Námsrými félagslegs réttlætis

Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Ritstjórn sérrits um Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar/Learning spaces for inclusion and social justice

Útgefið 31.12.2016

Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar/Learning spaces for inclusion and social justice er gefið út sem sérrit á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og  Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórn skipuðu Atli Vilhelm Harðarson (ritstjóri), Berglind Rós Magnúsdóttir og Brynja Elísabeth Halldórsdóttir. Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Í sérritinu eru fimm ritrýndar greinar og ein ritstýrð sem er inngangsgrein sérritsins. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Greinarnar

Ritstýrð grein

Hanna Ragnarsdóttir
Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Niðurstöður norrænnar rannsóknar um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum

Í inngangsgrein Hönnu Ragnarsdóttur um Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Niðurstöður norrænnar rannsóknar um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum er kastljósinu beint að niðurstöðum nýlegs rannsóknarverkefnis sem ber heitið Learning Spaces for Inclusion and Social Justice: Success Stories from Immigrant Students and School Communities in Four Nordic Countries (LSP) og var styrkt af NordForsk og Rannís. Íslenska heitið er Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Frásagnir um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum.

Ritrýndar greinar

Börkur Hansen, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, Helgi Þ. Svavarsson og Hanna Ragnarsdóttir
Stöðugleiki í forystu menntunar nemenda af erlendum uppruna: Tilvikslýsingar úr þremur grunnskólum
Stöðugleiki í forystu menntunar nemenda af erlendum uppruna: Tilvikslýsingar úr þremur grunnskólum eftir Börk Hansen, Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur, Helga Þ. Svavarsson og Hönnu Ragnarsdóttur. Í rannsóknarverkefninu Learning spaces for inclusion and social justice var kastljósinu beint að þáttum í starfsemi skóla sem þykja hafa náð góðum árangri í að mennta nemendur af erlendum uppruna (sjá inngangsgrein að sérritinu). Í þessari grein segir frá áherslum í stjórnun í þremur grunnskólum sem voru rannsakaðir í verkefninu.

Hafdís Guðjónsdóttir, Edda Óskarsdóttir, Anna Katarzyna Wozniczka og Karen Rut Gísladóttir
Námsrými byggð á auðlindum nemenda
Í grein Hafdísar Guðjónsdóttur, Eddu Óskarsdóttur, Önnu Katarzynu Wozniczka og Karenar Rut Gísladóttur, Námsrými byggð á auðlindum nemenda er fjallað um að aukið flæði fólks á milli landa hefur leitt til vaxandi fjölbreytileika nemenda í íslenskum skólum. Sú þróun hefur áhrif á störf skóla sem þurfa að koma til móts við nemendur með ólíkan menningarbakgrunn, tungumál og trúarbrögð. Þessi breyting kallar einnig á fjölmenningarlega kennsluhætti þar sem auðlindir nemenda eru nýttar og þeir studdir til að verða hamingjusamir einstaklingar, þroska með sér forvitni, njóta þess að læra og þjálfast í gagnrýnni hugsun.

Anh-Dao Tran og Hanna Ragnarsdóttir
Stefna í málefnum nemenda af erlendum uppruna og innleiðing hennar í fjórum sveitarfélögum á Íslandi
Stefna í málefnum nemenda af erlendum uppruna og innleiðing hennar í fjórum sveitarfélögum á Íslandi eftir Anh-Dao Tran og Hönnu Ragnarsdóttur fjallar um tveggja ára rannsóknarverkefni, Stefna í málefnum nemenda af erlendum uppruna og innleiðing hennar í fjórum sveitarfélögum á Íslandi (2014-2015) sem er hliðarverkefni rannsóknarverkefnisins Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Frásagnir um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum (2013–2015). Rannsóknin er unnin í sömu sveitarfélögum og sú rannsókn, með megináherslu á stefnu, innleiðingu stefnu og forystu á sveitarstjórnarstigi.

Anh-Dao Tran, Samúel Lefever and Hanna Ragnarsdóttir
Equitable Pedagogical Practice in Culturally Diverse Classrooms: Perspectives of Teachers and Students in Upper Secondary Schools
Í grein Anh-Dao Tran, Samúel Lefever and Hönnu Ragnarsdóttur, Equitable Pedagogical Practice in Culturally Diverse Classrooms: Perspectives of Teachers and Students in Upper Secondary Schools er fjallað um helstu niðurstöður eigindlegs rannsóknarverkefnis í þremur framhaldsskólum. Verkefnið er hluti af norræna rannsóknarverkefninu Námsrými félagslegs réttlætis og menntunar án aðgreiningar: Frásagnir um velgengni nemenda af erlendum uppruna og skóla á fjórum Norðurlöndum (2013-2015).

Hanna Ragnarsdóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir og Hildur Blöndal Sveinsdóttir
Fjölmenningarlegt leikskólastarf: Þátttaka, samskipti og umhyggja í þremur íslenskum leikskólum
Markmið greinar Hönnu Ragnarsdóttur, Fríðu Bjarney Jónsdóttur og Hildar Blöndal Sveinsdóttur, Fjölmenningarlegt leikskólastarf: Þátttaka, samskipti og umhyggja í þremur íslenskum leikskólum er að fjalla um áherslur í leikskólastarfi þar sem vel hefur tekist að mæta þörfum barna og foreldra af erlendum uppruna. Greinin er byggð á rannsóknarniðurstöðum úr íslenskum leikskólahluta rannsóknarverkefnisins Learning Spaces for Inclusion and Social Justice (LSP). Fjallað er um námsrými þar sem unnið er markvisst að því að virkja börn og foreldra af erlendum uppruna til þátttöku, en slíkt umhverfi er hvetjandi fyrir öll börn, óháð uppruna, tungumáli eða getu.