður gefa kennurum og skólastjórnendum tilefni til að ígrunda og endurskoða kennsluhætti í átt til meira frumkvæðis nemenda.

Elsa Eiríksdóttir, Guðrún Ragnarsdóttir og Jón Torfi Jónasson
Þversagnir og kerfisvillur: Ólík staða bóknáms og starfsnáms á framhaldsskólastigi
Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á ólíka stöðu bóknáms- og starfsnámsbrauta í framhaldsskólum sem einnig hefur lengi verið umræðuefni hér á landi. Markmið greinarinnar er að skoða hvernig ólík staða bóknáms- og starfsnámsbrauta birtist í íslensku menntakerfi. Umfjöllunin er í þremur meginköflum og niðurstöðurnar ber allar að sama brunni: Ólík staða bók- og starfsnáms er bæði kerfislæg og félagsleg og rætur hennar og tilvist er víða að finna. Stöðumun var að finna í viðhorfum í opinberri menntastefnu, í aðsókn og aðgengi, kennsluháttum og tækifærum að framhaldsskólanámi loknu. Mikilvægt er að skoða niðurstöður í fjölbreyttu samhengi.

Ásta Henriksen
Sköpun skiptir sköpum: Viðhorf tungumálakennara til skapandi kennsluhátta
Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf til skapandi kennsluhátta. Meðal annars var skoðað hvað einkenndi helst skapandi kennsluhætti nokkurra kennara, helstu aðferðir og mögulegar fyrirstöður. Helstu niðurstöður eru þær að þótt ýmislegt standi í vegi fyrir beitingu skapandi kennsluaðferða finnst flestum kennurunum þetta mikilvægt. Niðurstöðurnar benda til þess að til að efla skapandi nálgun í tungumálanámi í framhaldsskólum þurfi að koma til móts við aðalnámskrá varðandi sköpun í námi, auka sjálfstæði nemenda, svigrúm kennara til samstarfs og hlúa að menntun og endurmenntun.

Ingvar Sigurgeirsson, Elsa Eiríksdóttir og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
Kennsluaðferðir í 130 kennslustundum í framhaldsskólum
Í greininni er brugðið upp mynd af kennsluaðferðum sem framhaldsskólakennarar notuðu í 130 kennslustundum og af því hvaða aðferðir voru algengastar í ólíkum námsgreinum. Langflestar kennsluaðferðirnar féllu í tvo flokka – útlistunarkennslu annars vegar og þjálfunaræfingar og skrifleg verkefni hins vegar. Kennsluaðferðir voru nokkuð ólíkar eftir greinum. Einsleitust var kennslan í stærðfræði. Greining á kennsluaðferðum hefur hagnýtt gildi með tilliti til stefnumörkunar og notkunar í kennaramenntun, og fræðilegt gildi í umræðu um kennsluaðferðir og flokkun þeirra.

Gerður G. Óskarsdóttir
Samvinna framhaldsskólanemenda: Liður í lærdómi til lýðræðis
Áhrifa lýðræðisumræðu í skólastarfi gætir í íslenskum aðalnámskrám frá 2011 og samvinna nemenda um lausn viðfangsefna námsins er lykilþáttur í lýðræðislegum náms- og kennsluháttum. Markmið greinarinnar var að varpa ljósi á tíðni, umfang og skipulag samvinnu framhaldsskólanemenda í kennslustundum og viðhorf nemenda til hennar. Niðurstöður leiddu í ljós að meiri tíma var varið í samvinnu í tungumálanámi en öðrum námsgreinaflokkum. Ekki kom fram munur á milli byrjenda- og framhaldsáfanga og nemendafjöldi eða uppröðun húsgagna virtist ekki skipta meginmáli. Þrír flokkar samstarfs voru skilgreindir og viðhorfum nemenda til samvinnu er fléttað inn í umfjöllunina.

Kristjana Stella Blöndal og Atli Hafþórsson
Margbreytileiki brotthvarfsnemenda
Ungmenni sem ekki ljúka framhaldsskóla standa verr að vígi á vinnumarkaði og eru líklegri til að eiga í ýmsum félagslegum og heilsutengum vanda síðar. Brotthvarf úr framhaldsskóla á Íslandi er mikið samanborið við önnur OECD ríki. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að greina ólíka hópa nemenda sem hætta í framhaldsskóla. Rannsókn sem þessi hefur ekki verið gerð áður á Íslandi. Niðurstöður benda til þess að greina megi fjóra ólíka brotthvarfshópa. Rannsóknin varpar ljósi á mikilvægi þess að tekið sé mið af mismunandi einkennum brotthvarfsnemenda í forvörnum og inngripi.

Ásgerður Bergsdóttir og Berglind Rós Magnúsdóttir
Ólíkur félagslegur og menntapólitískur veruleiki íslenskra framhaldsskóla: Nám til stúdentsprófs í 20 ár frá sjónarhóli framhaldsskólakennara og- stjórnenda
Nám til stúdentsprófs hefur þróast og breyst undanfarna áratugi og þessar breytingar hafa snert skólana og starfsaðstæður innan þeirra með misjöfnum hætti. Ætlunin með rannsókninni var að skoða starfsaðstæður kennara og stjórnenda. Stefnubreytingar stjórnvalda varðandi styttingu og fræðsluskyldu orkuðu ólíkt á skóla eftir markaðsstöðu þeirra þó allir viðmælendur hafi verið neikvæðir gagnvart henni. Munur á skoðunum og viðhorfum kennara og stjórnenda var lítill og frekar voru skoðanir skiptar milli skóla en milli viðmælenda innan sama skóla.

Berglind Rós Magnúsdóttir og Unnur Edda Garðarsdóttir
„Bara ekki mínar týpur!“ Sjálfsmyndasköpun og framhaldsskólaval
Skólinn hefur á síðustu áratugum orðið mikilvægur liður í félags- og menningarlegri aðgreiningu milli hópa samfara auknu aðgengi að framhaldsskóla en ekki hvaða framhaldsskóla sem er. Í greininni er sjónum beint að framhaldsskólavali bóknámsnemenda á höfuðborgarsvæðinu og hvernig þeir skilgreina skólana í félagslegu stigveldi. Skólaval er mikilvægur farvegur sjálfsmyndarsköpunar og aðgreiningar, og ljóst er að þrýstingur og væntingar foreldra og samferðafólks á sinn þátt í þessu ferli.