Höfundar: Anna Mae Cathcart-Jones, Auður Magndís Auðardóttir og Íris Ellenberger.
Markmið þessarar rannsóknar er að öðlast innsýn í upplifanir kennara sem sinna hinsegin fræðslu gagnvart hinsegin bakslagi og hvort og þá hvernig það birtist þeim innan veggja skólans. Rannsóknin er eigindleg og aflað var gagna í gegnum fimm einstaklingsviðtöl og skrifleg svör 39 þátttakenda í eigindlegri spurningakönnun.
Niðurstöður benda til þess að fræðslan virðist einungis á ábyrgð ákveðinna einstaklinga, sem hamlar faglegu starfi upp að vissu marki. Í viðtölunum kom í ljós að viðmælendur upplifðu það sem svo að starfsfólk fríaði sig almennt ábyrgð og ætlaðist til þess að aðrir sæju til þess að fræðslunni væri sinnt.
Niðurstöður sýna að bakslagið birtist innan veggja skólanna, en samt sem áður er hinsegin fræðsla oftast ómarkviss eða sjaldgæf. Viðmælendur merkja aukna niðrandi orðræðu meðal nemenda sem kallar á meiri hinsegin fræðslu en einnig upplifir starfsfólk meiri viðspyrnu gegn slíkri fræðslu frá foreldrum og aðstandendum nemenda. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa tilefni til frekara inngrips bæði frá stjórnvöldum og skólastjórnendum til að tryggja inngildingu á öllum skólastigum.
Útgáfudagur: