Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2018 – Menntakvika 2018 er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Ritstjóri var Jón Ingvar Kjaran. Katrín Johnson annaðist verkefnisstjórn útgáfunnar fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.
Útgefið 31.12.2018
Í sérritinu eru 5 ritrýndar greinar. Auk almenns prófarkalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Ávallt er reynt að haga hlutum þannig að annar sérfræðingurinn starfi ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Greinarnar nefnast: Hjartað, kjarni mennsku og menntunar?; Kynlífsvirkni unglinga og samskipti þeirra við foreldra; Líðan í lok vinnudags – um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara; Þjónandi forysta og starfsánægja í framhaldsskólum og Stafrænt sambýli íslensku og ensku.
Greinarnar
Inngangur
Jón Ásgeir Kalmansson
Hjartað, kjarni mennsku og menntunar?
Í greininni er sjónum beint að orðræðu um hjartað og grafist fyrir um merkningu og mikilvægi þessa hugtaks í siðfræðilegu samhengi. Grein er gerð fyrir þeirri hugmynd að hjartað, í mynd líkamlegs, félagslegs og andlegs særanleika, sé kjarni mennskunnar og hins mannlega eiginleika að vera opinn fyrir veröldinni. Hjartað er jafnframt skilið sem aðsetur þess hæfileika mannssálarinnar að geta orðið fyrir sterkum áhrifum af því sem hún kemst í snertingu við. Spurt er hvaða þýðingu það hefur fyrir siðferðilegan skilning og siðferðilega menntun ef hjartað er tekið alvarlega.
Kolbrún Þ. Pálsdóttir og Ársæll Arnarsson
Kynlífsvirkni unglinga og samskipti þeirra við foreldrar
Íslensk ungmenni byrja að jafnaði fyrr að stunda kynlíf en flest önnur evrópsk ungmenni. Unglingar sem byrja snemma að hafa samfarir eru í aukinni hættu á að upplifa neikvæðar afleiðingar kynlífs og miklu skiptir að foreldrar leggi sig fram um að skapa traust til að ungmenni geti leitað til þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á tengsl milli kynlífsvirkni íslenskra unglinga og þess hversu auðvelt þeim finnst að tala við foreldrana um áhyggjur sínar. Gögnin sýna að bæði kyn virðast lakari í samskiptum við feður sína en mæður og stúlkur meta þau verri en strákar.
Hjördís Sigursteinsdóttir
Líðan í lok vinnudags – um starfsaðstæður leik- og grunnskólakennara
Markmið rannsóknarinnar var að skoða líðan leik- og grunnskólakennara í lok vinnudags og starfsaðstæður þeirra til að komast að því hvaða þættir í starfsumhverfi þeirra ýmist skapa eða draga úr góðri líðan á vinnustað. Niðurstöður sýna að leik og grunnskólakennarar voru í mun meira mæli en annað starfsfólk sveitarfélaga stressaðir og úrvinda í lok vinnudags. Sterkust voru tengslin milli þess að vera stressaður og úrvinda í lok vinnudags og að upplifa ójafnvægi milli vinnu og einkalífs, óánægju með stjórnun vinnustaðarins og almenna óánægju í starfinu. Niðurstöður sýna mikilvægi þess að huga vel að streituvaldandi þáttum í starfsumhverfi og styrkja heilsuverndandi þætti í starfsumhverfinu.
Sigrún Gunnarsdóttir og Sandra Borg Gunnarsdóttir
Þjónandi forysta og starfsánægja í framhaldsskólum
Það er mikilvægt að stjórnun og forysta innan framhaldsskóla stuðli að árangri og vellíðan starfsfólks og nemenda. Þjónandi forysta er hugmyndafræði um samskipti, stjórnun og forystu með áherslu á sameiginlega ábyrgðarskyldu, sjálfsþekkingu og gagnkvæman stuðning. Niðurstöður spurningakönnunar meðal starfsmanna í sjö framhaldsskólum staðfesta niðurstöður fyrri rannsókna og gefa vísbendingar um að eftir því sem vægi þjónandi forystu sé meira innan framhaldsskóla megi búast við meiri starfsánægju.
Sigríður Sigurjónsdóttir og Eiríkur Rögnvaldsson
Stafrænt sambýli íslensku og ensku
Markmið öndvegisverkefnisins Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis sem lýst er í þessari grein, er að kanna stöðu íslensku á tímum mikilla samfélags- og tæknibreytinga með sérstöku tilliti til hugsanlegra áhrifa ensku, einkum í gegnum stafræna miðla. Hluta verkefnisins er lokið, vefkönnun, og fyrstu niðurstöður benda til þess að verulegur munur sé hvað varðar þætti eins og ílag, viðhorf, orðaforða og mat á setningum, sem eru þeir meginþ