3.10. 2017
Hafdís Björg Hjálmarsdóttir og Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir
Háskólar, samstarf við fyrirtæki og áhugahvöt nemenda

Höfundar þessarar greinar hafa verið þátttakendur í samstarfsnetinu Nordic-Baltic Network for internationalization of SMEs, sem hefur það markmið að leiða saman þrjá hagsmunaaðila, þ.e. háskólakennara, nemendur og lítil eða meðalstór fyrirtæki, til að vinna að verkefnum er tengjast markaðssetningu. Háskólinn á Akureyri er aðili að umræddu samstarfsneti. Markmið samstarfsins er að þróa og miðla þekkingu um árangursríka alþjóðavæðingu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Samkvæmt lögum um háskóla er það meðal annars hlutverk háskólastofnana að viðhafa tengsl við nærsamfélagið og ekki síst atvinnulífið. Með það fyrir augum lögðu höfundar upp með eftirfarandi rannsóknarspurningar: Hvers konar ávinningur hlýst af samstarfi háskólakennara, nemenda og fyrirtækja? Með hvaða hætti er best fyrir hópana að vinna verkefni þvert á landamæri? Hvað finnst nemendum um að vinna raunveruleg verkefni í samstarfi við fyrirtæki? Verkefnin sneru yfirleitt að markaðsmálum, þ.e.a.s. hvernig fyrirtækin gætu markaðssett sig og vöru sína eða þjónustu á erlendum markaði. Það kom skýrt fram í niðurstöðum hjá nemendum að þeim fyndist verkefnavinnan gefandi og að það gæfi námi þeirra aukið vægi og veitti þeim innblástur að vita að þeir væru að vinna fyrir raunveruleg fyrirtæki og niðurstöður þeirra yrðu mögulega nýttar af þeim í raun og veru. Greinarhöfundar telja þessar niðurstöður benda til þess að gefa eigi raunverulegum verkefnum aukið vægi í námi og að aukin áhersla á raunveruleg verkefni hafi jákvæð áhrif á áhugahvöt nemenda.