29.12. 2016
Björk Ólafsdóttir
Tilurð og þróun ytra mats á Íslandi frá 1991 til 2016

Markmiðið með þessari grein er að auka skilning á því hvernig ytra mat á grunnskólastarfi er tilkomið á Íslandi og hver þróun þess hefur verið frá því að það kom inn í opinbera menntastefnu árið 1991. Til að skýra tilurð og þróun matsins var einkum stuðst við dagskrárkenningar, rannsóknir á þróun stýringar innan stjórnsýslunnar og kenningar um innleiðingu og stjórnun breytinga. Við greiningu á tilvikinu var stuðst við fyrirliggjandi gögn og viðtöl sem tekin voru við ellefu viðmælendur sumarið og haustið 2015. Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að upphaf hugmynda og mótun stefnu um ytra mat á skólastarfi megi rekja til umbótaaðgerða í opinberri stjórnsýslu sem áttu sér stað víða um heim frá níunda áratug síðustu aldar undir heitinu New Public Management, sem á íslensku fékk heitið nýskipan í ríkisrekstri. Hluti af nýskipaninni var valddreifing og flutningur á rekstri grunnskóla frá ríki til sveitarfélaga sem leiddi til aukinnar áherslu á mat og eftirlit. Ytra mat, í þeim skilningi sem lagt er upp með í þessari tilviksgreiningu, náði þó ekki fótfestu á Íslandi á þessum tíma þrátt fyrir áform þar um í opinberri menntastefnu. Þess í stað var áhersla lögð á innleiðingu innra mats í grunnskólum og var þróað form ytra eftirlits sem átti að kanna innleiðingu innra matsins. Það var ekki fyrr en í byrjun annars áratugar tuttugustu og fyrstu aldar sem farið var af stað með ytra mat á grunnskólum í þeim tilgangi að stuðla að skólaumbótum. Árið 2008 var í grunnskólalögum lögfest mats- og eftirlitsskylda bæði mennta- og menningarmálaráðuneytis og sveitarfélaga. Opinn lagarammi og óljós verkaskipting ráðuneytis og sveitarfélaga gagnvart ytra mati leiddi til samstarfsverkefnis þessara tveggja stjórnsýslustiga um ytra mat á grunnskólum. Farið var af stað með þróunarverkefni sem lýkur í árslok 2016.