Að þróa eigin kennslu í ljósi félagsmenningarlegra hugmynda um læsi: Starfstengd sjálfsrýni heyrandi íslenskukennara í kennslu nemenda með táknmál að móðurmáli

17.12.2021

Í greininni er greint frá þriggja ára starfstengdri sjálfsrýni höfundar á eigin starfsháttum sem íslenskukennari nemenda með táknmál að móðurmáli. Tilgangurinn var að skoða eigin kennslu út frá félagsmenningarlegum hugmyndum um læsi og að skoða hvernig eigin viðhorf, aðstæður og kennsluhættir ýmist sköpuðu eða takmörkuðu tækifæri nemenda til að nýta eigin mál- og menningarauðlindir í íslenskunámi. Niðurstöður gefa til kynna að til að byggja kennslu á auðlindum nemenda hafi höfundur þurft að greina mótsagnakenndar hugmyndir um læsi í eigin hugsunum sem og innan skólaumhverfisins. Á þeim grunni gat höfundur endurhugsað eigin starfshætti með það fyrir augum að skapa nemendum rými þar sem þeir gætu nýtt mál- og menningarauðlindir sínar í námi.