Menntun barna í leikskóla og á yngsta stigi í grunnskóla

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun | Birt 18.11.2019
Sérrit 2019 – Menntun barna í leikskóla og á yngsta stigi í grunnskóla

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2019 – Menntun barna í leikskóla og á yngsta stigi í grunnskóla er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjórar: Arna Hólmfríður Jónsdóttir og Kristín Norðdahl. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Greinarnar

Í sérritinu eru 9 ritrýndar greinar. Auk almenns prófarkalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Hvaða augum líta börn leikskólakennara? Hlutverk og miðlun gilda í leikskólum; Mat leikskólabarna á þátttöku í tilviksrannsókn; „Þeir leika saman og eru glaðir, það er bara svo gott“: Félagsleg tengsl og vinátta leikskólabarna af erlendum uppruna; „Það er ekki til ein uppskrift“: Fyrsta ár flóttabarna í leikskólum í þremur sveitarfélögum á Íslandi; „…mér má finnast öðruvísi…“ Hugleikur – samræður til náms í leikskóla; Líðan leikskólakennara og leiðbeinenda í leikskólum í kjölfar efnahagshrunsins; Námsmat á yngsta stigi í skóla án aðgreiningar; Stafræn tækni í leikskólastarfi: Sjónarhorn frumkvöðla; Sköpunarsmiðjur í menntun ungra barna: Reynsla og viðhorf starfsfólks skóla, safna og sköpunarsmiðja

Jóhanna Einarsdóttir og Hrönn Pálmadóttir
Hvaða augum líta börn leikskólakennara? Hlutverk og miðlun gilda í leikskólum

Greinin byggir á tveimur rannsóknum þar sem leitað var eftir hugmyndum barna um hlutverk og ábyrgð leikskólakennara. Þannig var reynt að skilja bæði ómeðvituð og meðvituð gildi sem starfsfólk leikskóla miðlar til barna. Markmiðið með greininni var meðal annars að varpa ljósi á sýn barna á hlutverk fullorðinna í leikskólanum. Niðurstöður rannsóknanna sýndu að í augum barnanna voru hlutverk starfsfólksins margþætt og flókin. Rannsóknin sýnir hæfni barnanna til að tjá reynslu sína og sjónarmið á fjölbreyttan hátt og mikilvægi þess að starfsfólk leikskóla hlusti á sjónarmið barna í daglegu starfi leikskólans.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir og Kristín Dýrfjörð
Mat leikskólabarna á þátttöku í tilviksrannsókn

Greinin fjallar um mat og þátttöku leikskólabarna í rannsókn um sköpunarsmiðjur í leikskólanum þeirra. Tilgangurinn var að rýna í hvernig börn upplifðu þátttöku í rannsókninni. Helstu niðurstöður sýna að börn eru verðugir þátttakendur í rannsókn og að sjónarhorn þeirra varpar nýju ljósi á gögnin í rannsókninni. Fram kom að börnin virtust ánægðust með þau verkefni sem þau höfðu sjálf vald yfir. Í niðurstöðunum kom fram að sum barnanna upplifðu viðveru rannsakenda í smiðjum stundum truflandi. Þetta er vert fyrir rannsakendur sem vinna rannsóknir með börnum að hafa hugfast.

Eyrún María Rúnarsdóttir og Svava Rán Valgeirsdóttir
„Þeir leika saman og eru glaðir, það er bara svo gott“: Félagsleg tengsl og vinátta leikskólabarna af erlendum uppruna

Niðurstöður rannsókna benda til þess að vina- og félagatengsl grunnskólabarna og unglinga af erlendum uppruna séu brothættari en tengsl sem íslenskir félagar þeirra njóta Sambærilegar rannsóknir skortir á leikskólastiginu. Markmið rannsóknarinnar sem kynnt er í greininni er að skyggnast í samskipti, leik og vinatengsl leikskólabarna af erlendum uppruna. Niðurstöður benda til að stuðningur leikskólakennara í samskiptum barnanna hefði getað tryggt betur virka þátttöku þeirra í skólastarfinu. Skerpa mætti hlutverk skólans og kennara við að styðja og leiðbeina foreldrum barna af erlendum uppruna og hvetja þannig til aukinna tengsla við önnur börn í leikskólanum.

Hanna Ragnarsdóttir
„Það er ekki til ein uppskrift“: Fyrsta ár flóttabarna í leikskólum í þremur sveitarfélögum á Íslandi

Markmið langtímarannsóknarinnar sem hér er fjallað um eru að athuga reynslu flóttabarna og foreldra þeirra af leik-, grunnskóla- og frístundastarfi, sem og að athuga reynslu stjórnenda og kennara í skólum og frístundaheimilum af móttöku barnanna, skipulagi náms og samstarfi við foreldrana. Niðurstöður benda til þess að börnunum vegni vel í leikskólunum og samstarf við foreldra gangi almennt vel, ekki síst vegna góðs undirbúnings fyirr komu flóttabarnanna. Leikskólarnir standa þó frammi fyrir ærnum verkefnum sem snerta meðal annars ólík tungumál og menningu.

Jórunn Elísdóttir og Sólveig Zophoníasdóttir
„…mér má finnast öðruvísi…“ Hugleikur – samræður til náms í leikskóla

Í þessari grein er fjallað um starfsþróunarverkefnið Hugleik – samræður til náms í leikskóla. Megintilgangur verkefnisins var að starfsfólk leikskólans lærði um samræður og efldi leikni sína til að nota samræðuaðferðir með börnum í daglegu skólastarfi, með það að markmiði að efla með börnum hæfni til að draga ályktanir, taka afstöðu og efla rökhugsun. Niðurstöður gefa starfsfólki leikskóla tilefni til að ígrunda og endurskoða starfshætti með það að markmiði að efla samræður með börnum í skólastarfinu.

Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir
Líðan leikskólakennara og leiðbeinenda í leikskólum í kjölfar efnahagshrunsins

Viðfangsefni greinarinnar er rannsókn á aðbúnaði, vinnufyrirkomulags og líðan starfsfólks á leikskóla. Sömu leikskólakennurum var fylgt eftir í sex ár og fjórar mælingar fóru fram. Niðurstöður sýndu að á milli mælinga versnaði andleg líðan og þættir í vinnuumhverfi að mati starfsfólksins. Vinnuálagið var það sem sýndi sig versna mest milli mælinga, en ekki voru sterk tengls vinnuálags við andlega líðan. Góð stjórnun og félagslegur stuðningur hafði jákvæð áhrfi á líðan starfsfólksins.

Auður Lilja Harðardóttir og Jóhanna Karlsdóttir
Námsmat á yngsta stigi í skóla án aðgreiningar

Greininni er ætlað að skapa umræður í skólasamfélaginu um hvernig efla má skilning á stefnunni um skóla án aðgreiningar, samræma hugmyndir, skýra hugtakið og skapa því sameiginlegan þekkingarfræðilegan grundvöll. Viðtalsrannsókn var gerð í fjórum grunnskólum. Niðurstöður benda til þess að kennarar hafi jákvæð viðhorf til menntastefnunnar en telji að aukið fjármagn þurfi til þess að auka skilvirkni hennar. Þátttakendur reyndust sýna góðan skilning á inntaki stefnunnar og kennsluhættir þeirra einkenndust af því að reyna að koma til móts við alla nemendur með fjölbreyttum kennsluaðferðum. Ósamræmi í starfsháttum innbyrðist kom þó líka fram.

Anna Elísa Hreiðarsdóttir
Stafræn tækni í leikskólastarfi: Sjónarhorn frumkvöðla

Markmið greinarinnar er að varpa ljósi á reynslu, viðhorf og sýn frumkvöðla af tæknivæðingu íslenskra leikskóla fyrr og nú á þátt stafrænnar tækni í starfi leikskóla. Niðurstöður sýna að mikil og löng reynsla liggur að baki þessu og á þeim árum sem liðin eru síðan fyrstu leikskólarnir tæknivæddust hafa frumkvöðlarnir ekki kvikað frá þeirri trú að tæknin geti eflt nám barna og hana megi nýta með margvíslegum hætti í leikskólastarfi. Frumkvöðlarnir leggja áherslu á markvissa, skapandi og samþætta notkun tækninnar og vilja fjölbreytta kennsluhætti og nýjar leiðir í kennslu.

Sólveig Jakobsdóttir, Kristín Dýrfjörð, Skúlína H. Kjartansdóttir, Svanborg R. Jónsdóttir og Svava Pétursdóttir
Sköpunarsmiðjur í menntun ungra barna: Reynsla og viðhorf starfsfólks skóla, safna og sköpunarsmiðja

Í greininni er fjallað um þekkingu, reynslu og viðhorf til sköpunarsmiðja (e. makerspaces) meðal kennara ungra barna í leik- og grunnskólum, fagfólks á söfnum og í sköpunarsmiðjum. Upplýsingum var safnað með rafrænni könnun. Niðurstöður sýna að um helmingur kennara og safnafólks taldi gott aðgengi á sínum vinnustöðum að vélbúnað til að búa til stafrænar afurðir. Höfundar telja sköpunarsmiðjur geta gegnt lykilhlutverki í mótun menntunar ásamt faglegri starfsþróun þeirra sem mennta börn og styðja við nám þeirra og þroska.