29.12. 2016
Silja Bára Ómarsdóttir
„Þetta gefur okkur vettvang utan skólans“: Facebook sem verkfæri í háskólanámi

Þessi grein lýsir tilraunaverkefni í stjórnmálafræði, þar sem óformlegir hópar voru stofnaðir á Facebook, samhliða námskeiðum. Gengið er út frá hugmyndum um að háskólanemar í dag séu innfæddir netverjar og markmiðið var að efla sjálfsmynd þeirra og starfssamfélag, með hliðsjón af kenningum um aðstæðubundið nám og starfssamfélög. Rannsóknin er byggð á vettvangsglósum höfundar og viðtölum við nemendur sem voru í námskeiðunum sem greind voru með aðferðum orðræðugreiningar. Niðurstöður sýna að starfssamfélag efldist í gegnum hinn rafræna vettvang og jók um leið sjálfstraust nemenda í skólastofunni. Því fylgdu aukin þægindi og minna álag að fylgjast með umræðum á Facebook en á formlegum kennslumiðlum og nemendur töldu sig eiga í betri samskiptum við bæði kennara og samnemendur. Nemendur töldu þó að umræður á Facebook væru lítil viðbót við formlegt nám en þeim mun gagnlegri til að tengja viðfangsefnið við daglegt líf. Vísbendingar eru um að breytinga sé þörf á umræðukerfum formlegri kennsluvefja, eigi þeir að nýtast. Frekari rannsókna er enn fremur þörf til að skoða hvort samfélagsmiðlar bæti nám umfram það að styrkja starfssamfélag nemenda.