24.9.2014
Stefanía Malen Stefánsdóttir
Brot úr starfi Brúarásskóla: Hver og einn er einstakur

Brúarásskóli er fámennur skóli á Fljótsdalshéraði og hefur vakið athygli fyrir frjótt og skapandi skólastarf. Hann var valinn Nýsköpunarskóli ársins í flokki minni skóla árin 2012 og 2013, tvær útikennslustofur eru við skólann og ein kennsluvika í hverjum mánuði er útikennsluvika. Kennarar taka þátt í þróunarverkefnum og námsmati hefur verið umbylt. Skemmtilegar hefðir einkenna starfið, dans er kenndur á öllum stigum og á hverju ári er settur upp frumsaminn söngleikur þar sem allir nemendur fara með hlutverk, leika og spila. Tónlistarskóli er í húsakynnum skólans og þar stunda flestir nemendanna nám. Við skólann er dýrahús, skólinn er Grænfánaskóli og nemendur fá frá kennurum hjartaása með jákvæðum skilaboðum.