31.12.2014
Gerður Guðmundsdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir
Undirbúningur framhaldsskólanemenda fyrir notkun ensku í háskólanámi: Námskrár og nýtt íslenskt málumhverfi

Í greininni er varpað ljósi á misræmi á milli opinberrar stefnu í kennslu ensku og breyttrar stöðu ensku í íslensku málumhverfi. Rýnt er í nýlegar rannsóknir á stöðu ensku á Íslandi, á viðhorfum íslenskra nemenda til gagnsemi enskunáms í framhaldsskóla og viðhorfum nemenda í Háskóla Íslands til eigin færni til að takast á við námsefni á ensku. Þær rannsóknir gefa vísbendingu um að um þriðjungur nemenda eigi í erfiðleikum með að skilja námsbækur á ensku í háskólanámi en um 90% námsefnis á háskólastigi er á ensku. Í rannsókninni er reynt að varpa frekara ljósi á þann undirbúning sem nemendur fá í framhaldsskólum og skoðaðar áherslur og inntak áfanga í ensku í tveimur aðalnámskrám og fjórum nýlegum skólanámskrám, einkum með tilliti til áherslu á akademíska ensku. Í ljós kemur að hvorki í aðalnámskrá frá 1999 né 2011 er lögð sérstök áhersla á að undirbúa nemendur fyrir lestur námsefnis í háskólanámi. Í nýjum skólanámskrám eru hins vegar áfangar þar sem lögð er áhersla á markvissan undirbúning af þessu tagi.