Innsýn inn í leikskólastarf

Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun: Sérrit 2017 – Innsýn í leikskólastarf er gefið út á vegum Netlu – Veftímarits um uppeldi og menntun og Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ritstjórar voru Amalía Björnsdóttir og Kristín Norðahl. Sigríður Kr. Hrafnkelsdóttir annaðist verkefnisstjórn með útgáfunni fyrir hönd Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands.

Útgefið 31.12.2017

Í sérritinu eru fjórar ritrýndar greinar og ein ritstýrð. Auk almenns handritalesturs, eru ritrýndar greinar lesnar af ritstjórn og rýndar af tveimur sérfræðingum á sviði greinar. Að minnsta kosti annar sérfræðingurinn starfar ekki á sama vettvangi og höfundar greina. Fullrar nafnleyndar er gætt við ritrýnina. Ritstýrðar greinar eru rýndar af ritstjórn og einum sérfræðingi. Greinarnar nefnast: Gildi í samskiptum og leik ungra leikskólabarna, Þeir vilja ekki leika, bara tala saman, Áherslur og valdatengsl í samstarfi starfsfólks og foreldra í leikskólum, Lýðræði, umhyggja og hæfni í Aðalnámskrá leikskóla og Samræðulestur.

Greinarnar

Þórdís Þórðardóttir
Samræðulestur: Óformleg leið að læsi í leikskólum 
Þórdís Þórðardóttir fjallar um samræðulestur í grein sinni. Meginmarkmið greinarinnar var að lýsa fyrirmyndardæmi um óformlegar aðferðir leikskólakennara við að efla áhuga leikskólabarna á rituðu máli, bæta orðaforða, skapa skilning á hugtökum og æfa börnin í að tjá hugsanir sínar í mæltu máli. Rannsóknarspurningarnar eru: Hvernig spurningar notuðu sex leikskólakennarar 68 barna á aldrinum fjögurra til fimm ára í samræðum um barnabókmenntir og afþreyingarefni? Hvernig brugðust börnin við spurningum kennaranna? Niðurstöðurnar benda til þess að spurnarleiðir kennaranna hafi veitt börnunum tækifæri til að tjá sig um margvísleg málefni sem tengd voru sögunum sem til umræðu voru hverju sinni. Auk þess virtust spurnarleiðirnar skapa flestum börnunum tækifæri til að bæta orðskilning, auka orðaforða, efla skilning á sínu nánasta umhverfi og að tjá hugsanir sínar í mæltu máli.

Sara M. Ólafsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir
„Þeir vilja ekki leika, bara tala saman“ Sýn barna á hlutverk fullorðinna í leik
Í grein Söru M. Ólafsdóttur og Jóhönnu Einarsdóttur er greint frá niðurstöðum rannsóknar á viðhorfum barna til hlutverks leikskólakennara í leik þeirra. Niðurstöðurnar benda til þess að leikskólakennarar séu oftar áhorfendur að leik barna en beinir þátttakendur. Börnin höfðu mismunandi stöðu í leiknum, sum voru ráðandi en önnur fylgjendur. Staða þeirra í leiknum hafði áhrif á það hvernig þau litu á hlutverk kennaranna.. Rannsóknin gefur innsýn í hlutverk fullorðinna í leik barna. Með því að hlusta á hugmyndir barna um leik og fylgjast með stöðu þeirra í barnahópnum geta leikskólakennarar ígrundað og endurskoðað hlutverk sitt í leik barna.

Hrönn Pálmadóttir
Gildi í samskiptum og leik ungra leikskólabarna 
Hrönn Pálmadóttir fjallar í grein sinni um niðurstöður rannsóknar á því hvernig gildi birtust í samskiptum og leik ungra leikskólabarna og hvernig börnin tókust á við ágreining um gildi. Í greininni eru niðurstöður rannsóknarinnar ræddar í tengslum við gildamenntun í leikskóla. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fjögur samtvinnuð meginþemu og tjáningu barnanna á mikilvægum gildum í leiknum; (a) réttindi (b) umhyggja, (c) að tilheyra, (d) agi. Þemun tengjast aðallega tveimur sviðum gilda; annars vegar gildi sem beinast að einstaklingnum og hins vegar gildi sem snúast um barnahópinn eða starf í leikskólanum. Einnig kom fram ágreiningur og mismunandi valdatengsl meðal barnanna þegar réttindi og viðurkennd gildi innan hópsins voru dregin í efa eða þeim hafnað. Í augum barnanna voru hinir fullorðnu hluti af þeirra daglega lífi og þau leituðu til þeirra eftir stuðningi í leiknum.

Arna H. Jónsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir
Áherslur og valdatengsl í samstarfi starfsfólks og foreldra í leikskólum
Arna H. Jónsdóttir og Jóhanna Einarsdóttir fjalla um niðurstöður rannsóknar á áherslum og valdatengslum í samstarfi foreldra og starfsfólks í leikskólum og bera það saman við hugmyndir um fagmennsku leikskólakennara. Jafnframt var stefnt að því að skoða samstarf við foreldra af erlendum uppruna. Gögnum var safnað með rýnihópaviðtölum við foreldra barna í fimm leikskólum og í kjölfarið ræddu leikskólakennarar og leikskólastjórar álit og upplifun foreldranna í rýnihópi. Niðurstöður benda til þess að samstarf starfsfólks og foreldra fari fram eftir bæði lóðréttum og láréttum brautum. Þegar horft er sérstaklega til samstarfs starfsfólks leikskóla og foreldra af erlendum uppruna, þá virtust þeir oft vera einangraðir og skorta þekkingu á ýmsu því sem íslenskir foreldrar þekktu nokkuð vel. Leikskólakennarar leituðu árangursríkra leiða til að vinna með þeim en sögðu að tungumálakunnátta stæði oft samstarfi fyrir þrifum.

Jóhanna Einarsdóttir
Lýðræði, umhyggja og hæfni í Aðalnámskrá leikskóla
Jóhanna Einarsdóttir beinir sjónum sínum að þeim gildum og því gildismati sem fram kemur í stefnu leikskóla á Íslandi í grein sinni um lýðræði, umhyggju og hæfni í Aðalnámsskrá leikskóla. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á þeim gildum sem sett eru fram í Aðalnámskrá leikskóla (2011) og starfsfólki íslenskra leikskóla er ætlað að miðla til leikskólabarna. Rannsóknin er hluti af norrænu rannsóknarverkefni, Values education in Nordic preschools: Basis of education for tomorrow, sem styrkt var af NordForsk. Verkefnið hafði það að markmiði að rannsaka þau gildi sem norrænir leikskólar byggja starf sitt á og skoða og greina hvernig þeim gildum er miðlað til leikskólabarna. Í þeim hluta rannsóknarinnar sem hér er kynnt var þemagreining notuð til að leita uppi og greina mynstur í námskránni og málfarsleg greining var jafnframt gerð á textanum. Niðurstöðurnar varpa ljósi á það hvernig gildin lýðræði, umhyggja og hæfni birtast í aðalnámskránni.