Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2024 – Menntakvika 2024 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Ritstjóri: Þuríður Jóna Jóhannsdóttir. Anna Bjarnadóttir annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.
Útgáfudagur: 31. desember 2024
Í sérritinu eru 2 ritrýndar greinar. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.
Greinarnar:
Amalía Björnsdóttir og Börkur Hansen
Starfsmannavelta meðal kennara í grunnskólum árin 1988 til 2020
Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna starfsmannaveltu grunnskólakennara en bæði var verið að kanna hvenær kennarar hættu störfum og í hvaða mæli þeir flyttu sig milli skóla og svæða. Notuð voru gögn frá Hagstofu Íslands sem ná yfir tímabilið 1998 til 2020. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að um 7,5% þeirra sem voru við störf árin 1998 til 2018 voru ekki við störf árið eftir. Þessi tala var lægri, eða 6,3%, 2009 til 2013, árin eftir efnahagshrunið 2008, en rannsóknir sýna að á landsvæðum þar sem efnahagsástand er lakara gengur mönnun skóla betur en á svæðum þar sem hagsæld er meiri. Athygli vakti hve meðalaldur þeirra sem koma nýir til starfa er hár en það endurspeglar háan meðalaldur kennaranema og þá sérstaklega þess stóra hóps sem er í fjarnámi. Einnig virðast stórir hópar hverfa úr starfi löngu fyrir hefðbundinn eftirlaunaaldur. Kennarar eru ekki mikið að færa sig á milli skóla eða svæða en athygli vekur hversu hátt hlutfall þeirra staldrar stutt við í starfi. Starfsmannavelta meðal kennara í litlum skólum er þó meiri en í stærri skólum. Niðurstöðurnar benda til þess að vandi við mönnun kennarastéttarinnar sé margþættur, bæði þarf nýliðun að vera meiri en einnig þarf að gera starfið og starfsaðstæður áhugavert og aðlaðandi þannig að kennarar haldist í starfi.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, Valgerður S. Bjarnadóttir og Maríanna Jónsdóttir
Jafnvægi starfs og einkalífs ungra kvenkyns kennara í íslenskum grunnskólum
Í greininni er fjallað um hvað ellefu ungir kvenkyns kennarar í íslenskum grunnskólum gerðu til að ná og halda jafnvægi milli starfs og einkalífs. Rannsóknin var eigindleg og fólst í því að tekin voru raðviðtöl við ellefu unga kennara frá hausti 2021 til vors 2023. Rannsóknin styðst við fræði um starfsaðstæður kennara og fræði um tilfinningar og tilfinningastjórnun kennara. Helstu niðurstöður eru dregnar fram í fimm samfléttuðum þemum. Viðmælendur lýstu dæmum úr samskiptum við foreldra þar sem mikla tilfinningastjórnun þurfti. Viðmælendur lýstu jafnframt samviskubiti yfir því að ljúka ekki verkum eins vel og þeir hefðu viljað en um leið að starfið væri ánægjulegt. Niðurstöðurnar í heild undirstrika að tilfinningastjórnun er rauður þráður í starfi kennara og er það í samræmi við fyrri rannsóknir. Þær undirstrika líka að kennarastarfið er þess eðlis að ekki er hægt að skilja það eftir að fullu neins staðar. En það er unnt að nota alls konar aðferðir til að draga úr áhrifunum, ekki bara á kennarana heldur fjölskyldur þeirra.