9.10. 2017
Magnús Þór Torfason og Margrét Sigrún Sigurðardóttir
Tengslanet nemenda og brottfall úr háskólanámi

Líkur á brottfalli háskólanema virðast minni eftir því sem tengslanet þeirra er stærra. Þetta eru niðurstöður rannsóknar á tengslaneti háskólanema sem sagt er frá í nýrri grein í Netlu. Brottfall nemenda úr háskólanámi hefur verið rakið bæði til akademískra og félagslegra þátta, svo sem þess hversu vel nemendur falla í hópinn. Í greininni eru tengslanet nemenda í háskólanámi til rannsóknar, sér í lagi hvort fjöldi tengsla í tengslaneti nemenda spái fyrir um námsárangur og brottfall. Markmið rannsóknarinnar er að skilja betur möguleg áhrif tengslaneta nemenda á brottfall úr námi. Aðferðafræðilega er rannsóknin byggð á megindlegri greiningu gagna sem aflað var annars vegar með tvíþættri könnun og hins vegar úr nemendaupplýsingakerfi. Gögnum um tengslanet nemenda var safnað með spurningalista sem lagður var fyrir með til þess gerðu vefkerfi. Þátttakendur voru nemendur í skyldunámskeiði á fyrsta ári við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og er það í fyrsta skipti sem gögnum í þessu formi hefur verið safnað um háskólanemendur á Íslandi. Tölfræðileg greining gagnanna leiddi í ljós að fjöldi tengsla sem nemendur hafa við aðra nemendur í námskeiðinu hefur forspárgildi varðandi þá einkunn sem nemendur fá – nemendur fengu að jafnaði hærri einkunn eftir því sem tengslanet þeirra var stærra. Líkur á brottfalli voru einnig minni eftir því sem tengslanet nemenda var stærra. Þó er á því sú undantekning að tengsl við aðra nemendur sem hætta í námi spá fyrir um auknar líkur á brottfalli. Niðurstöðurnar varpa ljósi á mikilvæga félagslega þætti sem tengjast brottfalli úr háskólanámi og kunna að nýtast við að skipuleggja uppbyggingu náms þannig að nemendur séu líklegri til að ljúka því.