Höfundar: Rósa Aðalsteinsdóttir, Ragný Þóra Guðjohnsen og Lóa Guðrún Gísladóttir.
Í þessari eigindlegu rannsókn voru tekin viðtöl við fjórar mæður og fjóra feður sem hafa reynslu af uppeldi eigin barna og starfi með börnum. Markmiðið var að kanna sýn þeirra á megináskoranir í uppeldi samtímans og leiðir til að efla markvisst seiglu og farsæld barna. Í niðurstöðum kom fram að ein helsta áskorun foreldra samtímans fælist í að halda of mörgum boltum á lofti samtímis, sem drægi úr samveru og dýpri samræðum þar sem hlúð væri að félags- og tilfinningalæsi barna. Þá einkenndist nútímauppeldi af litlum mörkum og að foreldrar forðuðust að leiðbeina um þroskaða hegðun og farsælar lausnir, meðal annars í samskiptum. Mikil samfélagsmiðlanotkun barna og fullorðinna væri jafnframt til þess fallin að draga úr félagslegum samskiptum innan heimilisins og minnka tengsl barna og virkni utan skjásins. Bent var á nokkrar lykilleiðir til að styðja við uppalendur með það markmið að auka seiglu og farsæld barna.
Útgáfudagur: 16.12.2024