HBSC og ESPAD rannsóknirnar

Sérrit 2021 – HBSC og ESPAD rannsóknirnar | Birt 31.12. 2021

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2021 – HBSC og ESPAD rannsóknirnar er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri: Sigríður Lára Guðmundsdóttir. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 7 greinar alls – 1 ritstýrð og 6 ritrýndar. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Greinarnar nefnast: Gagnagöt í spurningakönnunum meðal íslenskra unglinga, Andleg líðan unglinga í 10. bekk – niðurstöður úr fyrirlögn Warwick Edinburg Mental Well-being kvarðans, Svefnlengd íslenskra grunnskólanema, Hreyfing íslenskra grunnskólanema, Vímuefnaneysla ungmenna skoðuð í ljósi líðanar ungmenna og tengsla við foreldra, Að tilheyra í skólanum: Áhrifaþættir á upplifun grunnskólanema, Kynni unglinga af vinsælum ferðamannastöðum: Frístundir, ferðalög og menntun.

Hans Haraldsson og Ingibjörg Kjartansdóttir
Gagnagöt í spurningakönnunum meðal íslenskra unglinga

Á Íslandi eru reglulega gerðar spurningakannanir um líðan unglinga, hegðun, umhverfi, nám og starf. Spurningalistarnir eru gjarnan langir og fela stundum í sér krefjandi svarverkefni, sem leiðir til hættu á kerfisbundnum gagnagötum sem geta bjagað niðurstöður. Í þessari grein eru gagnagöt í þremur unglingakönnunum, ESPAD, HBSC og PISA, greind út frá staðsetningu spurninga og spurningaformi. Hlutfall gagnagata er töluvert í öllum könnunum en breytilegt eftir staðsetningu, formi og efni spurninga. Nokkrar vísbendingar eru um að séu gagnagöt kerfisbundin og geti valdið bjaga á niðurstöðum.

Ársæll Arnarsson og Sunna Gestsdóttir
Andleg líðan unglinga í 10. bekk – niðurstöður úr fyrirlögn Warwick Edinburg Mental Well-being kvarðans

Mikilvægi andlegrar heilsu og vellíðanar meðal unglinga er sífellt meira áberandi í umræðunni. Í síðustu fyrirlögn af HBSC-rannsókninni var Warwick-Edinburgh spurningalistanum bætt við á öllum Norðurlöndunum. Tilgangurinn var að meta aðgreiniréttmæti SWEMWBS (Short Warwick–Edinburgh Mental Well-Being Scale) samanborið við aðrar breytur HBSC-listans og bera saman útkomu unglinganna við útkomu eldri Íslendinga. Sterk fylgni reyndist á milli bæði heildarskors á SWEMWBS og einstaka atriða annars vegar, og þeirra breyta sem áður höfðu verið notaðar til að meta líðan í HBSC-rannsókninni – þótt SWEMWBS mældi ekki nákvæmlega sömu þætti.

Guðrún Kristjánsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson og Vaka Rögnvaldsdóttir
„Svefnlengd íslenskra grunnskólanema

Enn er margt á huldu um svefnvenjur ungmenna. Nægur nætursvefn er mikilvægur fyrir þroska, heilsu og námsgetu ungs fólks. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort svefnlengd íslenskra skólanema samræmdist svefnráðleggingum, hver meðalsvefnlengd væri og hver munur væri á tíðni ráðlagðs svefns og svefnlengd milli einstakra hópa. Niðurstöður sýndu að um 30% nemenda í 6., 8. og 10. bekk ná ekki viðmiðum um ráðlagða svefnlengd á virkum dögum. Nemendur sem bjuggu með báðum lífforeldrum sínum sváfu lengur og fengu oftar ráðlagðan svefn en nemendur í öðrum fjölskyldugerðum. Ekki var marktækur munur á lengd nætursvefns eftir efnahag fjölskyldu.

Þórdís Gísladóttir, Rúnar Vilhjálmsson og Vaka Rögnvaldsdóttir
Hreyfing íslenskra grunnskólanema

Gildi hreyfingar fyrir líkamlega og andlega heilsu er vel þekkt en samt dregur úr hreyfingu frá barnsaldri til unglingsára. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna umfang líkamlegrar hreyfingar íslenskra grunnskólanema í 6., 8. og 10. bekk og tengsl hennar við kyn, aldur, uppruna, fjölskyldugerð, efnahag og búsetu. Niðurstöður sýndu að lítill hluti nemenda náði viðmiði um ráðlagða daglega hreyfingu – fleiri piltar en stúlkur og fleiri yngri nemendur en eldri. Nemendur frá efnaminni fjölskyldum, sem bjuggu ekki með báðum foreldrum eða áttu foreldra af erlendum uppruna náðu síður viðmiðum um hreyfingu. Vinna þarf að fræðslu og fjölga möguleikum á hreyfingu.

Ragný Þóra Guðjohnsen og Ársæll Arnarsson
Vímuefnaneysla ungmenna skoðuð í ljósi líðanar ungmenna og tengsla við foreldra

Á unglingsárum takast einstaklingar á við ýmsar breytingar og áskoranir. Það vekur áhyggjur að andlegri líðan fer hrakandi hjá ungmennum á Vesturlöndum og áhyggjur beinast einnig að vímuefnaneyslu ungmenna. Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja andlega líðan og vímuefnaneyslu ungmenna og skoða samband þessara þátta við gæði tengsla við foreldra og kyn. Niðurstöður gáfu til kynna að fjórðungur ungmenna upplifði slök tengsl við foreldra og að þau væru líklegri en hin sem upplifa góð tengsl til að líða illa og nota vímuefni. Stúlkur neyttu áfengis í sama magni og drengir en minna kannabiss. Tryggja þarf betra aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Kolbeinn Hólmar Stefánsson
Að tilheyra í skólanum: Áhrifaþættir á upplifun grunnskólanema

Stór þáttur í farsæld nemenda er að þeir upplifi sig tilheyra skólasamfélaginu og að þeim sé tekið eins og þeir eru. Markmið þessarar greinar er að varpa ljósi á hvernig félagslegir þættir móta upplifun af því að tilheyra í skólasamfélaginu. Niðurstöður sýna að almennt upplifa nemendur íslenskra grunnskóla sig til heyra í skólaumhverfinu. Að búa við slæma fjárhagsaðstöðu og að skilgreina sig sem utan hefðbundinnar kyntvíhyggju hefur helst þau áhrif að nemendur telji sig ekki tilheyra skólasamfélaginu. Ekki var marktækur munum milli drengja og stúlkna. Niðurstöður gefa til kynna að grípa þurfi til aðgerða til að tryggja aðild allra að skólasamfélaginu og horfa þurfi sérstaklega til jaðarsettra nemenda.

Jakob Frímann Þorsteinsson, Gunnar Þór Jóhannesson og Jón Torfi Jónasson
Kynni unglinga af vinsælum ferðamannastöðum: Frístundir, ferðalög og menntun

Ferðamennska og tómstundir hafa fengið æ meira vægi í daglegu lífi fólks. Aðgengi er þó mismunandi og fer meðal annars eftir efnahagslegri stöðu fólks. Markmið þessarar greinar er að varpa ljósi á þátttöku unglinga í ferðamennsku með tilliti til félagslegra og efnahagslegra þátta. Niðurstöður benda til þess að eftir því sem börn eldist hafi þau komið á fleiri áfangastaði. Efnahagsleg staða, uppruni foreldra og búseta tengist heimsóknum á suma áfangastaði en þau áhrif eru ekki einhlít. Niðurstöður vekja upp spurningar um mismunandi aðgengi unglinga að ferðamennsku og tómstundum, og tengsl þessa við menntun og skólakerfið.