Höfundar: Guðný S. Guðbjörnsdóttir og Steinunn Helga Lárusdóttir.
Hér er greint frá niðurstöðum spurningakönnunar á viðhorfum stjórnenda þriggja skólastiga til kynjajafnréttis og fræðslu á því sviði. Spurningakönnun var lögð fyrir alla skólastjóra leikskóla (n=78) og grunnskóla (n=43) í Reykjavík og alla skólameistara (n=14) á höfuðborgarsvæðinu í janúar 2016. Svarhlutfall var 68% og meðal þeirra sem svöruðu kom fram sterkur áhugi á kynjajafnréttisfræðslu jafnt fyrir nemendur, kennara og stjórnendur. Rúmlega helmingur svarenda sagðist hallast að því sjónarmiði að munur sé á kynjunum sem námsmönnum. Flestir telja muninn menningarbundinn en minni hópur (12%) telur að um eðlismun sé að ræða. Niðurstöðurnar gefa til kynna að tekið sé á jafnréttismálum með ýmsum hætti í skólunum, bæði meðal nemenda og kennara. Flestir skólastjóranna nefna að algengast sé að fjalla um jafnréttismál í lífsleiknikennslu og samfélagsgreinum en einnig í samverustundum og daglegu samtali við nemendur. Af svörum skólastjóranna reyndist þó erfitt að ráða um það hvert umfang þessara aðgerða væri eða hversu markvissar þær væru enda töldu þeir sjálfir að margt mætti bæta á þessu sviði. Höfundar telja að þótt þekking skólastjóra á kynjafræðilegum grunnhugtökum sé að sumu leyti góð, þá sé ástæða til að óttast að hún sé ekki nægjanleg til að hreyfa við staðalmyndum kynjanna. Hverjar sem ástæðurnar kunna að vera sé ljóst að skólastjórar á öllum skólastigum reynist áhugasamir um að fá fræðslu um kynjajafnrétti inn í skólana, með áherslu á að breyta hefðbundnum staðalmyndum og vinna gegn kynferðislegri áreitni, m.a. á samfélagsmiðlum.
Útgáfudagur: 31.12.2017