21.6.2018
Þóroddur Bjarnason
Staðsetning háskóla og menntabil í háskólamenntun

Höfundur greinir frá umtalsverðum muni á hlutfalli háskólamenntaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu og utan þess, sem skýrist að hluta til í misjöfnum atvinnumöguleikum á þessum svæðum, þó fleiri þættir spili inn í. Greint er frá því að meirihluti háskólamenntaðra á landinu hafi lokið prófi frá Háskóla Íslands en landsvæði skipti sköpum þegar litið sé til hvaða skóli næstflestir hafi útskrifast frá. Á höfuðborgarsvæðinu eigi Háskólinn í Reykjavík næstflesta brautskráða nemendur en á Norðurlandi sé það Háskólinn á Akureyri. Almennt sé líklegra að fólk útskrifað frá landsbyggðaháskólum sé búsett utan höfuðborgarsvæðisins. Til að draga úr menntabilinu milli Reykjavíkur og annarra landshluta segir höfundur þurfa skýr markmið og ákvarðanatöku.