Menntakvika 2021

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2021 – Menntakvika 2021 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.

Ritstjóri: Jón Ásgeir Kalmansson. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Útgáfudagur: 2.2.2024

Í sérritinu eru 4 ritrýndar greinar alls. Auk almenns prófarkalesturs eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Nafnleyndar er gætt við ritrýnina.

Greinarnar nefnast: Myndbandasamkeppnin Siljan: Lærdómur af lestrarhvetjandi verkefni, Að læra íslensku sem annað mál: Markviss orðaforðakennsla í útinámi, „Núna eru allir einhvern veginn rosa uppteknir og það er enginn sem svona heldur utan um krakkana“. Þörf á foreldrafræðslu: Sýn umsjónarkennara á miðstigi grunnskóla og Let them wonder: Incubation and task constraints in creative problem solving.

Brynhildur Þórarinsdóttir
Myndbandasamkeppnin Siljan: Lærdómur af lestrarhvetjandi verkefni

Myndbandasamkeppnin Siljan er skapandi lestrarverkefni fyrir nemendur í 5.-10. bekk. Markmiðið er að efla lestraráhuga grunnskólanema, stuðla að jafningjahvatningu og beina sjónum skólasamfélagsins að barna- og ungmennabókum. Keppnin er jafnframt nýtt sem gagnasöfnun og í greininni verðu gagnasafn Siljunnar krufið. Gögnin sýndu fram á að stúlkur tóku frekar þátt í lestartengdu verkefni en drengir og yngri nemendur frekar en eldri – drengir mættu þó sterkir til leiks þar sem kennarar tóku keppnina inn í kennsluna. Fjallað verður um bækurnar sem nemendurnir völdu og Myndbandasafnið minnir á mikilvægi þess að vinna með áhugahvöt í tengslum við læsi.

Harpa Sif Þorsteinsdóttir og Rannveig Oddsdóttir
Að læra íslensku sem annað mál: Markviss orðaforðakennsla í útinámi

Börnum af erlendum uppruna hefur á undanförnum árum fjölgað mikið í íslenskum leikskólum. Rannsóknir sýna að staða þeirra eru fremur slök. Markmið þessarar rannsóknar var að leita leiða til að vinna á markvissan hátt með íslenskan orðaforða leikskólabarna sem læra íslensku sem annað mál. Niðurstöður voru þær að öll börnin sem tóku þátt í rannsókninni bættu við orðaforða sinn og viðhéldu honum tveimur mánuðum síðar, þótt framfarir væru mismiklar. Niðurstöður sýna líka að orðaforðakennsla sem er fléttuð inn í daglegt leikskólastarf getur skilað góðum árangri en huga þarf að virkni einstakra barna í slíkum stundum og samskiptum innan leikskólans almennt.

Sigrún Helgadóttir og Hrund Þórarins Ingudóttir
„Núna eru allir einhvern veginn rosa uppteknir og það er enginn sem svona heldur utan um krakkana“: Þörf á foreldrafræðslu: Sýn umsjónarkennara á miðstigi grunnskóla

Breytingar undanfarinna áratuga hafa leitt af sér nýjar áskoranir í uppeldi barna og margir foreldrar upplifa streitu vegna samhæfingar fjölskyldu- og atvinnulífs. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á áskoranir í uppeldi 10-13 ára barna að mati umsjónarkennara – að skoða sýn þeirra á hlutverk og ábyrgð foreldra og umsjónarkennara á uppeldi sem og mat þeirra á þörf á stuðningi og fræðslu fyrir foreldra. Helstu niðurstöður voru þær að foreldrar eru mjög uppteknir og samfélagið gerir miklar kröfur til þeirra. Umsjónarkennarar upplifa kröfu frá foreldrum til að styðja við uppeldi barnanna sem kennurum finnst varla sitt hlutverk. Niðurstöður eru mikilvægt innlegg í umræðuna auk þess að nýtast við stefnumótun foreldrafræðslu og vera stuðningur við þá sem vinna með foreldrum.

Þóra Óskarsdóttir and Elsa Eiríksdóttir
Let them wonder: Incubation and task constraints in creative problem solving

Including incubation periods when solving creative tasks has been shown to benefit creative problem solving. However, practical implications and benefits of incubation are unclear, especially in a school setting. The aim of the current study was to assess whether having a highly constrained task is necessary for incubation periods to benefit creative problem solving. The results demonstrate that clear unchangeable tasks are necessary. Choice must therefore be constrained before the task is temporarily set aside, for incubation to benefit creativity. For practical applications in a school setting, this means that students should be encouraged to select a task early in the process of completing a creative assingment to benefit from incubation periods.