24/05/2018

Er samvinna lykill að skólaþróun? Samanburður á bekkjarkennsluskólum og teymiskennsluskólum

► Þróunarstarf er meira í teymiskennslu­skólum en bekkjarkennsluskólum og þar gengur betur að innleiða breytingar, að því er niðurstöður rannsóknar sem greint er frá í Netlu benda til. Þá virtust starfshættir í teymiskennsluskólunum lýðræðislegri en í bekkjarkennslu­skólunum; kennarar fyrrnefndu skólanna komu meira að ákvörðunum um starfsþróun og breytingastarf. Tilgangur rannsóknarinnar var að skoða hvort munur væri á samvinnu, samskiptum og skólaþróun í bekkjarkennsluskólum og teymiskennsluskólum á grunnskólastigi. Með bekkjarkennslu er átt við starfshætti þar sem hver kennari er með sinn bekk, námsgrein eða námsgreinar og undirbýr kennslu einn og kennir einn. Í teymiskennsluskólum eru tveir eða fleiri kennarar samábyrgir fyrir bekk eða námshópi að einhverju eða öllu leyti og undirbúa kennslu og kenna saman. Rannsóknin byggðist á gögnum úr spurningakönnunum meðal nemenda og starfsfólks í sex bekkjarkennsluskólum og níu teymiskennsluskólum úr rannsókn á starfsháttum í grunnskólum sem gerð var 2009–2013 (Gerður G. Óskarsdóttir, 2014). Rafrænir spurningalistar voru sendir starfsfólki skólanna í fjórum áföngum skólaárið 2009–2010, en könnun meðal nemenda var gerð í skólunum haustið 2010. Niðurstöður sýndu, eins og vænta mátti, að mun meiri áhersla var lögð á samvinnu í teymiskennslu­skólunum og hún var umfangsmeiri og nánari, en í bekkjarkennslu­skólunum. Fleiri kennarar í teymiskennsluskólunum áttu daglegt samstarf og fleiri unnu saman hlið við hlið; kenndu með öðrum kennara eða kennurum í sama kennslurými. Jafnframt voru fagleg tengsl teymiskennslukennara betri og þeir töldu sig fá betri stuðning skólastjórnenda. Samskipti nemenda í teymiskennslu­skólunum mældust betri en samskipti nemenda í bekkjarkennsluskólunum, og átti það hvort tveggja við um samskipti þeirra innbyrðis og við starfsfólk. Þá gáfu nemendur teymiskennslu­skólanna kennurum sínum betri einkunnir þegar þeir mátu viðhorf þeirra og viðmót í sinn garð, til dæmis hvort kennarar sýndu skoðunum þeirra áhuga, leiðbeindu þeim og hvöttu þá. ► Sjá grein