Höfundar: Anna Kristina Regina Söderström og Karen Rut Gísladóttir.
Heimalestur er útbreidd hefð á Íslandi. Við upphaf skólagöngu birtist lestrarhefti í skólatösku barns og framvegis er það undir foreldrum komið að sjá til þess að barnið lesi heima á hverjum degi og kvitti fyrir að það hafi verið gert. Heimalestur þykir svo
sjálfsagður hluti af skólagöngu barna að fæstir velta því fyrir sér hvort réttlætanlegt sé að setja sömu kröfur á allar fjölskyldur án tillits til ólíkra aðstæðna þeirra. Mikilvægt er að skoða hvort fyrirkomulag heimalesturs samræmist jafnrétti barna til náms, sérstaklega í ljósi þess að niðurstöður PISA sýna skýran mun á frammistöðu nemenda í lesskilningi eftir félagsmenningarlegum bakgrunni.
Tilgangur þessarar rannsóknar er að stuðla að samtali um samstarf milli skóla og fjölskyldna í tengslum við lestrarnám. Markmið rannsóknarinnar er að skoða reynslu foreldra af heimalestri og hvernig ólíkar aðstæður fjölskyldna endurspeglast í framkvæmd
hans. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á 13 hálfstöðluðum djúpviðtölum við 15 foreldra barna í 1.–6. bekk grunnskóla. Foreldrarnir eru með ólíkan bakgrunn og lesa mismikið með börnum sínum. Helstu niðurstöður sýna að mikill munur er á hversu auðvelt foreldrum finnst að sinna heimalestri barna sinna. Flestir viðmælendur fundu fyrir streitu og kvíða í sambandi við heimalesturinn. Einnig kom fram að foreldrum þótti lesefni sem skólinn útvegaði oft vera ábótavant og útveguðu því sjálfir börnum sínum bækur. Þá voru flestir foreldrar þeirrar skoðunar að lestur væri mikilvægur en upplifðu samt neikvæð áhrif fyrirkomulagsins á lestraráhuga barna sinna. Fyrirkomulagið væri of þvingað og formfast. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að staðlað fyrirkomulag heimalesturs geti aukið ójöfnuð milli nemenda frekar en að draga úr honum. Þá benda niðurstöðurnar til þess að endurskoða þurfi með hvaða hætti lestrarþjálfun fari fram innan skólakerfisins og styðjast við fleiri leiðir sem mæti betur ólíkum aðstæðum hvers og eins nemanda.
Útgáfudagur: 31.desember 2024