Fagið og fræðin

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Sérrit 2013 – Fagið og fræðin | Birt 31.12.2013
Menntavísindasvið Háskóla ÍslandsRitstjórn sérrits um fag og fræði
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2013 – Fagið og fræðin er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Hafdís Guðjónsdóttir (ritstjóri), Anna Kristín Sigurðardóttir, Hafþór Guðjónsson, Robert Berman og Torfi Hjartarson. Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni.

Sex ritrýndar greinar
Greinar í sérritinu eru sex talsins og allar ritrýndar. Auk almenns handritalesturs, eru þær lesnar af ritstjórn og ritrýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Arngunnur Hafstað Sigurþórsdóttir
Lotukerfi í list- og verkgreinum
Á undanförnum árum hefur þróast nýr ytri rammi fyrir list- og verkgreinar í íslenskum grunnskólum, margir þeirra kenna nú list- og verkgreinar í lotum. Í þessari grein eru kynntar niðurstöður rannsóknar sem gerð var á lotukerfi í list- og verkgreinum í grunnskólum á Íslandi skólaárið 2010–2011 til að skoða umfang lotukerfisins og forsendur að baki þess. Meginmarkmiðið var þó að kanna stöðu textílmenntar í þessu tilliti og greina kosti og galla þess að kenna hana í lotum.

Elsa Lyng Magnúsdóttir, Steinunn Gestsdóttir og Kristján Ketill Stefánsson
Tengsl skólatengdrar hvatningar við trú ungmenna á eigin getu til sjálfstjórnunar í námi
Erlendar rannsóknir hafa leitt í ljós að trú nemenda á eigin getu stuðlar að sjálfstjórnun þeirra sem er mikilvæg fyrir velgengi þeirra í námi. Hún gerir nemendum kleift að skipuleggja vinnu sína, afla sér þekkingar og framkvæma það sem þarf til að ná settum námsmarkmiðum. Hvatning frá skólaumhverfinu er talin efla trú á eigin getu og sjálfstjórnun. Í greininni er fjallað um niðurstöður nýlegrar rannsóknar þar sem leitað var svara meðal nemenda grunnskóla til að varpa ljósi á þetta efni.

Guðrún Alda Harðardóttir og Baldur Kristjánsson
Þátttaka barna í ákvarðanatöku í leikskólastarfi
Rannsókn þessi beinist að þátttöku leikskólabarna í ákvarðanatöku í leikskólastarfi í einum leikskóla sem er á höfuðborgarsvæðinu og starfar í anda skóla í Reggio Emilia. Rannsóknin sýnir að náðst hefur árangur í að efla börn í að taka þátt í ákvörðunum sem varða þau. Hún sýnir einnig að börn í leikskólanum virðast virkari í ákvörðanatöku en börn í öðrum leikskólum sem rannsakaðir hafa verið. Þá sýnir rannsóknin hvernig gera má betur í að virkja börn til ákvarðanatöku.

Hrafnhildur Eiðsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir
Sköpunarkraftur og sköpunarferli í skólastarfi
Í greininni er fjallað um rannsókn á hugmyndum fjögurra kennara um sköpunarkraft í kennslu með það að markmiði að skoða og lýsa sannfæringu þeirra um þennan þátt kennslunnar. Gengið er út frá því að sköpunarkraftur byggi á ímyndunarafli og beiting hans í skólastarfi verði til þess að nýr skilningur vakni og gefi lærdómsferlinu persónulegt gildi fyrir hvern og einn. Með þátttökuathugunum og viðtölum var leitast við að varpa ljósi á sköpunarkraft í skólastarfi og fá fram hugmyndir um hvernig byggja má á sköpunarkrafti í kennslu.

Sesselja Árnadóttir og Anna-Lind Pétursdóttir
„Ég get núna“: Reynsla nemenda af virknimati og einstaklingsmiðaðri stuðningsáætlun
Í þessari grein er sagt frá niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar sem hafði það að markmiði að kanna skólareynslu nemenda með langvarandi hegðunarerfiðleika og athuga hvort breytingar yrðu við framkvæmd stuðningsáætlunar sem byggði á virknimati. Virknimat er aðferð til að meta áhrifaþætti á erfiða hegðun og stuðningsáætlun felur í sér margþætta íhlutun til að bæta hegðun, námsástundun og líðan. Þátttakendur voru sex drengir á aldrinum 7–16 ára sem allir höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í 5 til 9 ár.

Svanborg R. Jónsdóttir, Meyvant Þórólfsson, Gunnar E. Finnbogason og Jóhanna Karlsdóttir
Rætur nýsköpunar- og frumkvöðlamenntar í íslenskum námskrám og skólamálaumræðu
Markmið þessarar greinar er að kynna og skilgreina þetta svið, rekja skyldar hugmyndir og hugsjónir í sögu menntunar og varpa ljósi á hvernig þær birtast í námskrám hér á landi, ekki síst í núgildandi námskrá framhaldsskóla. Tilgangurinn er að auka þekkingu á nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sem námssviði í almennri menntun, draga fram fræðilegan grundvöll menntunar á námssviðinu og skýra stöðu sviðsins í námskrám á framhaldsskólastigi.þessarar rannsóknar var því að