Alþjóðlegar menntakannanir

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun
Sérrit 2019 – Alþjóðlegar menntakannanir | Birt 6.11. 2019

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2019 – Alþjóðlegar menntakannanir er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri: Anna Kristín Sigurðardóttir. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru fjórar greinar, þrjár ritrýndar og ein ritstýrð. Auk almenns prófarkalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Depurð meðal skólabarna á Íslandi; Greining á orðanotkun í lesskilnings- og náttúruvísindahlutum PISA 2018: Samanburður á íslensku þýðingunni og enska textanum; Samband menntunar foreldra við frammistöðu þátttakenda í PISA könnunni á Norðurlöndum; PISA – Hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta

Ársæll Arnarsson
Depurð meðal skólabarna á Íslandi

Markmið rannsóknarinnar sem greinin fjallar um var að skoða hvernig algengi daglegrar depurðar íslenskra unglinga breyttist á árunum 2006-2018 og hvaða þættir tengdust daglegri depurð. Gögnin voru úr HBSC rannsókninni sem lögð hefur verið fyrir á fjögurra ára fresti í 6., 8. og 10. bekk á Íslandi. Niðurstöðurnar sýndu að tíðni daglegrar depurðar hefur aukist um þriðjung á tímabilinu. Ýmsir þættir spila inn í en líklegast er að auknir svefnörðugleikar skýri mest af aukningunni sem greinist.

Auður Pálsdóttir og Sigríður Ólafsdóttir
Greining á orðanotkun í lesskilnings- og náttúruvísindahlutum PISA 2018: Samanburður á íslensku þýðingunni og enska textanum

Greinin segir frá rannsókn þar sem markmiðið var að kanna samræmi í orðatíðni í íslenskum og enskum textum á lesskilnings- og náttúruvísindahluta PISA-prófanna 2018. Þýðing texta í svona prófum getur haft áhrif á skilning og því skekkt samanburð milli tungumála. Niðurstöður benda meðal annars til að hlutfall algengustu orða sé lægra í textum íslensku þýðingarinnar en í ensku frumtextunum og að hlutfall orða í flokki sjaldgæfustu orðanna sé umtalsvert hærra í íslensku textunum en þeim ensku. Niðurstöður gefa tilefni til að endurskoða þurfi leiðbeiningar OECD.

Berglind Gísladóttir, Hans Haraldsson og Amalía Björnsdóttir
Samband menntunar foreldra við frammistöðu þátttakenda í PISA könnuninni á Norðurlöndum

Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða tengsl milli menntunar foreldra og árangurs barna þeirra í PISA-prófunum. Frá fyrstu fyrirlögn hefur því verið haldið fram að Ísland skeri sig úr og að þessi tengsl séu hverfandi hér á landi, ólíkt öðrum löndum. Ef viðmið OECD um meðalframfarir nemenda á einu skólaári eru notuð til túlkunar á niðurstöðum rannsóknarinnar, er ekki hægt að álykta annað en að munur á meðalárangri barna grunn- og háskólamenntaðra foreldra sé mjög verulegur á Íslandi. Niðurstöður sýndu að munurinn samsvarar meðalframförum á um það bil tveimur skólaárum í stærðfræðilæsi, lesskilningi og náttúrufræðilæsi.

Ritstýrð grein

Anna Kristín Sigurðardóttir
PISA – Hvað svo? Nokkur leiðarstef um innleiðingu menntaumbóta

Niðurstöður PISA könnunarinnar 2018 verða gerðar opinberar í desember 2019 og má í framhaldi af því búast við umræðu í samfélaginu um menntamál og gæði menntakerfisins. Þessari grein er ætlað að vera innlegg í þá umræðu. Dregin er saman nýleg þekking um farsælar menntaumbætur og reynt að varpa ljósi á hvaða hagnýtu þýðingu hún kann að hafa fyrir umbótastarf hér á landi. Sjö leiðarstef eru sett fram sem gagnlegt er að hafa til hliðsjónar við innleiðingu umbótastarfs.slíks mats krefst þó aukinnar matsfræðiþekkingar og faglegrar ábyrgðar kennara og stjórnenda.