29.11.2017
Gísli Björnsson, Harpa Björnsdóttir, Kristín Björnsdóttir og Ragnar Smárason
Skærulist í þágu jafnréttis? Framlag karla með þroskahömlun til jafnréttisstarfa

Mikilvægt er að leita óhefðbundinna leiða til að gera sig gildandi innan fræðasamfélagsins og jafnréttisbaráttunnar og er svokölluð skærulist ein slík leið. Í nýrri grein í Netlu er fjallað um aðgerðir tveggja karla með þroskahömlun í þágu jafnréttis sem fóru fram í miðbæ Reykjavíkur sumarið 2016. Aðgerðirnar voru liður í verkefninu Jafnrétti fyrir alla sem styrkt var af Jafnréttissjóði og Rannsóknasjóði HÍ og hafði það að markmiði að skoða viðhorf karla með þroskahömlun til jafnréttismála og leita leiða til að virkja þá til þátttöku í jafnréttisstarfi. Aðgerðirnar voru í anda skærulistar (e. guerrilla art) sem sköpuð er í leyfisleysi þegar enginn sér til og felur í sér ádeilu á ríkjandi menningu og samfélagsskipan. Tilgangurinn er að vekja almenning til vitundar um samfélagsleg málefni. Í greininni er aðgerðunum lýst og hvernig þátttakendur sköpuðu sér rými í miðbænum þar sem þeir höfðu skilgreiningarvaldið og trufluðu gangandi vegfarendur sem stöldruðu við til að skoða veggspjöld, lásu falin skilaboð eða skrifuðu í ferðadagbækur. Aðgerðirnar voru liður í samvinnurannsókn þar sem karlar með þroskahömlun og ófatlaður háskólakennari unnu náið saman og allir aðilar voru virkir þátttakendur í rannsóknarferlinu. Samvinnurannsóknum er ætlað að vera valdeflandi og gefa fólki með þroskahömlun tækifæri til að hafa áhrif á það hvernig fjallað er um líf þess og reynslu.